Trúir þú á upprisu andans og eilíft líf?

Við heyrum sögu af manni sem hélt fyrirlestra um mannlegan kærleik og fyrirgefningu, og hélt því fram að allar manneskjur væru börn Guðs. Þar sem að hann telur allar manneskjur vera börn Guðs, álykta guðfræðingar þess tíma að maðurinn sé í raun að kalla sjálfan sig son Guðs. 

Það er erfitt að festa hendur á hvað "Guð" þýðir. Ólík trúarbrögð túlka það hugtak á ólíkan hátt, og jafnvel ólíkir angar trúarbragða eiga erfitt með að negla það niður. Einnig reyna trúlausir að negla hugtakið á kross, en tekst misjafnlega vel. Sjálfur tel ég Guð vera hið góða í mannkyninu, öll þau andans verk sem lifa af okkar jarðneska líf.

Þess fyrirlesari er handsamaður eftir að vinur hans uppljóstrar um hvar hann er staddur. Þessi vinur hans sér um fjármál námsmana og fyrirlesararans og tekur virkan þátt í skipulagningu næstu funda. Það má segja að þetta hafi verið farandskóli. Auðvitað er vinurinn, Júdas, sakaður um að hafa svikið fyrirlesarann, þó að honum hafi tekist með upplýsingagjöfinni að auka tekjur hópsins. Ekki fylgir sögunni að auðvitað voru þetta varla leynilegar upplýsingar, því maðurinn hélt opna fyrirlestra daglega, og því auðsótt mál að handsama manninn á einum slíkum.

Hvað um það.

Fyrirlesarinn er ákærður fyrir að villa á sér heimildir, fyrir að þykjast vera sonur Guðs. Rómversk stjórnvöld sjá ekki hvað er svona alvarlegt við þetta og vilja ekki ákæra. Hins vegar heimtar hópur ofsatrúarmanna blóð þessa manns, þar sem að orð hans jafnast á við guðlast. Stjórnvöld ákveða að leyfa almenningi að velja og haldin er svona takmörkuð þjóðaratkvæðagreiðsla, þar sem ákveðið er að krossfesta fyrirlesarann.

Fyrirlesarinn er nú hæddur. Hann er pyntaður. Fólk kastar í hann grjóti þar sem hann staulast eftir götu í fylgd hermanna á meðan hann dregur stóran krossvið á eftir sér. Fyrir hugmyndir sínar hefur maðurinn verið fordæmdur eins og ótýndur glæpamaður, sem á ekkert betra skilið en að deyja kvalarfullum dauðdaga. 

Fyrirlesarinn er negldur fastur á krossinn og deyr hann þar. Nemendur hans, móðir og aðrir vinir fylgjast með. Þau vita að hann er drengur góður sem engum hefur gert neitt mein. Þeim finnst þetta óréttlátt og vilja bjarga manninum, en geta það ekki þar sem hans er gætt af rómverskum vörðum. 

Fyrirlesarinn deyr. Hann er jarðaður. Sorgin er gríðarleg meðal vina hans, sem ákveða að minnast hans með því að setja líf hans og boðskap í ramma frásagnar. Þeim tekst þetta með því að krydda söguna hressilega svo að eftir verður tekið. Sumir hneykslast á sögunum því þær eru svo ótrúlegar. Þeir fatta ekki að sagan er rammi utan um boðskapinn, og ramminn er til þess eins að festa boðskapinn upp á vegg og hafa til sýnis. Þegar þú gagnrýnir listaverk, missirðu algjörlega marks þegar þú gagnrýnir rammann frekar en verkið sjált. Og verkið í þessu tilfelli er boðskapurinn sem felst í fyrirlestrunum.

Upp úr stendur að fyrirlestrarnir gleymast ekki.

Það er hin raunverulega upprisa. Ekki það að fyrirlesarinn vaknaði frá dauðum og fór að ganga meðal fólks og flaug síðan til himna. Það er bara sagan um söguna. Heldur er það andi fyrirlestrana sem lifir áfram, fyrirlestra sem fjölluðu um hvernig betra sé að lifa lífinu með fyrirgefningu sem grundvallarhugtak, frekar en reiði, hefnd eða blóðþorsta. Því með fyrirgefningu, sama hversu hörmulegt lífið getur verið, þá er alltaf von að hægt verði að hreinsa til og byrja upp á nýtt. Með fyrirgefningu eru skuldir murkaðar út, í stað þess að láta þær magnist upp og endi í blóðugum átökum. Með fyrirgefningu þarf ekki að hefna, og jafnvel ekki alltaf að borga allt til baka, né þarf að elta fólk í gröfina með ófullkomnum gjaldþrotalögum.

Fyrirlesarinn talaði um nýja leið til að takast á við lífið og tilveruna. Fyrir það var hann fordæmdur af samtíðarmönnum sínum. Hann er einnig fordæmdur af ýmsum nútímamönnum. Málið er að upp úr boðskapnum urðu til öll þessi trúarbrögð og allar þessar kenningar um hvernig best sé að túlka boðskapinn, og smám saman verða þessi trúfélög að samfélagsafli sem vill þvinga boðskapinn yfir á alla meðlimi samfélagsins. Svoleiðis hegðun er bara pirrandi og er í sjálfu sér í mótsögn við boðskapinn sjálfan. En hvað er hægt að gera? Það er erfitt að bæði halda og sleppa.

En ég spyr: hvaða leið er betri til að lifa lífinu heldur en með fyrirgefningu sem grundvallarhugtak? Viljum við endalaust erfa það ef einhver hefur sært okkur, viljum við endalaust vera ósátt við það sem er ósanngjarnt og ranglátt? Er eina leiðin til að jafna ranglæti að framkvæma ranglæti á öðrum?

Ég þykist ekki vera kristinn og þykist ekki heldur ekki vera kristinn. Hins vegar hef ég þessa lífsskoðun og er tilbúinn að endurskoða hana þegar betri rök bjóðast um hvernig hægt er að lifa lífinu vel. Rökin þurfa að vera djúp og benda á betri leiðir. Þá finnst mér ekki nóg ef rökin snúist aðeins um hvernig lifa skuli eigin lífi til að vera sáttur við tilveruna, heldur þurfa þau einnig að hafa raunveruleg samfélagsleg gildi. Slík kenning þyrfti að ná yfir meira svið en einstaklinginn og innsta fjölskyldukjarna, hún þyrfti að ná yfir mannlegt samfélag um víða veröld.

Þér er velkomið að skrifa athugasemdir og gagnrýna þennan hluta af minni lífsskoðun. Ég mun hlusta á þig, þó að mögulegt sé að ég svari ekki öllum athugasemdum, enda hef ég minn eigin píslarakstur í dag á Nissan Micra frá 1999 og verð ekki með netsamband aftur fyrr en á þriðjudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Frábær pistill. Mig langar bara til að nefna eitt.

"En ég spyr: hvaða leið er betri til að lifa lífinu heldur en með fyrirgefningu sem grundvallarhugtak? Viljum við endalaust erfa það ef einhver hefur sært okkur, viljum við endalaust vera ósátt við það sem er ósanngjarnt og ranglátt? Er eina leiðin til að jafna ranglæti að framkvæma ranglæti á öðrum"

Eigum við ekki erfiðast með að fyrirgefa okkur sjálfum? Við verðum að byrja á því. Ef við gerum það ekki er það þrautin þyngri að fyrirgefa öðru fólki. Framkvæmum réttlæti á öllum, líka okkur sjálfum.

Gleðilega Páska.

##############################################

Mig langar til að bæta við svolitlu sem ég skrifaði á minn eigin blogg:

"Vaknaðu upp frá þessum vonda draumi og vertu velkominn í paradís. Eini sannleikurinn sem þú þarft að vita er að sjónarspil lífsins er í eðli sínu fullkomið. Við erum hins vegar meistarar í þeirri list að gera lífið að helvíti með þeim lygum sem við segjum okkur sjálfum. Ef þú gerðir eitthvað slæmt á lífsleiðinni eða einhver gerði þér eitthvað, þá gerðist það þá. Það gerðist og það var sárt. Núna er það hins vegar ekkert annað en vondur draumur. Réttlæti felur það í sér að þú borgir fyrir þau mistök sem þú hefur gert, einu sinni. Þér er misboðið og þú þjáist, einu sinni. Þú ert búinn að borga, svo hættu því núna. Réttlætinu hefur verið fullnægt. Fortíðin er í rauninni lýgi.

Vaknaðu, og hættu að ljúga."

http://hordurt.blog.is/blog/hordurt/

Hörður Þórðarson, 23.4.2011 kl. 07:58

2 Smámynd: Skúli Pálsson

Mér finnst augljóst að þú ert ekki kristinn. En mér þætti fróðlegt að vita hvað prestarnir segja um það.

Skúli Pálsson, 23.4.2011 kl. 10:45

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Frábær pistill Hrannar og það er augljóst að þú ert meira kristin út frá þeirri merkingu sem ég legg í það orð, enn flestir prestar sem ég þekki. Góður vinur vinn er prestur og vinnur í kirkju.

Ég trúi á Guð enn ekki á trúarbrögð. Og hann hefur gaman að tala við mig um þetta. Hann trúir nefnilega ekki á Guð sjálfur, enn langar til þess. Hann skilur bara ekki hvernig á að fara að því.

Alla vega veit ég persónulega að engin dauði er til, nema líkamlegur sem er mjög gott, og sjálfur dauðin veldur öllum misskilningi í þessum sk. "eilífðarmálum".

Sjálfur dauðun og hugmyndinn um hann eru verstu miskilningartrúarbrögð sem til eru og er stór hluti mannkyns meðlimir í þeim neikvæðu trúarbrögum.

Ég er á móti öllum trúarbrögðum og öðrum neikvæðum "sýstemum" sem hafa ekkert að markmiði annað enn að gera fólk af föngum og leggja frelsi sitt í hendur annara enn síns sjálfs...

Óskar Arnórsson, 23.4.2011 kl. 11:37

4 Smámynd: Ómar Ingi

http://ommi.blog.is/blog/ommi/entry/1161696/?fb=1

Trú á okkur sjálf ef það er til GUÐ þá er hann í okkur öllum , svo er líka bara gott að hlæja og lifa lífinu eins og það sé þinn síðasti dagur , innan skynsamlegra marka auðvitað

Flottur pistill hjá þér DON

Ómar Ingi, 23.4.2011 kl. 11:54

5 identicon

Veistu það Hrannar... ég get ekki sagt annað en það að það sé merki um heilaskemmdir og/eða ofursjálfselsku með heilaþvottsívafi að trúa svona rugli.. eins og líf eftir dauðan er.

In fact; þá má segja að þetta sé einnig mestu gunguháttur sem mannkynið hefur tekið sér fyrir hendur frá upphafi.

Ég vildi geta horfst í augu við ykkur þegar þið eruð dauð.. og segja: HAHA

Trú á líf eftir dauða/guði.. er klárlega ekkert nema fáfræði og græðgi.. falskur miði frá hinu óumflýjanlega

Face the muzak or look silly.. then die

doctore (IP-tala skráð) 23.4.2011 kl. 11:58

6 Smámynd: Óskar Arnórsson

Sæll doctore! Sumt fólk trúir ekki einu sinni á líf fyrir dauðan og meira að segja það er líka ok. Lífið nefnilega sér algjörlega um sig sjálft.

Að brenna fyrir því að sannafæra fólk um einhverja sérstaka skoðun á lífinu, þá eru trúarbrjálæðingar og extrema antitrúarmanneskjur á sama plani.

Ég mæli með "Mental Detox" fyrir alla sem eru fastir í þessum tveimur sýstemum.. ;)

Óskar Arnórsson, 23.4.2011 kl. 13:10

7 identicon

Mesta vanvirðing við lífið sem til er... það eru trúarbrögð sem segja að annað og betra líf taki við þegar þessu lýkur.
Að segja þetta er alger skömm... vanvirðing og viðbjóður... enda eru þessi extra líf í lúxus eingöngu til þess að smælingjar vilji deyja fyrir elítu, að smælingar sætti sig við eymd og vosbúð... því það er jú léttara fyrir úlfalda að komast til himna en ríka...

Hver sá sem trúir þessum ruglukolla sögum, sá hinn sami er að nauðga sjálfum sér.

doctore (IP-tala skráð) 23.4.2011 kl. 14:17

8 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Hrannar,

Góður pistill og ég get verið sammála flestu.  Ég hef ákveðna guðstrú, en er líka pragmatískur því ég hef verið áhugamaður um stjörnufræði og stjarneðlisfræði frá því ég var krakki;)  Kannski þurfti guð að sparka í alheiminn til að sprengja hann út, en hvað nú ef það eru óendanlega margir samhliða alheimar?  Hver veit?!  Ég hef ekki mikla trú á lífi eftir dauðann, en hver veit?  Kannski er lífið eitthvað sérstakt afl sem lifir áfram.  Þar sem við þekkjum ekki nema brot af þeirri orku og efni sem er í kringum okkur þá held ég að við séum ekki í sterkri stöðu til að segja af eða á;)  En trú, hver sem hún er, er mikilvæg fyrir okkur.  Ef við höfum hana ekki þá velkjumst við í vafa og rugli án stefnu og markmiðs.  Trúin á okkur sjálf er það sem gefur okkur afl til þess að bæta okkur og gera ótrúlega hluti. 

Gleðilega páska:)

Arnór Baldvinsson, 23.4.2011 kl. 16:08

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

doctore. Málið er að hver og einn verður að finna út úr hlutunum sjálf. Það er það sem er svo skemmtilegt við þetta líf. Og öll þín líf fyrir þetta og þessi sem þú veist að koma á eftir.... ;)

T.d. lítil börn, svona tveggja ára trúa varla að það komi dagur eftir þennan dag. Þess vegna eru þau svo ómöguleg að koma sér í háttin stundum. Það þýðir ekkert að tala um fyrir þeim að það sér nógur tími til að leika sér á morgun...

Óskar Arnórsson, 23.4.2011 kl. 18:00

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

1. Þú virðist hafa einhvers konar glansmynd af fyrirlestrunum sem endurspegla ekki raunverulegt innihald þeirra, t.d. er þetta tal þitt um að fyrirlesarinn hafi sagt að allir væru guðs börn ekki einungis ekki að finna í þeim, heldur er það í mótsögn við innihald þeirra. Stór hluti fyrirlestranna fjallaði líka um að heimsendir væri í nánd og þá myndi guð sko hefna sín á fólki, og ég efast um að þér finnist það gott efni.

2. Ég sé engin rök hjá þér (nema kannski óskir um að telja sér trú um að þessir fornaldarmenn hafi ekki trúað ruglingslegum hlutum) fyrir því að hugmyndin um að vinir fyrirlesarans hafi bara ákveðið saman að "krydda" sögu hans til að fólk taki eftir boðskapnum. Kannski bara trúðu þeir að hann væri lifandi hjá guði fyrir ofan skýin?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 23.4.2011 kl. 22:57

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir góðar kveðjur.

Skúli: það væri gaman að heyra hvað prestar hefðu að segja um það. Við vitum nú þegar hvað yfirlýstir trúleysingjar hafa að segja. 

Ómar Ingi: Hefurðu lesið um epíkúrisma?

Hörður: Erfitt að fyrirgefa okkur sjálfum? Hugsanlega. Það að viðurkenna eigin mistök eða að maður hefur haft rangt fyrir sér getur verið afar erfitt,  því hef ég fengið að kynnast, og þá er ekkert mikilvægara en að viðurkenna það og bæta fyrir.

Óskar: Við vitum nákvæmlega ekkert um dauðann. Það er rétt hjá þér, sama hvort við trúum að í dauðanum verðum  við eitthvað, ekkert, allt eða ekki eitthvað.

DoctorE: Ég ráðlegg þér að lesa fyrst, svara svo.

Arnór: Það er rétt að trúin gefur ákveðið afl, einhvers konar staðfestu til að koma verkum í framkvæmd.

Hjalti: Hvað kom eiginlega fyrir þig? Þú ert fastari í kreddunum en sumir prestar sem ég þekki. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að fyrirlesarinn hafi haft rétt fyrir sér í einu og öllu, þó að ég telji kjarnahugmyndina verðmæta. Ég tek ekki einu sinni sem heilagan sannleik neitt af því sem allra bestu kennararnir mínir kenndu mér, enda kenndu þeir mér að taka engu sem heilögum sannleik. Þýðir þetta að ég sé kominn í mótsögn við sjálfan mig?

Gðar páskakveðjur frá Brno í Tékklandi. Og ég undirstrika sérstaklega "Gðar".

Hrannar Baldursson, 23.4.2011 kl. 23:48

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hrannar, sjáðu nú til, ef þú segir: "Persóna X heldur Y fram.", þá er það ekki "að vera fastur í kreddum" að benda á að peróna X haldi Y alls ekki fram, eða þá jafnvel að hún haldi fram ~Y.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 24.4.2011 kl. 00:30

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Lúkas 14:26....

Mattheus 10:36-38 ca.

Hvaða ritningarstaði hefurðu annars í huga, þegar þú talar um fyrirlestur um fyrirgefningu?

Fyrirgefningin er skilyrt í bak og fyrir og í guðspjöllunum er átt við að það verði eftir dauðann.  Eilífa lífið og uppgjörið sjálft með helvítinseldum og öllu á svo ekki að verða fyrr en "Hann" kemur aftur.  "Hann" er búinn að vera á leiðinni í tæp 2000 ár. Lofaði því raunar að koma aftur áður en áheyrendur hans væru dauðir.

Nú verður þú að fara að lesa í stað þess að endursemja söguna eftir eigin höfði.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.4.2011 kl. 06:05

14 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

 Hrannar. Margt gott og skiljanlegt sem þú segir.

 Það er í mínum huga aðeins einn guð til hjá hverjum og einum og hann er innra með hverjum og einum í þessari jarðvist og líkams-boddýi/hulstri og hjarta.

 Þess vegna hjálpar guð einungis þeim sem hjálpa sér sjálfir, með aðstoð góðu alheimsorkunnar (t.d.sólarinnar sem við getum ekki lifað án) hlutlausu allra manna og dýra!

 Það sem gerir öllum gott er að hugsa jákvætt og með kærleika til okkar sjálfra og annarra.

 Svo er hægt að styrkja þennan innri guð okkar með góðu jarðar-orkunni sem kemur frá góðu jörðinni okkar. Þar er mikil og góð orka sem við höfum öll gott af að tengjast í huganum. En það er sem betur fer frjálst val hvers og eins að finna þann kraft og góðu orku.

 Hverjum og einum er svo sannarlega frjálst að hafa sína trú, sérvisku og vantrú eftir eigin vild og það á hver og einn að notfæra sér þann rétt, og láta ekki einhver öfga-mistrúar-öfl hafa áhrif á sig og sínar tilfinningar í þeim málum!

 Engir tveir upplifa lífið á sama hátt, og það er hið besta mál, því hver og einn á sig sjálfur og sína lífs-sýn og sjálfstyrk og trú. Allir eru sinn eiginn guð í hjarta sínu, sama hvað öfga-trúarbrögð segja. Sumir viðurkenna það ekki vegna ljótra öfga sem hefur verið reynt að þröngvað uppá fólk af samtökum víða í heiminum af ýmsum ásæðum.

 M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.4.2011 kl. 06:08

15 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fyrirgefningin er göfug í sjálfri sér, en er ekki skilyrðislaus og tvíeggjað sverð er hún í raun.

Við þyrftum tæpast dómskerfi ef fyrirgefningin væri algild.

Annars er hugtakið ævafornt og milku eldra en Jesú þessi. Allt sem honum er eignað og um hann sagt er fengið að láni annarstaðar. Megnið úr GT en einnig víðar að. Berðu hann saman við Elía, Elisa og Jósúa konung t.d. (Jósúa er raunar sama nafn og Jesú (Yeshua))

Jón Steinar Ragnarsson, 24.4.2011 kl. 06:11

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég fyrirgef þér þó hringlandann, enda geta trúlausir fyrirgefið líka.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.4.2011 kl. 06:13

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Steinar,

Mér dettur ekki í hug að rífast um einhverja ritningarstaði í Biblíunni, enda enginn sérfræðingur um það rit frekar en önnur, og tel fráleitt að ætlast til að fólk sem hefur skoðanir á trúmálum þurfi að vera sérfræðingar í ritningunni til að taka þátt í samræðum. 

Þetta er samt afar áhugaverð tilvitnun. Ég skil þetta ekki þannig að fólk eigi að hata allt sem það tengist, heldur átta sig á hversu mikill kostnaðurinn er við að blanda sér í félagsskap sem flakkar um allar tryssur. Ég sé samhljóm í þessu með stóuspeki Epítektar.

25Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá: 26"Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn. 27Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn. 

Hvaða merkingu hefur hugtakið "hatur"?

Ég hef aldrei kannað hugtakið sérstaklega og hvort það hafi sömu merkingu í dag og fyrr á öldum og í öllum samfélögum. Þannig að ég fletti upp á Wikipedia til að byrja rannsóknina (einhvers staðar verður maður að byrja), og þá fann ég þetta:

René Descartes viewed hate as an awareness that something is bad combined with an urge to withdraw from it. Baruch Spinoza defined hate as a type of pain that is due to an external cause. Aristotle viewed hate as a desire for the annihilation of an object that is incurable by time. David Hume believed that hate is an irreducible feeling that is not definable at all.[1]

Eða með öðrum orðum. Ekki eru allir á sama máli um hvað "hatur" sé. Til að íslenska þetta lauslega. Þetta er ekki nákvæm þýðing, enda hef ég aldrei skoðað hatur gaumgæfilega, en augljóst er að ólíkar hugmyndir eru á kreiki um hvað hatur sé. Ég velt fyrir mér hvaða merking þetta hugtak hefur í Lúkasarguðspjalli.

Descartes: Meðvitund um að eitthvað sé slæmt með þörf til að hverfa frá því

Spinoza: Einhvers konar sársauki sem kemur utan frá

Aristóteles: Löngun til að eyðileggja hlut sem tíminn getur ekki læknað

Hume: Ósmækkanleg og óskilgreinanleg tilfinning 

“Fear is the path to the dark side. Fear leads to anger. Anger leads to hate. Hate leads to suffering.” (Yoda)

Hrannar Baldursson, 24.4.2011 kl. 06:37

18 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þessi tilvísun úr Lúkasarguðspjalli svarar sjálfsagt að einhverju marki vangaveltum mínum um merkingu haturs:

Týndur sauður

15
1Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann, 2en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."

3En hann sagði þeim þessa dæmisögu: 4"Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? 5Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. 6Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.' 7Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.

Hrannar Baldursson, 24.4.2011 kl. 06:53

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm...gott að þú ert að stúdera Hrannar.  Orðsyfjarnar bjarga þér þó ekki frá þessu. Samhengið er augljóst. Quote mining til að drepa á dreif merkingu orðsins hatur breyta engu. Svoleiðis Póstmódernismi er svolítið grínaktugur í dag. Við gætum jú hætt að diskútera nokkurn hlut ef allt væri svo afstætt að það þýddi allt og ekkert.

Í síðasta dæminu er einmitt komið inn á skilyrðingu fyrirgefningar. Iðrun. Það að skoða og sjá það rnga í eigin gjörðum.  Lesi maður bókina, þá sér maður að ýmislegt, sem þætti iðrunarvert í dag, var það sko alls ekki í den allavega.  Fordæming ýmiskonar í Kristnu samhengi þykir frekar dyggð en iðrunarefni enn þann dag í dag. 

Í framhaldi af þessum tilvitnunum mínum í upphafi, þá er vert að leggja út af orðunum: Elska skaltu náungan eins og sjálfan þig. (sem er raunar fengið að láni úr 3.Mósebók)

Í Lúkasi er þér sagt hvernig þér ber að "elska" sjálfan þig. Þ.e. alger sjálfsafneitun og hatur.

Ég segi því pass við elsku kristinna.  Við skulum samt elska friðinn. Ég er allavega ánægður með að þú ert farinn að lesa það sem þú leggur útaf í skrifum þínum. Það er framför og raunar frumskilyrði.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.4.2011 kl. 15:26

20 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Steinar: Þetta er enginn póstmódernismi. Ólík orð hafa ólíka merkingu á ólíkum tímum og menningarsvæðum.

Í þessu samhengi reikna ég með að "hatur" merki að vera tilbúinn í algjöran aðskilnað frá fólki sem maður elskar. 

Að halda dauðahaldi í nútímamerkingu orða hjálpar ekki við að öðlast skilning á raunverulegri merkingu hugsunarinnar.

Mundu einnig að ég tek fram í færslunni að ég álít ritninguna vera að mestu leyti ramma fyrir fyrirlestrana, og því líkar mér frekar illa að festa mig of við rammann. :)

Hrannar Baldursson, 25.4.2011 kl. 23:27

21 Smámynd: Óskar Arnórsson

Hatur er ekkert annað enn frosin sorg. Þörfin að elska er sterkarai en hatur og bræðir það. Öll trúkerfi er eins og öflugur skóli. Margir skólar mana nemendur sýna í að dýrka skólanna sem þeir vöru í og gera þar af leiðandi sama og fólk í öðrum trúsýstemum.

Mér varð hugsað til hversu fáfeng trúsýstem eru þegar ég las að Páfi hafi látið blóð í glös og svá er búið að ákveða að gera blóðið heilagt...ég persónulega nenni ekki að lesa rökin um hvað gerir blóð Páfa heilagra enn annara blóð...

Biblían er skáldsaga byggð á sannsögulegum heimildum...

Óskar Arnórsson, 26.4.2011 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband