Hvernig ríkisstjórnin getur komið skuldurum til hjálpar þrátt fyrir verðtryggingar, gengisfellingu og verðbólgu
29.8.2008 | 19:04

Skammbyssur drepa ekki. Fólk drepur.
Þannig hljómar frægur frasi félags skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum.
Það sama má segja um hvaða tól og tæki sem er: það er ekki tækið sem slíkt sem er slæmt, heldur er raunin sú að hægt er að misnota öll tæki. Hægt er að nota bíl til að hringspóla á skólalóð. Hægt er að nota hamar til að brjóta rúður í verslunum.

Hægt er að misnota hvað sem er.
Verðtryggingin er slíkt tæki.
Verðtryggingin var upphaflega búin til sem svar við óðaverðbólgu, en óðaverðbólga er þegar kostnaður á vörum, þjónustu og launum hækkar stjórnlaust. Vilji fólks var ekki nægilega gott tæki til að stoppa verðbólguna, og því bjuggu einhverjir snillingar til verðtrygginguna, sem þýddi einfaldlega að þeir sem lánuðu pening, fengu aftur jafnverðmætan pening til baka, sama þó að verðgildi peningsins hefði breyst.
Þetta var sanngjarnt og gott ráð.

Gekk þetta vel í nokkra áratugi, en ekki lengur. Verðbólgan er farin af stað aftur, þrátt fyrir verðtrygginguna, og hugsanlega vegna hennar - þar sem hún tryggir að eigendur sparifjár tapi engu þó að þeir leiki sér svolítið með hagkerfið. Þeir sem eru tryggðir með verðtryggingum, geta einfaldlega ekki tapað. Hins vegar geta skuldarar tapað öllu sínu á einu bretti vegna verðtryggingar.
Þetta er frekar snúið, en jafnframt sáraeinfalt. Spurningin er einföld: hvort viljum við að eigendur taki á sig þá áhættu að tapa eigum sínum, eða að skuldarar sökkvi einfaldlega dýpra í skuldafenið? Valið er skýrt. Eigendur eru ekki í hættu, en skuldarar eru það. Vegna verðtryggingar.

Það versta við ástandið er ekki verðtryggingin sem slík, heldur sú staða sem komið hefur upp, að skuldarar eiga enga kosti í stöðunni aðra en að hafa lán sín verðtryggð. Íslendingar geta ekki tekið lán á sömu kjörum og aðrir Evrópubúar, því að steypueignir á Íslandi eru ekki metnar jafn mikils á alþjóðamarkaði og þær eru metnar innanlands.
Vandinn er sá að það eru engin úrræði fyrir skuldara, á meðan eigendur hafa endalaus úrræði. Af hverju hjálpa eigendur ekki skuldurum upp úr súpunni?

Jú, svarið virðist frekar einfalt. Besta hugsanlega verkfærið á þessari jörð eru manneskjur, og því meira sem manneskjan skuldar, því meira þarf hún að vinna. Þetta er reyndar algjörlega þvert á grundvallarkennisetningar kristinnar trúar þar sem manneskjan er óendanlega verðmæt og skal ekki notuð sem tól eða tæki, heldur borin óendanleg virðing fyrir henni sem vitundarveru í sjálfri sér, og þar af leiðandi er manneskja allt annað og miklu meira en tól eða tæki.
Fyrir hverja vinnur manneskjan? Fyrir eigendur. Og hvert fer hagnaðurinn? Fer hann til þeirra sem vinna eða þeirra sem eiga? Ef þú værir eigandi myndirðu vilja henda frá þér þeim drifkrafti sem gefur þér sífellt meiri auð? Að sjálfsögðu ekki.

Þannig að hugsanlega er dýpsti vandinn við efnahagsástandið á Íslandi í dag sá að ekki er vilji til staðar til að jafna aðstöðu eigenda og skuldara. Og það er ljóst að ef ríkið reyndi að jafna þennan mun yrði hún strax upphrópuð sem ættjarðarsvikari og kommúnisti.
Þetta er ekki ný saga, og engin auðveld lausn til staðar.
Ef ríkisstjórnin gæti bara hjálpað skuldurum sem vilja losna við skuldir sínar upp úr þeim, og finna leið fyrir þetta fólk sem mun ekki kosta það alla sína ævi, þá væri ríkið á réttri leið. En það er erfitt fyrir ríkisstjórnina að finna leiðir fyrir fólkið, því það eru alltof margir hagsmunaaðilar með puttana á stöðum þar sem puttar eiga ekki að vera.

Ef ríkisstjórnin eða Seðlabankinn gæti boðið almenningi lán á kjörum sem eru ekki háð íslensku krónunni, hugsanlega í Evrum, og opnaði þannig fólki leið út úr húsnæðiskrísunni sem gæti skollið á árið 2009, og leið út úr síhækkandi skuldum vegna verðbólgu og verðtryggingar, þá væri þessi ríkisstjórn búin að tryggja sér mitt atkvæði í næstu kosningum, sama hvað á undan hefur gengið.
Þetta er hægt.

Myndir:
Björgunarhringur:Google Image Listing
Fen: Sparrowflight13: Magic in the Air
Glöð manneskja: American Chronicle
Þumalfingur: Blacknight Soluctions
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.8.2008 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)