Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Hellboy II: The Golden Army (2008) ***1/2

Hellboy II: The Golden Army er næstbesta ofurhetjumyndin sem af er sumrinu og mun betri en Hellboy (2004). Persónurnar eru orðnar dýpri en áður, samtölin eru góð og handritið afar vel uppbyggt. Tæknibrellurnar eru með því besta sem sést og jafnvast auðveldlega á við The Lord of the Rings og Star Wars, tæknilega og hugmyndafræðilega séð.

Ef einhver galli er á myndinn er það tempóið, en hún hikstar svolítið þegar hún ætti að renna, en á móti kemur að frumlegri kvikmyndir er erfitt að finna.  Ljóst er að Guillermo del Toro á stutt í það að vera stærsta nafnið í heimi kvikmyndaleikstjóra, og kæmi mér ekki á óvart ef The Hobbit sem kemur út 2011 og 2012 verði jafngóðar Hringadróttinssögunni hans Peter Jackson.

Kíktu á dýpri gagnrýni sem ég birti á Seen This Movie.

 


Hvort vildir þú verða heimsmeistari með liði eða sem einstaklingur?

Í hvaða íþrótt langar þig að vera heimsmeistari? 

 


20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 7. sæti: Star Wars

Fyrir löngu síðan, í stjörnukerfi langt langt í burtu...

Þannig hefst sagan, rétt eins og Grimms ævintýri. En við fáum miklu meira út úr þessari kvikmynd heldur en einfalt ævintýri. Þó að sögufléttan sé einföld, þá er söguheimurinn margbrotinn og flókinn, með litríkum og skemmtilegum persónum.

Til umfjöllunar er Star Wars, sem kom fyrst út árið 1977, en ég sá í Nýja bíói árið 1978, þá átta ára gamall og varð uppfrá því augnabliki kræktur í heim kvikmyndanna. Þá hét hún bara Star Wars og ekkert annað. Ekki eins og í dag, en nú heitir hún víst formlega: Star Wars - Episode IV: A New Hope.

Á tjaldinu birtust meiri víðáttur en ég hafði áður ímyndað mér að væru mögulegar, geimflaugar á ferð og flugi skjótandi litríkum geislaskotum, og svo var það svalasta af öllu: geislasverðið. Svo má ekki gleyma tónlistinni sem er eitt af meistaraverkum eins mesta nútímameistara tónlistarheimsins: John Williams, sem hefur einbeitt sér að kvikmyndatónlist með frábærum árangri.

Heiti allra helstu persóna lagði ég strax á minnið og allir þekktu Svarthöfða (Darth Vader). Luke Skywalker var hetjan sem maður hélt með frá upphafi, og eignaðist hann ansi skrautlega vini á leiðinni frá því að vera bóndastrákur til að vera stríðshetja með uppreisnarmönnum gegn hinu illa keisaraveldi, sem hafði látað smíða geimstöð á stærð við tungl jarðar sem gat sprengt plánetur í tætlur með lítilli fyrirhöfn.

Það var vel þess virði að kynnast þeim Han-Solo, Obi-Wan Kenobi, R2-D2, C-3PO, Chewbacca og Leiu prinsessu.

Lestu fulla gagnrýni mína um Star Wars með því að smella hérna, en til gamans hef ég tekið mér pennanafnið Jonathan King þegar ég skrifa á ensku.

 

7. sæti: Star Wars

8. sæti: The Matrix

9. sæti: Gattaca

10. sæti: Abre los Ojos

11. sæti: The Thing

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


Hversu langt ertu til í að ganga til að leiðrétta mistök?

Þú uppgötvar að dásamlega eins árs gamla barnið þitt er ekki þitt eigið, heldur var börnum óvart víxlað á fæðingardeildinni. Mundir þú vilja skipta barninu fyrir þitt rétta barn til að leiðrétta mistökin?

 

Mynd: IMC Bintaro


Ef lyf hefði verið þróað sem læknar gigtveiki hjá 1% þeirra sem taka það inn, ætti að setja lyfið á markað?

Það er ekki 100% öruggt að lyfið sé skaðlaust öðrum sem taka það. Til dæmis gæti það valdið þunglyndi.

Umræður óskast. (Ath. þetta er dæmi, en ekki raunverulegt tilfelli)


Ef þú gætir valið að lifa við fullkomna hamingju í heilt ár, en eftir árið ekki munað neitt, mundir þú velja það?

Ef ekki, af hverju ekki?

The Stand - Complete, Uncut (2001) Stephen King **1/2

Efnavopn í þróun hjá bandaríska hernum losnar úr læðingi og drepur meirihluta mannkyns. Örfáir einstaklingar eru ónæmir fyrir sjúkdómnum, sem annars drepur allar aðrar manneskjur á fáeinum dögum, og líka skepnur sem hafa lifað í nánum samvistum við fólk.

StephenKing2Við fáum að fylgjast með ævintýri hinnar óléttu Fran Goldsmith, hins hljóðláta Texasbúa Stuart Redman, rokksöngvaranum Larry Underwood, samfélagsfræði-kennaranum Glen Batemenn, hundinum Kojak, hinum heyrnarlausa Nick Andros, hinum þroskahefta Tom Cullen sem stafar öll orð eins, sem M-O-O-N, spákonuna Abagail Freemantle og illmennunum sem eru kannski ekki alill barnaskólakennaranum Nadine Cross, unglingnum snjalla Harold Lauder, brennuvarginum geðveika Trashcan Man, og yfirpúkanum Randall Flagg.

Sögupersónurnar eru skemmtilegar og ljóslifandi, en sagan snýst um keppni milli þessara tveggja hópa um að vera fyrst til að koma sér fyrir og undirbúa sig fyrir stríð. Randall Flagg er vera úr helvíti sem sameinar veikgeðja fólk og glæpamenn saman gegn hinum venjulegu, þeim sem vilja einfaldlega lifa í sátt og samlyndi.

Hetjurnar falla hverjar á fætur annarri, þar til aðeins örfáar þeirra eru eftir, en það sem skilgreinir þá sem hetjur er að þeir eru til í að berjast fyrir sátt og samlyndi gegn hinum illa her Randall Flagg, sama hvað það kostar. 

Rambowallpaperkr8Sagan er alltof löng fyrir efnið og verður frekar langdregin þegar í ljós kemur að engin sérstök dýpt liggur á bakvið söguna, að þetta er einfaldlega saga sem varar okkur við að vera svo heimsk að leika okkur að efnum sem við höfum ekki fulla stjórn á. Að við ættum að bera meiri virðingu fyrir náttúrunni og vera þakklát fyrir það sem við höfum, í stað þess að sífellt kvarta yfir því sem við höfum ekki.

Þegar hasar færist í leikinn, sem er reyndar alltof sjaldan, þá er King í essinu sínu. Honum tekst að lýsa á afar myndrænan hátt hvernig hlutirnir gerast, og með slíkri nákvæmni að maður finnir fyrir þunga hvers höggs, lendingu hverrar byssukúlu, og broti hvers beins. Stephen King er frábær sögumaður, en því miður er The Stand barn síns tíma, og engan veginn sú klassík sem maður hefur heyrt fólk segja að hún sé. Hins vegar getur vel verið að gamla útgáfan sé betri. 

Eitt atriði fannst mér svolítið skondið, en það var þegar tvær af aðalhetjunum komu sér upp kvikmyndasal og horfðu á kvikmyndina Rambo 4, þar sem Rambo barðist gegn dópsölum. En eins og allir vita kom Rambo út núna í ár og hann barðist ekki gegn dópsölum, heldur mannræningjum. Bara svona til að rétt sé rétt. King hefur vafalaust haldið að Stallone færi aldrei út í að gera framhaldið árið 1991, þegar Stallone var orðinn 55 ára og ferill hans í ljósandi lögum þar sem hann gerði enga mynd árið 1999, og síðan hinar slöku Get Carter árið 2000 og hrykalegu lélegu Driven árið 2001. Hvern hefði grunað að Stallone ætti eftir að slá aftur í gegn með Rocky Balboa og Rambo árin 2007 og 2008? StephenKing1

Árið 1978 gaf Stephen King út The Stand í fyrsta sinn. Fjöldi lesenda hélt varla vatni yfir ritverkinu og hefur það verið dásamað í þá þrjá áratugi sem liðið hafa síðan það var fyrst gefið út.

Árið 2001 var The Stand endurútgefin. Sögusviðið var ekki lengur 8. áratugur 20. aldar, heldur 9. áratugurinn og um 400 blaðsíðum hafði verið bætt við til að lesendum gæfist tækifæri til að kynnast persónunum betur.

Ég las aldrei upprunalegu útgáfuna, en kláraði í dag endurútgáfuna sem telur 1153 blaðsíður. Ég var frekar vonsvikinn með söguna, rétt eins og kvikmyndina The Happening (2008), sem kom út um daginn. Hún byrjar mjög vel en leysist svo upp í miðjumoð og verður aldrei neitt neitt, alveg til enda. En þá veit maður það þó.

 

Myndir: 

Kápa af The Stand og Rambo veggspjald: Wikipedia

Skopmynd og ljósmynd af Stephen King:  Apotheosis


Spurning 3: Ef þú vissir að þú myndir deyja í kvöld án möguleika til að hafa samband við nokkurn mann, hverju myndirðu mest sjá eftir að hafa ekki gert í lífinu?

Af hverju hefurðu ekki þegar framkvæmt þetta?

Eitt af því sem mér finnst undarlegt í sambandi við eftirsjá, er að við erum líklegri til að sjá eftir því sem við höfum ekki gert, heldur en því sem við höfum gert í lífinu?

Hvað ætli það sé sem heldur aftur af okkur? Hvað er það sem kemur í veg fyrir að við gerum það sem okkur langar til að gera í lífinu?

Binda fyrst og fremst siðferðilegar takmarkanir, lög og reglur, bundið okkur frá því að gera það sem okkur langar til, eða er takmarkanir hugsanlega frekar að finna innra með okkur: feimni og ótti við mögulegar afleiðingar, þessi blessuðu hvað ef sem kveikja í ímyndunaraflinu og gera ímyndaða framtíð myrka og ómögulega, eða kannski bara leti?

depressionHvort sem það eru ytri eða innri takmarkanir sem stoppa okkur frá því að gera það sem okkur langar að gera, þá getur verið ágætt að velta fyrir sér hvað það er sem okkur langar að gera áður en það verður of seint.

Ég sé sem betur fer eftir litlu sjálfur, enda hef ég stokkið á eftir ástinni víða um heim og gert það sem mig hefur langað til að gera, einnig tók ég þá ákvörðun sem unglingur og hef staðið við hana að lifa ekki eftir hefðum sem ég sé ekki betur að séu tómar og innihaldslausar. Fyrir vikið hefur veröldin gefið mér viðburðarríkt líf og ég hef fengið að sjá hluti og upplifa sem ég hefði aldrei gert með því að vera kyrr í kotinu heima á Íslandi, og í stað þess að losa mig við byrgðar heimsins, safnað að mér hlutum til að standa traustari fótum á þessari fljúgandi jarðskorpu sem við byggjum.

Eftirsjá er þegar okkur líkar illa við eigin gerðir og hegðun úr fortíðinni. Þegar við upplifum eftirsjá fáum við tækifæri til að móta með sjálfum okkur hvernig við munum bregðast við sams konar vali í framtíðinni - þannig getum við undirbúið okkur fyrir framtíðina með því að móta okkar eigin viðhorf og skoðanir, með víðtækri þekkingu, til að breyta vel í framtíðinni, því að á hverri stundu í lífinu gerum við aðeins það sem við trúum að sé gott, og ef við vitum ekki hvað hið góða er, gætum við allt eins vegna okkar eigin vanþroska gert illt.

shameDæmi um tilfinningarnar sem fylgja eftirsjá eru dapurleiki, skömm, sektarkennd, eða blygðun. Dapurleika má ekki rugla saman við þunglyndi, en þunglyndi hefur ekkert endilega neitt að gera með fyrri verkum eða heimsmynd, heldur er sjúkdómur sem getur herjað á fólk af líffræðilegum ástæðum.

Ég hef fyrir löngu síðan tamið mér að gera það sem ég trúi að sé rétt, og komið mér í vandræði fyrir vikið, sem ég hef eftir á að hyggja verið stoltur af. Hefði ég ekkert gert á sumum augnablikum í lífi mínu, hefði ég sjálfsagt séð eftir að hafa ekki gert það sem ég hefði átt að gera. 

Sjálfur sé ég ekki eftir neinu. Hins vegar væri ég ansi svekktur að deyja áður en The Hobbit kemur út í bíó. Ætli megi ekki kalla það forsjá frekar en eftirsjá?

 

 

Myndir: 

Norsk stytta: G8

Maður á gangi yfir hafið: Bloggin' in the 'Brary

Ljón sem kann að skammast sín:  Intellectual vanities... about close to everything


20 bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 8. sæti: The Matrix

Í áttunda sætinu yfir bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum er mynd sem gengur upp í alla staða: sagan er frjó og skemmtileg, tæknibrellurnar voru byltingarkenndar, slagsmálaatriðin með því flottasta sem maður hefur séð og pælingar þannig útfærðar að maður fær tækifæri til að pæla í eðli eigin þekkingar á heiminum og manni sjálfum.

The Matrix gerist eftir um það bil 100 ár, hugsanlega fleiri eða færri. Vélar með gervigreind ráða yfir jörðinni og aðeins ein mennsk borg stendur eftir: Zion. Allt mannkyn fyrir utan þá sem hafa verið frelsaðir og búa í Zion, sem er staðsett djúpt í iðrum jarðar, þjóna aðeins einum tilgangi fyrir vélarnar: að vera rafhlöður til að knýja heim vélanna.

Manneskjum er haldið sofandi allt sitt líf og þær eru tengdar inn í sýndarveruleika sem er það trúverðugur að flestir trúa að þeir lifi í honum. Ef ekki væri fyrir hóp uppreisnarmanna sem leita að frjálsum sálum í sýndarveruleikanum væri mannkynið glatað. 

Morpheus (Laurence Fishburne) leiðir rannsóknarhóp á könnunarskipinu Nebuchadnezzar í leit að hinum eina sem spáð er að muni geta brotið lögmál sýndarveruleikann. Morpheus hefur augastað á unga tölvuhakkaranum Neo (Keanu Reeves), sem telur sig vera forritara í hugbúnaðarfyrirtæki, en er í raun og veru sofandi djúpum svefni sem batterí á víðum velli sem vélarnar stjórna.

Tölvuforrit að nafni Agent Smith (Hugo Weaving) er helsti óvinur þessara síðustu frelsistilburða mannkyns, og reynir hann að einangra alla þá sem tengjast sýndarveruleikanum að utan og drepa þá, því ef sál þín deyr í sýndarveruleikanum, deyrðu í veruleikanum. Smith hefur ás í erminni þar sem svikari felst í áhöfninni.

thematrix01

The Matrix er spennandi mynd með krefjandi hugmyndir. Sem heimspekikennari kannast ég við ansi margar hugmyndir úr heimspekisögunni, eins og til dæmis hellislíkingu Platóns, hugleiðingar Descartes, eindarhyggju Spinoza, efahyggju, tilvistarhyggju og fleira. 

Ég hef greint The Matrix enn dýpra á Seen This Movie! Smelltu hérna til að kíkja á greinina.

 

8. sæti: The Matrix

9. sæti: Gattaca

10. sæti: Abre los Ojos

11. sæti: The Thing

12. sæti: Brazil

13. sæti: E.T.: The Extra Terrestrial

14. sæti: Back to the Future

15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black


Spurning 2: Trúir þú á drauga eða illa anda?

Værir þú til í að dvelja, án félagsskapar, eina nótt í fjarlægu húsi þar sem talið er að sé draugagangur?

Út wikipedia:  

Draugar eru sagðir vera birting manneskju, sem líkist oft í útlit þeirri manneskju, og fyrirfinnst oftast á stöðum sem hún eða hann umgekkst mikið, eða í tengslum við fyrrum eigur. Orðið "draugur" getur einnig átt við um anda eða sál látinnar manneskju, eða um hvaða anda sem er eða ára. Draugar eru oft tengdir við draugagang. 

Trú á drauga er hverfandi og virðist minnka stöðugt á hverju ári. En samt er eitthvað sem heillar okkur við draugasögur og af einhverjum ástæðum skiljum við hugmyndina um drauga strax, án þess að þurfa útskýringar við. Það er eins og við vitum af þeim, en þar sem þeir passa ekki inn í skynsemisheim okkar, dettur okkur ekki í hug að trúa á þá, og eigum auðvelt með að neita tilvist þeirra, því slík tilvist hefur aldrei verið vísindalega sönnuð, og reyndar ekki afsönnuð heldur, því að hugtakið sjálft: "vísindaleg sönnun" er trúarhugtak sem á ekki við um vísindi.

Sú trú að draugar séu sálir kemur frá hinni fornu hugmynd um að sál sé í öllum hlutum, og þannig tengist allt í heiminum saman. 

Í bókmenntum, bæði skáldskap og trúarritum, hefur oft verið rætt um drauga. Til dæmis hin forna egypska "Bók hinna dauðu," sem fyrst var birt úr árið 1842. Í Hómerskviðum fer Ódysseifur til heljar og aftur til baka, en í hel hinnar grísku goðafræði færir bátsmaður sálirnar yfir fljótið Styx. Jesús er sagður hafa risið upp frá dauðum og sýnt einum af lærisveinum sínum örin eftir krossfestinguna, og faðir Hamlets í hinu fræga verki Shakespeare hrundi atburðarrás í gang til að fá Hamlet til að hefna dauða síns. Einnig kannast margir við kvikmyndina Ghost, þar sem að myrtur maður ákveður að vera áfram til í formi draugs til að vernda konu sína frá sömu glæpamönnum og myrtu hann

Þurfum við að vera trúuð á Guð til að geta trúað á verund eða tilvist drauga?

styx

Talað er um að gera eitthvað í anda siðmenningar, í anda laganna, í anda látins vinar eða ættingja, - eru þetta orðin tóm eða er einhver andi eða draugur þarna í raun og veru til staðar?

Síðan amma mín lést fyrir rúmum 10 árum hefur mér fundist hún stöðugt vera með mér, hvert sem ég hef farið. Og hvað sem ég geri, þá þekki ég og man hana sem viðmið hins góða, sem ég hef kynnst af dýpt og eigin raun. Þegar ég skrifa þennan texta og hugsa til hennar, þýðir það að hún sé enn til staðar, eða eru þetta bara minningar eða hugarburður?

Hvernig vitum við hvort að það sem við hugsum, ímyndum okkur, munum og dreymum sé til eða ekki? Hvernig getum við flokkað af nákvæmni allt sem er til og allt sem er ekki til? Hvernig þekkjum við þennan greinarmun?

Ég tel mig hafa séð draug. Góð vinkona eiginkonu minnar á föður sem var lögreglustjóri í Mexíkóborg. Hann átti strandhús í Acapulco. Við fengum það að láni. Þetta var 1995 og inn á milli heimspekirita las ég af mikilli áfergju vampírusögurnar hennar Anne Rice og hrollvekjur H.P. Lovecraft. 

Það var eitt kvöldið að ég sat við lestur. Konan mín hafði farið í háttinn, og það fór að hvessa. Húsið var reist fyrir ofan háa kletta og við höfðum útsýni yfir hafið. Hurð skall aftur og það var komið rok. Ég leit út um gluggað á hafið og sá eldingar brjótast fram úr skýjunum í fjarska. Það drundi í þrumum og sífellt færðist óveðurskýið nær. Ég fór niður tröppur, en klaufaðist til að sparka í eitt þrepið, og þar sem ég var í sandölum var þetta ansi sárt. 

Ég fór inn í herbergi til konunnar og hallaði mér við hlið hennar. Það leið dágóður tími, og ég hlustaði á þrumurnar og stöku sinnum lýstist herbergið upp í eldingum. Regnið dundi á rúðunum og það gnauðaði í vindinum. 

Þá fékk ég sterka tilfinningu um að einhver væri að fylgjast með mér. Ég leit upp og að dyragættinni, en það var enginn þar. Nokkrum mínútum síðar hrökk konan mín við og sagði mér að einhver væri í dyrunum, ég leit upp og sá mann standa í gættinni, en samt ekki manneskju því að ég sá í gegnum hana. Þá kom þruma og elding, og birtingin var horfinn. Ég fór fram úr til að athuga hvort einhver annar væri í húsinu. Það var enginn annar en móðir tengdamóðir mín, sem svaf inni í herbergi hjá sér.

Næsta dag sagði konan mín mér frá því að lögreglustjórinn sem átti húsið kæmi aldrei í það lengur, því að þetta var uppáhaldsstaður eiginkonu hans, sem hafði látist í hörmulegu bílslysi nokkrum árum áður. Þess í stað lánaði hann vinum sínum húsið. Ég spurði hana hvort hún héldi að þetta hafi verið draugur. Hún gat ekki svarað því.

ghost

Ég segi ekki þessa sögu til að sannfæra einn eða neinn um tilvist drauga, enda er ég sjálfur mikill efasemdamaður um tilvist þeirra, en ég get ekki annað en velt þessu fyrir mér með opnum hug, þar sem að ég hef upplifað svona furðulegt augnablik - og reyndar eru þau fleiri, en ég tel nóg að segja frá einu að sinni.

 

Myndir:

Draugamynd: Famous and Classic Ghost Pictures

Egypsk mynd: Wikipedia grein um Bók hinna dauðu.

Bátsmaðurinn á Styx: Science Fiction and Fantasy Art

Jesús og Tómas: Thoughts on God and Life

Draugurinn úr Hamlet:  Michael Goodlife: Wartime Shakespearean Actor and Producer

Úr kvikmyndinni Ghost (1990): Squidoo.com

 

 

Svarið endilega könnuninni hérna til vinstri á síðunni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband