Færsluflokkur: Spil og leikir
Birtingarmyndir pólitískrar refskákar á krepputímum?
17.1.2009 | 02:56
Fjöldamorð og nauðganir í tölvuleikjum
27.5.2007 | 10:34
Efni tölvuleikja
Enn einu sinni vakna hugmyndir þegar ég les yfir síðasta pistil bloggvinu minnar Hafrúnar, Ofbeldisleikir. Þar spyr hún: "Afhverju er verra að nauðga einhverjum í tölvuleik heldur en að drepa heilan her af góðborgurum og það oft á viðbjóðslegan hátt?"
Ég held að Hafrún hitti með þessari spurningu naglann á höfuðið. Það er nefnilega hvorki verra né betra að nauðga eða drepa í tölvuleik. Þetta er ekki raunveruleiki, þar sem einhver hlýtur skaða af. Verið er að framkvæma ákveðnar skipanir með stjórntæki, en ekki verið að framkvæma slíkan verknað í raun og veru. Hvort að siðferðisvitund þeirrar manneskju sem spilar slíka leiki sljóvgast eða ekki, það er ágætis spurning; en hún sljóvgast ekkert meira af slíkum leikjum en af kvikmyndum, ritum eða efni á netinu, sem er af samskonar rótum.
Vandamálið við tölvuleiki er alls ekki innihald þeirra, heldur sú áráttuhegðun sem fólk þjálfar upp með því að síendurtaka sífellt sömu aðgerðirnar. Það er reyndar hægt að nýta tölvuleiki til að læra hitt og þetta; en ég stórefast um að þeir geti kennt siðblindu. Fleira þarf til.
Mikið hefur verið rætt um nauðgunarleik sem hægt var að nálgast á netinu, og aðgangur að honum bannaður. Nú hef ég ekki séð þennan leik, en get ekki trúað því að hann sé eitthvað verri en annar hver leikur sem hægt er að finna í hillum verslana sem selja slíkar vörur, sem ganga flestir út á dráp á tölvupersónum. Ef mér yrði sýndur þessi leikur má búast við að viðbrögðin væru hneykslun, - en ég einfaldlega held í hæfilegri fjarlægð frá mér hlutum sem mér finnst ógeðslegir. Og mér finnst gott að hafa það val, en slíkt val einkennir þá einstaklinga sem fara með siðferðilegt vald á eigin gerðum.
Spurning hvort að þarna sé verið að gefa fordæmi fyrir dóm á þeirri túlkun að orsakasamband sé á milli tölvuleikja og hegðunar einstaklinga. Kannski þetta útskýri Íraksstríðið og vilja Íslendinga til þátttöku í því; en ef við skoðum vinsælustu leikina fyrir allar helstu leikjatölvurnar, þá fáum við þá athyglisverðu niðurstöðu að fjórir af fimm innihalda 'Stríð' (War) í heiti sínu. Ja, ofbeldi og stríð selja, og fyrst ráðamenn gera þetta í raun og veru, af hverju ættu börnin ekki að stunda þetta. Þau gera jú það sem fyrir þeim er haft.
- PC: World of Warcraft
- Playstation 2: God of War 2
- Playstation 3: Oblivion IV: Elder Scrolls
- X-Box 360: Gears of War
- Wii: WarioWare
Form tölvuleikja:
Ofspilun á tölvuleikjum held ég að sé meira vandamál heldur en hvaða efni er í þeim. Efnislega eru þeir eins og bækur, bíómyndir og netið; en formlega geta þeir haldið viðkomandi við efnið tímunum saman, jafnvel dögum saman; þar sem að viðkomandi hefur fullkomna stjórn á öllu sínu nánasta umhverfi - ef hann gerir mistök, er alltaf hægt að byrja aftur. En eftir alltof langa og síendurtekna spilun gæti ég trúað því að viðkomandi haldi þörfinni fyrir að hafa stjórn á nánasta umhverfi sínu, og á því erfiðara með að vera kyrr, hlusta, læra og meðtaka. Ég trúi því að viðkomandi verði pirraður á því sem virkar ekki strax eins og hann vill að það virki. Ég held að þetta sé jafnvel einn af þeim hlutum sem aukið hefur á lærða 'ofvirkni' hjá börnum.
Það mætti gera könnun á hvort að mælanlegt samband sé á milli ofvirkni og tölvuleikjaspilunar barna.
Efnið er aukaatriði - aðalatriðið er hvernig viðfangið hefur áhrif á fólk. Það eru góðu leikirnir sem eru hættulegastir, en þeir kalla á meiri spilun og endurspilun; og gera þannig börn, unglinga og jafnvel fullorðna að þrælum tölvuleikja. Hvað þeir gera í huganum með sínum puttum fyrir framan sjónvarpstækið er aukaatriði - það að fólk sitji tímunum saman og síendurtekur sömu aðgerðirnar, - það er sjúkt. Ljóst er að spilun á tölvuleikjum má ekki vera stjórnlaus, frekar en nokkur önnur neysla.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)