Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Jóhanna Sigurðardóttir í Kastljósi (2011) 1/2

Jóhönnu Sigurðardóttur var boðið í Kastljósviðtal, sem átti að vera gagnrýnið og þar sem fólk gat hringt inn til að spyrja spurninga. Smelltu hér til að horfa á viðtalið: Kastljós

En...

  • Spurningarnar þurftu að vera stuttar
  • Skellt var á spyrjendur á meðan þeir spurðu
  • Spyrjendur fengu ekki að fylgja spurningum sínum eftir þegar Jóhanna svaraði út í loftið

Sérstaklega fannst mér áhugavert hvernig skellt var á Andreu, formann Hagsmunasamtaka heimilanna, sem hafði greinilega undirbúið afar góðar spurningar. Jóhanna svaraði fyrri spurningunni, að hún ætlaði að taka við undirskriftarlista 1. október frá HH. Seinni spurningunni svaraði hún afar illa. Spurt var hvort hún hefði kynnt sér þær fjórar leiðir sem HH telja að geti lagfært skuldastöðu heimilanna. Í stað þess að svara þessu fór hún að tala um greiðslujöfnunarleiðir og hvað ríkisstjórnin hafði gert rosalega mikið í þessum málum, að bankarnir hefðu ekki staðið sig nógu vel og blablíblablabla. BS fillterinn fór í gang.

Þegar hún var síðar spurð út í verðtrygginguna, fannst mér áhugavert að hún hugsaði bara um eina hlið málsins, virtist nákvæmlega sama um þá sem staddir eru í skuldafangelsi í dag, og virðist ekki skilja mikilvægi þess að leysa þetta fólk úr viðjum vandans. Þetta fólk verður að mæta á Austurvell kl. 9:30 1. október 2011 og gefa skýr skilaboð sem ekki er hægt að misskilja.

Jóhanna talaði aðeins um að bjóða upp á óverðtryggð lán til framtíðar, nokkuð sem hefur verið í boði, á fáránlegum vöxtum reyndar. Fjármagnseigendur eru vanir að græða gífurlega á lánum, og virðist þykja eðlilegt hversu ógurlega fólki blæðir fyrir vikið. Það þarf jafnvægi í þessa stöðu. Það að ganga í ESB og taka upp Evruna er ekki lausn fyrir þá sem eru á heljarþröm, því miður. Þetta verður Jóhanna að skilja, annars verður hún að víkja með öllu sínu liði.

Viðtalið við Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósi var drottningarviðtal. Tíminn var of stuttur til að fara djúpt í hlutina, og samræðufólki hennar hefði átt að vera gefið tækifæri til að fylgja eftir sínum spurningum. Þess í stað hagaði hún sér bara eins og svarteygð drottning, ekki eins og lýðræðislega kjörinn leiðtogi, sem virkilega hefur hag almennings fyrir brjósti.

Þetta var ömurlegt viðtal. Gef því hálfa stjörnu.


Fyrsti október 2011 og fyrsta mótspil ríkisstjórnar við fyrirhuguðum mótmælum?

Setningu Alþingis hefur verið flýtt til kl. 10:00 að morgni laugardags 1. október 2011.

Eins og ég hef spáð í fyrri pistlum mun ríkisstjórnin koma með ýmis útspil fyrir fyrsta október, til að draga kraftinn úr mótmælunum. Við getum reiknað með að minnsta kosti einu útspili í dag fram á laugardag. Vonandi fara stjórnmálamenn að fatta hversu miklu betra er að gera góða hluti vel, heldur en að flækjast fyrir ímynduðum andstæðingum.

Ætlunin sjálfsagt að eyðileggja fyrir áætlunum þeirra sem koma í mótmælin utan af landi, eða þeirra sem hafa skipulagt vinnuhelgina og miðað við að vera mættir í bæinn 13:30.

Spennandi að sjá hvað kemur næst og hvort þeim takist að kæla glóðirnar áður en eldurinn byrjar að loga.

Áhugavert að lögreglan muni ekki standa heiðursvörð. Hugsanlega vegna þess að það er engan heiður að verja meðal stjórnmálamanna á Íslandi í dag? Væri ekki ágætt hjá lögreglunni að standa heiðursvörð um fólkið í landinu og af fólkinu í landinu að standa heiðursvörð um lögregluna. Kominn tími til að snúa bökum saman.


mbl.is Flýta setningu Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og það var fyrir hundrað árum...

DRAUMUR

Í nótt í döprum draumi
jeg dvaldi, er ljósið hnje:
Í garðinum mínum greri
grænlaufgað rósatrje.

En reiturinn bjarti breyttist
í blómsnauðan kirkjugarð,
döggsæla draumlilju beðið
að djúpri gröf þar varð.

Af trjenu blærinn tíndi
tárhrein og mjallhvít blóm,
og laufin ljósgræn hrundu
með lágum, blíðum hljóm.

Jeg safnaði öllum saman
í silfurblikandi ker;
til foldar, fyr en varði,
það fjell úr hendi mjer.

Úr brotunum dreyrgar daggir
mjer dreyfðust um barm og kinn.
- Hvað þýðir hinn dapri draumur?
Ertu dáinn, ástvinur minn? -

 

- Steingrímur Thorsteinsson, Óðinn, 1911


Hvaða atvinnupólitíkusar eru á þingi í dag?

Eitt af stærstu vandamálum hins íslenska stjórnkerfis er atvinnupólitíkusar. Fólk sem lifir og hrærist í pólitík, lifir fyrir stjórnmál. Þetta fólk fer smám saman að trúa því að það sé ómissandi fyrir stjórnmálin og samfélag sitt, sem er að sjálfsögðu kolrangt, þó að vissulega sé hver og ein manneskja óendanlega mikils virði.

Ef hugsað er um grundvöll lýðræðis, þá hefur það verið skilgreint sem skásta kerfið af mörgum mögulegum en vondum stjórnkerfum. Grundvöllur lýðræðis er að sama manneskja á ekki að vera við völd of lengi, að eftir ákveðinn tíma sé hægt að kippa henni út. Þess vegna eru haldnar kosningar reglulega. Án kosninga væri lýðræði ekki mögulegt.

Ein manneskja ætti ekki að geta starfað sem pólitíkus í einu stjórnkerfi lengur en átta ár. Komist viðkomand á þing í tvö kjörtímabil, ætti hún ekki að geta gefið kost á sér í þriðja sinn. Það sama á við um setu í bæjar- og borgarstjórnum. Líka í félagsstörfum.

Þetta þætti mér eðlilegt. 

Hins vegar hafa atvinnupólitíkusar tekið yfir íslenska stjórnkerfið. Þetta er fólk sem virðist álíta eigin persónu ómissandi fyrir stjórn landsins, og þegar það gerist, þegar egóið verður stærra en markmiðin og áhuginn fyrir almannahag, verður viðkomandi stjórnmálamaður gagnlaus fyrir samfélagið. Þannig er það bara. Völd spilla. Algjör völd spilla algjörlega. Hjá því verður ekki komist.

Ég skilgreini atvinnupólitíkus sem þann stjórnmálamann sem setið hefur í stjórn eins kerfis í meira en átta ár (íslenskt viðmið), eða minnst tvö kjörtímabil, auk þess að hafa hafið störf á sínu þriðja kjörtímabili eða níunda ári í sama stjórnkerfi.

Töflurnar fyrir neðan sýna úttekt á íslenskum þingmönnum. Úttektin er gerð 24. september 2011. Hægt er að nálgast upplýsingarnar á althingi.is. Ég flokka viðkomandi sem atvinnuþingmann, ekki atvinnuþingmann, eða á síðasta snúningi og mæli ég það einungis eftir fjölda ára frá því að þingmaður var fyrst á þingi, sem aðalþingmaður eða varaþingmaður, eða forseti þings. Ég tel atvinnustjórnálamenn óhæfa og ekki treystandi til heiðarlegra verka í stjórnmálum lýðræðislegs samfélags, þó að vissulega geti verið undantekningar frá reglunni.

 

 Atvinnustjórnmálamenn á þingi:

StjórnmálamaðurÁ þingi frá Samtals ár á þingi
Flokkur
Jóhanna Sigurðardóttir (JóhS) 197833Samf.  
Einar K. Guðfinnsson (EKG) 198031Sjálfstfl.  
Árni Johnsen (ÁJ) 198328Sjálfstfl.  
Steingrímur J. Sigfússon (SJS) 198328Vinstri-gr.  
Álfheiður Ingadóttir (ÁI) 198724Vinstri-gr.  
Björn Valur Gíslason (BVG) 199021Vinstri-gr.  
Össur Skarphéðinsson (ÖS) 199120Samf.  
Þuríður Backman (ÞBack) 199219Vinstri-gr.  
Lilja Rafney Magnúsdóttir (LRM) 199318Vinstri-gr.  
Ásta R. Jóhannesdóttir (ÁRJ) 199516Samf.  
Mörður Árnason (MÁ) 199516Samf.  
Pétur H. Blöndal (PHB) 199516Sjálfstfl.  
Siv Friðleifsdóttir (SF) 199516Framsfl.  
Ögmundur Jónasson (ÖJ) 199516Vinstri-gr.  
Vigdís Hauksdóttir (VigH) 199615Framsfl.  
Guðlaugur Þór Þórðarson (GÞÞ) 199714Sjálfstfl.  
Björgvin G. Sigurðsson (BjörgvS) 199912Samf.  
Jón Bjarnason (JBjarn) 199912Vinstri-gr.  
Kristján L. Möller (KLM) 199912Samf.  
Þorgerður K. Gunnarsdóttir (ÞKG) 199912Sjálfstfl.  

 
 

Áhugastjórnmálamenn á þingi, en á síðasta snúningi:

StjórnmálamaðurÁ þingi fráSamtals ár á þingi
Flokkur
Birgir Ármannsson (BÁ) 20038Sjálfstfl.  
Birkir Jón Jónsson (BJJ) 20038Framsfl.  
Bjarni Benediktsson (BjarnB) 20038Sjálfstfl.  
Helgi Hjörvar (HHj) 20038Samf.  
Katrín Júlíusdóttir (KaJúl) 20038Samf.  
Atli Gíslason (AtlG) 20047Utan þfl.  

 

Áhugastjórnmálamenn á þingi:

StjórnmálamaðurÁ þingi fráSamtals ár á þingi
Flokkur
Eygló Harðardóttir (EyH) 20065Framsfl.  
Árni Páll Árnason (ÁPÁ) 20074Samf.  
Árni Þór Sigurðsson (ÁÞS) 20074Vinstri-gr.  
  Aðalmaður: Katrín Jakobsdóttir 20074Vinstri-gr.  
Guðbjartur Hannesson (GuðbH) 20074Samf.  
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (GLG) 20074Vinstri-gr.  
Guðmundur Steingrímsson (GStein) 20074Utan þfl.  
Höskuldur Þórhallsson (HöskÞ) 20074Framsfl.  
Illugi Gunnarsson (IllG) 20074Sjálfstfl.  
Jón Gunnarsson (JónG) 20074Sjálfstfl.  
Kristján Þór Júlíusson (KÞJ) 20074Sjálfstfl.  
Ólöf Nordal (ÓN) 20074Sjálfstfl.  
Ragnheiður E. Árnadóttir (REÁ) 20074Sjálfstfl.  
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (RR) 20074Sjálfstfl.  
Róbert Marshall (RM) 20074Samf.  
Valgerður Bjarnadóttir (VBj) 20074Samf.  
Ásbjörn Óttarsson (ÁsbÓ) 20092Sjálfstfl.  
Ásmundur Einar Daðason (ÁsmD) 20092Framsfl.  
Birgitta Jónsdóttir (BirgJ) 20092Hreyf.  
Davíð Stefánsson (DSt)20092 
Gunnar Bragi Sveinsson (GBS) 20092Framsfl.  
Jónína Rós Guðmundsdóttir (JRG) 20092Samf.  
Lilja Mósesdóttir (LMós) 20092Utan þfl.  
Magnús Orri Schram (MSch) 20092Samf.  
Margrét Tryggvadóttir (MT) 20092Hreyf.  
Oddný G. Harðardóttir (OH) 20092Samf.  
Ólína Þorvarðardóttir (ÓÞ) 20092Samf.  
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) 20092Framsfl.  
Sigmundur Ernir Rúnarsson (SER) 20092Samf.  
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (SII) 20092Samf.  
Sigurður Ingi Jóhannsson (SIJ) 20092Framsfl.  
Skúli Helgason (SkH) 20092Samf.  
Svandís Svavarsdóttir (SSv) 20092Vinstri-gr.  
Tryggvi Þór Herbertsson (TÞH) 20092Sjálfstfl.  
Unnur Brá Konráðsdóttir (UBK) 20092Sjálfstfl.  
Þór Saari (ÞSa) 20092Hreyf.  
Þráinn Bertelsson (ÞrB) 20092Vinstri-gr.  
Lúðvík Geirsson (LGeir) 20101Samf.  

 


Fyrsti október?

2002-2011

Þúsund rafrænir vasaþjófar stela úr vösum þjóðarinnar.

Ríkisstjórn er kollvarpað vegna aðgerðarleysis.

Ný tekur við.

Um stund. Svo er kosið aftur. Meirihluti vandans er kosinn aftur á þing.

Endurtekur sömu mistökin.

 

1. október 2011

Þúsund rafrænir vasaþjófar halda áfram að stela úr vösum þjóðarinnar.

Þjóðin rís á fætur og segir "Nei! Hingað og ekki lengra. Við viljum fá peninginn til baka! Við viljum heimili okkar lagfærð eftir árásina!"

Ríkisstjórnin segir að allt sé eðlilegt, ekkert sé hægt að gera og sýnir að hún hlustar ekki á fólkið.

 


Lögreglumenn eru líka þjóðin

1. október nálgast hægt og hljótt. Það má finna fyrir undiröldu sem virðist magnast með hverjum deginum sem líður. Sjálfsagt mun ríkisstjórnin koma með eitthvað útspil 30. september til að lægja öldurnar, með því að handtaka einhvern, eða henda brauðhleifum í hausinn á kjósöndum. Þeim hefur tekist það fyrr og engin ástæða til að trúa öðru en að þeim takist það aftur.

Það hefur vakið mig til umhugsunar hvernig lögreglumönnum hefur verið beitt sem einhvers konar vegg á milli þingmheims og almennings. Þá hefur lögreglan reynt að vernda báða hópana og tekist það með ágætum, með einhverjum undantekningum.

Lögreglumönnum er skylt að viðhalda lögum og halda reglu í samfélaginu. En hvað geta þeir gert þegar óreglan kemur frá sjálfu þinginu? Uppspretta óreglu á Íslandi í dag virðist tengd afar óheilbrigðum fyrirmyndum sem æska okkar hefur á þingi, og stuðningi ríkisstjórnar við fjármálakerfi sem er að draga lífsþróttinn úr fólki, smám saman. Ranglætið er yfirþyrmandi.

Enn heldur ríkisstjórnin að innganga í ESB leysi öll vandamál, og réttlætir þannig eigið aðgerðarleysi gagnvart heimilum landsins, því að ESB reddar bara málunum með tíð og tíma. Ljóst að Landsdómur fær ný verkefni eftir næstu kosningar.

Lögreglan, eins og aðrar stéttir, eru að upplifa það ranglæti sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Jafnvel forsetinn hefur gagnrýnt ríkisstjórnina og fengið ákúrur til baka frá þeim sem urðu fyrir gagnrýninni, en þakkir frá þeim sem finna fyrir stuðningi hans.

Þolinmæði almennings, sem og lögreglunnar, hlýtur að enda fyrr eða síðar. 

Spurningin er hvort endapunkturinn sé 1. október, þegar lögreglumenn snúa veggnum við og byrja að vernda fólkið gagnvart ríkisstjórn og þingheimi, í stað þess að vernda ríkisstjórn og þingheim gagnvart fólkinu. 

Það væri ánægjulegt að sjá lögregluna snúa augum sínum að þingheimi og virða fyrir sér þá ógn sem af honum stafar. Sú ógn er mun meiri en þegar hópur Íslendinga safnast saman til að þeyta eggjum.


mbl.is Íhuga að funda við setningu Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta grín?

strangelove-thumb-510x328-39094

Formúlan er þannig: ef þú átt sand af seðlum, þá er eðlilegt að þú bætir í bunkann með hvítflibbaglæpum. Því meira sem safnast í sarpinn, því erfiðara verður að sýna fram á að þetta sé eitthvað óeðlilegt. Svo borgarðu bara nógu mörgum og klókum lögfræðingum til að verja þig. Það er lítið mál, því þeir þurfa ekkert að vera neinir snillingar, bara klókari og fleiri en andstæðingarnir.

solaris-thumb-510x246-39106

Ekki stela nema þú getir borgað lögfræðingum til að verja þig. Annars færðu heldur betur að finna fyrir því. Í steinninn einhverja mánuði fyrir að stela brauðhleif. 

Og mundu að stærsti glæpur sem hægt er að fremja á Íslandi felst í að taka sér bankalán. Þar skrifarðu undir refsingu sem er verri en lífstíðarfangelsi. Fyrir að fremja morð siturðu inni í átta ár, en fyrir að taka bankalán siturðu úti í kuldanum næstu 40 ár.

bladerunner-thumb-510x227-39115

 

Myndir: Chicago Sun Times: Jim Emerson's Scanner Blog


mbl.is Ekkert athugavert við fjárfestingarstefnu Sjóðs 9
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar varstu fyrir 10 árum þegar árásin á tvíburaturnana var framkvæmd?

WTC-019S

Ég sá seinni flugvélina fljúga inn í bygginguna í beinni útsendingu á CNN, en var staddur í Merida, Mexíkó. Á sama tíma sendi systir mín mér skilaboð gegnum MSN frá Íslandi um atburðinn. Hvorugt okkar trúði eigin augum. Ég fór til New York mánuði síðar og upplifði þar Ground Zero.


Illska?

Er það illska...

...þegar fólk réttlætir verðtryggingu neytendalána, en slík lán breyttust í okurlán við hrun?

...þegar bankarnir græða gífurlega mikið á sama tíma fjölskyldur að tapa gríðarlega miklu, og það að erfiðar greiðslur heimila fari beint í bankana sem síðan nota þá í arðgreiðslur fyrir fólk sem þarf ekki á peningnum að halda?

...þegar ríkisstjórnin gagnrýnir að eðlilegt sé að þegnar eignist heimili?

...þegar ríkisstjórnin beitir sér fyrir inngöngu í ESB eins og það sé allsherjarlausn allra vandamála á Íslandi. Ég hef ekkert á móti ESB, en finnst andstyggilegt hvernig henni er beitt sem einhverri HALELÚJA lausn og FRELSUN til eilífðar og AMEN í augum Samfylkingar?

...þegar raddir einstaklinga virðast horfnar í klið þingkerfisins, sem kaffærir styrk hverrar einustu manneksju og gerir þær að hjólum í kerfisvélinni?

...þegar ráðist er að forseta Íslands með skipulegum hætti fyrir að tjá skoðanir sínar?

...þegar skoðanakannanir eru rangtúlkaðar?

...þegar ráðherrar komast upp með að hlusta ekki á einn eða neinn og gera það sem þeim sýnist?


Mér sýnist illskan mikil á Íslandi. Hún virðist eiga rætur sínar að rekja til valda- og peningagræðgi, umhyggjuleysi, skilngingsleysi og fáfræði.

Fyrir hrun var þessi illska elskuð. Við hrun opinberaðist hún þjóðinni. Nú spilar hún fyrir opnum tjöldum og vekur andstyggð hjá sumum, en áframhaldandi aðdáun hjá öðrum.

Helsti styrkleikur illskunnar felst í því hversu erfitt er að trúa á tilvist hennar.


Annað stærsta bankarán aldarinnar í gangi á Íslandi; hvar er Superman?

superman_kingdom_come

Nú grunar mig að annað rán sé í gangi. Það er svipað í sniðum og stærð. Sama fólkið stendur á bakvið það. Þegar menn komast upp með einn glæp, og græða gríðarlega, hvers vegna ættu þeir ekki að reyna aftur?

Fyrir rúmum þremur árum skrifaði ég greinina: Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? þar sem ég taldi augljóst að eigendur banka væru að ræna þá innanfrá. Til þess notuðu þeir gjaldeyrissveiflu og veika krónu. Sumum þóttu þessar hugmyndir mínar frekar fjarstæðukenndar, en fyrst hrunið og síðan rannsóknarskýrsla Alþingis staðfesti síðan þennan grun minn með nákvæmum upplýsingum. Enginn hefur verið handtekinn fyrir glæpinn og engum peningum skilað til baka.

Glæpurinn felst í ráni á mismunum í eignarfærslu frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju, eins og Marinó G. Njálsson lýsir vel í færslu sinni: Gott að Arion banka gangi vel, en eru tölurnar ekki eitthvað skrítnar?

Frá árinu 2007 hafa þúsundir íslenskra heimila þjáðst gífurlega vegna ranglætis frá hendi glæpamanna sem rændu og rupluðu banka innanfrá. Ákveðið var að bæta tjónið með því að lækka kröfur á húsnæðislán heimila. Það hefur verið gert að hluta til, en það lítur út fyrir að minnst 200 milljörðum hafi verið komið undan í stað þess að nota þá til að leiðrétta lánin, og þar með stórglæpinn.

Þess í stað eru þessir 200 milljarðar notaðir til að greiða eigendum bónusa vegna mikils hagnaðar, þannig að nú geta glæpamennirnir baðað sig í gullinu á meðan heimilum er viðhaldið sem mjólkurkú, þar sem þau hafa enn greiðsluvilja, vegna veikrar vonar um að réttlætið sigri að lokum.

Hins vegar virðist eina von fólksins gegn þessu bákni, ríkisstjórnin, vera hluti af vandamálinu. Viðskiptaráðherra lætur eins og allt sé í ljómandi lagi, að ekkert athugavert sé í gangi. Rétt eins og flokksbróðir hans í sama hlutverki sagði fyrir þremur árum. Fjármálaráðherra segir allt vera á uppleið. Rétt eins og fjármálaráðherra rétt fyrir hrun. Forsætisráðherra er hljóð eins og gröfin og þegar hún birtist talar hún helst um pólitík eins og hún sé eitthvað í skýjabökkum til vinstri og hægri. 

Ekki gleyma að gríðarleg lán voru tekin til að forða íslenska ríkinu frá gjaldþroti. Slíkar alþjóðlegar skuldir þarf að greiða til baka. Þær eru ekki niðurfelldar.

Með þessu áframhaldi stefnum við að feigðarósi. Með þessu áframhaldi er annað hrun óhjákvæmilegt.

Ég taldi í minni fávisku að vextir á lán í bönkum væru reiknaðir á ársgrundvelli. Síðar sýndist mér að það eina sem gæti útskýrt margföldunaráhrif lána væri að vextirnir séu reiknaðir á mánaðargrundvelli. Nú hefur hins vegar komið á ljós að þessir vextir virðast reiknaðir minnst daglega, þannig að húsnæðislán sem tekið var árið 2005 upp á 19 milljónir stendur í dag í 30 milljónum og með uppreiknaða vaxtavexti upp á allt að 6000 krónur daglega. Og venjulegar fjölskyldur eiga að geta borgað þetta okur!

Ég er rjúkandi reiður yfir þessu. Vildi óska að ég gæti hringt í lögregluna til að stoppa þessa augljósu glæpi, en það er enginn til staðar sem getur hjálpað. Jafnvel Seðlabankinn er hluti af vandanum. Hagsmunasamtök heimilanna sendu ósköp einfalda fyrirspurn um framkvæmd húsnæðislána, þar sem þau virðast ólöglega reiknuð, en sjálfur Seðlabankinn fór undan í flæmingi, svaraði spurningunni með að svara henni ekki í þrettán blaðsíðna skjali um eitthvað allt annað mál.

Sérstakur saksóknari er á kafi í gömlum máli og engar fréttir úr þeim bæ. Fjármálaeftirlitið virðist lamað. Efnahagsbrotadeild lögreglunnar hefur sameinast sérstökum þannig að þar eru starfsmenn sjálfsagt að aðlagast nýjum vinnustað, læra á Word upp á nýtt og svoleiðis, en enginn virðist þess megnugur að bæði sjá ránið sem er í gangi og stoppa það.

Á svona tímum getur maður ekki óskað annars en að eitthvað fyrirbæri eins og Superman væri til, einhver sem gæti stöðvað þetta ógeð og leiðrétt það sem úr skorðum er farið, og stungið glæpamönnunum í steininn þannig að þeir í það minnsta hætti að skoða umheiminn, að minnsta kosti um stundarsakir.

Er ekki komið nóg af taumlausri græðgi og glæpum?

Þarf sagan virkilega að endurtaka sig, aftur og aftur?

Höfum við ekkert lært?

superman_0002

 

 

Myndir: MTV Geek


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband