Færsluflokkur: Dægurmál
Gamalkunnur Íslendingur að gera allt vitlaust
8.2.2012 | 18:02
Vinnufélagi minn sýndi mér þetta myndband í gær. Hann sagðist hafa sýnt börnum sínum þetta, og að hann væri satt best að segja skíthræddur, og að þetta væri ein stærsta fréttin í heimalandi hans Króatíu. Ég klappaði honum vinalega á öxlina og sagði að ekki væri allt sem sýndist, að mér sýndist viðkomandi fyrirbæri vera skuggalega líkt sprungu og gerði ráð fyrir að gas væri að stíga upp úr henni. Þú skalt leggja þinn dóm á þetta: yfirnáttúrulegt skrímsli eða gas í Lagarfljóti?
Ég gúgglaði þetta, og sá að netið logar vegna þessa myndbands, sem birt var í fyrradag.
Fyrst sást til Lagarfljótsorms í kringum 1345, og virðist fyrirbærið ansi lífseigt, enda árið 2012 orðið að heimsfrægu skrímsli á einni nóttu.
Það er sjálfsagt að leyfa einni af þjóðsögum Jóns Árnasonar fljóta með þessari "frétt".
ORMURINN Í LAGARFLJÓTI
Það bar til einu sinni í fornöld, að kona nokkur bjó á bæ einum í Héraðinu við Lagarfljót. Hún átti dóttur eina vaxna. Henni gaf hún gullhring.
Þá segir stúlkan: "Hvernig get ég haft mest gagn af gullinu því arna, móðir mín?"
"Leggðu það undir lyngorm," segir konan.
Stúlkan tekur þá lyngorm og lætur gullið undir hann og leggur ofan í trafeskjur sínar. Liggur ormurinn þar nokkra daga. En þegar stúlkan fer að vitja um eskjurnar, er ormurinn svo stór orðinn, að eskjurnar eru farnar að gliðna í sundur. Verður stúlkan þá hrædd, þrífur eskjurnar og kastar þeim með öllu saman í fljótið.
Líða svo langir tímar, og fara menn nú að verða varir við orminn í fljótinu. Fór hann þá granda mönnum og skepnum, sem yfir fljótið fóru. Stundum teygðist hann upp á fljótsbakkana og gaus eitri ógurlega.
Þótti þetta horfa til hinna mestu vandræða, en enginn vissi ráð til að bæta úr þeim. Voru þá fengnir til Finnar tveir. Áttu þeir að drepa orminn og ná gullinu. Þeir steyptu sér í fljótið, en komu bráðum upp aftur. Sögðu Finnarnir, að hér væri við mikið ofurefli að eiga og væri ekki hægt að bana orminum eða ná gullinu. Sögðu þeir, að annar ormur væri undir gullinu og væri sá miklu verri en hinn. Bundu þeir þá orminn með tveimur böndum. Lögðu þeir annað fyrir aftan bægslin, en annað aftur við sporðinn.
Ormurinn getur því engum grandað, hvorki mönnum né skepnum, en við ber, að hann setur upp kryppu úr bakinu, og þykir það jafnan vita á stórtíðindi, þegar það sést, t.d. harðæri eða grasbrest.
Þeir, sem enga trú leggja á orm þenna, segja, að það sé froðusnakkur, og þykjast hafa sagnir um það, að prestur nokkur hafi ekki alls fyrir löngu róið þar þvert yfir, sem ormurinn sýndist vera, til að sanna með því sögu sína, að hann sé enginn.
Mynd: The Huffington Post
Þjóðsaga: Snerpa.is
Dægurmál | Breytt 16.12.2014 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég kenni þeim um Hrunið
8.4.2010 | 08:31
Ríkisstjórnin hefur bara völd í fjögur ár, og því eru það mistök að eigna henni bæði of mikil völd eða hella ábyrgðinni yfir hana. Einnig ætti hún ekki að fá lán sem næstu ríkisstjórnir þyrftu að greiða. Þetta er bara tímabundið tannhjól í miklu stærri vél.
Það eru bæði innlendir og erlendir aðilar ábyrgir fyrir því hvernig komið er fyrir þjóðinni.
- Það voru erlendir aðilar og Íslendingar sem tóku stöðu gegn krónunni til að láta ársfjórðungsreikninga líta betur út.
- Tekin voru og gefin milljarðalán án veða, hugsanlega til að auka arðgreiðslur þeirra sem lánin fengu og bónusa þeirra sem lánin veittu.
- Fjölmiðlar hafa verið í eigu þessara hagsmunaaðila, þannig að íslenskur almenningur getur varla vitað sitt rjúkandi ráð, nema það kunni leiðir að upplýsingum í kringum reykský fjölmiðlanna.
- Ójöfn samkeppni, eignarhald viðskiptavina á bönkum, vafasöm einkavæðing banka og annarra ríkisstofnanna.
- Hryðjuverkalög Breta á Íslendinga, sem virðast hafa verið réttlætanleg út frá því viðskiptasiðferði sem ríkti (og ríkir kannski enn) á Íslandi.
Það sem mér finnst ósanngjarnt, er að vegna þessara óreiðumanna og óábyrgra stjórnunarhátta, hefur hófsamt og gott fólk neyðst til að flytja úr landi til að geta hugsanlega greitt upp lán á íbúð. Á sama tíma sér maður milljarða afskriftir á meðan venjulegt fólk berst í bökkum til að borga skuldir sínar, sem margfölduðust vegna þessara glæpa. Það að þetta fólk sé neytt til að borga þó að það geti það ekki, jafnast á við verstu glæpi mannkynssögunnar, og þá má draga ríkisstjórnir og þá innlenda og erlendu aðila til ábyrgðar vegna þess.
En lítið er gert, vegna þess að það er minnihluti sem er að þjást vegna aðgerðarleysis meirihlutans, sem aftur á móti þjáist minna en finnst þeir þjást nóg.
Það er ljóst að sökudólgarnir gefa sig ekki fram og kunna ekki að skammast sín. Þeim finnst allt í lagi að heiðarlegt fólk þjáist vegna þeirra, að líf hafa verið lögð í rúst. Það þarf að draga þetta fólk til ábyrgðar, vegna þess að það tekur ekki frumkvæði í að taka þá ábyrgð sem það bar og fékk greitt fyrir að bera.
Þessi grein varð til sem athugasemd við grein Jóns Baldurs Lorange: Vondum Íslendingum að kenna
Mynd: Creativity Works
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nokkrar útlitsbreytingar á Batman frá því að hann birtist í fyrsta sinn árið 1939 í Detective Comics # 27
11.8.2008 | 16:49
Þetta er löngu áður en hann var kallaður The Dark Knight, eða skuggalegi riddarinn. Fyrst var hann kallaður The Bat-Man. Í dag er hann stundum kallaður The Batman og oftast The Dark Knight.
Batman hefur lent í ýmsu um ævina, hann var meðal annars hryggbrotinn af vöðvatröllinu Bane og þurfti að húka í hjólastól í marga mánuði. Hann náði sér þó á endanum.
Batman eins og hann birtist í Detective Comics í dag, árið 2008. Eins og sjá má er hann að brjótast út úr myndasögunum og inn í aðra miðla með góðum árangri.
Áður en Batman varð skuggalegur riddari lék Adam West hann í sjónvarpsþáttum og skammaðist sín ekkert fyrir að vanta vöðva og vera með smá bumbu.
Nú þykir Batman vera frekar svalur gaur, og listamenn farnir að gera töff myndir af honum. Ég er ekki frá því að hann líkist vampíru á þessari mynd.
Og svona lítur hann út í bíó árið 2008. Hann tekur sig ágætlega út miðað við 69 ára gamlan kall.
Detective Comics fást hjá DC Comics
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Söngvari syngur með þremur eða fjórum röddum í einu!
28.3.2007 | 23:37
Dægurmál | Breytt 29.3.2007 kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)