Er ekkert pláss fyrir heiðarlegt fólk á Íslandi?
20.2.2011 | 09:26
Hvort er betra fyrir kærðan en saklausan mann að gera samning til að losna við kostnað hugsanlegra réttarhalda og taka þannig á sig skuldbindingar einhvers annars, eða berjast fyrir sakleysi sínu og sjálfsvirðingu þar til hlutlaus dómari getur tekið skynsamlega ákvörðun?
Þeir sem vilja borga reikninga svikahrappa og bankaræningja vegna Icesave endurtaka stöðugt að "Íslendingar eigi að standa við skuldbindingar sínar".
Að sjálfsögðu eiga Íslendingar og annað fólk að standa við skuldbindingar sínar. Að Íslendingar borgi reikning þjófanna þýðir ekki að Íslendingar séu að standa við skuldbindingar sínar, heldur þýðir það að öllum Íslendingum verði refsað í stað þess að finna þá sem sviku og prettuðu til að öðlast völd og peninga, og refsa þeim, og aðeins þeim. Þó að svikahrapparnir séu Íslendingar, þýðir það ekki að allir Íslendingar eigi að borga fyrir þá. Við erum ekki öll samsek.
Gefum okkur að færeyskir svikahrappar stofni banka og svíki gífurlega fjármuni út úr íslenskum borgurum. Þýðir það að íslenskur almenningur krefjist þess að færeyskur almenningur eigi að borga skuldbindingar svikahrappana?
Þú hlýtur að sjá hversu farsakennt þetta mál er orðið. Bara það að íhuga þurfi að borga þessar skuldir bankaræningja er í sjálfu sér sviksamlegt gagnvart náttúrulegum rétti heiðarlegrar manneskju. Því ef íslenska þjóðin er látin borga, þá verður komið fordæmi fyrir því að íslenska þjóðin taki á sig afleiðingar gjörða þessara manna sem enn hafa ekki verið klófestir af réttvísinni. Við vitum að bankarán hefur átt sér stað og vitum að ekki hefur tekist að klófesta einn einasta ræningja. Þýðir það að þjóðin öll sé bankaræningi?
Ef þjóðin tekur á sig skuldbindingar þjófanna um að borga ránsfenginn til baka, er verið að sleppa þjófunum aðeins vegna þess að það er þægilegra en að leita réttlætis. Nóg hefur þjóðin þegar þurft að taka á sig vegna þessara svika, eiga þessir glæpamenn virkilega að sleppa svona auðveldlega? Ef þjóðin borgar er hún að leysa fjárglæframenn úr snörunni vefja sömu snöru um háls saklausra barna.
Þegar þjófur rænir veski er þjóðinni ekki skylt að skila ránsfengnum, heldur skal þjófurinn gera það. Vilji hann það ekki verður að þvinga hann til þess. Þjóðfélagið er skuldbundið til að ná þjófnum, finna tilhneigingum hans betri farveg og koma veskinu í réttar hendur. Vissulega viljum við hjálpa fórnarlambinu og finnst þjófnaðurinn ranglátur í eðli sínu - en þessa áköllun á réttlæti skal aldrei taka út á röngum aðila.
Verði lausnin á Icesave sú að íslenskur almenningur borgi skuldina, verður sama lausn yfirfærð á öll önnur stórsvikamál, bæði íslensk og erlend sem enn eru óleyst, og er sú leið svo röng að átakanlegt er að horfa upp á það, og átakanlegt að sjá gott fólk ringlað í rýminu vegna stöðugra áróðursbragða að það hefur glatað sýn á hvað er rétt og hvað rangt í þessu máli, og hræðist því að taka afstöðu.
Áróðursmaskínunni hefur tekist að útmála marga þá sem eru á minni skoðun sem öfgafólk, en tekist að sýna þá sem borga vilja sem ábyrgðarfulla einstaklinga. Slíkur áróður hjálpar ekki við að taka skynsamlegar ákvarðanir. Ég get séð að frá sjónarhóli hinna samseku er skynsamlegt að semja um Icesave. Frá sjónarhóli saklausrar manneskju er það hins vegar ekki skynsamlegt, heldur beinlínis ranglátt.
Skuldbinding sérhverrar manneskju gagnvart þjóð sinni og umheiminum er að breyta rétt, og þegar óljóst er hvað hið rétta er, rannsaka málið, reyna að átta sig á samhenginu, og mynda sér skynsamlegar skoðanir um málið. Það er erfitt þegar hinir samseku hafa virk áhrif á alla fjölmiðla landsins. Það er erfitt að efast um það sem birtist í viðurkenndum fjölmiðlum. Þannig er það bara.
Næst þegar þú heyrir einhvern segja "Íslendingar eiga að standa við skuldbindingar sínar", skaltu spyrja: "Þegar þú segir Íslendingar, áttu við allir Íslendingar eða bara þá Íslendinga sem skulda?"
Með Icesave samningnum er verið að taka út þessa knýjandi réttlætiskröfu á röngum aðila, ekki bara íslenskum almenningi sem kom ekkert nálægt glæpnum, heldur einnig ófæddum Íslendingum um komandi framtíð. Vegna þessarar sviksamlegu afstöðu þings gagnvart þjóð, og því miskunnarlausa ranglæti sem þing vill að lendi á almenningi, án nokkurs skynbragðs á almennu siðferði, hef ég komið mínum eigin börnum úr landi og mun ekki mæla með að þau flytji til baka, nema eitthvað mikið breytist.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.12.2014 kl. 16:36 | Facebook
Athugasemdir
Það er markmiðið hjá spunatrúðum stjórnvalda að vera alltaf skrefinu á eftir. Alltaf of sein. Ekki hefur heyrst múkk í Jóni Þórissyni og leikflokki hans. Vinstri grænu mýsnar þegja og maula sitt.
http://www.dv.is/blogg/hloduveggur/2011/2/20/undirskriftasofnun-eftir-ad-forseti-stadfestir-icesave/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 09:33
Við erum ekki að borga skuldir þjófanna. Það sem er deilt um er hvort við eigum að borga skuldir Tryggingasjóðs Innistæðueigenda.
Kalli (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 10:59
Jú, Kalli.
8. grein Icesave 3 frumvarpsins var felld út og margir benda á að þar með samþykktu margir Sjálfstæðisflokksmenn á þingi samninginn. Með því að fella út þessa grein dregur verulega úr því að hinir seku verði dregnir til ábyrgðar.
8. gr. Endurheimtur á innstæðum.
Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.
Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 11:19
Elín þú ert að tala um skaðabótaskyldur eiganda Landsbankans og stærstu viðskiptavina. Það er annað mál.
Ég var alfarið á móti fyrri Icesave samningum en þessi er mun, mun sanngjarnari.
Kalli (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 11:45
Er mikið um heiðarlegt fólk á íslandi?
Njáll Harðarson, 20.2.2011 kl. 17:38
Forsetinn gefur Íslendingum enn og aftur vonarneista.
Hrannar Baldursson, 20.2.2011 kl. 17:58
Það er hellingur af heiðarlegu fólki á Íslandi Njáll það hefur bara staðið til hlés. Það má líka benda á að söfn nylenduveldanna eru full af góssi sem að þau stálu frá öðrum þjóðum og dettur ekki í hug að skila jafnvel neita því. Svo er það líka en spurning hvort að þjóðin segir ekki bara já en það er lágmarkskrafa að allt sé upp á borðinu því engin treystir orðið þeim sem við Austurvöll vinna. VIð viljum meta þetta sjálf
Jón Aðalsteinn Jónsson, 20.2.2011 kl. 20:49
Kjarni málsins Hrannar.
Takk fyrir góðan pistil.
Kveðja að austan,.
Ómar Geirsson, 21.2.2011 kl. 00:46
Ég býsst við að ég sé einn af þessum óheiðarlegu sem vilja taka einhvern þátt í því að borga fyrir Icesave. Er það réttlátt að allt lendi á Bretum og Hollendingum og þeirra ófæddu íbúum um komandi framtíð?
Ef þjófur rænir veski og ekki tekst að fá hann til að skila veskinu vegna þess að hann er búinn að selja það og eyða öllum peningunum, þá væri heiðarlegt að hans nánasta fjölskylda mundi reyna að bæta tjónið að einhverju leyti, sérstaklega ef hann hefur notað peningana til að halda þeim veislu.
Bjarni Sæmundsson (IP-tala skráð) 21.2.2011 kl. 08:08
Við erum alltaf Íslendingar á erlendri grund og endurspeglum okkar þjóð sem fulltrúar hennar, svipað og Sicileyingar, eru þeir allir mafiosar, eru íslendingar allir fjárglæframenn, þar liggur í raun vandamálið. Við getum bara reynt að laga það sem miður fer og sjá til þess að það komi ekki fyrir aftur. Ég legg til að við samþykkjum þennan samning og göngum svo á vit betri tíma með þessa reynslu að leiðarljósi.
Njáll Harðarson, 21.2.2011 kl. 08:42
Hvað ert þú að segja Bjarni??
Fékkst þú kúlulán sem þú ætlar ekki að borga??? Ert þú með samviskubit yfir því??? Ef svo er, þá skaltu borga lán þitt, ekki vera svo ómerkilegur að koma því yfir á aðra.
Ég endurfjármagnaði húsnæði mitt hjá Landsbankanum, ég er í skilum með það lán. Og nýi bankinn mun standa skil á þeim peningum í þrotabú bankans. Og þannig er það, þeir sem fengu lánað hjá Landsbankanum, borga af sínum lánum eða fara á hausinn ella. Þannig eru leikreglurnar.
Leikreglur sem voru þekktar í Bretlandi og Hollandi, fólk sem tók þá áhættu að skipta við netbanka, það vissi hvað það var að gera. Og það fékk sínar innstæðutryggingar greiddar, af breskum og hollenskum tryggingasjóðum, sjóðum sem útibú Landsbankans greiddu í.
Það kom ekki króna frá skattgreiðendum viðkomandi landa, sjóðirnir þar eru fjármagnaðir af fjármálafyrirtækjum samkvæmt regluverki ESB. Siðleysið í þessu sem Hrannar fjallar um er þegar einhver fékk þá flugu í höfuð að senda íslenskum skattgreiðendum reikninginn. Þriðja aðila sem hafði ekkert með þessi viðskipti að gera og bar enga ábyrgð á þeim.
Og það er svo merkilegt að það finnst fólk sem styður siðleysið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.2.2011 kl. 08:49
Og því má bæta við að það er eitt sem sker í mjög í málflutningi stuðningsmanna hinna bresku fjárkúgunar, enginn af þeim hefur stofnað til söfnunar til að bæta saklausu fólki í Bretlandi og Hollandi hið meinta tjón sem þeir upplifa að þjóð þeirra hafi valdið.
Samviskan nær aðeins til að láta náungann borga. Helst sjúklinga eða skólakrakka.
Einnig er merkileg bábiljan um að íslenska þjóðin sé stimpluð sem fjárglæfrafólk. Eins og þjóðir Vesturlanda séu þjáðar af fjárglæfrum íslenkra viðskiptamanna, eins og þeir hafi komi City á hausinn, eða Wall Steet. Eða það sé verið að skera niður á Írlandi, Grikklandi, Spáni vegna gjörða íslenskra fjárglæframanna.
Eins og aðrar þjóðir eigi ekki sína fjárglæframenn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.2.2011 kl. 09:04
Týpískt bloggsvar frá Ómari Geirssyni. Af því að hann er ekki sammála mér er hann búinn að gera mig að útrásarvíkingi og glæpamanni sem ber að hluta til ábyrgð á hruninu. Án þess að það komi nokkrum við þá stend ég í skilum með mitt eina lán, sem er reyndar ekki kúlulán.
Kannski voru leikreglurnar þekktar í Bretlandi og Hollandi en ég efast um að hluti af þeim hafi verið að bönkunum var stjórnað af "glæpamönnum".
Kveðja að sunnan
Bjarni Sæmundsson (IP-tala skráð) 21.2.2011 kl. 09:13
Ég held það megi segja að þjóðin þurfi að taka til hjá sér, hegna þeim sem settu smánarblett á Ísland, og sjá til þess að þetta muni ekki endurtaka sig.
Bankar í eðli sínu eru hrægammar, skoða þarf hvort þeir eigi að leika lausum hala, því þeir munu endurtaka leikinn.
Samanber banka eins og Barclays i Bretlandi sem bjargað var frá hruni með skattpengingum og var í gær uppvís af að hann greiðir nú aðeins 1% í skatt. Flottur dill það. Hvað greiða íslensku bankarnir í skatt?
Njáll Harðarson, 21.2.2011 kl. 09:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.