Heimspeki í morgunmat: að byrja hvern dag með krefjandi spurningu

Ég hef unnið við heimspekikennslu, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim, þá mest með unglingum. Nú er staðan þannig að ég starfa ekki mikið við heimspeki lengur, en eins og alltaf er hún mér hugleikin.

Hvern einasta morgun les ég texta úr einhverju heimspekiriti, velti honum fyrir mér og bý til spurningu úr honum, eitthvað sem mig langar sjálfum að velta fyrir mér og reyna að svara. Eftir að hafa skrifað um eina blaðsíðu um spurninguna, leyfi ég ChatGPT að skoða textann sem ég skrifað og búa til mynd út frá honum.

Síðan birti ég spurninguna og myndina á Facebook og Instagram, og pælingarnar á minni eigin heimasíðu. Mig langar með tíð og tíma að gefa út eitthvað af þessum pælingum, en hef ekki ennþá mótað með mér hvernig best væri að bera þær fram, né veit ég hvort nægilegur áhugi væri á þeim til að réttlæta bókaútgáfu.

En þetta er það sem ég geri þessa dagana, birti spurningu á Facebook. Í störfum mínum þar sem ég vinn við ýmis viðfangsefni fullorðinsfræðslu, verkefnastjórnun, hæfnigreiningu, námskrárgerð og kennslu við framhaldsskóla og háskóla, þá beiti ég stöðugt heimspekinni í verkum mínum, því ég hef gætt þess að vera dygðug manneskja sem stöðugt leitar sér þjálfunar í visku, hugrekki, réttlæti og skapgerð. 

Fyrir utan það velti ég fyrir mér öllum þeim mögulegu dyggðum sem til eru, og eftir að hafa velt þeim fyrir mér, reyni ég að framkvæma þær í daglegri hegðun minni. Og sjáðu til, það hefur gert mig að manneskju sem mér líkar að vera. Ég er sáttur við sjálfan mig og alla þá sem ég umgengst í daglegu lífi, því ég pirra mig ekki á hvernig aðrir haga sér, heldur velti meira fyrir mér mínum eigin viðbrögðum, þar sem ég hef enga stjórn á hegðun annarra, en fullkomna stjórn á minni eigin hegðun, og því sem ég vel að gera, hugsa eða vinna við.

Út frá þessu þá má sjá að ég er daglega að ýta undir minn eigin áhuga á heimspeki, og hendi svo bæði spurningum mínum og pælingum út í kosmóið, sem verður hugsanlega til þess að kveikja áhuga hjá öðrum. Ég held áhuga mínum lifandi með að kasta einum viðarbút í glóðirnar hvern einasta morgun, sem síðan brennur gegnum daginn, og ef slíkur neisti nær að kveikja eld í öðrum hug, þá er það sigur fyrir heimspekina.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Hver gæti verið brýnasta spurningin

sem að þig vantar svar við ,tengt lausn lífsgátunnar?

Dominus Sanctus., 27.1.2024 kl. 14:19

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

"Hvað er satt?" er sjálfsagt sú fyrsta í mínum huga. Önnu er "Hvað er gott?" og enn önnur "Hvað er rétt?"

Hrannar Baldursson, 3.2.2024 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband