Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Hvað gerir þú þegar þú hefur ekkert að gera?


Stolið úr eigin athugasemdum frá færslu gærkvöldsins, Lítum á björtu hliðarnar: 5 viskukorn...

Þegar ég hef ekkert að gera reyni ég að skilja heiminn örlítið betur, og er nokkuð innhverfur því að ég:

  • Reyni að átta mig dýpri hugsunum, bæði eigin og þeirra sem ég umgengst. Þoli illa spjall og baktal.
  • Tefli til að átta mig betur á rökhugsun og mannlegum karakter.
  • Les til að víkka sjóndeildarhringinn. Les skáldsögur af sama tilgangi og ég horfi á kvikmyndir.
  • Skrifa til að koma reiðu á eigin pælingar. Með slíkum pælingum dýpkar oft á skilningnum.
  • Horfi á kvikmyndir og hugsa um þær til að átta mig betur á eðli sögunnar, hvort sem er mannkynssögunnar, sögum úr lífi okkar eða lífið allt.
  • Bý til vefsíður.
  • Reyni að átta mig á hvernig hægt sé að bæta heiminn aðeins, og reyni að skilja hvernig við getum gert betur.
  • Stundum slæ ég þessu upp í kæruleysi og geri eitthvað allt annað, eins og til dæmis ekkert, en þá vakna bara nýjar hugmyndir.

Hvað um þig?

 

 


Lítum á björtu hliðarnar: 5 viskukorn

winzip

"Sá gefur mannkyni mikið sem getur komið hinum mestu reglum lífsins fyrir í stuttum setningum, sem auðvelt er að muna og birta svo í huganum öðru hverju."

Samuel Johnson

 

"Besta leiðin til að gera drauma þína að veruleika er með því að vakna."

Paul Valéry

 

Funeral1

"Við skulum lifa lífinu þannig að þegar við deyjum verður jafnvel umsjónarmaður útfarinnar miður sín."

Mark Twain

 

"Að tala um 'bara orð' er eins og að tala um 'bara sprengiefni'."

C.J. Ducasse

 

"Raunverulegt gildi einstaklings má finna í því sem hann gerir þegar hann hefur ekkert að gera."

Skilaboð frá Megiddo


Hvernig ætli þessir tveir stæðu sig við stjórn þjóðarskútunnar?

petersimpson.png

Samið við Breta og Hollendinga: uppgjöf eða lausn? Hver borgar skuldirnar?

Þessi færsla er öll frá Kristbirni H. komin, mér finnst hún þess virði að birta hana í heild sinni, en hún birtist sem athugasemd við síðustu grein minni fyrr í kvöld. Kristbjörn finnur til mikillar örvæntingar vegna skuldarinnar sem íslensk stjórnvöld samþykktu fyrr í kvöld og mikil reiði kraumar í þessu bréfi, en ég tel að hann hitti naglann á höfuðið þegar kemur að tjáningu tilfinninga, og að svona líði mörgum Íslendingum í dag.

Það er ljóst frá mínum bæjardyrum séð að uppgjöf kemur ekki til greina. Ég mun ekki leggjast í duftið og vonandi takast að rífa með mér í baráttu fyrir betri tímum og bjartari tíð þá sem vilja leita góðra leiða til framtíðar.


 

Sæll Hrannar. Þú afsakar að ég skrifi þér hérna nokkrar línur, mér er nú svo flökurt að ég veit vart hvað skal til  bragðs taka. Fyrir skammri stundu sá ég í fréttum að ríkisstjórn Íslands hafi samið við Breta og Hollendinga um uppgjöf í Icesave kúguninni. Þar var samþykktur óútfylltur tékki fyrir breska og hollenska innistæðueigendur gegn því að verðlausar eignir Landsbankans væru settar uppí. Ég, þú, íslenska þjóðin og ófæddir
afkomendur okkar eiga sem sagt að greiða fyrir stjórnleysi, eftirlitsleysi, fjármálaóreiðu, svik, þýfi, blekkingar örfárra einstaklinga og ráðherra.


Við erum ofurseld lýðskrumurum. Veitir enginn því athygli að í tilkynningu ríkisstjórnarinnar stóð að ekki væri vitað hver upphæði væri sem þjóðin þarf að greiða? Getur einhver viti borinn einstaklingur samið á þann hátt?


Myndi einhver semja við byggingameistara um að láta hann byggja hús fyrir sig og borga svo þegar húsið væri klárað, það verð sem meistarinn vildi fá?

Eru menn gengnir af göflunum hérna?

Með þessu er verið að segja: Bretar og Hollendingar beittu áhrifum sínum í IMF til að kúga okkur til uppgjafar. Ætli það sé búið að segja Geir Haarde það tvisvar? Hvað les maður í fréttum? Að umsóknin til IMF hafi gleymst!

Það var svo sorglegt að horfa á Spaugstofuna gera grín að þessu.

Vissulega finn ég til með breskum og hollenskum sparifjáreigendum og vil að þeir fái sínar innistæður. En ég ætla ekki að borga þær meðan Björgólfur Thor Björgólfsson á enn Actavis, fyrirtæki sem metið er á 600 milljarða króna! Eða Straum fjárfestingabanka! Eða Novator! Og ég ætla heldur ekki að borga innistæðurnar meðan Björgólfur Þór Guðmundsson á West Ham! Eða Eimskip! Og ég ætla heldur ekki að borga meðan Sigurður Einarsson og Heiðar Már þurfa ekki að greiða Kaupþing banka skuldirnar fyrir hlutabréfabrask sitt! Og ég greiði ekki krónu meðan Jón Ásgeir Jóhannesson kaupir hér hvern fjölmiðilinn af öðrum og á enn Bónus! Og ég greiði heldur ekki krónu meðan ríkisstjórnin greiðir 11 milljarða í Glitnissjóð 9 og reynir þannig að breiða yfir misgjörðir þeirra sem sátu í stjórn sjóðsins. Einhver myndi segja: Dýr mundi Illugi allur!

Ríkisstjórnin ætlast til að við greiðum skuldir þessara manna. En ég ætla ekki að greiða hana. Ég ætla að krefjast þess og berjast fyrr að eigur þeirra verði gerðar upptækar og notaðar til að greiða breskum og hollenskum sparifjáreigendum. Þurfi að leita þá uppi um víða veröld þá skal það gert. Ég læt börn þjóðar minnar ekki gjalda fyrir gjörðir örfárra einstaklinga og óvita í ríkisstjórn.

Með "samkomulaginu" er búið að viðurkenna aðför Breta á Landsbankann hafi verið fullkomlega réttmæt, þvert á það sem ráðamenn sögðu þjóðinni. Bretar hefðu aldrei tekið yfir Landsbankann ef þeir tryðu að eignir hans hefðu dugað vel fyrir skuldum. Það hlýtur því að liggja í augum uppi að eignirnar voru ekki nærri eins verðmætar og bankinn gaf upp. Hafi Bretar séð að eignir bankans hafi dugað fyrir innistæðum þá hefðu þeir aldrei gert aðför að bankanum. Bretarnir vissu að viðskiptaráðherra sagði þeim ósatt um ástand bankanna, bæði rétt áður en þeir hrundu og líka í vor þegar gjaldeyrir þjóðarinnar var að verða búinn. Hins vegar blekktu íslenskir ráðherrar þjóðina og tóku undir með fjárglæframönnunum og sögðu Breta vera vonda við þá. Ráðherrar Íslands létu taka sig í það ósmurt og virðist greinilega líka það. Þeir eru ekki að gæta hagsmuna minna né íslensku
þjóðarinnar og ég segi hér og nú að þeir sitja ekki í mínu nafni!

Getur einhver á þessari stundu, með réttu ráði, sagst vilja fara í ESB með þjóðum eins og Bretum og Hollendingum eftir álíka aðför og kúgun sem þeir hafa sýnt okkur? Samt hamast stjórnmálaflokkarnir við að breyta skoðunum sínum til að komast þar inn sem fyrst. Af hverju? Jú svo við fáum ekki að vita hve ástandið sé í raun alvarlegt.

Ég er búinn að fá nóg. Gjörsamlega nóg. Það er búið að ganga fram af mér. Ég er með óbragð í munni og sting í hjarta. Búið er að svipta mig ærunni útí hinum stóra heimi og nú stend ég einn. Ríkisstjórnin hefur svikið mig og selt börnin mín. Aldrei þessu vant er ég orðlaus, hjartað kramið og heilinn dofinn. En ég sver þess dýran eið að berjast með öllum tiltækum vopnum að falli ríkisstjórnar þeirrar sem sveik íslensku þjóðina og svipti hana hér með umboði mínu!

Kemur ríkisstjórnin með aðgerðarpakka fyrir heimilin sem tekið verður fagnandi?

Boginn hefur verið þaninn mikið og kominn tími fyrir langþreytta landsmenn af klassanum venjulegt fólk að fá góðar fréttir.

Þegar maður heyrir um aðgerðarpakka sem þennan veit maður ekki við hverju má búast, en þetta er það sem ég vona; að komið verði til móts við fólk með afgerandi hætti, þannig að það geti losnað undan ólánum sínum á stuttum tíma.

Þær leiðir sem ég sé fyrir mér eru þessar:

  • Niðurfelling verðtryggingar á húsnæðisólánum fyrir eitt heimili - þýðir að fólk sem skuldar í húsnæði getur aftur séð fram á bjarta tíma.
  • Auknar verðbætur sem hafa hlutfallslegt gilidi miðað við verð á húsnæði og þeim vöxtum sem verið er að borga af ólánum.
  • Aðgerðir vegna erlendra ólána - annað en sú hugmynd sem Lýsing hefur verið að kynna, sem felur í sér að frysting óláns til þriggja mánaðar kostar 7000 kall, það þarf að borga helminginn og að ólánstíminn lengist um þrjá mánuði.

Aðal málið finnst mér að finna leiðir sem gera duglegu fólki mögulegt að eiga þak yfir eigin höfuð, fararskjóta, skjólfatnað og mat. Og að það fái tækifæri til að byggja upp eigin velferð og velja úr kostum til framtíðar.

Þetta er mín von.


mbl.is Aðgerðaáætlun kynnt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Quantum of Solace (2008) **


Quantum of Solace er því miður frekar mislukkuð Bond mynd. Af þeim 22 kvikmyndum sem gerðar hafa verið um kappann, finnst mér þessi ein sú slakasta. Sumar þeirra hafa verið frekar slappar, eins og You Only Live Twice, með Sean Connery og sumar orðið frekar langdregnar vegna endalausra slagsmálaatriða, eins og síðasta Brosnan myndin, Die Another Day.

Bond (Daniel Craig) hefur handsamað einn af þrjótunum sem kallaður er Mr. White (Jesper Christensen) sem fengu unnustu hans Vesper Lynd til að svíkja hann í síðustu mynd. Við yfirheyrslurnar kemur í ljós að Mr. White tilheyrir leynisamtökum sem hafa komið fyrir fólki nánast hvar sem er, líka innan bresku leyniþjónustunnar. Lífvörður M (Judy Dench) er einn af þessum svikurum og hjálpar Mr. White að flýja. Bond ákveður að finna frekari upplýsingar um þessi leynisamtök og uppræta þau, ekki bara af faglegum ástæðum, heldur til að hefna dauða konunnar sem hann elskaði.

Slóðin leiðir hann til erkiskúrksins Mr. Greene, Dominic Greene (Mathieu Amatric) sem ætlar sér að steypa ríkisstjórn Bólivíu með hjálp CIA og tryggja sér 60% af vatnsbólum landsins, til þess að selja aðgang að vatni á uppsprengdu verði. Á leið sinni að Greene kynnist Bond Camille (Olga Kurylenko), bólivískum njósnara sem þráir ekkert heitar en að myrða hershöfðingjann sem Greene ætlar að koma til valda, en sá hafði misþyrmt og myrt fjölskyldu hennar.


Sagan lofar góðu og Daniel Craig er flottur Bond, sem hann sýndi og sannaði í Casino Royale, sem er ein af bestu Bond myndum sem gerðar hafa verið. Það sem klikkar í Quantum of Solace er ekki bara slök leikstjórn, heldur klisjukennt handrit þar sem vantar algjörlega smellnar línur fyrir Bond og skúrkana. Einnig er myndin svo hrikalega illa klippt að eitt atriði sem sýnir andlitssvip getur innihaldið þrjú snöggklippt skot. Klippingin er svo snögg að fá atriði öðlast eigið líf.

Hasaratriðin, sem oftast er aðalsmerki Bond ásamt frekar köldum húmor, eru því miður flest illa samsett þar sem erfitt getur verið að greina hvað er að gerast á skjánum, og hasarinn oft búinn án þess að maður hafi hugmynd um hvað var að gerast, og húmorinn því miður víðs fjarri.

Í upphafsatriðinu er Bond á bílaflótta undan vélbyssukjöftum, en maður hefur ekki hugmynd um hver er að á eftir honum, hvernig staðan er í eltingarleiknum og hvað Bond er að gera rétt til að losna við þrjótana.

Eitt verst útfærða atriði nokkurn tíma í Bond mynd á sér stað í óperuhúsi, en þar eltir Bond uppi fólk sem hann grunar að séu í einhverju samkrulli við aðalglæponinn, og drepur það á flótta þeirra út úr húsinu. Maður veit ekki hver fórnarlömbin eru og hugsanlega er það versta sem þau unnu sér til sakar að þau nenntu ekki að hlusta á óperuna.


Samt er eitt og eitt gott atriði inn á milli. Eina atriðið sem mér fannst verulega gott var þegar Bond er á flótta í flutningaflugvél undan herþotu í Bólivíu - en samt hafði það atriði ákveðna galla.

Þetta er óvenju slakur Bond, en samt skylduáhorf fyrir alla aðdáendur myndaflokksins. Það má segja að þessi Bondari sé að apa eftir Bourne myndunum með hröðum klippingum og fullt af hasarmyndum Jason Statham, sem reyndar hafa margar hverjar betri hasarútfærslu og snjallari handrit heldur en Quantum of Solace.

Það er náttúrulega líka ófyrirgefanlegt að myndin gefi ekki tóninn í upphafi með hinu klassíska Bond stefi þar sem við sjáum hann frá sjónarhorni byssuhlaups. Þar að auki er enginn Q, ekkert "Bond, James Bond" augnablik, og ekkert "Vodka Martini, Shaken not stirred" - þó að við kynninguna á Bond stúlkunni Strawberry Fields fáum við að heyra hið klassíska "Of course you are," en það hittir bara ekki í mark.

Quantum of Solace er því miður þunnur þrettándi, bæði sem Bond mynd og sem hasarmynd.

 

Leikstjóri: Marc Forster

Einkunn: 5 af 10


Heimilislíking Don Hrannars

 


 

Næst, sagði ég, berðu saman áhrif menntunar og skorts hennar á eðli okkar gagnvart reynslu eins og þessari: Ímyndaðu þér manneskjur sem búa í íbúum sem liggja inn af göngum upp tröppur, einnig eru stundum lyftur í þessum byggingum. Þetta fólk hefur búið þarna frá barnæsku, alltaf á sama stað, þar sem þau sitja uppi í sófa með háls og fætur hlekkjaða við vegg.

Allir hafa samt farsíma og fjarstýringu í höndunum, sem þau geta notað til að skipta um sjónvarpsrásir, velja bíómyndir eða sjónvarpsþætti, eða til að spila tölvuleiki á stórum flatskjá fyrir framan þau. Þau sjá aðeins fram á við, því þau eru bundin það rígföst að þau geta ekki litið til hliðar. Þau fara heldur aldrei út úr húsi.

Eina ljósið kemur frá sjónvarpsskjánum, sjálflýsandi tökkum fjarstýringarinnar og af smáskjá farsímans.  Ímyndaðu þér að það eina sem þetta fólk sér eru þessi þrjú tæki, og eina hljóðið sem það heyrir er einnig úr tækjunum. Þau geta haft samskipti hvert við annað gegnum símann, og reyndar hafa þau líka aðgang að Internetinu á skjánum, svo þau komast í tölvupóst og á Facebook.

Já, ég ímynda mér þetta.

Ímyndaðu þér líka að fréttatímar eru þvingaðir inn í dagskrána, þannig að fólkið neyðist allt til að fylgjast með sömu fréttunum. Stundum eru fluttar góðar fréttir, stundum vondar, en oftast samt nógu vondar fréttir til að fólk langi síður til að komast út úr íbúðunum og inn í heim ofbeldis og sturlunar.

Þetta er undarleg mynd sem þú lýsir og undarlegir fangar.

Þeir eru eins og við. Heldur þú að þeir geti séð hvern annan?

Hvernig ættu þeir að geta það ef höfuð þeirra hafa verið tjóðruð föst allt þeirra líf?

Hvað um hlutina sem birtast á skjánum? Er það sama ekki satt um þá?

Vissulega.

Og heldurðu að þegar þau tali saman gegnum netið og símann að þau noti ekki sömu nöfnin um hlutina sem þau sjá á skjánum?

Þau yrðu að gera það. 

Og þegar mynd af manneskju birtist á skjánum, myndu þau ekki halda að þetta væri alvöru manneskja og þegar hún talaði að hún væri að tala til þeirra?

Það myndu þau sjálfsagt gera.

Þannig að fangarnir myndu trúa á allan hátt að sannleikurinn væri ekkert annað en myndirnar og hljóðin sem berast þeim af skjánum?

Þeir myndu sannarlega trúa því. 

Hugleiddu þá, hvernig færi fyrir þeim ef fangarnir væru leystir úr fjötrunum og þeir læknaðir af fáfræði sinni, hvað ef eitthvað slíkt ætti sér stað. Hugsum okkur að einn íbúinn sé leystur úr fjötrunum og neyddur til að standa á fætur, snúa höfðinu, ganga og horfa til dyra, þaðan sem dauf birta berst. Fjarstýringin og síminn eru tekin af honum og slökkt á sjónvarpstækinu.

Segjum að fangaverðir drægju hann út um dyrnar, og hentu honum inn í lyftu sem skilaði honum á jarðhæð. Þegar lyftudyrnar opnuðust sæi hann út í fyrsta sinn á ævinni. Honum yrði illt í augunum, honum myndi svima, hann yrði ringlaður og ætti erfitt með að átta sig á öllu því sem hann sér í fyrsta skipti berum augum, undir sólinni.

Hann áttar sig á þegar hann lyftir steini að hann er ekki bara ímynd, heldur raunverulegur hlutur, rétt eins og hönd hans. Yrði hann ekki undrandi? Ef þú segðir honum að uppgötvun hans skipti engu máli, heldurðu að hann myndi trúa þér? Hann áttar sig á að allt hans líf hefur verið blekking, hann hefur aðeins séð myndir af veruleikanum en ekki upplifað veruleikann sjálfan. Ef þú spyrðir hann hvort væri sannara, það sem hann hafði áður séð og það hann sér núna, hverju myndi hann svara?

Að það sem hann sér núna væri sannara.

Og ef vörður neyddi hann til að horfa beint í sólina, myndi hann ekki fá ofbirtu í augum og yrði honum ekki illt? Myndi hann ekki vilja forða sér og flýja til hluta sem hann gæti séð, og frekar leitað til hluta sem hann getur snert en í flatskjái?

Það fer kannski eftir því hvað hann er að horfa á. Ef það er Braveheart eða James Bond...

Svaraðu mér af einlægni.

Jú, vissulega. Hann myndi leita í hlutina fyrst. 

Eftir að hafa horft í sólina um stund er fanginn blindur, en svo jafnar hann sig þegar fer að rigna í augu hans. Hann lítur í kringum sig og sér poll á jörðinni. Hann stingur tánni í pollinn og skelfur af fögnuði þegar hann sér vatnið bregðast við hreyfingunni. Tíminn líður og nóttin skellur á. Hann sér tunglið og stjörnubjartan himinn. Hann hefur verið heilt ár úti og áttað sig á hvernig sólin hefur áhrif á árstíðirnar, og áttar sig á hvernig hún virðist stjórna öllu lífi. 

Skiljanlega.

Nú hefur fanginn sloppið úr augsýn varðanna og áttað sig á að annað fólk eins og hann, mörg hundruð þúsund og jafnvel milljónir, eru hlekkjuð við veggi fyrir framan sjónvarpstæki, eins og hann var. Heldurðu að hann hefði áhuga á að bjarga þeim?

Auðvitað.

Segjum að fanganum takist að ná valdi á fréttastofu sjónvarpsins og segi fólki sannleikann, að það sem þau horfi á sé ekki veruleikinn, heldur lygar. Heldurðu að þau myndu trúa honum?

Líklega ekki.

Hvað ef hann hefði leið til að sanna mál sitt, með því að taka myndir af öllu því sem hann hefur séð og upplifað. Myndi það trúa að hlutirnir sem hann sýndi og segði þeim að væru snertanlegir, væru það í raun og veru?

Ég er hræddur um að þau gætu ekki gert það sér í hugarlund, án þess að hafa haft slíka reynslu. Það þyrfti mjög sérstaka manneskju til að trúa ekki því sem hefur virst eini möguleikinn allt lífið. 

Verðirnir umkringja sjónvarpsstöðina, aftengja hana, ná fanganum og hlekkja hann aftur við vegg. Hann fær aftur fjarstýringu og farsíma, og enn flottari flatskjá. Heldurðu að hann muni reyna að losna úr prísundinni aftur og frelsa alla hina?

Vissulega.

Gæti hann nokkurn tíma sannfært fólkið, þó að hann hefði símasamband og netsamband, um að veruleikinn væri annar en það tryði?

Líklega ekki. 

Til hvers er ég þá að blogga þetta?

Í þeirri von að fleiri rumski?

 

 

 

 

Innblásari: Platón

Mynd: Worth 1000


bjartsýni.is: Margt gengur vel - verum bjartsýn

Verið er að útbúa vef, bjartsyni.is, þar sem safnað er saman sögum, hugmyndum og ábendingum um góðan árangur í atvinnulífinu, spennandi verkefni og vænlegar leiðir á komandi tímum.

Hugmyndin er að styrkja þá sem minna mega sín í baráttunni gegn efnahagskreppunni, þá sem tapa atvinnu eða eiga erfiðara um vik. Sögurnar sem birtast á vefnum munu fela í sér hugmyndir og innblástur sem fólk getur nýtt sér á eigin forsendum.

Leggjum sögur í púkkið og sendum sögur, tilkynningar og tækifæri á bjartsyni@bjartsyni.is.

Mörg af öflugustu fyrirtækjum landsins koma að gerð þessa vefs.

Sagan um bankaránið

Einu sinni, ekki fyrir langa löngu, á fjarlægri eyju úti á hafi réðist stór hópur bankaræningja inn í ekki bara einn banka, heldur alla banka og öll útibú eyjunnar. Allir afgreiðslukassar, peningaskápar og vörsluhólf voru tæmd.

Bankastjórinn, afgreiðslufólkið, millistjórnendur, viðskiptavinir og öryggisverðirnir vildu sporna við en var skipað að leggjast á magann með hendur yfir höfuð. Þeim var skipað að horfa í gólfið. Samt tóku sum þeirra eftir að einhverjir starfsmanna og viðskiptavina voru með í ráðum.

Bankaræningjarnir komust undan með þvílík auðævi að eyjan var skilin eftir gjaldþrota. Í stað þess að tilkynna viðskiptavinum um ránið, ákveða bankastjórnendur að halda fundi og stofna nefndir.

Þegar þeir átta sig á að það var ekki bara ráðist á eitt útibú, heldur öll, ákveða þeir að hafa samband við yfirvöld. Haldnir eru fundir yfir helgina með yfirvöldum, og kemur þá í ljós hversu alvarlegt ástandið er. Á mánudegi er tilkynnt að ríkisstjórnin muni taka yfir hluta af einum bankanna. Þeir segja ekki frá bankaráninu, enda trúa þeir ekki sjálfir að bankarnir hafi verið rændir, þeim finnst líklegra að kerfið allt í kringum þá hafi verið gallað. 

Þegar það spyrst út að hagkerfið sé gallað og bankar á eyjunni séu að fara á hausinn, sjá aðilar í fjarlægu landi sé leik á borði. Þeir vita að framið hefur verið bankarán á eyjunni, og vita að sjóðirnir eru tómir. Það er líka vitað að fjöldi manns hefur geymt peninga í þessum bönkum. Þar sem að eyjan er að taka vitlaust á þessum málum er um að gera að leggja í viðskiptastríð við hana. Best að loka öllum höfnum hennar og útiloka að hún geti fjármagnað sig upp á nýtt með því að stoppa allt peningaflæði til og frá henni, og ekki nóg með það - krefjast þess líka að allt verði borgað til baka - svona rétt eins og sanngjarnt er að gera við ótýndan glæpamann sem stolið hefur brauðsneið, stinga honum í fangelsi og hleypa honum ekki út fyrr en hann er búinn að borga fyrir allar þær brauðsneiðar sem horfið hafa án skýringa síðustu fimm árin.

Ástæða rangrar upplýsingagjafar eyjunnar eru náttúrulega þær að sumir bankaræningjanna eru meðal stjórnenda og þeim finnst betra að flækja málin með því að strá lygum hér og þar heldur en að eiga á hættu að upp um þá komist.

Þegar viðskiptavinir bankans átta sig á að þeir geta ekki tekið peninginn sinn út eða skipt gjaldeyri, fara þeir að spyrja hvað sé eiginlega í gangi. Þau fá svör, jafnloðin og ræsisrottur, um að nú þurfi allir að standa saman, allir séu á sama báti, og að bankinn þeirra sé gjaldþrota, og eitthvað af ævisparnaði þeirra hafi horfið.

Fólk trompast allt í einu innan í sér og ákveður að spjalla bara um þetta mál á kaffitímum og í hádegismat, blogga eitthvað um þetta líka og ákveða í framhaldinu að brenna nornina og hengja nautgripaþjófinn. Þau vita bara ekki almennilega hver nornin er og hver nautgripaþjófurinn. Það liggur beint við að ásaka bankastjórann fyrir að passa ekki nógu vel upp á peninginn, segja ekki strax satt frá og leyfa ræningjunum að komast undan. Bankastjórinn hefur verið stimplaður sem nautgripanorn.

Þar sem að allir bankastarfsmenn eru nú grunaðir um græsku fer ekki ein opinber rannsókn fram, heldur margar litlar sjálfstæðar rannsóknir, og Gróa blandar sér í rannsóknarhópinn, sem þýðir að uppgötvanir verða ansi svakalegar. Sífellt verður erfiðara að greina á milli sannleika og blekkinga, en í augnablikinu heldur alheimur allur að um tæknileg mistök hafi verið að ræða, á meðan sumir glotta í kampinn og sjá að á meðan fólk trúir að um tæknileg mistök hafi verið að ræða sér það ekki sannleikann. 

Framhald síðar...

Hvernig forgangsröðum við á krepputímum?

 

 

Nú er svo komið að fjöldi fólks er að missa vinnu, fjöldi fólks getur ekki borgað af lánum sínum - lánum sem eru jafnvel hófleg - rétt fyrir þaki yfir höfuðið og fararskjóta. Þetta fólk er að upplifa stjórnvöld sem lömuð og aðgerðarlaus, og finna ekki að verið sé að koma nægilega til móts við þau. En það er reyndar skiljanlegt, því að það er svo margt í gangi og mörg verkefni fyrir höndum.

Væri ekki tilvalið að forgangsraða verkefnum?

Verkefnin að neðan eru ekki í ákveðinni röð, en þú vilt kannski hjálpa til við að forgangsraða.

  • Finna bankaræningjana, reyna að fá peninginn til baka og hegna þeim.
  • Losna við ríkisstjórnina af því að hún virðist ekkert gera við ástandinu, kallaði þetta yfir fólkið og er að gera illt verra. (Ég trúi ekki endilega að þetta sé allt satt).
  • Reka seðlabankastjóra af því að hann byggði hagkerfið og hann gat ekkert gert við falli þess.
  • Koma á stöðugleika og forgangsraða síðan.
  • Finna leiðir fyrir fórnarlömb ránsins, þau sem eru að missa atvinnu og aðrar nauðsynjar.
  • Afnema verðtryggingu. Þýðir að eigendur tapi hluta af eigum sínum en kemur í veg fyrir að skuldarar fari á hausinn.
  • Mótmæla á laugardögum kl. 15:00 eða 16:00, og beina mótmælunum gegn einstaklingum frekar en að hafa þetta málefnalegt.
  • Mótmæla á laugardögum kl. 15:00 eða 16:00, og mótmæla málefnalega frekar en gegn einstaklingum.
  • Leggjast í þunglyndi og gera ekki neitt.
  • Flýja land.
  • Blogga um þetta og vona að það sé hlustað.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband