
Samkvæmt báðum erlendum gestum Silfurs Egils Helgasonar í dag, þeim Michael Hudson og John Perkins (smelltu á nöfn þeirra til að sjá myndskeiðin), á íslenska þjóðin í stríði, en berst ekki á móti árásarhernum því að hún veit ekki að stríð sé í gangi, enda er erfitt að trúa því, enda varla vilji eða nægur skilningur fyrir hendi hjá Íslendingum til að trúa slíkum fullyrðingum. Árásarherinn er bankakerfið og þessi her vill ekki drepa fólk og hirða síðan eigur þeirra, heldur fá fólkið til að gefa eigur sínar af fúsum og frjálsum vilja; náttúruauðlindir Íslendinga og mannauð.

Samkvæmt þessu er illt keisaraveldi til staðar sem stjórnar framgangi mála í heiminum, og þetta skuggaveldi er æðra öllum ríkisstjórnum og samsett af harðsvíruðum stjórnendum örfárra fyrirtækja, en þessir einstaklingar hafa nægileg völd til að geta hagað eftir eigin höfði hverjir ná lýðræðis- eða einræðisvöldum í hverju landi.
Her keisaraveldisins eru alþjóðlega hagkerfið með gjaldeyrissjóðinn í broddi fylkingar og bankastarfsmenn eru hermenn sem er hulið þeirra eigið hlutverk í stóru keðjunni. Fólk um heim allan er háð bankakerfinu og án þess kemst það ekki af. Her keisaraveldisins er nákvæmlega sama um þetta fólk, þó að bankastarfsmönnum sé það ekki - en það er bara hluti af blekkingunni. Sé andlit bankans fátt annað en gæskan sjálf, getur varla leynst úlfur í þeirri gæru?Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn er samkvæmt þessum kenningum ekki björgunarbátur þjóðanna, heldur miðstjórn keisarahersins - þeir sem negla niður fána á herteknum svæðum og krefjast að fá auðlindirnar í eigin hendur með tíð og tíma.
Ef þetta er satt og rétt, þá eiga Íslendingar einungis einn valkost: að skera sig úr þessum vítahring strax með því að neita að borga skuldirnar. Ekki aðeins ríkið þarf að neita að borga sínar skuldir gagnvart öðrum þjóðum, heldur þurfa einstaklingar á landinu að neita að borga bönkunum eigin skuldir.

Afleiðingin verður annað hvort sú að Ísland verður útilokað úr samskiptum við aðrar þjóðir eða þá að Íslendingum verður fyrirgefið vegna hrikalegra aðstæðna á fjármálamörkuðum heimsins. Hinn kosturinn er að samþykkja að borga þessi lán sem aldrei verður hægt að borga, og gjalda í stað penings með auðlindum þjóðarinnar. Það væru herfileg mistök sem myndu enda með því að allar eignir Íslendinga verða þjóðnýttar, og auðlindirnar enda í höndum keisaraveldisins.
Við erum á seinni leiðinni núna. Ef við stígum ekki á bremsuna og hættum að borga, segjum stopp, nóg komið - þá munum við smám saman glata öllu okkar. Ég held að okkur verði fyrirgefið að lokum ef við hættum að borga, en það gæti kostað reiði gagnvart okkur og gjaldþrot allra íslenskra fyrirtækja sem starfa á alþjóðavettvangi. Því væri kannski best að gefa alþjóðlegum íslenskum fyrirtækjum kost á að komast úr landi, og hætta síðan að borga.
Skuldarar eiga að hafna því algjörlega að taka á sig allan kostnað vegna lánanna. Kröfuhafar verða líka að taka á sig eitthvað af tapinu, í stað þess að skella skuldinni allri á skuldarana.

Þetta hljómar eins og samsæriskenning af verstu sort. Illt keisaraveldi ríkir yfir jörðinni og stýrir því hverjir halda völdum í hverju ríki fyrir sig, og takist þeim það ekki með góðu, gera þeir það með illu - með hjálp leigumorðingja og herja, en öll spor eru hulin með fjölmiðlum sem keisaraveldið sjálft stjórnar.
Það er allt í lagi að velta þessu fyrir sér, en hver er sannleikur málsins? Getum við komist að því hver sannleikurinn er, og ef við gerum það, getum við sannfært alla þjóðina um að Ísland eigi í stríði og hafi einfaldlega ekki búið sig til varnar þar sem að þjóðinni dettur ekki einu sinni í hug að verið sé að ráðast á hana?
Kannski við séum loks komin til ársins 1984 eins og George Orwell sá það fyrir sér?
"Þrjú slagorð Flokksins:
STRÍÐ ER FRIÐUR
FRELSI ER ÞRÆLKUN
FÁFRÆÐI ER STYRKUR."
George Orwell, 1984
"Við sættum okkur ekki við neikvæðna hlýðni, né við auðmjúkustu undirgefni. Þegar þú gefur þig loks okkur á vald, verður það að vera af þínum eigin frjálsa vilja. Við eyðileggjum ekki heiðingjann vegna þess að hann streitist gegn okkur; því svo framarlega sem að hann streitist gegn okkur munum við aldrei eyða honum. Við snúum honum, við tökum hans innri hug, við endurmótum hann. Við brennum alla illsku og tálsýn úr honum; við fáum okkar yfir í okkar lið, ekki að útlitinu til, heldur virkilega, hjarta og sál. Við gerum hann að einum okkar áður en við drepum hann. Það er ólíðandi að rangar hugsanir skuli vera til einhvers staðar í heiminum, hversu leyndar og máttlausar þær geta verið. Jafnvel á dauðastund megum við ekki leyfa neina villu . . . við fullkomnum heilann áður en við sprengjum hann."
George Orwell, 1984
Myndir:
1984: Alternative Reel
Hermaður hins illa heimsveldis: Dark Roasted Blend
Hús í höndum bankamanns: Golden Lenders
Auga píramídans: The IP ADR Blog