Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Af hverju verður að setja Evrópuaðild í forgang?

 

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við ættum að ræða um aðild að Evrópusambandinu er álíka gáfuleg og að stofna rannsóknarnefnd til að finna grun um fjármálaglæpi.

Umsókn um aðild að Evrópusambandinu virðist snúast um ótta við að sjálfstæði Íslendinga sé í hættu. Skiptast fylkingar í tvo andhópa, annar þeirra flýgur í V en hinn í S. 

Þeir sem vilja inn í Evrópusambandið telja það tryggja sjálfstæði Íslendinga. Þeir sem vilja ekki inn í Evrópusambandið telja það tryggja sjálfstæði Íslendinga. Hvor hefur rétt fyrir sér?

Raddir sem eru á móti halda að samningar við Evrópusambandið þýði að við glötum auðlindum okkar umsvifalaust. Raddir sem eru með telja þetta tóma vitleysu, og óska eftir aðildarviðræðum til að geta sýnt fram á það. Annars verður inngangan í ESB aðeins byggð á fordómum og hindurvitnum. 

 

 

Þegar við höfum ekki forsendur til að velja, þá er hvorki gott að segja af eða á, heldur leita sér frekari upplýsinga. Sé ákveðið að leita ekki frekari upplýsinga, er ljóst að verið er að hafna. Ef ákveðið er að kjósa um hvort eigi að leita upplýsinga er verið að kjósa á forsendum sem hafa ekkert sannleiksgildi og væri slík niðurstaða því byggð á fordómum einum.

Þessi umræða um Evrópumálin minnir mig svolítið á rifrildið um hvort að heimurinn sé hnöttóttur eða disklaga. Annar hópurinn óskar eftir að farið sé eftir rannsóknum og rökum, en hinn eftir trú og hindurvitnum. Hvora aðferðina ætlum við að nota? Hvor leiðin er sæmandi þjóðfélagi á 21. öldinni?

Ísland hefur þegar tapað sjálfstæði sínu. Það er bara ekki búið að gefa út sagnfræðibókina sem fullyrðir það og umræðan um glötun sjálfstæðisins er ekki farin almennilega í gang. Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn stjórnar framtíð landsins og mun gera það út frá sjónarmiði sem er alls ekki íslenskt, og ekki einu sinni evrópskt, heldur út frá viðmiði markaðshyggju, þeirri hugmyndi sem kom þjóðfélaginu á hvolf.

 

 

Ef við segjum okkur úr Alþjóða gjaldeyrissjóðnum verður hugsanlega valtað yfir okkur með hervaldi, eignir okkar gerðar upptækar og þjóðin gerð að ríki í því landi sem sigrar í stríðinu um íslensku auðlindirnar. Þetta hefur gerst víða um heim. Af hverju ekki hér? Þetta er lítill heimur og vegalengdir stuttar.

Ef við göngum í Evrópusambandið sem sjálfstjóð þjóð, fáum við staðfestingu á sjálfstæði okkar, nokkuð sem hægt er að deila um í dag. Við getum ekki gengið í Evrópusambandið með því hugarfari að "þeir" muni taka allt af okkur. Þannig virka hlutirnir ekki. Þegar við göngum í félag með öðrum, þá getum við ekki eingöngu ætlast til með hroka og vandfýsni að "þeir" eigi að gefa okkur eitthvað, að "þeir" ætli að taka auðlindirnar frá okkur, heldur líka um hvernig við getum hjálpað "þeim".

Miðað við umræðu síðustu daga mætti halda að Íslendingar séu eigingjarnasta þjóð í heimi. Það talar enginn um að gefa af sér, allt snýst um að fá sem mest út úr samningum. Það er ekki jafnslæmt að gefa af sér og sumir virðast halda. Það gæti nefnilega komið til baka síðar meir á óvæntan hátt.

 

 

Ég er ekki að segja að við eigum að vera barnaleg og einföld í samningsgerð, heldur ganga til samninga með opnum hug. Ekki allir í heiminum ganga með einkunnarorð íslensku þjóðarinnar í skauti sér: "Ég fyrst!" Það er fólk þarna úti sem sýnir umhyggju og hefur áhuga á að bæta samfélag manna um allan heim, og þeim þætti bara flott ef Ísland tæki þátt. Þetta er ekki allt einhver valdaklíka, þó að vissulega séu pólitískar hættur víða. Við getum einfaldlega ekki gert þá kröfu að Evrópusambandið sé Kardimommubærinn. Það er enginn slíkur fullkominn heimur, ekki einu sinni á Íslandi nútímans, framtíðar, né fortíðar. 

Stóra spurningin er: getum við bjargað íslensku þjóðinni frá skuldum óreiðumanna án þess að tapa sjálfstæði okkar, öðruvísi en með því að ganga í Evrópusambandið? Ef þú þekkir þá leið þætti mér vænt um að heyra hana.

Ef við getum ekki borgað 2000 milljarða á þremur árum, og lánið skuldfellur, þá þurfum við að gefa eitthvað annað en peninga, og við munum ekki hafa val um hvað það verður og hversu mikils virði það verður metið - en öruggt er að þar verður um náttúruauðlindir að ræða til að byrja með. Þær munu fara úr höndum okkar, ein á fætur annarri, þar til aðeins ein auðlind verður eftir: mannauðurinn.

 

 

Með slakara menntakerfi þar sem við getum ekki viðhaldið sterku menntakerfi án peninga, munu íslensk börn ekki ná að mennta sig til að verða það sem þau langar, heldur hverfa aftur í það far að mennta sig til að gera eitthvað ákveðið alla ævi, eða jafnvel ná ekki svo langt, fær ekki menntun og starfar þess í stað sem verksmiðjuþrælar erlendra valdhafa sem sífellt leita eftir ódýru vinnuafli. Af hverju ekki á Íslandi?

Kreppan er ekki enn byrjuð. Hún skellur á næsta vetur.

Hef ég einhver haldbær rök? Það eina sem ég hef fyrir mér er einhvers konar hundsvit, óseðjandi forvitni og spænsk skýrsla sem ég fékk í hendurnar um daginn.

Um daginn fékk ég skýrslu sem hét því dramatíska nafni "Crisis en Islandia" eða "Kreppa á Íslandi" í hendurnar sem unnin var úr spænskri rannsókn á íslenska bankakerfinu af OCEI (Observatorio de Coyuntura Económica Internacional). Þar var spáð fyrir um kreppu á Íslandi, að íslenskir bankar hefðu síðustu tvö árin stækkað margfalt umfram getu og að hrun þeirra væri óumflýjanlegt, að kreppa á Íslandi myndi vara í 10-15 ár. 

Þessi spænska skýrsla var skrifuð árið 2006! Höfundur hennar er Alejandro García Carrasco, skrifuð í Valencia, 22. mars 2006. Þetta er áhugaverður lestur fyrir leikmann eins og mig.

Til þessa hefur allt sem í skýrslunni kemur fram orðið að veruleika, nema árafjöldi kreppunnar, af augljósum ástæðum.

Samkvæmt eigin áhættumati eru ógnirnar og veikleikarnir á það alvarlegu stigi að mikilvægt er að gera alvarlegar ráðstafanir. Besta ráðstöfunin fyrir þjóðina tel ég vera þá að ganga í Evrópusambandið. Besta ráðstöfunin fyrir mig og mína fjölskyldu er að flytja úr landi og reyna að byggja mér bækistöð erlendis frá og koma þjóð minni einhvern veginn að gagni þaðan, sjálfsagt með greinaskrifum, pælingum og vonandi sífellt betri gagnrýnni hugsun.

 


Mér var bent á fyrir nokkrum mínútum af einum af mínum allra bestu vinum að það er ein smá villa í þessum pælingum: Evrópubúar hafa verið okkur mjög fjandsamir undanfarið vegna ICESAVE og vilja hugsanlega ekkert með okkur gera. Hann spurði, af hverju ræðum við ekki líka við Bandaríkjamenn um upptöku dollarans, enda hefur Obama ekki sýnt annað en mikla vinsemd gagnvart Íslendingum? 

Þetta finnst mér góð spurning, en leyfi henni að liggja hérna í kryddblöndu um sinn, áður en ég byrja að móta rökstudda skoðun um hana.

 

Myndir:

Photos that came via email, Page 5


Samsæri gegn Samfylkingu?

Í raunveruleikaþáttum sjónvarpsins um íslensk stjórnmál hef ég tekið eftir svolítið merkilegum tjáskiptum milli VG og Sjálfstæðisflokks, og fannst Steingrímur gefa Sjálfstæðisflokknum undir fótinn á föstudagskvöld, og Þorgerður Katrín svo gefa VG undir fótinn í gær.

Mig grunar að VG og Sjálfstæðisflokkurinn séu eitthvað að brugga saman og ætli að taka Framsókn með sér. 

Málið er að ef Samfylkingin og VG ná ekki saman, þá mun Framsóknarflokkurinn hafa úrslitaákvæði, þar sem hann er lykilflokkur eftir kosningarnar - getur smeygt sér inn hvar sem er. Framsókn er alls ekki á því að fara í aðildarviðræður, það er ég viss um. Til þess eru skilyrðin sem þeir gáfu of mörg og flókin, og fyrst og fremst ætluð til að tæla til sín kjósendur beggja megin frá - þeirra sem vildu og vildu ekki ganga í Evrópusambandið.

Þannig að það er rangt mat hjá Samfylkingunni að meirihluti Alþingis muni styðja Evrópumálin. Það þyrfti hins vegar að spyrja persónulega hvern og einn fulltrúa Borgarahreyfingarinnar hvert viðhorf þeirra er, enda hafa þeir gefið út að þeir muni ekki standa í hjarðmennsku, heldur hvert og eitt taka þá ákvörðun sem þau meta skynsamlega út frá gefnum forsendum. Það getur verið erfitt að vinna með fólki sem hugsar sjálfstætt, en er það ekki betra en að vinna með hópi sem hagar sér eins og blind hjörð bundin í leiðtoga? Hvar er sjálfstæð hugsun ef það þarf alltaf að fylgja flokkslínunni?

Vinstri grænir eru í mjög góðri stöðu við samningaborðið, enda klókt ef satt reynist, að þeir hafi verið að dúlla sér baktjaldamegin með Sjöllum og Frömmurum, og ákveðið að standa saman gegn Samfylkingunni.

Málið er að íslensk pólitísk snýst engan veginn um það sem kemur þjóðinni best, heldur snýst hún enn og aftur um hagsmuni einstaklinga innan flokka, sem og hagsmuni flokksins.

Það er ekki enn búið að mynda ríkisstjórn, en samt er hún komin að falli á fyrsta degi!

 


 


mbl.is Óbrúuð gjá í ESB-máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnur mynd sem ég verð að deila með ykkur

Össur heldur í hönd Ögmundar til hughreystingar, en allir voru frekar vondir við Ögmund í Kosningasilfri Egils. Það eina sem hann gerði af sér var að rökstyðja skoðun sína í smá snú-snú, en hann gerði greinarmun að það væri lýðræðislegt að leyfa þjóðinni að kjósa um aðildarviðræður að Evrópusambandinu og síðan um hvort að samningurinn yrði samþykktur, og því að sækja strax um aðild og leggja samninginn svo undir þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Egill sagði að hann væri að fara í hringi, en Ögmundur sagði að Egill væri of þröngsýnn til að sjá út fyrir kassann.

Eftir áreiti frá öllum hinum í kappræðunni fær Ögmundur allt í einu hjálp úr óvæntri átt, frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Þorgerði Katrínu - en Össur grípur strax í lófa Ögmunds til að... ég veit ekki.

Myndin segir fleira en þúsund orð.


Hverjir sigruðu í Alþingiskosningum 2009?

Lýðræðið á sér von. Djúpa von. Kosningaþátttaka var 85,1% sem hlýtur að vera met. Þetta þýðir að flestir þeir flokkar sem fengu kosningu hafa náð til þjóðfélagsins.

Aftur á móti þykir mér undarlegt að þingmenn séu 63 fyrir jafn lítinn fólksfjölda. Það má fækka þingmönnum hlutfallslega og spara þannig í ríkisútgjöldum, en gallinn er að þeir einu sem gætu borið fram slíka tillögu eru þingmennirnir sjálfir og þeir tíma varla að skera úr eigin ranni? Slíkt krefst of mikils aga og siðferðisþreks til að slíkt geti orðið að veruleika, - eða hvað?

Ég ætla að túlka niðurstöðurnar án of mikillar dýptar um leið og ég óska nýjum þingmönnum til hamingju:

 

Framsóknarflokkurinn

Nýir þingmenn: 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður

Gunnar Bragi Sveinsson

Guðmundur Steingrímsson

Sigurður Ingi Jóhannsson

Vigdís Hauksdóttir

Gamlir jálkar:

  • Siv Friðleifsdóttir
  • Birkir Jón Jónsson
  • Höskuldur Þór Þórhallsson
  • Eygló Þóra Harðardóttir

Framsókn fær níu þingmenn. Í þættinum stóðu þeir fyrir því að fá allt upp á borð og rannsaka upplýsingar um yfirvofandi kreppu af heiðarleika. Endurnýjun flokksins hefur tekist með ágætum og formaðurinn reynst traustur og klókur. Næsta skref er að óbreyttir framsóknarmenn fari að kalla hann pabba.


Sjálfstæðisflokkur

Bjarni Benediktsson, formaður

Nýir þingmenn:

Ásbjörn Óttarsson

Unnur Brá Konráðsdóttir

Tryggvi Þór Herbertsson

Gamlir jálkar:

  • Illugi Gunnarsson
  • Pétur H. Blöndal
  • Guðlaugur Þór Þórðarson
  • Ólöf Nordal
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
  • Ragnheiður Ríkharðsdóttir
  • Ásbjörn Óttarsson
  • Einar K. Guðfinnsson
  • Kristján Þór Júlíusson
  • Ragnheiður Elín Árnadóttir
  • Árni Johnsen
  • Jón Gunnarsson, uppbótarþingmaður

Sjálfstæðisflokkur fær 16 þingmenn, sem er að mínu mati mikill sigur fyrir flokkinn. Þeir eru næststærstir en þurfa að taka vel til heima hjá sér fyrir næstu kosningar. Þeir gætu þó alveg komist til valda út frá þessum kosningum, þó að það sé frekar fjarlægur möguleiki dag. Sjálfstæðisflokkurinn talaði mikið um framtíðina, en hefur samt ekki gert upp við fortíðina. Þegar þeir hafa byggt skúr úr sinni hrundu höll, verður aftur tekið mark á þeim. Mig grunar að það sé frekar stutt í það, enda ljóst að þessi stjórn mun verða frekar óvinsæl vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Ég held að D græði mest á þessu. Þeir héldu ballið og nú fara aðrir í að hreinsa upp eftir þá. Þegar hreingerningarfólkið verður loks uppgefið, mun bláa höndin grípa völdin á ný. Formaðurinn kemur vel út, á samt eftir að fínpússa sig með að losa sig við klisjufrasa eins og 'við Sjálfstæðismenn' og halda langar ræður um spurningar sem hægt er að svara með stuttum rökstuðningi. Spurning hvort að sjálfstæðismenn sæki ekki námskeið hjá Eið Smára um hvernig hægt er að halda virðingu sinni á varamannabekknum? Flokksmenn geta kallað formanninn bróður sinn.

 

Frjálslyndi flokkurinn

Guðjón A. Kristjánsson, formaður

Frjálslyndi flokkurinn kemst ekki á blað, enda hafa innri erjur stórskaðað þann flokk, og maður hefur enga tilfinningu fyrir samstöðu hans eða málefnum. Formaðurinn var samt ágætur en ég hafði á tilfinningunni að hann væri ekki að standa í þessu af sönnum áhuga. Hann var ekki með þennan ljóma sem segir: "Kjóstu mig, annars...". Flokksmenn geta kallað formanninn frænda sinn.

 

Borgarahreyfingin

Nýir þingmenn:

Þór Saari

Þráinn Bertelsson

Birgitta Jónsdóttir

Margrét Tryggvadóttir, uppbótarþingmaður

Borgarahreyfingin  fékk fjóra þingmenn, þrátt fyrir enga auglýsingaherferð, en góðan stuðningi frá bloggheim og þeim sem elska gagnrýna hugsun og hugmyndir þeirra um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Fjórar gagnrýnisraddir eru sjálfsagt öflugri en ein í 63 manna hóp. Þeir verða bara að muna að hreyfingin er ekki flokkur, en það verður erfitt og krefst mikils siðferðilegs þreks. Ljóst er að þeir munu fá uppbyggilega gagnrýni, að minnsta kosti frá mér, þar sem að ég kaus þá og mun gelta ansi hátt frá Noregi sjái ég merki um að fulltrúar flokksins ætli að slaka á kröfum sínum og festast í flokksforminu. Hreyfingin hefur engan formann, en þeir fulltrúar sem hafa tjáð sig fyrir hönd fólksins leggjast afar vel í mig. Flokksmenn geta ekki kallað formanninn eitt eða neitt, enda enginn formaður í flokknum.

 

Lýðræðishreyfingin

Ástþór Magnússon, formaður

Lýðveldishreyfingin náði ekki einu sinni prósentustigi. Samt má ekki gleyma þeirri stórgóðu hugmynd Ástþórs um opið lýðræði, sem hann kom vel á framfæri - að gefa fólki færi á að kjósa rafrænt. Hugmyndin er góð og vert að rannsaka hana vandlega. Formaðurinn kom þó frekar illa fram og var beinlínis dónalegur þegar hann krafðist athygli, en það hefur sjálfsagt frekar en nokkuð annað dregið úr trúverðugleika flokksins. En það hlýtur að vera eitthvað spunnið í mann sem dulbýr sig sem jólasvein til að fá orðið á opnum borgarafundi. Flokksmenn geta kallað formanninn jólasvein.

 

Samfylkingin

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður

Nýir þingmenn:

Valgerður Bjarnadóttir

Ólína Þorvarðardóttir

Oddný G. Harðardóttir

Róbert Marshall

Sigmundur Ernir Rúnarsson

Jónína Rós Guðmundsdóttir, uppbótarþingmaður

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Skúli Helgason

7358 Magnús Orri Schram

Gamlir jálkar (fyrir utan formann): 

  • Helgi Hjörvar
  • Steinunn Valdís Óskarsdóttir, uppbótarþingmaður
  • Össur Skarphéðinsson
  • Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, uppbótarþingmaður
  • Árni Páll Árnason
  • Katrín Júlíusdóttir
  • Þórunn Sveinbjarnardóttir
  • Guðbjartur Hannesson
  • Kristján L. Möller
  • Björgvin G. Sigurðsson
Samfylkingin náði góðri kosningu, þrátt fyrir að hafa ekki náð 30% hlutfalli, og er í leiðtogastöðu með Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar. Þau fengu 20 menn á þing. Ég velti fyrir mér hvernig þau ætla að koma helsta máli sínu í gegn, upphaf aðildarviðræðna við Evrópusambandið og áframhaldandi samvinnu með Vinstri grænum. Þar sem að Steingrímur hefur verið nokkuð sveigjanlegur í skoðunum frá því að VG fékk fyrst völd, grunar mig að hann muni lúffa fyrir kvöldmat. Annars gæti Samfylkingin gert stjórnarsáttmála við Borgarahreyfinguna og Framsókn, sem þá kæmist enn og aftur til valda þrátt fyrir meðalfylgi. 

Einnig gætu VG, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn myndað stjórn saman gegn inngöngu í Evrópubandalagið, og framkvæmt einhverjar bakstungur og pretti til að gera slíkt að veruleika. Ég er nefnilega ekki viss um innihald 'ekki' fyrir Steingrím - því hann hefur sagt ekki-Evrópa og ekki-Sjálfstæðisflokkur. Hver veit hvoru ekki-nu verður breytt, eða hvort VG fari einfaldlega í stjórnarandstöðu gegn BOS.

Formaðurinn hefur komið afar vel út úr þessari baráttu, þó að mér sýnist ég hafa séð merki um að hún sé hætt að leyfa sér þá hreinskilni sem hún er þekkt fyrir. Samfylkingarfólk má kalla hana ömmu.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð

vg

Steingrímur J. Sigfússon, formaður

Nýir þingmenn:  

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Björn Valur Gíslason

Svandís Svavarsdóttir

Lilja Mósesdóttir

Ásmundur Einar Daðason, uppbótarþingmaður

Gamlir jálkar (fyrir utan formann): 

  • Katrín Jakobsdóttir
  • Árni Þór Sigurðsson
  • Álfheiður Ingadóttir, uppbótarþingmaður
  • Ögmundur Jónasson
  • Jón Bjarnason
  • Þuríður Backman
  • Atli Gíslason
Vinstri grænir ná 14 manns á þing. Ég hef mikla trú á Guðfríði Lilju í forystu flokksins og sé hana fyrir mér sem arftaka Steingríms eftir nokkur ár. Aðal baráttumál flokksins í ár var ekki-Evrópusambandið og að halda völdum sem vinstri flokkur. Vinstri græningjar mega kalla formanninn afa.

Það sem vekur mesta athygli er að enginn flokksmaður getur kallað formann sinn mömmu. FootinMouth Tími mömmu mun samt koma!

 

Uppgjör við fortíðina

c_documents_and_settings_ibm_my_documents_my_pictures_kossinn

Sameiningarkoss þeirra Geir Haarde og Ingibjargar Sólrúnar vakti mikla athygli árið 2007.Útlit fyrir eina sterkustu ríkisstjórn Íslandssögunnar.

ingibjrg_og_geir__jpg_550x400_q95

Allt komið í þrot. Brúnin hefur þyngst.

00ea7cb3594ba3412b4cde8204a94c50_300x225

Árni Mathiesen

gal_5397

Davíð Oddsson og W.

 

Bless bless 2007

Þingmenn af 2007 kynslóðinni sem vildu komast að en þurfa að kveðja í dag. Sérstaka athygli vekur að Sigurður Kári dettur út, sjálfsagt hefur fólk tengt hann við áfengisfrumvarpið sem var á dagskrá daginn sem Alþingi kom úr jólafríi og allt var brjálað fyrir utan. Kolbrún Halldórsdóttir gerði þau mistök að standa fast við sína sannfæringu og upphaflegar forsendur flokks hennar með því að tala gegn olíuleit og vinnslu. Það eru breyttir tímar hjá VG, enda komnir í valdastöðu, en hún breyttist ekki með. Ég óska þeim öllum velfarnaðar á nýjum vettvangi:

Þau kveðja:

Arnbjörg Sveinsdóttir

Ásta Möller

Sigurður Kári Kristjánsson

Kjartan Ólafsson

Kolbrún Halldórsdóttir

Guðjón A. Kristjánsson

Grétar Mar Jónsson

Karl Matthíasson

 

En... erfiðasta verkefni Íslandssögunnar stendur fyrir dyrum:

K R E P P A N

Líklegt er að vinsældarljóminn hverfi fljótt af þessu ágæta fólki sem þarf heldur betur að taka til hendinni og mun sjálfsagt uppskera tímabundnar óvinsældir fyrir, en ef þau skipuleggja sig, standa saman, og vinna vel af heilindum ættu þau að geta skilað þjóðinni í gegnum þetta erfiða verkefni.

Málþóf verður litið hornauga hér eftir. Það verður áhugavert að sjá hvort takist að koma inn gagnrýnni hugsun og alvöru umræðuhefð á Alþingi.

Hefur skynsemi og gagnrýnin hugsun sigrað í kosningunum?

Það á einfaldlega eftir að koma í ljós. Hvert einasta skref er mikilvægt þegar fetað er um hættulegt landsvæði - yfirvofandi kreppa er slíkt landsvæði. Þingmenn þurfa að vera samstíga í gagnrýnni hugsun - þeir þurfa að skilja hvað gagnrýnin hugsun er og hvað hún getur gert fyrir umræður - hætta ljótum ávana sem felst í stanslausum kappræðum og meðfylgjandi rökvillum. 

Myndir eru af formönnum flokka og nýjum þingmönnum.


Ég bara verð að deila þessari mynd með ykkur

Á þessari spaugilegu mynd eru Bjarni Benediktsson og Jóhanna Sigurðardóttir að rífast yfir hausamótum Þórs Saari, í kosningasjónvarpinu frá því í gærkvöldi.

deilur.jpg


Hvers vegna er verið að kjósa í dag? Einkunnir frá 0-10. Hverjir lenda í fallöxinni?

Ég reikna með að flestir séu búnir að gera upp hug sinn og ólíklegt að þessi greining hafi einhver áhrif. Samt vil ég birta hana, enda tel ég fátt mikilvægara en að við áttum okkur á því af hverju það eru kosningar í dag, en ekki á hefðbundnum tíma. Því miður tala flestir frambjóðendur eins og auðjöfrar og virðast í litlu sambandi við þjóðina. Vekur það virkilega engar spurningar?

Ef lokaorð formanna til kjósenda er ekki vísbending um hvað er efst í huga þeirra sem vilja komast á þing, og hvort þeir hafi fyrst og fremst sjálfan sig, flokkinn sinn eða þjóðina í huga, þá veit ég ekki hvað. Það kom mér reyndar ekki á óvart að einungis einn frambjóðenda virðist hafa fæturnar á jörðinni og er að hugsa um þá kreppu sem hefur rétt byrjað.

Hugsaðu um eitt: flestir þeir sem eru í ræðustól eru með yfir milljón í mánaðarlaun og telja sig engar áhyggjur þurfa að hafa á ástandinu - það skellur hvort eð er aðeins á þeim sem hafa lágar tekjur eða meðaltekjur.

Ég spyr um mikilvægi, fókus og hvort að viðkomandi átti sig á af hverju það eru kosningar í dag.

Skoðum nánar það sem viðkomandi hafði að segja, og í ljós kemur að einkunnir margra breytast, enda virðast sumir hafa viljandi gleymt að kreppa bíður handan hornsins - um 20% þjóðarinnar hafa þegar fundið fyrir henni, en hún er skammt undan nema takist að fella niður allar erlendar kröfur á Ísland, sem er að mínu mati óskhyggja ein og ekkert sem hefur vísað til þess síðustu mánuði nema grein skrifuð af Gylfa Magnússyni í vikunni - grein sem er algjörlega á skjön við annað sem hann hefur sagt, og merkilegt að þetta komi upp í kosningaviku. Kannski vill hann einfaldlega halda starfinu sínu, sem væri í sjálfu sér ágætt, því hann hefur sýnt mikinn styrk sem viðskiptaráðherra. En ég er hræddur um að þessi grein hans flokkist undir pólitískan áróður.

 

1

 

Þór Saari, Borgarahreyfingunni

„Við verðum að muna eftir því hvers vegna er verið að kjósa á morgun. Það er verið að kjósa á morgun af því að hér varð algjört efnahagshrun. Stjórnvöld á Íslandi brugðust almenningi algerlega og sveipuðu efnahagsmálin hér í leyndarhjúp, þannig að heimilin lentu á vonarvöl. Við megum ekki gleyma því. Þessi sömu stjórnvöld þau sitja hér í kvöld, allt í kringum mig og bjóða almenningi upp á það að láta kjósa sig aftur á morgun. Við vitum hvað gerðist, hvernig það gerðist og við vitum hverjir bera ábyrgðina. Við megum ekki gleyma því heldur. Það er algjört grundvallaratriði. Ástæðan fyrir því að hlutirnir enduðu eins og þeir enduðu er þó kannski fyrst og fremst sú að við hættum að skipta okkur sjálf af stjórnmálum. Við gleymdum því, við sváfum á verðinum. Við megum ekki gera það. Á morgun þegar við göngum inn í kjörklefann, þá skulum við ekki spyrja okkur þessarar spurningar, aftur og einu sinni, hvað gerðist og hvernig gerðist það. Við vitum hvað það var. Við skulum spyrja okkur þeirrar spurningar, hvað er það sem ég get gert og hvað er það sem mér ber að gera á morgun.“

Kjarni málsins og hreint ótrúlegt að leyndarhjúpurinn skuli ennþá vera að virka á um 80% þjóðarinnar, sem virðast ekki átta sig á hvað er í gangi. Ég er hræddur um að ef ekki verði hlustað á þessu skilaboð verði önnur bylting næsta vetur. Kreppan er nefnilega rétt búin að sýna tennurnar. Hún hefur ekki verið sýnileg þeim sem telja sig hafa hreiðrað örugglega um sig og eru skuldlaus. Borgarahreyfingin man af hverju verið er að kjósa í dag.

Fókus: Þjóðin

Einkunn: 10

 

2

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Framsóknarflokki

„Framsóknarflokkurinn fór í gegnum gríðarlega mikla endurnýjun í janúar, svaraði kallinu um endurnýjun í stjórnmálum og hefur innleitt ný vinnubrögð og er að því, til að mynda í efnahagsmálum. Leitar yfirleitt ráða hjá þeim sem best þekkja til á hverju sviði, höfum haft samband við fólk í atvinnulífinu  og færustu hagfræðinga við að móta tillögur um það hvernig eigi að bregðast við ástandinu eins og það er núna til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi hrun. Út á það ganga allar tillögur okkar og ég hvet menn til þess að kynna sér þær. Aðalatriðið er kannski það að það sem við höfum séð núna, síðustu daga, er að eina leiðin út úr þessum vanda er að gangast við því að Ísland er búið að taka meira að láni en það stendur undir og því þarf að koma til móts við skuldarana með því að gefa eftir.“

Viðurkenna kreppuna og vilja takast á við hana. Framsóknarflokkurinn man hvers vegna er verið að kjósa í dag.

Fókus: Framsóknarflokkurinn

Einkunn: 9

 

3

 

Ástþór Magnússon, Lýðræðishreyfingunni

„Lýðræðishreyfingin veitir þér frelsi. Á morgun ertu frjáls. Á morgun getur þú kosið þig undan oki gömlu, ónýtu flokkanna. Þú getur kosið þig undan kjaftvaskinu á Alþingi og látið verkin fara að tala. Þú getur sjálfur tekið þátt í atkvæðagreiðslum á Alþingi, í umræðum. Vegna þess að við ætlum að koma á beinu lýðræði, þar sem þú kjósandi átt þitt atkvæði. Þetta er mikilvægasta aðhaldið sem þú getur veitt þessu fólki hér sem mun hugsanlega starfa á þinginu. Þetta er það sem mun færa Ísland út úr kreppunni.“

Það er sannleikskorn í þessu hjá Ástþóri. Hann orðar mál sitt hins vegar frekar klaufalega þannig að það lítur út fyrir að maðurinn sé fauti (ég er ekki að segja að hann sé það). Lýðræðishreyfingin man af hverju verið er að kjósa í dag.

Fókus: beint lýðræði (rafræn atkvæðagreiðsla)

Einkunn: 7

 4-5

 

Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri hreyfingunni grænu framboði

„Ég vil byrja á því að þakka þjóðinni fyrir kosningabaráttuna fyrir okkar hönd og mína. Ég hef átt marga ánægjulega fundi um allt land og þeir hafa aukið mér bjartsýni. Ég finn það að þjóðin er þrátt fyrir allt, tilbúinn til að berjast og vill það og við getum sameinað kraftana, bæði ungir sem aldnir. Valið er skýrt á morgun. Við getum kosið það sem var, það sem hrundi í október, hugmyndafræði nýfrjálshyggju og græðgi eða við getum kosið manneskjulegra og réttlátara samfélag í norrænum anda. Og einu get ég lofað ykkur góðir kjósendur, Þið ykkar sem kjósið Vinstri hreyfinguna grænt framboð á morgun, þið kjósið heiðarlegan og óspilltan flokk.“

Segir satt og rétt frá. Viðurkennir hrunið sem var í október, en ekki kreppuna sem hangir yfir okkur og er að koma fjölda fólks í afar slæma stöðu. Vinstri grænir hafa gleymt af hverju það eru kosningar í dag, en minnast þó á að ástandið sé ekki eðlilegt. Að kjósa heiðarlegan og óspilltan flokk ætti ekki að vera kosningaatriði, heldur sjálfsagt mál.

Fókus: Steingrímur J. Sigfússon

Einkunn: 6

 

4-5

Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingunni

„Þýðingarmestu kosningar í sögu Lýðveldisins eru á morgun. Við höfum það sögulega tækifæri að félagshyggju- og jafnaðarmannaflokkar fái meirihluta, þessir tveir flokkar, til þess að stjórna hér landinu. Þessir flokkar hafa mest haft fjörutíu og fimm prósenta fylgi 1978. Nú er þetta sögulega tækifæri. Og hvað gerist við þær breytingar? Við setjum til hliðar nýfrjálshyggjuna og það sem hún hefur lagt grunn að, því sem við erum núna að ganga í gegnum. Við munum geta breytt hér tekjuskiptingunni, sem hefur verið mjög óeðlileg á undanförnum árum, þar sem hefur orðið risavaxið bil milli fátækra og ríkra í þjóðfélaginu. Og ég segi, það skiptir máli hverjir stjórna. Ef Samfylkingin  veðrur leidd til öndvegis í þessum kosningum, þá mun ríkja hér réttlæti og jafnrétti á næstu árum.“

Þessi ræða er pólitísk í gegn og látið eins og kreppan sé ekki við dyrnar. Þetta er lýðskrum af verstu gerð, enda hefur Jóhönnu tekist að afla sér góðs orðspor fyrir að vera hreinskilin og koma hlutunum vel frá sér. Það gerir hún ekki hér. Samfylkingin man ekki af hverju það eru kosningar í dag.

Fókus: Samfylkingin

Einkunn: 6

 

  6-7

 

Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki

„Ég vil fyrst og fremst hvetja kjósendur til þess að nýta atkvæði sitt á morgun til þess að hafa áhrif á framtíðina. Ég tel að við Íslendingar eigum að vera stolt, við höfum öll tækifæri í hendi okkar, við erum meðal þeirra þjóða í heiminum sem er með mesta þjóðarframleiðslu á mann. Við verðum hins vegar að nýta auðlindirnar, grípa þau tækifæri sem gefast. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að ríkisstjórnarflokkarnir sem nú sitja, eru ósammála í mikilvægum grundvallaratriðum. Við kjósendur segi ég, spyrjið ykkur að því, hvaða flokkur er líklegastur til þess að skapa  ný störf, stuðla að atvinnuuppbyggingu. Okkar leið er leið bjartsýni og vonar. Við ætlum að trúa á kraftinn í fólkinu í þessu landi og ég hvet fólk til þess að kjósa þá leið.“

Algjör afneitun og höfðar til kristilegra viðhorfa um von. Sleppir öllu krepputali, enda hefur áróður Sjálfstæðisflokks snúið að því að telja fólki trú um að það sé engin kreppa yfirvofandi. Flokkurinn blekkir með svona töktum. Sjálfstæðisflokkurinn man ekki hvers vegna verið er að kjósa í dag. Þetta er blekkjandi lýðskrum.

Fókus: Sjálfstæðisflokkurinn

Einkunn: 4

 

6-7

 

Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálslynda flokknum

„Það er alveg ljóst að ef við viljum vernda hér tryggingakerfið og heilbrigðiskerfið, þá þurfum við að ná nýjum tekjum. Það höfum við lagt til í Frjálslynda flokknum. Við treystum því að landsmenn sjái skynsemina í því og rökin fyrir því, að halda frjálslyndum þingmönnum inni á þingi Íslendinga, til að tala þar af skynsemi um málefni framtíðarinnar.

Algjör afneitun: Sleppir öllu krepputali og lætur eins og allt sé í sómanum. Frjálslyndi flokkurinn man ekki af hverju er verið að kjósa í dag og virðist engan veginn átta sig á hvað er að gerast eða hvað þarf að gera.

Fókus: Frjálslyndi flokkurinn

Einkunn: 4

 

Mér er ekki sama hvernig kosningarnar fara, en mig grunar að um 80% þjóðarinnar séu í afneitun um að kreppan sé á leiðinni. Þessi 20% sem eftir standa ættu að vera nóg til að þjóðin fái rödd á þing, en engu að síður er líklegt að þeir einu sem geta talist fulltrúar þjóðarinnar verði í stjórnarandstöðu.

Ég mun ekki líta á þessar kosningar eins og kappleik, heldur greindarpróf sem lagt hefur verið fyrir þjóðina, þar sem gildi gagnrýnnar hugsunar eru sett ofarlega á blað.

Vonandi fellur þjóðin ekki á þessu prófi.

Lesendum er velkomið að koma með eigin einkunnir í athugasemdakerfinu, en ég óska eftir rökstuðningi.

(Mynd úr Mogganum í dag)


mbl.is Lokaorð formanna til kjósenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin með 41% fylgi í skoðanakönnun HH

Ef þú ætlar ekki að taka áhættu og gefa litlum flokki atkvæði þitt, kíktu þá á þetta. Þetta eru góð rök fyrir þá sem ákveða að kjósa ekki litla flokka, að kjósa Borgarahreyfinguna, því að hún er samkvæmt þessari könnun stór flokkur.

Alltof margir kjósa eftir því sem kannanir spá, og átta sig ekki á því að fari þeir eftir spám kannana mun spáin rætast, annars ekki.

Hagsmunasamtök heimilanna settu í gang skoðanakönnun fyrir meðlimi sína. Meðlimir samtakanna eru fólk sem hefur áhyggjur af skuldastöðu heimila sinna og annarra í samfélaginu. Það er ekkert flóknara en það.

Meðlimir samtakanna eru úr öllum stéttum samfélagsins og stjórnarmenn mega ekki vera í framboði fyrir stjórnmálaflokk eða á þingi, en eiga það sameiginlegt að hafa áhyggjur af stöðu mála og reyna að gera eitthvað áður en það verður of seint. Það var meðal annars HH að þakka að útborði fjölskyldna af heimilum þeirra var hætt í febrúar, Alþingi samþykkti þennan frest aðeins þar til í ágúst. Þá er spurning hver verður við völd.

Ef það verður Borgarahreyfingin má reikna með að fjölskyldur í landinu fái forgang, án þess að það gangi af fyrirtækjum og efnahagslífi dauðu, eins og sumir munu sjálfsagt reyna að telja þér trú um.

Það er bara einn flokkur fólksins í framboði: X-O

Það skiptir mig engu máli persónulega hvaða flokkur sigrar í kosningunum í dag, enda er ég á leið úr landi, en mér er samt alls ekki sama um samlanda mína. Svo einfalt er það.

Hérna eru niðurstöðurnar:

Ég lít svo á að þeir sem kjósa ekki Borgarahreyfinguna í dag, eru að tefja nauðsynlegar framfarir um fjögur ár, því að þá verður hreyfingin loks búin að stimpla sig almennilega inn og fer að hala inn atkvæðum.

Málið er að þetta þarf ekki að fara þannig. Það er í höndum kjósenda, ekki þeirra sem mæla kjósendur.

Það ert þú sem merkir eXið á seðilinn þinn, enginn annar, engin önnur.


Veistu hvað þú átt að kjósa?

 


 

Áðan skrapp ég í bíltúr. Kveikti á útvarpinu. Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Ég hlustaði ekki nema í um hálftíma, en þennan hálftíma fékk ég sterklega á tilfinninguna að kosningarnar á morgun væru einhvers konar sápuópera eða íþróttaleikur með þremur úrvalskeppendum: Samfylkingunni, Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Hinir væru svolítið leim.

Ég hugsaði með mér. Ef ég hefði þessa síbylju í eyrunum allan daginn og læsi mér ekki til um hluti tengda kosningunum, þá myndi ég kannski trúa þessu - og varla vita um tilvist hinna flokkanna: Framsóknarflokksins, Frjálslynda flokksins, Lýðveldisflokksins og Borgarahreyfingarinnar. Mér leið illa þegar ég hugsaði til þess að svona var þetta fyrir daga Netsins og þá kaus ég sjálfur í samræmi við það sem ég heyrði í útvarpi, sá í sjónvarpi og las í blöðum, án þess að rannsaka hlutina frá grunni. Svona er þetta kannski ennþá í dag fyrir fullt af fólki. Kannski eru Netverjar minni hópur en ég hélt.

 


 

Þessa dagana hef ég heyrt hollræðið "Kjóstu eftir sannfæringu þinni," ansi oft. Kannastu við það? Mér finnst þetta án umhugsunar ágætis ráð. En hvað er sannfæring og hvernig stendur á að við höfum ekki öll sömu sannfæringu? Eftir smá umhugsun fer ég að velta fyrir mér hvort þetta sé nokkuð svo gott ráð, hvort það væri ekki skynsamlegra að ráðleggja: "Kjóstu eftir sannfæringu þinni, ef þú hefur mótað hana af alúð, hugleitt hans og skrifað um hana eða rætt um hana, því að ótjáð hugsun er engin hugsun."

Ef sannfæring þín er byggð á skoðunum einhvers sem vinur þinn ber mikla virðingu fyrir eða ef sannfæring þín stangast á við einhver önnur málefni sannfæringar þinnar, eða þér er nákvæmlega sama - ætlar bara að kjósa það sem þér finnst flottast og mest töff, þá er ástæða til að leggja höfuðið í bleyti.

Það er nefnilega eitt að hafa sannfæringu og annað að hafa mótað hana vel. Skoðanir er hægt að mynda og mata ofan í fjöldann. Það verður til svona múgsefjun. Eins og þegar þér finnst að þú þurfir að halda annað hvort með Manchester United eða Liverpool þó að þér gæti ekki verið meira sama um fótbolta. Það er auðvelda leiðin.

 

 

Markaðsfræðin hefur tæklað þetta vel. Snjallir markaðsfræðingar og grafískir hönnuðir vita nákvæmlega hvernig þeir eiga að ná til fólks og sannfæra þá sem nenna ekki að hugsa, en þegar fólk nennir að hugsa - eins og mér sýnist samfélag bloggara vera vanmetin fyrirmynd um í dag, þá hafa auglýsingarnar ekki sömu áhrif.

Bloggarar nefnilega skrifa sína skoðun um málin, fá viðbrögð við þeim, og komast aðeins dýpra en þeir sem eru óvirkir - hafa kannski vanið sig á mótun upplýsinga með í mesta lagi fjarstýringu í hendinni. Jafnvel þrjóskustu bloggarar virðast þroskast og huXa sig um.

Bloggararnir með lyklaborðin eru kannski ein helsta von lýðræðis, því að þeir eru tilbúnir til að kafa dýpra og sætta sig þegar annað fólk hefur ólíkar skoðanir og lítur ekki á slíkt sem móðgun. Málið er að skrifin móta og þroska hugsun. Ég gæti stutt þá skoðun mína með fræðilegri ritgerð um málið.

 

barack-obama-official-small

 

Sjálfum er mér frekar í nöp við hugtakið "sannfæringu" vegna þess að hún getur átt bæði við um vel mótaðar skoðanir og flöktandi tilfinningar. Þegar við kjósum eigum við ekki að treysta á tilfinningu, heldur rök. Samt mega rökin ekki vera ísköld og óháð tilfinningum. Það þarf að vera jafnvægi þarna á milli. Öfgar í hvora áttina skila engu af viti.

Við erum öll einhvers staðar á milli þess að vera tilfinningarík og tilfinningalaus - og skoðanir okkar virðast oft byggja á hvort við höllumst meira að köldu mati eða einhvers konar hlýrri ást. Það fer svo eftir því hvað verið er að meta og fyrir hverju við höfum umhyggju, að skoðanir okkar fara að mótast - sem verða síðan kannski tímabundið að ákveðinni sannfæringu. Þetta er greinilega flókið mál.

Mig grunar að meirihluti þjóðarinnar og mannkyns nenni einfaldlega ekki að hugsa djúpt, fari frekar í golf, horfir á fótbolta, skellur sér á æfingu, nýtur tímans með vinum og fjölskyldu, og kjósa eftir tilfinningu um eitthvað sem þeim finnst mikilvægt þegar að því kemur, maður kýs hvort eð er alltaf rétt - sama hvað maður kýs. Sumir geta kannski ekki alveg útskýrt forsendur eigin sannfæringar. Þegar viðkomandi á í vandræðum með slíkt er hætt við að viðkomandi hafi ekki hugsað nógu vel um hana - það er gríðarlegur munur á að hugsa vel og að hugsa mikið. 

 

80-20

 

Ég held satt best að segja að 80/20 reglan virki í þessu tilfelli, að aðeins um 20% vinni virkilega vinnuna sína, en hin 80% leiti sér leiðtoga, annað hvort einhverja úr 20% hópnum eða úr 80% hópnum, sem er svolítið skondið þegar maður hugsar til þess. En 80/20 reglan er einfaldlega sú kenning að 20% af öllu sem gert er skipti máli, og að 80% skipti engu máli. Bara pæling um hvernig hlutirnir virka. Hugsanlega mótrök gegn þeirri grundvallarhugmynd íslensks lýðræðis að meirihlutinn ætti að ráða.

Annars langar mig að henda inn nokkrum spurningum um sannfæringu, var að velta fyrir mér að svara þeim í þessari bloggfærslu, en ákvað að leyfa lesendum að glíma við þær á eigin forsendum.

Þær eru svínslega erfiðar spurningar og ekkert eitt rétt svar við neinni þeirra, en glímirðu við þær og skrifar svörin eða ræðir þær við einhvern, færðu eitthvað fyrir þinn snúð, skýrari mynd um það hvað sannfæring er, og þar af leiðandi skýrari mynd af því hver þín sannfæring er og hvort hún sé jafn góð og þú taldir upphaflega. Ef þetta virkar ekki, endurgreiði ég þér upphæðina sem þú greiddir mér fyrir að hala niður þessari grein.

  1. Hvernig get ég gert greinarmuninn á minni eigin sannfæringu og sannfæringu einhvers annars?
  2. Hvernig veit ég hvort að sannfæring mín fylgi skynsamlegum viðmiðum sem eru í takt við það sem skiptir mestu máli?
  3. Hvernig veit ég hvort að sannfæring mín sé byggð á traustum rökum eða tilfinningu sem gæti verið röng?
  4. Hvernig veit ég hvort að sannfæring mín sé reist á góðum dómum eða fordómum?
  5. Hvað hefur það í för með sér að fylgja eftir eigin sannfæringu?
  6. Hvað er sannfæring?
  7. Hvað ætlarðu að kjósa á morgun og af hverju?

Af hverju mun ég kjósa X-O?

Ég hef tapað miklu síðan í október: eignir mínar í heimili og bíl hafa fuðrað upp. Ég missti vinnunna í janúar fyrir að verja 10 vinnustundum í október og nóvember við að hvetja aðra Íslendinga áfram með að stofna bjartsyni.is ásamt forseta Íslands en í óþökk yfirmanns míns, og er að flytja úr landi. Með þessum skrifum vonast ég til að geta skilið eftir mig óeigingjarna og heiðarlega hugsun sem getur hjálpað fólki við að taka góða ákvörðun. 

Frumforsenda þess að ég get hugsað mér að kjósa stjórnmálaflokk, er ef hann hefur staðist eðlilegar og sanngjarnar kröfur um heiðarleika. Því miður tel ég aðeins einn flokk standast þessar kröfur, og rökstyð mál mitt hér að neðan. Það er fyrst og fremst vegna andstöðu minnar við spillinguna sem birst hefur í hinni hefðbundnu flokkapólitík að ég sé mig knúinn til að berjast gegn þeim öflum, með fátæklegum skrifum mínum - ég hef ekkert annað - sem sýnt hafa að þeim sé ekki treystandi.

 

big-falkinnxdbm_jpg_550x400_q95
 

 Árið 2007 lagðist ég í miklar pælingar á stefnum allra flokka, en uppgötvaði mér til skelfingar eftir rúmlega mánuð af samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að allt hélt áfram í sama farinu - Samfylkingin var búin að gleym að hún ætlaði að fella niður verðtrygginguna, hún var búin að gleyma að hún ætlaði í Evrópubandalagið, hún var búinn að gleyma að hún ætlaði að einbeita sér að lýðræðislegri stjórnmálum. Ég botnaði ekkert í hvað var að gerast. Nú þegar komið hefur í ljós að stjórnmálamenn hafa verið á launum hjá fyrirtækjum úti í bæ, fer maður að skilja hlutina aðeins betur.

 


Ég virði Framsókn sem og Sjálfstæðisflokk fyrir að reyna endurnýjun í sínum röðum, en held að slíkir hlutir þurfa að malla mun lengur en í fáeina mánuði til að skila sér. Fyrir endurnýjun voru þessir tveir flokkar á kafi í greiðslum frá fyrirtækjum og hafa ekki birt upplýsingar til að gera hreint fyrir sínum dyrum, og munu því alls ekki fá mitt atkvæði næstu helgi.

Hugsanlega aldrei aftur. En sjáum til.

Reyndar hef ég aldrei kosið annan þessara flokka. Málþófið, ofurstyrkir og leynd yfir fjárhagsvanda þjóðarinnar var Harakiri sjálfstæðisflokksins. Ég vil samt gefa Framsókn frí, enda er greinilegt að þeir eru að reyna að smeygja sér inn út um allar smugur með ansi loðnum en samt furðulega skýrum svörum um afstöðu. Skilyrðin eru bara svo mörg, eins og fyrir inngöngu í ESB að einfaldara væri að segja hreint Nei, en það er bara ekki jafn klókt.

 

c_documents_and_settings_gisli_freyr_og_rakel_my_documents_my_pictures_ihald_is_myndir_samfylking

Samfylkingin endurnýjaði ekkert nema formanninn, og stóð sig hræðilega í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, en hefur hins vegar sýnt lit í stjórn með VG, en virðist samt frekar úrræðalaus þegar kemur að því að koma okkur út úr kreppu - heimilin eru að drukkna og þó þeim hafi verið réttur kútur og korkur, þá er langt í frá að verið sé að kenna fólki að synda. Einnig hafa verið að berast fréttir af háum greiðslum til flokksins og sumra einstaklinga, og þetta fólk hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum; þar af leiðandi er Samfylkingin útilokuð.

 

xp2pix301.sflb

 

Lýðræðishreyfingin er því miður ekki trúverðug, þó að hún hafi háværan og duglegan forystusauð sem ég hef lúmskt gaman af, sem virðist þó sækja sér fólk á lista með frekar vafasömum hætti. Það er ekki heiðarlegt. Ég sá framboðsþátt á Stöð 2 í fyrradag, og ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum þegar fulltrúi Lýðræðishreyfingarinnar hélt sína ræðu og svaraði sínum svörum, af virðingu við viðkomandi mun ég ekki nefna hann á nafn.

Vinstri Grænir hafa verið sigursælir við að sýna fram á að þeir séu heiðarlegir og með hreinan skjöld. Það er frumforsenda nokkurs stjórnmálaflokks. Fyrir það eitt kemur VG til greina. En til að fá atkvæði mitt er ekki nóg fyrir stjórnmálaflokk að sýna fram á heiðarleika - slíkt er að mínu mati einfaldlega frumforsenda sem fáránlegt er að allir geta ekki farið eftir.

Hinn flokkurinn sem kemur til greina þar sem hann hefur ekki sýnt óheiðarleika er Borgarahreyfingin, enda hefur hún reyndar ekki fengið tækifæri til spillingar - og hefur reyndar það skýr markmið og virðist reyndar ekki að taka afstöðu gagnvart málum sem ekki eru á dagskrá hjá þeim - en ég á reyndar erfitt fyrir mér að sjá Þráin Bertelson á Alþingi að ræða ekki eitthvað mál sem kemur upp og er ekki tengt stefnumálum Borgarahreyfingarinnar. Hann er einfaldlega búinn að sýna í gegnum árin að sem listamaður kemur honum allt við og hefur ríka þörf fyrir að tjá sig. Samt er Borgarahreyfingin álitlegur kostur, þar sem að ég sé ekkert að því að stjórnmálamenn hafi skoðanir á hinu og þessu og komi þeim á framfæri, bara alls ekki með málþófi vinsamlegast.

Hugsum okkur lítinn flokk komast á þing með tvo þingmenn. Viðkomandi flokkur gæti beitt sams konar málþófi og Sjálfstæðisflokkur gerði gegn stjórnlagaþingi og lamað þingið detti þeim það í hug að þvinga einungis sínum eigin málum í forgang.

Semsagt vegna skorts á trausti og heiðarleika koma aðeins tveir flokkar til greina fyrir mig: VG og Borgarahreyfingin. En ekki er allt sem sýnist.

 

 

VG virðist hafa sýnt heiðarleika og ekki hefur vissulega ekki brugðist sínum kjósendum. Aftur á móti líkar mér afar illa við hvernig VG misnotaði aðstöðu sína eftir að hafa komist í stjórn til bjargar efnahags þjóðarinnar, og komu í gegn gælumálum sem þau höfðu barist árangurslaust fyrir í tíu ár. Þó að það hafi verið góð mál, eins og að banna vændi á Íslandi, nokkuð sem ber reyndar að fagna - en átti ekki erindi á þessu augnabliki, og aukin vernd fyrir börn gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi - sem voru reyndar ekki vel unnin lög að mínu mati, eins og ég hef áður útskýrt á blogginu, þá hefur VG ekki sýnt heiðarleika með því að misnota aðstöðu sína á þennan hátt. Troða sínum málum í gegn þegar björgun heimila hefði átt að vera í algjörum forgangi. 

Einnig er ég ósáttur við hvernig Reykásinn var tekinn á fjármálaumræðuna strax og völdin voru komnar í þeirra hendur - allar kröfurnar sem gerðar voru í stjórnarandstöðu um skjaldborg fyrir heimilin virðast hafa snúist upp í andstöðu sína. Þeir mega eiga það að af svínunum í forarpyttinum, þá eru þau hreinust.

Samt skil ég að það er pólitískt að misnota aðstöðu sína og ég væri barnalegur ef ég sætti mig ekki við það. En ég er barnalegur og sætti mig ekki við slíkt. Reyndar falla skoðanir heldur ekki með öllum áherslumálum VG, því mér finnst þær sumar frekar öfgakenndar - en það er meginástæða þess að ég mun ekki kjósa þá. Hins vegar fyrir þá sem ætla að kjósa VG, eruð þið tilbúin að kjósa flokk sem lætur tilganginn helga meðölin, bara á annan hátt en hinir flokkarnir?

Þegar spillingin snýst um peninga hjá Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki, en um pólitísk klókindi hjá Lýðveldishreyfingunni og Vinstri Grænum, þá með fullri virðingu fyrir þessum fimm flokkum sem ég treysti ekki til að fara með stjórn Íslands, kemur ekki til greina að greiða neinum þeirra atkvæði.

Þá er bara einn kostur eftir: Borgarahreyfingin. Reyndar gæti ég líka skilað auðu eða sleppt því að kjósa, en þá yrði atkvæði mitt ógilt og atkvæði þeirra sem kjósa einhvern af þessum fimm flokkum fengju aukinn styrk. Það vil ég forðast.

Ég vil taka fram að þó ég fordæmi þessa fimm flokka sem spillta, þá er fjöldi einstaklinga í þeim heiðarlegt og gott fólk - en ég fæ ekki að kjósa um einstaklinga, aðeins flokk - þess vegna kemur þetta fólk ekki til greina. Það eru einstaklingar í VG, Framsókn, Samfylkingu, og jafnvel Sjálfstæðisflokki sem kæmu til greina fyrir mig í persónukjöri, en ekki sem hluti af spilltum flokki.

 

borgarahreyfingin

 

Eini flokkurinn sem stendur eftir er semsagt Borgarahreyfingin eða ekkert. Það er X-O eða að skila auðu.

Þetta er grasrótarflokkur með venjulegu fólki sem ofbauð ástandið og mótmælti því með búsáhöldum og greinaskrifum. Þau ætla sér ekki að verða atvinnupólitíkusar og munu leggja flokkinn niður eftir að hafa náð markmiðum sínum, sem felast í stjórnlagaþingi, persónukjöri, leggja niður verðtryggingu og borga fólki til baka það sem búið er að dæla frá þeim með ofurvöxtum frá 1. janúar 2008 (eða með öðrum orðum gera verðtrygginguna afturvirka til 1. janúar 2008) en það tel ég að muni aldrei nást því að þá munu bankarnir hrynja aftur, því einu fæturnir sem þeir standa á eru einmitt þessir peningar sem verið er að dæla úr hjörtum þeirra sem skulda. Þrátt fyrir þessa óraunhæfu kröfu er hún réttlát, og ég styð hana.

Ég hef ákveðið að gefa þessum flokki tækifæri, einfaldlega vegna þess að hann sér sig ekki sem flokk og þar sem að hinir flokkarnir eru allir búnir að sýna afskræmda sál sína - og góðar ástæður til að berjast gegn þeim.

Þó að Borgarahreyfingin hafi ekki klækjarefi og reynslubolta stjórnmála í sínum förum, og þrátt fyrir að hafa fyrrverandi Framsóknarmann í forystu, þá held ég að ef einhver flokkur geti kynnt sig sem fulltrúa fólksins í landinu, þá er það hann. Þetta er fólkið sem sat úti í sal þegar Ingibjörg Sólrún sagði hátt og snjallt, oftar en einu sinni: "Þið eruð ekki þjóðin!"

Við erum víst þjóðin!

Þess vegna kýs ég X-O

 


Með fullri virðingu,

Hrannar Baldursson


Gúgglaði "Ísland" á kínversku, veistu hvað ég fann?

 

冰島

 

 

Ég prófaði að gúggla orðið "Ísland" á kínversku, sló inn orðið "冰島" (sem er að sjálfsögðu "Ísland" á kínversku. Efsta síðan á Google var Wikipedia á kínversku, og þar var þessi texti:

 冰岛共和国(冰岛语:Lýðveldið Ísland)是北大西洋中的一个岛国,位于格陵兰岛和英国中间,首都雷克雅未克。地理概念上,冰岛经常被视为是北欧五国的一份子[1]。今日的冰岛已是一个高度发展的发达国家,拥有世界排名第五的人均国内生产总值,以及世界排名第一的人类发展指数。

Þýðing:

Lýðveldið Ísland er eyjuþjóð í Norður-Atlantshafi, staðsett á milli Grænlands og Bretlands, höfuðborgin er Reykjavík. Í landfræðilegum skilningi er Ísland oft talið meðal Norðurlandanna fimm. Í dag er Ísland háþróað land, hefur skorað númer fimm í heiminum yfir landsframleiðslu miðað við einstakling og er efst í heiminum yfir menntun einstaklinga.

Kannski eitthvað hafi skolast til í þýðingunni, en mér sýnist Kínverjar ennþá telja að við séum ein af ríkustu og menntuðustu þjóðum heims. Kínverjar eru billjón talsins og Íslendingar aðeins um þrjúhundruð þúsund. Þar af leiðandi halda miklu fleiri að allt sé í besta lagi á Íslandi, heldur en þessir örfáu hræður á klakanum sem kvarta og kveina yfir ástandinu.

Eins og allir vita ræður meirihlutinn í lýðræðisþjóðfélagi og því hlýtur að vera satt að Ísland er flottast í heimi. Halo

Við hljótum að geta gerð þá kröfu til sannleikans að hann sé frjáls og fylgi lýðræðislegum reglum... Pinch ...eða hvað?

 

translate_beta_res

 

Svo þú fáir eitthvað annað en tómt bull út úr þessari grein, þá mæli ég með að þú prófir Google Translate fyrir þýðingar. Þýðingin verður aldrei fullkomin, en maður nær merkingunni úr sæmilega skrifuðum texta hvaðan sem hann er. Þó að íslenskan sé ekki inni í þessu, þá er hægt að hafa samskipti við margfalt fleira fólk um allan heim, einfaldlega með að gúggla.

Ég hef notað þetta til að kaupa dót frá Kína og Indlandi gegnum E-Bay þar í landi - og þetta svínvirkar! Fékk réttar vörur á réttu verði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband