Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 17. sæti: Terminator 2: Judgment Day

Næsta mynd á listanum er vísindatryllirinn Terminator 2: Judgment Day sem leikstýrð var af "konungi heimsins", James Cameron. Arnold Schwarzenegger endurtók hlutverk sitt sem gjöreyðandinn en fékk að gera vélmennið sem hann leikur mun mannlegra en í frummyndinni, þar sem hann var vél sem ekkert gat stöðvað. Vél kemur í vélar stað þegar nýjasta gerðin af gjöreyðundum, T-1000, er sendur aftur í tímann til að drepa frelsishetjuna John Connor á unglingsaldri, en nú þarf gamla útgáfan að vernda stráksa.

 

Terminator 2: Judgment Day (1991) ***1/2

Sarah Connor (Linda Hamilton) hefur verið í sjálfskipaðri útlegð síðustu 12 árin.  Hún hefur notað tímann til að þjálfa son sinn í skæruhernaði og áttað sig á hvað hún þarf að gera til að stoppa vélarnar frá því að ná heimsyfirráðum. Hún er handsömuð þegar hún reynir að sprengja höfuðstöðvar tölvuþróunar þar sem hún taldi að verið væri að þróa tæknina sem gefur vélmennum eigin vilja. Henni er komið fyrir á geðveikraspítala þar sem starfsmenn keppast um að misnota hana og gera lítið úr hennar sögu.

Þegar hún fréttir að sonur hennar, John Connor (Edward Furlong) er horfinn og fóstuforeldrar hans hafa verið myrtir, veit hún nákvæmlega hvað er í gangi. Hún ákveður að gera flóttatilraun samdægurs. Þegar hún er næstum sloppin út mætir hún gjöreyðandanum sjálfum (Arnold Schwarzenegger) fyrir utan lyftu og er strax gripin mikilli skelfingu. Hún leggur á flótta.

Gjöreyðandinn hefur verið sendur endurforritaður af John Connor framtíðarinnar til þess að vernda unglinginn John Connor (sjálfan sig) gegn morðtilraun nýjustu uppfærslu gjöreyðandans, T-1000 (Robert Patrick), sem búinn er til úr fljótandi málmi, getur tekið á sig form allra manneskja sem hann hefur snert. Hann getur einnig breytt sér í einföld verkfæri og eggvopn.

Sagan er í raun endurtekning á The Terminator, fyrir utan að persónurnar hafa allar gjörbreyst og gegna ólíkum hlutverkum. Sarah Connor er nú þjökuð af lífsreynslu og biturð, og verður nánast að tortýmanda sjálf þegar hún kemst að því hver hannaði gervigreindina sem gaf vélunum eigin vilja. Sá er uppfinningamaðurinn Miles Dyson (Joe Morton), en hann hefur notað afganga úr gjöreyðandanum sem gengið var frá í fyrri myndinni til að stökkva yfir í næsta stig gervigreindar. Miles Dyson og John Connor gegna því báðir hlutverki fórnarlambsins sem verður að sleppa undan gjöreyðanda. Gjöreyðandinn hann Arnold er kominn í hlutverk Kyle Reese sem verndarinn göfugi.

Árið 1991 vakti Terminator 2: Judgment Day mikla athygli fyrir byltingarkenndar tæknibrellur, sem reyndar eru farnar að láta svolítið á sjá í dag. Það var nýleg og dýr tækni að umbreyta einni manneskju í aðra á sannfærandi hátt, en það tekst mjög vel hérna. Allar tæknibrellur, gervi og hljóðbrellur eru til mikillar fyrirmyndar, og ekki er verra að þau Linda Hamilton og Arnold Schwarzenegger eru bæði í fantagóðu formi.

Reyndar er tónn Terminator 2: Judgment Day mun léttari en frummyndarinnar. John Connor reynir að kenna vélmenninu eitthvað um mannlega þáttinn. Vélmennið spyr til dæmis hvað tár séu, og af hverju fólk grætur. Hann fær kennslustund í mannlegum samskiptum og lofar að drepa engan, sem náttúrulega stríðir algjörlega gegn eðli gjöreyðanda. Smám saman fær gjöreyðandinn samúð með samferðarfólki sínu og tekur afstöðu gegn vélunum, kynbræðrum sínum; og reynist á endanum skilja fullkomlega hvað það þýðir að vera fórnfús hetja.

Sagan er stundum svolítið væmin og myndin er heldur löng, en hún nær 137 mínútum.  Samt sem áður er Terminator 2: Judgment Day fantagóð skemmtun sem gaman er að horfa á öðru hverju.

 

Óskarsverðlaun Terminator 2: Judgment Day

 

Vann:

Besta hljóð

Bestu tæknibrellur

Bestu hljóðbrellur

Besta föðrun

 

Tilnefnd:

Besta klipping

Besta kvikmyndataka

 

Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black

 

Sýnishorn úr Terminator 2: Judgment Day 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góð sería, fór batnandi fanns mér.

Ásdís Sigurðardóttir, 11.11.2007 kl. 20:59

2 Smámynd: arnar valgeirsson

djöllins... maður þarf að fara að rifja upp gamla dótið aftur. þarf bara að taka sér smá dvd frí. í mánuð...

en hvort sem maður er sammála eða ekki er þetta skemmtilegt. ekki allir sem nenna svona sko.

arnar valgeirsson, 12.11.2007 kl. 00:26

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það er einfaldlega gaman að hafa ástæðu til að kíkja aftur á þessar gömlu góðu.

Hrannar Baldursson, 12.11.2007 kl. 03:55

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vissulega er Terminator 2 mikil snilld. En þær myndir sem eru ofar á listanum eru einfaldlega enn meiri snilld.

Hrannar Baldursson, 7.12.2007 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband