Hvernig væri að banna áfengisframleiðslu, áfengissölu og áfengisneyslu á Íslandi?

 


 

Hófsemi virðist vera dularfullt fyrirbæri í hugarheimi Íslendingsins. Við höfum gífurlega þörf til að vera númer eitt. Ekki veit ég hvort það sé vegna óheflaðs mikilmennskubrjálæðis eða minnimáttarkennd vegna smæðar og fjarlægðar þjóðarinnar við umheiminn. Músin-sem-öskraði einkennið.

Nú hafa stigið upp á yfirborðið getgátur um að orsök mikils kynbundins ofbeldis felist í óhófsömu skemmtanalífi og drykkjuháttum Íslendinga, eins og sjá má hér í athugasemdum við grein Egils Óskars Helgasonar "Eru konur beittar meira ofbeldi hér en á Norðurlöndunum?"

Ríkisstjórnin virðist heit fyrir þeirri leið að banna óæskilega hluti, þannig að það liggur beint við að annað hvort verði skemmtunum og áfengi sett höft í náinni framtíð, vegna þess kynbundna böls sem fylgir, eða þá að áfengi verði aftur bannað á Íslandi, en allt áfengi var bannað á Íslandi frá 1915-1935.

Það þótti sjálfsagt afar góð hugmynd á sínum tíma að banna áfengi á Íslandi, rétt eins og það hefur þótt góð hugmynd að banna súludans, vændi og annað slíkt. Ég er handviss um að þeir sem barist hafa fyrir þessum bönnum vilji vel og séu afar gott fólk, jafnvel sannkristið, sem er umhugað um samferðarfólk sitt á Íslandi. Hins vegar hafa bönn sem sett eru með lögum tilhneigingu til að snúast upp í öndverðu sína, þar sem þessar hneigðir verða hvort eð er uppfylltar í leyni og fundnar leiðir framhjá lögum og reglu til að svala þeim. 

Þeim fylgir bara aukin spenna og kannski einhver sektarkennd, og hættustigið verður hærra.

Við slíkar aðstæður verður hættulegra fyrir fórnarlömb að gefa sig fram við lögreglu eða heilbrigðisyfirvöld, því að ólöglegri starfsemi gæti þá verið ógnað, og þeir sem standa að ólöglegri starfsemi svífast oft einskis til að verja hana, sérstaklega ef hún er arðbær. Þá eykst kúgun sjálfsagt í samræmi við það.

Vil ég minna á afleiðingar áfengisbannsins á Íslandi frá 1915-1935, en því var loks aflétt þegar í ljós kom að hún hafði aðeins skapað enn verra ástand en áður hafði ríkt í áfengismálum. Málið er að bann slekkur ekki á hvötum, heldur býr til nýjar aðstæður, þar sem fólk sækir í spíra, blandar landa, eða gerir annað verra. Stjórnleysi fylgir í kjölfarið. Það er þó ljóst að þessi málefni hverfa ekki, sama hvað við kreystum hnúana og vonum ofboðslega mikið, og erfitt verður að fylgjast með hinni nýju ólöglegu starfsemi og hegðun af lögreglu, nema þá kannski að lögreglumenn fengju bónus fyrir að leysa slík mál.

Þessi úrdráttur úr Morgunblaðinu frá desember 1925 er ágætis frétt sem hollt er að lesa, sérstaklega fyrir alla þá sem telja að hægt sé að leysa mannlegan breyskleika með boðum og bönnum. Mæli með rauðvínssopa eða köldum bjór eftir að þú hefur stækkað greinina og prentað út, nema þú sért undir tvítugu að sjálfsögðu eða viljir banna áfengi.

 

Smelltu á myndina til að sjá hana í fullri stærð.

 

Tilvísanir:

Egill Helgason: "Eru konur beittar meira ofbeldi hér en á Norðurlöndunum?"

Mynd af áfengisbrotadeild Washington lögreglunnar 1922: OldPicture.com

Frétt úr Morgunblaðinu: Timarit.is


Bloggfærslur 31. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband