Veist þú hvað 14,5% verðbólga kostar þig mikið á dag?
28.8.2008 | 08:42

Á sama degi og íslenska landsliðinu í handknattleik er fagnað verðskuldað með mikilli og glæsilegri skrúðgöngu og fjöldafundi í miðbæ Reykjavíkur, og forsetinn sæmir þessa góðu drengi fálkaorðunni, berast fréttir af enn alvarlegra máli, að verðbólgan sé orðin 14,5%. Hvað þýðir það?
Skilgreining á verðbólgu samkvæmt Wikipedia:
Hækkun á verðlagi sem minnkar kaupmátt og lækkar virði fjármuna. Verðbólga hefur áhrif á hagkerfið með því að auka óvissu og letja fólk frá sparnaði. Verðbólga hefur einnig í för með sér hærri nafnvexti sem letja fólk frá fjárfestingum. Það verður til ójafnvægi í greiðslum þar sem að innflutningskostnaður lækkar en útflutningskostnaður hækkar. Gengisfelling verður einnig til þess að launajafnvægi fer úr skorðum, þannig að þeir sem eru á föstum launum missa kaupmátt, en þeir sem hafa breytilegri fjármögnun geta enn hagnast á hækkandi verði og vöxtum.(Þýðing: HB)
Því hærri sem verðbólgan er, því meira græða eigendur hlutfallslega á við skuldara, þó að allir tapi. Sumir tapa bara miklu meira en aðrir. Þetta er ekki mikið flóknara en það.
Ef þú átt 1000 krónur á bankareikningi á 5% vöxtum með verðtryggingu, þá dekkar verðtryggingin verðbólguna, og vextirnir verða 19,5%. Þannig breytast þessar 1000 krónur í tæpar 1200 krónur. Það sama gerist þegar einhver skuldar 1000 krónur á 5% vöxtum. Á sama tíma hækkar vöruverð, sem þýðir að sá sem átti pening fyrir stendur hugsanlega í stað í kaupmætti, en sá sem skuldar mun tapa mun hraðar.
Raunveruleg dæmi eru til um einstaklinga sem skulda 20 milljónir á 4,3% fasteignaláni. Í 14,5% verðbólgu rjúka þessar 20 milljónir upp í tæpar 24 milljónir. Hvað þýðir þetta margra mánaða aukavinnu fyrir manneskju með 150 þúsund krónur útborgaðar á mánuði? Reiknaðu nú. Þetta eru raunverulegar tölur í dag vegna þess hvernig fasteignaverð sprakk þegar húsnæðislán flæddu inn á fasteignamarkað.
Myndin sýnir hversu dramatískar breytingar verða á skuldum sem bera 4,3% verðtryggða vexti. Það væri hægt að sýna súluna til samanburðar við 0 krónur sem upphafstölu, en það myndi skekkja sýnina á hversu alvarlegur hlutur 14,5% verðbólga er fyrir fólk sem einungis hefur tekjur af launuðu starfi og með fastar mánaðartekjur.
Tíminn er nefnilega peningar.
Eignatilfærsla verður mikil. Bilið breikkar milli þeirra sem eiga og þeirra sem skulda. Eigendur græða jafnmikið og skuldarar tapa, sem sumum kann að þykja óréttlátt, því að þeir sem eiga meira hafa ekki jafn mikla þörf fyrir aukinn gróða og skuldarar sem þurfa að þræla sér út, bæta við aukavinnu og jafnvel taka sér aukastarf til að eiga fyrir útborgunum.
Hvað er það sem veldur þessari auknu verðbólgu? Er þetta eitthvað sjálfkrafa skrið, eða meðvituð aðgerð einhverra einstaklinga? Af hverju er stjórnsýslan að auka verðbólgu með hækkandi gjöldum? Er þetta með ráðum gert, eða bara tómur kjána- og klaufaskapur? Getur þetta hugsanlega verið ein af birtingarmyndum spillingar?

Við verðum að ná verðbólgunni niður með öllum tiltækum ráðum. Hvað er hægt að gera? Hvað þarf að gera?
Hefurðu reiknað út hvað verðbólgan kostar þig mikið
- á dag
- á viku
- á mánuði
- á ári?
Er hugsanlegt að verðbólgan hjaðni ekki þar sem að einhverjir vilja ekki að hún hjaðni?
Myndir:
Peningar: smallbiztechnology.com
Heimildir:
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)