Aðför að tjáningarfrelsi hjá íslensku smásamfélagi. Er frelsið til skrauts? Skulu hinir óþægilegu þegja?

Það eina rétta er að beina valdinu gegn þeim sem misnotar tjáningarfrelsi sitt; en ekki gegn miðlinum sem slíkum og þar með samfélaginu öllu. Frelsi er vald og öllu valdi fylgir ábyrgð.

Áður en lengra er haldið, þá vil ég taka fram að ég er ekki að gagnrýna persónur, heldur skoðanir þeirra og athafnir sem ég tel vinna gegn gildi sem ég met mikils; ritfrelsi, tjáningarfrelsi, hugsunarfrelsi, með öllum þeim bólum og ljótleika sem fylgir.

Á Skákhorninu í dag, sem hefur verið umræðuhorn skákmanna á netinu til margra ára, stofnað af Daða Erni Jónssyni, sem hefur forritað það meðal annars til að geta skráð og sýnt skákir á gagnvirkan hátt, skrifar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands þennan stutta en stórmerkilega pistil: 

 

Nýverið kom fram fyrirspurn frá skólastjóra Skákskóla Íslands, Helga Ólafssyni, um afstöðu stjórnar S.Í. til þess hvort linkur á skákhornið ætti að vera til staðar á nýju skákfréttasíðunni, þar sem m.a. væri að finna niðrandi og ósæmandi ummæli í garð barna og unglinga jafnt sem annarra. Helgi verður væntanlega einn pistlahöfunda á nýju fréttasíðunni, en í vinnslu er m.a. að skákdálkar Morgunblaðsins birtist þar reglulega.

Áhyggjur og ábendingar frá fleiri aðilum hafa einnig borist til eyrna stjórnarmanna S.Í., bæði frá foreldrum og öðrum, vegna meiðandi skrifa sem hér fari fram, en umræðuhornið er hvorki á vegum Skáksambandsins né aðildafélaga þess.

Stjórn Skáksambandsins hefur í framhaldinu fjallað sérstaklega um málið og tekið þá ákvörðun að vera ekki með link á skákhornið á nýju fréttasíðunni.

Mat stjórnar Skáksambandsins er þetta: Reynslan sýnir ítrekað að siðareglum og framfylgd þeirra er alvarlega ábótavant á skákhorninu. Börn og unglingar verða hér fyrir barðinu á meiðandi umfjöllun og niðurrifi, og persónubundin meiðyrði og svívirðingar birtast hér hvað eftir annað. Skáksambandið vill ekki tengja nafn sitt við slíkt á opinberum fréttasíðum sem það ber ábyrgð á og vísar því ekki í skákhornið.

F.h. stjórnar S.Í.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
 

Vísað er sérstaklega í skrif einnar manneskju sem hefur að mínu mati vissulega skrifað ósanngjarnan texta um börn og unglinga; sem einnig hefur skaðað orðspor skákarinnar, en fyrir vikið hefði mér þótt rétt að viðkomandi einstaklingur fengi umfjöllun hjá siðanefnd SÍ og erindið jafnvel sent til alþjóðlega skáksambandsins FIDE. Þess í stað er ákveðið að sníða hjá allri þeirri umræðu sem á sér stað meðal annarra skákmanna.  Þessu var fylgt eftir af umsjónarmanni hornsins sem sagði meðal annars:

 

Í framhaldi af þessu er rétt að geta þess að ég hef nú ákveðið að taka upp mun hertari ritstjórn hérna á Skákhorninu enda hefur umræðan á köflum farið út í algjöra vitleysu.  Þessi herta ritstjórn hófst í morgun og mun verða framfylgt í framtíðinni og mun ég ekki hika við að henda út skeytum og setja menn í bönn ef þurfa þykir. (Sigurbjörn Björnsson)
 

Þetta finnst mér köld og hörð skilaboð, sem vekja spurningar.

Þarna er í tveimur erindum verið að mæla með notkun ritskoðunnar. SÍ vill óbeina ritskoðun með því að sníða hjá þessum síðum af vefnum skak.is, sem var á sínum tíma þekktur sem hlutlaus fréttamiðill um skák á Íslandi; en hefur allt í einu orðið að málpípu Skáksambands Íslands, sem reyndar hefur tilheyrt heimasíðu SÍ til þessa; en hlutleysinu er sjálfsagt fórnað vegna þess að SÍ borgar ritstjóra skak.is laun. Þar með eru forsendur fréttamiðilsins foknar út í veður og vind.

Hin skilaboðin finnst mér jafnslæm, en þar er beinni ritstýringu hótað. Ég játa að eftir að hafa lesið þetta hef ég ekki lengur áhuga á að skrifa neitt á Skákhornið, þar sem að stjórnandi gæti  auðveldlega fjarlægt það sem honum líkar ekki, enda hefur hann hótað því. 

Alvarlega málið er að lýðræðisleg samræða hefur tapað ákveðinni baráttu í þessum míkróheimi sem skákheimurinn á Íslandi er. Vegna þess að einn maður hefur verið óþægilegur og stingur aðra með athugasemdum sem svíða, og oft á ósanngjarnan hátt, þá finnst fólki að lýðræðislegi samræðugrundvöllurinn megi hverfa. Ég er sannfærður um að þessi einstaklingur telur sig vera í fullum rétti; að gera athugasemdir út frá eigin skoðunum og gildismati; hann er bara svo klaufalega óvarkár gagnvart tilfinningum annarra, og virðist algjörlega sama um þær, að það gerir hann mjög óvinsælan, og jafnvel hataðan og fyrirlitinn - sem mér finnst reyndar alltof langt gengið fyrir ummæli á skákvef.

Það er engum greiði gerður með að þagga niður í þessum manni eða Skákhorninu. Þar hafa birst góðar umræður um skák og skákmót, Hornið hefur verið notuð til þess að hrósa fólki þegar vel gengur, og verið mikið lesin af skákmönnum almennt. Það að allir hafa rétt til að tjá sig án hömlunar og án þess að eiga á hættu að skrif þeirra verði strokuð út af ritskoðara; er sjálfsagður réttur fólks í lýðræðissamfélaginu Íslandi; en ekki forréttindi eins og umsjónarmaður Hornsins virðist álíta. 

 

Ég skora á Skáksamband Íslands og umsjónarmann Skákhornsins að endurskoða hug sinn.

  • Viljum við búa í samfélagi þar sem opin samræða er heft að einhverju marki?
  • Viljum við lifa í samfélagi sem tekur þannig á málunum þegar hitnar í kolunum; að ekki allir fái að tjá sig, að ekki allir fái að láta í sér heyra; einfaldlega vegna þess að það særir hugsanlega tilfinningar einhverra einstaklinga?

Ritskoðun tilheyrir aðeins einræði. Kommúnistaríki hafa lengi verið gagnrýnd fyrir ritskoðun á pólitískum skoðunum, Kínverjar hafa verið gagnrýndir fyrir að ritskoða Internetið, repúblikanar í Bandaríkjunum hafa verið gagnrýndir fyrir að ritskoða allt sem gagnrýnir ríkisvaldið, Chavez í Venesúela hefur verið gagnrýndur fyrir að loka sjónvarpsstöðvum sem hann var ósáttur við; og nú gagnrýni ég skákyfirvöld, sem sækja vald sitt til íslenska lýðveldisins og félagsmanna sinna, fyrir að ritskoða Skákhornið.

 

Nokkrar tilvitnanir:

 

Ég er ósáttur við það sem þú segir, en ég mun verja fram í dauðann rétt þinn til að mæla hug þinn. (Voltaire 1694-1778)

 

Ef ekkert má birta nema það sem yfirvöld hafa fyrirfram samþykkt, hlýtur vald að staðla sannleikann. (Samuel Johnson 1709-1784)

 

Skoðanir fólks eru ekki undir stjórnvöld komin eða yfirráðasvæði þeirra. (Thomas Jefferson, 1743-1826)

 

Ef eitthvað er til staðar sem þolir ekki frjálsa hugsun, leyfið því að brotna. (Wendell Phillips 1811-1884)

 

Ritskoðun endurspeglar skort samfélagsins á sjálfstrausti. (George Bernard Shaw 1856-1950)

 


Bloggfærslur 11. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband