Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hvað er heimspeki?

Í morgun settist ég við tölvuna og bjó til nýja heimspekisíðu sem ég kalla Heimspekihandbók. En hún er wiki síða undir Heimspekiblogginu mínu. Ég hafði einhverja þörf til að skrá niður hvernig ég sé grundvöll heimspekinnar fyrir mér og býð einnig áhugamönnum í heimspeki til að taka þátt og bæta við greinum á síðuna langi þá til.

Þannig er inngangurinn:

 

Heimspeki

Heimspeki er ákveðið vinsamlegt viðhorf til hugsunar, þekkingar, lífsins, manneskja og heimsins, sem miðast að því að dýpka skilning og bæta dómgreind þess sem ástundar hana. Því fleiri sem ástunda heimspeki, því betra. Ein af grundvallarforsendum lýðræðissamfélags er að þegnar og stjórnendur hugsi skýrt og vel, og taki ákvarðanir byggðar á traustum rökum, og láti ekki blekkjast af mælskulist eða sannfærandi rökvillum. Hægt er að læra slíka hugsun með heimspekilegri ástundun. Kjarni virkar heimspeki er samræðan, hvort sem að henni er deilt í rituðu máli eða á fundum heimspekinga. Það er afar líklegt að heimspekingar sjái fyrirbærið heimspeki fyrir sér á ólíkan hátt, enda er hún tengd hverjum heimspekingi gegnum hans eigin uppgötvanir um heim og huga - og fléttuð inn í reynsluheiminn sem hluti af órjúfanlegri heild.


Rökfræði

Rökfræði er grundvallartæki heimspekilegrar hugsunar. Rökhugsun er fyrir heimspeking eins og hamar og sög fyrir trésmið. Meginmunurinn er hins vegar sá að hamar og sög beinast alltaf að ytra viðfangi, en meginviðfang rökfræðinnar er hún sjálf. Þannig að hugsun um rökfræði er einnig að miklu leiti eins og að horfa í spegil, þú getur áttað þig á ákveðnum útlínum, forsendum og lögmálum, en trúir þú þegar þú ert að horfa í spegil að þú sért að horfa á þig sem manneskju, þá gleymirðu að þú ert ekki að horfa á þig, heldur speglun á fleti. Þannig er rökhugsunin margbrotnari en þau lögmál sem við höfum uppgötvað, enda endurspeglar hún aðeins fyrirbæri, en er ekki fyrirbærið sjálft. Það er hins vegar vel þess virði að rannsaka takmarkanir og lögmál rökhugsunar, sem getur hjálpað einstaklingum að mynda sér traustari skoðanir um hvað sem er, svo framarlega sem það átti sig á því að þekking okkar á rökhugsun er ekki 100% áreiðanleg og af þeim sökum getum við haft rangt fyrir okkur, auk þess að okkur gæti hafa orðið á mistök innan leikreglna rökhugsunar.

 

Siðfræði

Siðfræði er grundvallartæki mannlegrar hegðunar og samskipta. Siðfræðin rannsakar hið góða og rétta, og reynir til dæmis að átta sig á hvort að eitthvað geti alltaf verið gott eða alltaf verið rétt, og hvort allt gott sé rétt, eða allt rétt sé gott. Málin flækjast fljótt þegar inn í spurningar um hið góða spinnast ólíkar skilgreiningar á því hvað hið góða er, og enn flóknara verður að finna eitt rétt svar, þegar við áttum okkur á því að öll trúarbrögð heimsins hafa reynt að svara þessari spurningu - og að trúarbrögð eru í raun leiðarvísir að hinu góða samkvæmt skoðun sem einhver leiðtogi trúarbragðanna hefur uppgötvað, annað hvort með dýpri sýn á lífið og tilveruna, guðlegri uppljómun, heilbrigðri skynsemi eða einhverjum snert af brjálæði. Heimspekingurinn veit að hann veit ekki, og getur því kafað dýpra í átt að góðum svörum, en hann veit að þegar eitt rétt svar finnst og það neglt niður af þrjósku sem eina rétta svarið, þá glatast þessi hæfileiki til að kafa dýpra.

 

Þekkingarfræði

Þekkingarfræði spyr hvort að við getum þekkt heiminn og sjálf okkur, og ef að við getum það, hvernig förum við að því? Þarna skiptast heimspekingar oft í tvær fylkingar, í þá sem telja þekkingu sprottna úr reynslu mikilvægari en þá sem sprottin er úr lögmálum hugans, og hina sem telja þekkingu frekar spretta úr lögmálum hugans en reynslu. Dæmi um lögmál hugans er þekking um hinn fullkomna hring, að 2+2 séu alltaf 4, og að piparsveinar séu alltaf ógiftir, en þekking úr reynslu væri hins vegar yfirfærsla af áreiti sem skynfæri okkar taka við. Það er kannski erfitt að skipta þessu svona upp í tvær ólíkar fylkingar, en þegar við spyrjum hvað sönn þekking sé og hvernig við fáum hana, flækist málið, sérstaklega þegar farið er að spyrja um hvernig heimurinn raunverulega er, hvað gerist eftir að við deyjum, hvað sálir séu, og hvort eilífð sé möguleg. Mig grunar að heimspekingur verði að vera á tánum þegar hann hugsi um ólíka hluti, og að það fari eftir viðfangsefni hvað á best við, eða hvort að bæði sé rétt. Það er vissulega hægt að deila um þessi mál til eilífðarnóns, sérstaklega ef tveir einstaklingar eru á ólíkri skoðun, en það er einmitt eitt af því sem heillar við heimspekina - hún gefur okkur alltaf færi á að kafa dýpra án þess að festa okkur við eina hugmynd.

 

Frumspeki

Frumspeki er sú grein heimspekinnar sem fjallar um hið mögulega og hið raunverulega, og með frumspekilegum rannsóknum fær sá sem ástundar hana tækifæri til að þroska viðhorf sitt til heimsins, með skýrari á takmarkanir okkar gagnvart heiminum. Það getur stundum verið ansi erfitt að greina þegar við hugsum um heiminn til dæmis hvort að heimurinn sé óaðskiljanlegur hluti af manneskjunni sem hugsar um hann, eða hvort að manneskjan sé óaðskiljanlegur hluti af heiminum. Þegar við áttum okkur til dæmis á hliðstæðum sjálfrar Jarðar og mannslíkamans, þá gætum við velt fyrir okkur hvernig þessu sambandi er háttað. Getur verið að Jörðin sé líkami mannkyns, og að hvert okkar sé aðeins lítil fruma í þessum líkama? Hvernig getum við haft áhrif þegar við sjáum að mannkynið hefur ákveðið að taka upp sjúklega áráttu, eins og að drekka eins og svín eða reykja eins og strompur - getur lítil fruma breytt því?

 

Fagurfræði

Fagurfræði er oft vanmetin grein heimspekinnar, en hún lítur að því sem vekur athygli okkar. Hvað er fegurð og getur það sem okkur finnst ljótt vera samrunið í fegurðarhugtakið? Fegurð er eitthvað sem við sjáum okkur neydd til að virða fyrir okkur og meta, hvort sem að það er einstaklingur eða atburður. Til dæmis vakti árásin á tvíburaturnana í New York 11.9.2001 mikla athygli, en okkur þykir erfitt að velta fyrir okkur hvort að einhver fegurð hafi tengst eins hrykalegum atburði. En það er margt sem vekur upp hrifningu við pælingar á því sem gerðist. Til dæmis talan 11, er hún merki fyrir turnana tvo? Og sú staðreynd að neyðarsímanúmerið í Bandaríkjunum er 911 og atburðurinn átti sér stað 11.9, en Bandaríkjamenn telja hins vegar mánuðinn fyrst í dagsetningum, þannig að út kemur 9.11; og sú staðreynd að margar af þeim hetjum sem mest hefur verið minnst voru einmitt lögreglumenn og slökkviliðsmenn sem svöruðu kallinu 9.11. Þetta er atburður sem allir tóku eftir og gjörbreytti heiminum, hafa fréttamiðlar sagt, en hvernig þessi atburður hefur haft áhrif á okkur er enn að töluverði leiti órannsakað mál.

 

Heimspekingar

Heimspekingar er fólk sem hefur rætt allar þessar greinar í fjölmargar aldir. Þessar pælingar hafa haft mikil áhrif á heiminn, hvort sem þú leitar til vísinda, trúarbragða, samfélaga, hagkerfa. Það er sama hvert þú lítur, heimspekin hefur alls staðar komið nálægt. Hins vegar hefur misjafnlega vel verið hlustað á heimspekinga, og stundum eru hugmyndir þeirra teknar og skældar, og misnotaðar til að fullnægja þörfum einstaklinga eða hópa. Í vestrænni menningu er Þales frá Miletus (fæddur um 637 fyrir Krist) almennt viðurkenndur sem fyrsti heimspekingurinn, en lítum við aðeins lengra til austurs komumst við að því að þar er hægt að rekja heimspekina til Yi Jing (Bókin um Breytingar) um 1000 fyrir Krist, en talið er að King Wen hafi skrifað hana. Fjöldi heimspekinga hefur lifað á jörðinni á þessum síðustu 3000 árum. Sumir þeirra þykja sérstaklega framúrskarandi og áhugaverðir en aðrir hafa gleymst. Þessi síða er fyrir þá alla. Líka þig.


Taken (2008) ***

taken

Taken er hörkugóð hasar- og spennumynd um fyrrverandi njósnara sem eltir uppi mannræningja dóttur sinnar. Hún er nákvæmlega það sem nýjustu Bond myndinni mistókst að vera, spennandi og skemmtileg. Reyndar þarf maður að trúa því að Bryan Mills sé nánast ofurmannlegur njósnari til að hafa gaman af þessu öllu, en hver er ekki til í það?

Bryan Mills (Liam Neeson) hefur hætt störfum sem sérfræðingur í fyrirbyggjandi aðgerðum fyrir bandarísku ríkisstjórnina, til þess að geta búið sem næst dóttur sinni Kim (Maggie Grace), sem býr hjá móður sinni Lenore (Famke Janssen) og forríkum eiginmanni hennar Stuart (Xander Berkeley).

Bryan hefur svolítið sérstaka áráttu. Þegar hann ákveður að gera eitthvað, þá stendur hann við það hvað sem það kostar. Þegar Kim var fimm ára lofaði hann henni að vera alltaf hjá henni á afmæli hennar, og hefur alltaf staðið við það - þó að það hafi kostað ferðalög milli landa.

taken01

Kim fer til Parísar ásamt vinkonu sinni, og þær hafa varla fyrr stigið fyrstu skrefin út af flugvellinum en búið er að reikna út hvernig þeim skal rænt og selt í hvítan þrældóm. Kim tekst þó að hringja í föður sinn þegar hún verður þess var að einhverjir menn hafa brotist inn í íbúð hennar og yfirbugað vinkonu hennar.

Samtalið er það eina sem Bryan hefur til að hafa upp á ræningjum dóttur sinnar og bjarga henni úr ánauð. Þegar hann heyrir andardrátt eins ræningjans segist hann gefa honum eitt tækifæri til að skila dótturinni, annars muni hann sjá eftir því.

Ræninginn gerir þau mistök að segja: "Gangi þér vel," en með háþróaðri raddgreiningartækni tekst Bryan að komast að því hvaða einstaklingur þetta er. James Bond og Jason Bourne, eins flottir og þeir eru, ættu ekki roð í Bryan Mills.

Hann sýnir slíka útsjónarsemi og styrk að maður hefur ekki séð annað eins langa lengi. Liam Neeson tekst að gera Bryan afar mannlegan og skiljanlegan, þrátt fyrir að hann sé fyrst og fremst drápsmaskína sem engu illu hlífir. Aldrei þessu vant eru hasaratriðin afar raunsæ og vel útfærð, og maður trúir næstum því að hinn 56 ára gamli Liam Neeson sé um áratugi yngri.

Taken er eins og góður þáttur af 24 með aðeins eldri og írskari Jack Bauer. Mjög ofbeldisfull spennumynd sem þó er óhætt að mæla með. Ég er sáttur.


Bréf til þingmanna vegna húsnæðismála - hver er að hlusta?

Þetta bréf sendi ég í tölvupósti til allra þingmanna í gær:

 

Þingmaður,

Verðbólgan er að éta upp dýrmætustu eignir heimila, húsnæði þeirra, en við vitum öll vel að án húsnæðis getur fjölskylda ekki lifað af á Íslandi - og getur ekki annað en hrakist úr landi.

Vonandi verður þessum málaflokki fylgt betur eftir á næstu dögum og skuldugum heimilum hjálpað á sanngjarnan máta, þá helst með gera fólki kleift að borga hraðar niður höfuðstól lána og setja þak á verðtryggingu, en verðbólga samkvæmt upphaflegum áætlunum bankanna var almennt reiknuð 2.5% - sem hefur síðan engan veginn staðist. Af hverju á fólkið að gjalda með heimilum sínum fyrir þessar röngu upplýsingar frá sérfræðingum bankanna?

Ég mæli eindregið með lestri þessarar greinar eftir Marínó G. Njálsson, sem fjallar á sanngjarnan og gagnrýnan hátt um þær aðgerðir sem gripið var til fyrir heimilin í landinu:

 

Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum

 

Þarna má finna kjarna málsins og ég vona innilega að við getum lært á honum.

 

Einn þingmaður hefur svarað bréfinu og sýnt að hann hlustar, Guðbjartur Hannesson, Samfylkingu. Fær hann þakkir fyrir.


Revolutionary Road (2008) ***1/2

revolutionaryroad

Revolutionary Road er afar vel leikinn og skrifaður harmleikur sem ætti sjálfsagt jafnmikið heima á fjölum leikhúsa og í bíó, enda leiksviðið annars vegar heimilið og hins vegar skrifstofan, en einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að heimilið og skrifstofan séu stórt hversdagsfangelsi, og að fangarnir viti ekki einu sinni að þeir séu í fangelsi, nema sumir - og þá hefst barátta upp á líf og dauða.

Þetta er í annað skiptið sem Leonardo DiCaprio og Kate Winslet leika saman aðalhlutverk. Fyrra skiptið var hinn sögulegi stórsigur Titanic, sem sló öll aðsóknarmet á sínum tíma, en Revolutionary Road, þó að hún sé á margan hátt betri kvikmynd en Titanic, mun aldrei ná slíkum hæðum.

revolutionaryroad01

Wheeler hjónin Frank (Leonardo DiCaprio) og April (Kate Winslet) hafa eignast fallegt heimili í úthverfum stórborgar, hann er í vel launaðri en merkingarlausri vinnu, og hún er heimavinnandi húsmóðir, sem þó lærði leiklist á yngri árum.

Á meðan Frank unir sér ágætlega og hefur sætt sig við hið vonlausa tómarúm sem líf hans er orðið, hefur April aðrar hugmyndir. Þegar þau fyrst kynntust höfðu þau hugmyndir um að kynnast heiminum betur, en svo kom fyrsta barnið, þau ákváðu að fá sér hús og nú eru þau föst í heimi sem þau geta ekki sloppið úr: Norminu!

Þau geta sagt sér að þau séu sérstakar manneskjur, en við ofurlitla íhugun sjá þau strax að þau eru bara ósköp venjuleg og ósæl hjón. Það sem nagar April er tilgangsleysi tilverunnar, hvernig allt þarf að vera eðlilegt og hvernig þau verða að aðlagast Norminu til að rugga ekki bátnum.

Hún fær þá hugmynd að flytja til Parísar, staðar sem Frank þekkir af eigin raun og er hrifinn af, enda vill hún brjótast úr viðjum vanans og fá að vera til, fá að vera hluti af samfélaginu, fá að vera eitthvað annað en kona sem hangir heima og tekur til, undirbýr matinn.

Hún vill reyndar að eigin sögn ekki komast út, heldur inn. Frank tekur ágætlega í hugmyndina og er bara nokkuð til í tuskið þar sem hann áttar sig á að April hefur fyllilega rétt fyrir sér, að líf þeirra er án merkingar og þau þurfa að gera eitthvað til að komast í burtu. En það eru hindranir á veginum.

Ein er sú að öllum öðrum finnst þetta vera barnaleg hugmynd, fyrir utan fyrrverandi stærðfræðinginn John Givings (Michael Shannon) sem hefur tapað stærðfræðigáfunni vegna of margra rafstuða í meðferð á geðspítala. Hann er næmur fyrir tilvistarkreppu hjónanna og segir nákvæmlega það sem hann sér. Sannleikurinn hefur ólík áhrif á fólk sem hefur aðlagast blekkingum. Og takist því ekki að aðlagast, getur það alltaf farið til sálfræðings.

revolutionaryroad02

Önnur hindrun í veginum er óvænt tilboð sem Frank fær frá vinnuveitanda sínum, um betri stöðu og hærri laun, og að auki kemur í ljós að April er ófrísk. Enn önnur hindrun felst í framhjáhaldi, tap á trausti og ást. Tilvistarkreppan sem þetta ágæta fólk upplifir er raunsæ og djúp.

Þau Winslet og DiCaprio leika sín hlutverk með afburðum vel, ég er reyndar ekki frá því að DiCaprio sé búinn að næla sér í nokkrar brellum úr vopnabúri Jack Nickolson - hann flýtir sér hægt og sýnir einstæða yfirvegun á meðan undir kraumar.

Afar eftirminileg kvikmynd sem á einstaklega vel við á krepputímum. Hún kennir okkur að meta það sem er mest virði í lífinu og hverjar afleiðingarnar geta verið hunsum við þetta kall til dýpri merkingar.


Slumdog Millionaire (2008) ****

slumdogmillionaire

Slumdog Millionaire er ein af þessum myndum sem allir verða að sjá. Hún er snilldarblanda af góðum sögum: Skytturnar Þrjár, Oliver Twist, The Usual Suspect, City of God og Öskubuska, með smá blöndu af Bollywood. Ég get fyrirgefið Danny Boyle fyrir hina hroðalegu Sunshine (2007) og fullyrði að nú er hann aftur kominn í gamla góða Trainspotting (1996) gírinn, þar sem hann fókusar á áhugaverðar persónur og góða sögu.

slumdogmillionaire03

Jamal Malik (Dev Patel), ungur múslimi sem alist hefur upp í fátækrahverfum Mumbai fær tækifæri til að vinna fúlgur fjár í spurningarþættinum "Viltu vinna milljón?" Þáttarstjórnandann Prem Kumar (Anil Kapoor) grunar að Jamal svindli einhvern veginn, því að hann svarar hverri einustu spurningu hárrétt, þrátt fyrir að hafa aldrei gengið í skóla, búið við sára fátækt og þurft að stela til að komast af frá blautu barnsbeini. Fyrir úrslitakvöldið er Jamal handtekinn af lögreglunni og hann pyntaður til að hafa út úr honum leyndarmálið um velgengni hans. Það er ekki fyrr en rannsóknarlögreglumaður (Irrfan Khan) yfirheyrir hann að losna fer um málbeinið og útskýringar á hvernig hann vissi hvert og eitt svar tengist mikilvægum atburðum í lífi Jamal (einnig leikið af Ayush Mahesh Khedekar og Tanay Chheda) , bróður hans Salim (Azharuddin Mohammed Ismail, Ashutosh Lobo Gajwala og Madhur Mittal) og stúlkunni sem hann elskar Latika (Ribiana Ali, Tanvi Ganesh Lonkar og Freida Pinto), en saman eru þau frá barnæsku skytturnar þrjár.

slumdogmillionaire02

Í ljós kemur að Jamal og Salim eru eins ólíkir og bræður geta verið. Báðir upplifa þeir hörmulegar aðstæður, en vegna ólíkrar skapgerðar þroskast þeir í tvær ólíkar áttir, þar sem annar er gjörspilltur og hinn virðist hafa fundið leið til að lifa lífinu af heilindum. Einnig hafa þeir báðir áhuga á Latika, en af gjörólíkum forsendum. Slumdog Millionaire er ekki bara einhver saga um öðruvísi menningu, heldur hörkuspennandi glæpasaga, gott drama og fín rómantík í bland. Það er nákvæmlega ekkert yfirborðskennt við hana og maður virkilega skilur aðalpersónurnar með öllum þeirra göllum og kostum. Stíll myndarinnar og gæði minna mikið á hina brasilísku City of God (2002), og formið á The Usual Suspects (1994) en samt eru þær af gjörólíkum meiði.

slumdogmillionaire01

Ég mæli eindregið með að þú kíkir á þessa stórskemmtilegu kvikmynd í bíó.

Hvernig væri að gefa Röddum Fólksins raunverulegu rödd fólksins?

 

firring_vinnunnar_modern_times_280402

 

Þegar ég fór í sturtu núna í morgun, en einmitt í morgunsturtunni kvikna góðar hugmyndir, og velti hinum friðsælu mótmælafundum fyrir mér sem haldnir hafa verið í margar vikur, áttaði ég mig á að form þeirra er hliðstætt formi funda í Alþingishúsinu - en það er nákvæmlega það sem er að á þeim bænum. Einn og einn maður stígur í pontu og telur sig vera að tala fyrir hönd einhvers hóps, og í umboði hópsins.

Ég er sjálfur einn þeirra sem hef ekki mætt á mótmælafund, og hef ekki áhuga á því undir þeim formerkjum sem þeir eru haldnir, en styð samt aðgerðirnar og skil þessa reiði, og heyri á fólki í kringum mig, rólyndisfólki, hvernig hvert og eitt þeirra segir nákvæmlega sama hlutinn:

"Ég skil ekki af hverju þetta fólk hefur ekki sagt af sér, hefur það enga sómakennd?"

Jæja, hvað um það. 

Í sturtunni spurði ég sjálfan mig hvað þyrfti til, til þess að ég færi niður á Austurvöll og mótmælti með öðrum Íslendingum. Í fyrsta lagi hef ég ekki áhuga á að mótmæla einu eða neinu. Það sem ég vil gera er að sýna samstöðu með fólkinu - og þá á þeirri forsendu að fólk mæti á svæðið og alls ekki til að kasta eggjum eða veitast gegn lögreglu, heldur setja upp púlt með hljóðnema, og gefa hverjum einasta fundargesti tækifæri til að segja eitthvað í hálfa mínútu, gefa Röddum Fólksins rödd.

 

Rödd þín í 30 sek

 

Eru ræðuhöld eitthvað lögmál? Mér hefur alltaf leiðst ræðuhöld og yfirleitt glaðst meira eftir því sem að ræðurnar eru styttri. Af hverju má ekki gefa fólkinu færi á að segja eins og eina setningu - og biðja það að vanda sig, en það getur samið setningarnar á meðan beðið er í röð eftir míkrófóninum:

Það mætti biðja þau að svara eftirfarandi spurningum, og jafnvel útvega þeim blað og blýant á meðan þau standa í röðinni til að hugsa sig um:

  1. Hvernig líður mér?
  2. Hvað vil ég að sé gert?
  3. Af hverju þarf aðgerðir?
  4. Hvaða afleiðingar mun áframhaldandi aðgerðar- og getuleysi stjórnvalda hafa í för með sér?

Allt þetta má segja á hálfri mínútu.

Ef slíkt tækifæri býðst, á þeirri forsendu að fólk fengi tækifæri að tjá sig með nærveru sinni, og ekki beina mótmælum gegn einum eða neinum á skipulagðan hátt - þó að eðlilegt sé að beita gremjunni að einhverjum manneskjum eða hópum, þá myndi ég mæta.

 

Hvað um þig?

 

Ég er þannig gerður að ég vil ekki bara hlusta á fyrirfram ákveðna ræðumenn. Ég vil hlusta á þig, og þætti gott að fá tækifæri til að segja þér eitthvað líka. Á meðan við höldum ræður yfir fólki er enginn að hlusta í alvöru. Þegar við leyfum öllum að tala, takið eftir, þá verður hlustað. Við munum hlusta hvert á annað - og það er skref í áttina til lýðræðis.

Í dag jukust átökin. Mótmælendur mótmæltu af hörku og tekið var á þeim af hörku. Stál við stál. Ofbeldi. Sagan segir okkur að allir tapi á slíku. Allir. Ég skil þessa reiði og finn hana sjálfur og veit að hún er réttlát, en ég veit líka að ríkisstjórnin hefur málað sig út í horn og að sífellt færri hlusta á hana, sérstaklega þegar hún leyfir sér í neyðarástandi að taka sér mánuð í jólafrí og byrja nýtt þing á að ræða um hvort selja megi áfengi í verslunum. Þetta fólk er langt á eftir sinni samtíð og virðist því miður engan raunverulegan áhuga hafa á þjóðinni, heldur fyrst og fremst á eigin hagsmunum og halda völdum til þess eins að halda völdum.

Þetta er firring

 

Annað mál: Í dag var mér bent á nýja vefsíðu: lydveldisbyltingin.is, en það er ópólitískur og óbaugskur vettvangur fyrir skoðanaskipti um hvernig fólk vill sjá útgáfu númer tvö af lýðveldinu Íslandi. Allir geta tekið þátt og skrifað sínar hugmyndir. 

 


Birtingarmyndir pólitískrar refskákar á krepputímum?

 

Staðfærð hugmynd frá LUKESURL.COM


Ný frétta- og upplýsingasíða fyrir skákmenn: Skákveitan

 



Skákveitan

Komin er í gang ný frétta- og fróðleikssíða um skák: Skákveitan, sem getur hjálpað okkur að halda utan um skákfréttir bæði á Íslandi og erlendis. Ég notaði einungis tækni úr Open Source samfélaginu til að búa síðuna til.

 

Ég hélt kostnaðinum í lágmarki með að kaupa mér svæðið á Lunarpages, en þeir eru með ágætis tilboð í dag þrátt fyrir erfitt gengi, en mánaðargjaldið er 4.95 bandarískir dollarar á mánuði ef maður kaupir hagstæðasta pakkann, en samtals kostar hann fyrir 12 mánaða áætlun 59,40 dollara og fyrir 24 mánaða áætlun 118,80 dollara, sem felur í sér lén, óendanlegt rafrænt pláss og óendanlega bandvídd. 

59,40 dollarar =  kr. 7547,-

118,90 dollarar = kr. 15.106,-

 Önnur svæði sem ég hef búið til með þessu kerfi eru til dæmis síða um kvikmyndagagnrýni og önnur um heimspeki.

 

banner_higher

 

Íslenskum skákmönnum er velkomið að taka þátt, en ég held að þetta geti gagnast á ýmsa vegu. Allir geta sent inn greinar og athugasemdir. Ég bið aðeins um tvennt, að þeir sem ákveða að taka þátt skrifi fyrst og fremst um skák og komi fram undir nafni. Ég mun ekki ritstýra þessu neitt sérstaklega, en skoða samt málin ef ég verð látinn vita og fjarlægi skrif sem ég met að beinist gegn persónum á ósvífinn hátt, og gæti fjarlægt ef ég nenni greinar sem eru með dónalegu og óvönduðu orðabragði.

Hægt er að gefa bestu greinunum atkvæði, þannig að þær fara ofarlega á síðuna. Þannig að lélegar greinar eru fljótar að sökkva, en góðar greinar fljótar að ná vinsældum.

Ég mæli sérstaklega með að menn leiti að grein Snorra G. Bergssonar um 1. umferð Skákþings Reykjavíkur, og gefi henni atkvæði svo að hún hækki á listanum.

Einnig er hægt að skoða greinar eftir efnisflokkum og ná sér í gagnaveitu út frá þeim. Finnist einhverjum vanta flokk má leggja það undir mig og ég bæti honum við fylgi fyrirspurninni góð rök.

Markmiðið með síðunni er að styðja enn frekar við hina ríku skákhefð sem ríkir á Íslandi og frábærlega vel unnar vefsíður eins og Skák.is og Skákhornið (það er hægt að tengja í áhugaverðar umræður). Einnig geta taflfélög sem hafa ekki komið sér upp heimasíðu notað vefinn til að koma eigin fréttum á framfæri, sem þá fréttamiðill eins og Skák.is getur nýtt sér til að afla sér upplýsinga á hraðan og öruggan hátt, með því að tengjast í RSS veitur síðunnar.

 

 

 



Hugmyndin er ekki sú að stjórnandi síðunnar uppfæri hana reglulega, heldur taki allir notendur þátt í því og móti hana þannig eftir eigin höfði.

Þessi síða er byggð í anda þeirrar frumkvöðlahugsunar sem Daði Örn Jónsson (íslensk skákstig, Chess in Iceland, Skákhornið) og Gunnar Björnsson (Skák.is á Strikinu, ruv.is, leit.is, blog.is og víðar) hafa gefið svo gott fordæmi fyrir með því að setja ógurlega vinnu í að byggja upp skákvefi sem gagnast hafa íslenskum skákmönnum. Fleiri er hægt að nefna, en þessir tveir standa algjörlega upp úr í þessum málum og mætti heiðra þá sérstaklega fyrir vikið.

Þetta kerfi er byggt á hugmyndunum að baki Digg, sem vex stöðugt í vinsældum, en þarna er mjög þægilegt að safna saman áhugaverðum tenglum í fréttir sem birtast á netinu, þannig að vinsælustu fréttirnar verða alltaf, samkvæmt kenningunni, efstar á blaði. 

Ég vil taka það sérstaklega fram að þessi síða er ekki í samkeppni við flottar íslenskar skáksíður eins og Skák.is eða Umræðuhorn skákmanna, heldur hugsuð til að styðja við þær og gefa enn fleiri tækifæri til að koma sínum fréttum að í gegnum ágætis bloggkerfi.
 


Stórmeistara rúllað upp af 9 ára gutta

Ég skoðaði skákina, sem er hægt að skoða með því að smella á myndina, og get staðfest að þessi sigur var enginn grís. Strákurinn tefldi alveg feikivel, með svart í spænska leiknum og lék hárrétt fram í 16. leik og tefldi síðan eins og stórmeistari eftir það. 

 
hetual_shah
Smelltu á myndina til að skoða skákina.

Þetta gerðist í gær á skákmóti í Nýju Delí. Hinn 9 ára gamli Hetul Shah frá Indlandi sigraði hinn 34 ára gamla stórmeistara Nurlan Ibrayev frá Kazakstan, og sló þannig heimsmet, því að hann er yngsti skákmaður frá upphafi sem sigrar stórmeistara í kappskák.

Það er ljóst að Indverjar eru að blómstra sem skákþjóð. Heimsmeistarinn Anand er Indverji, heimsmeistari unglinga, Abhijeet Gupta, er Indverja og heimsmeistari unglingsstúlkna, Dronavalli Harika, er einnig Indverji.

Ég hefði ekki viljað vera í sporum Ibrayev, en hann er atvinnumaður í skák og hefur mikinn heiður að verja. Reyndar er hann "aðeins" með 2403 stig, sem er frekar lítið fyrir stórmeistara. En til samanburðar, þá er þetta eins og ef Eiði Smára hefði verið skipt út af hjá Barcelona fyrir strák úr 5. flokki.

Þetta sýnir bara og sannar að börn eru ekki framtíðin, þau eru nútíðin.

Málið er að börn geta svo miklu meira en við teljum. Með umönnun, alúð og góðri menntun geta börn öðlist mikinn styrk, því þau læra svo hratt. Ef níu ára barn getur talað jafn vel og fullorðin manneskja, af hverju ætti hún ekki að geta teflt jafnvel og slík manneskja.

Er óhugsanlegt að níu ára barn geti hugsað skýrar og af meiri tilfinningu en sextug manneskja sem hugsar með afbrigðum vel?

 

Lokastaðan:

 lokastadan_ibrayev_shah.jpg
Ibrayev - Shah
0-1

 

Ungmenni skal umgangast af virðingu. Konfúsíus (551-479 BC)

 

Manneskja sem er ung að árum getur verið gömul í klukkustundum, ef hún hefur ekki glatað neinum tíma. Francis Bacon (1561-1626) 


Flottasta mark allra tíma?

Skoðaðu myndbandið og dæmdu:

Sancho klikkar ekki frekar en fyrri daginn, og ég viðurkenni að öll þessi mörk eru svolítið flottara en mark Stefáns, þó að gott sé. Whistling

 

 

CARLOS


 

Ibrahimovic





Henry





Maradona





RONALDINHO!!


mbl.is Stefán Gíslason átti mark ársins í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband