Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Aðeins um kennara

Sú skoðun heyrist stundum að laun kennara ættu að felast í því að geta látið gott af sér leiða. Að baki þessari skoðun virðist sú trú að kennari sé einhvers konar píslarvottur, munkur, nunna eða heilög vera sem lifir á loftinu og góðviljanum einum saman. Veruleikinn er hins vegar sá að kennarinn er manneskja af holdi og blóði. Og þessar manneskjur mynda heila stétt.
 
Þeir kennarar sem ég þekki (get ekki talað um hina sem ég hef aldrei kynnst) völdu að fara í kennslu því þeir vilja láta gott af sér leiða fyrir nýjar kynslóðir og samfélagið, og þeir njóta þess að fræða aðra á áhugaverðan hátt um þekkingu sem erfitt getur verið að nálgast, - þekkingu sem sjaldan birtist í sjónvarpi eða á léttmiðlum netsins, auk þess að stuðla að auknum þroska og heilbrigðri samfélagsvitund nemenda. Eðlilega trúa kennarar á meðan þeir eru í námi að samfélagið muni sýna slíkum göfugum vilja virkan stuðning. 
 
Síðan kemur sjokkið, eftir að kennarar hafa fengið sinn fyrsta launaseðil, að þeir sjá að þeir fengu kannski hærri laun í skúringarvinnu með náminu, eða í sjoppu, eða á bensínstöð. Ég veit af kennurum sem hættu strax og þeir gátu þegar þeir fengu þær upplýsingar að launin voru ekki vitlaust reiknuð. Og þetta voru manneskjur sem höfðu lagt á sig margra ára nám fyrir starfið. Að sjálfsögðu var þeim vel tekið á almennum vinnumarkaði þar sem launin eru auðveldlega tvöfölduð fyrir hæfileikaríka einstaklinga.
 
Og svo sjá þeir að fólk með sambærilegt nám fá líka mun hærri laun. Þar sem að kennarar eru lifandi fólk, sem þarf að borga undir sig húsnæði, fatnað og mat, þurfa þeir að fá laun sem gefa þeim tækifæri til að lifa af. Þess laun sem kennarar fá þýðir að þeir geta átt erfitt með að ná endum saman. 
 
Þó að þeir vinna mikla yfirvinnu í undirbúningsvinnu, hanni námsefni án aðstoðar, vinni samviskusamlega að því að skila af sér góðu verki, og fari yfir verkefni um kvöld og yfir helgar, fá þeir ekki borgað eina krónu aukalega fyrir alla þessa aukavinnu. Það er frekar sorglegt.
 
Ég vil votta íslensku kennarastéttinni djúpa virðingu mína og ég vil þakka kennurum fyrir að huga að framtíðinni, nokkuð sem alltof fáar starfstéttir gera í raun. Kennarar fá minn stuðning og ósk um að þeir fái mannsæmandi laun, þar sem þeim er gert fært að einbeita sér að vinnu sinni og hugsjón frekar en að hafa fjárhagslegar áhyggjur sérhver mánaðarmót.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband