Sleggjudómur Stefáns Friðriks Stefánssonar: "Eitthvað stórlega vantar á siðferði þeirra sem starfa í bandarískum skólastofnunum."
28.6.2008 | 18:16
Stefán Friðrik Stefánsson skrifar grein um kynlífshneyksli við Bandarískan skóla þar sem að 25 ára kennari stakk af með nemanda sínum (hugsanlega 13 ára) yfir landamæri Mexíkó. Einnig nefnir hann tvö önnur dæmi, án þess að greina nánar frá þeim. Greininni er lokið með staðhæfingunni:
Greinilegt að eitthvað stórlega vantar á siðferði þeirra sem starfa í bandarískum skólastofnunum.
Það er eitthvað til í þessu, en þetta er vissulega ofureinfaldur sleggjudómur á máli sem má ekki kippa úr samhengi. Staðhæfingum sem slíkum er oft fleygt fram þegar þekkingu vantar á aðstæðum og forsendum. Ég vil reyna að bæta aðeins úr.
Ég hef unnið mikið með góðum fagmönnum í bandarískum skólum og fullvissa lesendur mína um að almennt siðferði meðal kennara þar er afar gott. Reyndar var ég með kennurum í Bandaríkjunum þegar þetta mál kom upp, og áhugaverðar umræður spunnust um það.
Kennarinn sem strauk með nemanda sínum til Mexíkó er frá Lexington í Nebraska. Þangað hef ég farið nokkrum sinnum. Stúlka sem ólst upp í þessum bæ sagði mér að þegar hún var lítil gat hún gengið óhult um göturnar og fólk skildi hús sín eftir ólæst á kvöldin, eins og enn viðgengst í miðríkjum Bandaríkjanna, nema að síðustu árin hefur þróunin verið frekar óhugnanleg. Fréttir um skotbardaga berast reglulga frá bænum, enda hafa þrjú vopnuð götugengi hreinlega tekið völdin í bænum, sem er álíka fjölmennur og Reykjavík en aðal iðnaður þeirra er kjötvinnsla.
Fyrir um 10 árum síðan byrjuðu innflytjendur að streyma inn í Lexington, en það sárvantaði ódýran starfskraft í kjötvinnslu, og var afar vel tekið á móti þeim. Lögð var áhersla á að kenna ensku sem annað mál í skólum á svæðinu.
Hins vegar breyttist margt þegar ríkisstjórn Bush var kjörin (hugsanlega) til valda árið 2000. Fyrir nokkrum árum fór ríkisstjórnin af stað með nýtt menntakerfi sem kallast No Child Left Behind, sem þýðir í raun að skólar tapa fjárhæðum með hverjum bekk sem sýnir of góðan árangur.
Öfugsnúið og fáránlegt? Já.
Staðreynd? Já.
Það er lögð mikil áhersla á að allir nemendur komist í gegnum nám, sem þýðir að árangursstaðlar hafa verið mikið lækkaðir víðast hvar, og sem hefur aftur á móti mikil áhrif á afburðarnemendur sem er haldið aftur. Bæði kennarar og aðrir sérfræðingar í menntageiranum þola ekki þetta kerfi - og hafa margir leitað sér starfa á öðrum vettvangi vegna þess.
Kennarar í Bandaríkjunum eru láglaunastétt eins og á Íslandi, og þeir sem hafa haldið áfram hafa gert það af hugsjón, en þegar kerfið gerir þeim ómögulegt að vinna eftir eigin hugmyndum, borga lægri laun en fást fyrir að starfa við færibandavinnu og skapar fleiri vandamál en leysir, hrökklast kennarar sem starfað hafa af hugsjón í önnur störf.
Snúum okkur aftur að Lexington. í nokkur ár hefur bærinn verið í miklum vandræðum með kennara. Þeir geta ekki borgað góð laun og góðir kennarar fást ekki til að flytja á svæðið vegna þeirra miklu vandamála sem ríkja þar, aðallega vegna mikils fjölda ólöglegra innflytjenda. Margir hæfir kennarar sem fæðst hafa í Lexington og ætlað sér að kenna þar, fá tilboð sem þeir geta ekki hafnað, annað hvort frá öðrum bæjum eða ríkjum í Bandaríkjunum. Ástandið er semsagt slæmt í bænum.
Ekki má heldur gleyma að fjármunir sem voru áður í bandaríska menntakerfinu hafa gufað upp vegna stríðsreksturs í Afganistan og Írak, og því hefur þurft að leggja af námsleiðir sem menntastofnanir höfðu þróað í áratugi.
Allt þetta veldur því að nú er erfitt að ráða hæfa og góða kennara í Lexington, og því þarf að ráða fólk sem hefur hugsanlega ekki það háa siðferðisvitund sem flestir kennarar í Bandaríkjunum hafa. Sem lýsir sér einmitt í svona máli.
Vandamál í bandarískum menntamálum hafa stóraukist vegna stöðugra árása á það vel unna starf sem áunnist hafði í fjölda áratuga. Þetta er ein af afleiðingum stríðsrekstursins í Bandaríkjunum, og eigum við örugglega eftir að heyra mun fleiri voðafréttir á næstunni, þar sem úr skólum er að útskrifast kynslóð sem upplifað hefur ómanneskjulegt menntakerfi, sem vinnur meira gegn fólki en með því, þar sem að nám snýst mun meira um árangur þeirra sem minnst mega sín gagnvart viðmiðum sem eru alltof lág, í stað þess að geta unnið með öðru fólki og liðið vel í námi án takmarkana trúarbragða eða stjórnmála.
Skólum með afburðarnemendum er ekki umbunað í Bandaríkjum nútímans. Þeim er bókstaflega refsað, því að ef þeir skila góðum árangri líta pólitíkusarnir þannig á að skólinn hafi of mikinn pening á milli handanna, og veita því meiri pening í skóla sem nær slökum árangri. Af þessum sökum reyna skólar að halda aftur af afburðarnemendum, og leyfa þeim ekki að njóta sín.
Ég veit þetta af eigin reynslu, því fyrir aðeins viku síðan, útskrifaðist nemandi frá Lexington úr áfanga hjá mér sem ég kenni mér til ánægju í sumarfríi, en hún hefur tekið kúrsinn minn í þau þrjú ár sem henni tókst að ná þeim þungu prófum sem þarf að ná til að komast inn, en rúmlega hundrað nemendur sækja um að komast inn - aðeins 14 komast að, - hún kvaddi mig með tárin í augunum og þeim orðum að þessi kúrs hafi verið ljósið við enda myrkra ganga.
Til að komast í áfangann þurfti hún heldur betur að berjast - kennararnir og skólastofnunin vildi ekkert fyrir hana gera, hún þurfti að berjast fyrir leyfi til að sækja um í áfangann. Og þegar hún hafði fengið það í gegn, þurfti hún að taka prófið og ná því villulaust. Afburðarárangur virðist ekki lengur vera af hinu góða, heldur dæmi um sjálfselsku. Það er viðhorf sem má gagnrýna.
Þetta umhverfi flúðu hinn 25 ára kennari Kelsey Peterson, fædd og uppalin í Lexington, og hugsanlega 13 ára nemandi hennar Fernando Rodriguez 25. október 2007. Ég þekki ekki söguna á bakvið söguna um flótta þeirra, annað en að þau virðast ástfangið par, - aðskilin af aldri og stétt. Það er lítið mál að fordæma þau án þess að kynnast þeim betur, en spurning hvort við getum haldið persónulegum skoðunum okkar aftur á meðan við hlustum á sögu þeirra.
Við þekkjum ekki söguna sem þetta fólk hefur að segja. Reyndar hefur parið verið handtekið í Mexíkó og Kelsey verið send til Bandaríkjanna þar sem hún er í haldi FBI. Rodriguez hefur ekki fengið að koma aftur til Bandaríkjanna þar sem að hann er ólöglegur innflytjandi. Ekki er vitað hvort að flótti þeirra hafi verið vegna þess að þau hafi átt í ástarsambandi í raun og veru, eða hvort þau hafi flúið af ótta vegna þeirra ásakanna sem á þau voru bornar. Ég vil enn og aftur forðast að dæma það sem ég þekki ekki nógu vel.
Hér er áhugavert myndband um framvindu mála, þar sem meðal annars kemur fram að hugsanlega er nemandinn mun eldri en 13 ára, þar sem að hann hefur enga pappíra til að sýna fram á raunverulegan aldur sinn.
Smellta á myndina til að skoða myndbandið:
Annars þakka ég Stefáni fyrir ágætis tækifæri til að fjalla um fordóma og hættulegar alhæfingar. Ég hefði skrifað athugasemd við færslu hans, en geri það ekki þar sem að hann birtir aðeins sumar athugasemdir eftir að hafa rýnt þær sjálfur. Það finnst mér ekki góð regla.
Besta leiðin til að taka á sleggjudómum er að rannsaka málið frá fleiri sjónarhornum en einu. Slíkt er alltaf lærdómsríkt þegar hugsað er vandlega um viðkomandi mál, en hættulegt ef við meðtökum fordómana umhugsunarlaust.
Myndir: Wikipedia og almennar fréttasíður