Tollurinn: með okkur eða á móti?

Það er ánægjulegt þegar svona fréttir berast, að þýfi hafi verið stöðvað á leið frá Íslandi af tolli og lögreglu. Þetta er það sem tollurinn á að einbeita sér að: að uppræta glæpi. Ekki ofsækja túrista. Til hamingju tollur!

En...

Á síðustu misserum hef ég heyrt mikið kvartað undan tollinum fyrir að níðast á einstaklingum fyrir litlar sakir, aðrar en að kaupa sér aðeins of mikið af dóti. Reyndar er frekar við tollalögin að sakast en tollverðina sjálfa, þar sem tollalögin takmarka innkaup á vörum erlendis. 

Ég vil segja stutta sögu. Hún er sönn. Þegar ég var í námi í Bandaríkjunum keypti ég mér fartölvu. Eftir námið kom ég með hana heim, og þar sem ég var ekki með mikil verðmæti önnur fór ég beint í gegnum græna hliðið. Ég sagði meira að segja tollverði frá því að ég var með þessa tölvu á mér. Svo leið ár. Ég fór utan og tók tölvuna með. Þegar ég kom heim aftur var ég stoppaður í tollinum og rukkaður um virðisaukaskatt fyrir þessa sömu fartölvu, sem ég viðurkenndi að sjálfsögðu að ég hafði keypt í Bandaríkjunum ári áður.

Mér fannst sárt að þurfa að borga þennan pening og mér fannst þetta óréttlát meðferð, að einstaklingur sem er með vinnutæki á sér skuli vera rukkaður fyrir það í tollinum, á meðan mér fannst að áherslan ætti að vera á glæpamönnum, frekar en fólki sem hefur gert það eitt af sér að kaupa hlut sem var nokkrum þúsundköllum of dýr samkvæmt íslenskum lögum.

Ég skil ekki af hverju við sættum okkur við þetta enn þann dag í dag. Fólki finnst það mikil niðurlæging þegar það kemur til Íslands og tollverðir horfa á það með grunsamlegu augnaráði, og geta með einni bendingu beðið fólk um að opna töskur sínar. Þetta væri gott og gilt ef rökstuddur grunur væri á að viðkomandi væri að smygla inn fíkniefnum eða þýfi; en þegar málið er farið að snúast um hvort að viðkomandi hafi keypt vörur fyrir fleiri þúsundkalla en má samkvæmt íslenskum lögum, þá eru tollverðir farnir að skjóta sig í fótinn og tapa virðingu landans.

Ég veit um fólk sem þorir ekki að taka myndavélar sínar eða fartölvur með í frí til útlanda af ótta við að tollurinn taki þær af þeim þegar heim er komið, nema það geti sýnt kassakvittun um hvar það keypti gripinn. Ég hef heyrt að það sé viðhorf flestra tollvarða að viðkomandi einstaklingur sé sekur þar til sakleysi sannast. Ef það er satt, þá er þetta ekki í lagi, og með slíkri háttsemi fær tollurinn almenning á móti sér, - og í stað þess að koma með vinsamlegar ábendingar sem gætu hjálpað, þorir enginn að segja neitt af ótta við að vera tekinn fyrir.

Alþingi mætti taka tollalögin alvarlega til endurskoðunar, sérstaklega þegar kemur að innflutningi einstaklinga á vörum til persónulegra nota, bæði úr ferðum og þegar þær eru keyptar á netinu.  

 


Tollurinn og lögreglan eiga einmitt að einbeita sér að því að vernda hinn almenna borgara gegn þrjótum sem vinna samfélaginu mein. Ég held að þeir geri þjóðinni lítið gagn með því að fara í gegnum persónulegar eigur fólks og spyrja hvað þær hafi kostað eða hvar þær hafi verið keyptar.

Hver er þín upplifun af tollinum á Íslandi? 

Myndir af vefsetrinu tollur.is 


mbl.is Erlend þjófagengi í sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband