Skatturinn og vilji þjóðarinnar

skattur

Hvað ef við gætum sjálf tekið beinar ákvarðanir um í hvaða málefni skattpeningur okkar færi?

Mér verður hugsað til glænýrra möguleika nú þegar skatturinn er orðinn rafrænn og stutt í kosningar. Málið er að þeir sem kosnir eru til alþingis ákveða hvað gert verður við skattpeninga okkar. Það finnst mér gamaldags og hallærislegt.

Hugsum okkur að ein blaðsíða á skattskýrslunni væri með fyrirspurnum þar sem að við tilkynntum í hvaða málefni skattpeningarnir okkar færu. Þannig gætum við veitt pening í það sem skiptir okkur mestu máli hverju sinni. Það þætti mér framúrstefnulegt og flott!

Ég væri gífurlega ánægður ef ég mætti ákveða sjálfur að 25% af þeim peningi sem ég greiði í skatt færi í menntakerfið, heilbrigðiskerfið, umönnun fyrir aldraða eða jafnvel fangelsiskerfið; eða í önnur málefni eins og lausnir á agavanda, námsvanda, aukinn styrk til heyrnarlausra eða blindra, hjartveikra eða krabbameinssjúkra; í stað þess að misvitrir gaurar sem rífast með eða gegn málþófi á þingi fái að ákveða notkun þessa penings til að byggja göng eða hraðbraut einhvers staðar, eða til að hækka sín eigin laun. Til að byrja með þætti mér í lagi að fólkið fengið að úthluta eins og 25%.

Yrði almenningur ánægður með að fá slíkan valkost?

Það held ég. 

Væri um þróun á lýðræðinu að ræða?

Það held ég. 

Mögulegar afleiðingar:

  • Fólk verður ánægðara með að borga skattinn þegar það getur ákveðið í hvað hann fer
  • Fólk verður líklegra til að finna til ábyrgðar gagnvart Ríkinu í formi skattsins
  • Þingmenn geta einbeitt sér að þeim verkefnum sem eftir standa
  • Þingmenn geta séð hvar vilji og áhugi almennings liggur með sterkasta atkvæðinu: krónunn

Ég sé ekki fyrir mér nein neikvæð áhrif, en gaman væri að fá uppbyggilega gagnrýni á þessa hugmynd hér í athugasemdarreitina.

 

E.S. Annars vil ég hrósa þeim sem hefur tekist að gera skattinn mögulegan á rafrænu formi. Það sem áður tók heilmikinn tíma og hárreitingar á pappír, tekur nú varla tvær klukkustundir í framkvæmd. Ég vil nota tækifærið og hrósa Ríkinu fyrir góða stefnu í þessum málum sem gerir skattskil skilvirkari og að nánast ánægjulegri kvöldstund. Ég vona einfaldlega að við getum þróað þetta enn frekar.


Bloggfærslur 20. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband