Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Er "Guð" persónugerving siðferðis?

“Siðferðið er algjört, og sem slíkt er það líka hið guðlega.” - Sören Kierkegaard

 

Veltum þessu aðeins fyrir okkur. Hver einasti menningarhópur hefur sitt eigið siðferði. Það er frekar auðvelt að skilja hvernig siðferði þróast hjá okkur, út frá væntingum, reynslu og sögum sem ganga kynslóð frá kynslóð. En hvað ef við persónugerðum siðferðið, væri þá ekki eðlilegt að persónugerva það sem "Guð"?

Hver einasti menningarhópur virðist leggja ólíkan skilning í hugtakið Guð, bæði þeir sem trúa og ekki trúa á Guð, og nú er ég ekki að tala um fjölgyðistrú, aðeins eingyðistrú, og þeir gefa honum ólík nöfn, og telja hann heilagan, vegna þess að siðferðið er hverju samfélagi heilagt, því það gefur lífinu djúpa merkingu. 

Stofnað er félag utan um siðferðið, sem verður síðan að trúarbrögðum, einfaldlega vegna þess að það nenna ekki allir að pæla í svona hlutum, kynslóð eftir kynslóð, og einhver verður því að fá það verkefni, og einhvern veginn gleymist sumum okkar að þetta raunverulega fyrirbæri sem siðferðið er, hefur verið persónugert yfir í "Guð", og athyglin beinist stöðugt meira að fyrirbærinu Guði en siðferðinu, rétt eins og stundum gleymist að Mikki Mús er ekki alvöru mús eða hugsandi vera.

Þegar þessir menningarhópar rekast svo á aðra menningarhópa, gegnum ferðalög, fólksflutninga, og á síðari tímum betri fjarskipti, kemur skýrt og greinilega í ljós að fólk er víða ósammála um hvað “Guð” merkir, og sumir berjast fyrir eigin túlkun á hugtakinu, jafnvel af heift og ofbeldi sem er í andstöðu við upprunalega merkingu þess. En okkur manneskjunum er tamt að berjast fyrir því sem við teljum okkar.

Við búum í svolítið merkilegum heimi í dag, þar sem samskiptatæknin, og kannski sérstaklega Facebook, er að brúa bilið milli gjörólíkra menningarhópa gegnum Internetið, sem verður til þess að sum okkar byrjum að hugsa hlutina í aðeins stærra samhengi, förum út fyrir okkar eigin þægindaramma, sjáum að hugsanlega hafa margar af skoðunum okkar, sem við trúum í dag, verið byggðar á röngum forsendum.

Sum okkar hrista kannski hausinn og finnst þetta ekki skipta máli og segja að ef við höfum skoðun, þá höfum við hana bara, og að hún er okkar. En þannig er það ekki. Þeir sem skipta aldrei um skoðun dæma sjálfa sig út úr mannsandanum. Þeir hætta að skipta máli fyrir umræðuna. Kannski skipta þeir máli hér og nú, í lokuðum hópi, en skoðanir þeirra eru fastar í núinu og fortíðinni, en munu ekki ná inn í framtíðina.

Breytir Internetið því hvernig við upplifum okkar eigið siðferði? Og ef svo er, sjáum við fram á að ný persónugerving verði til úr þessu nýja siðferði? Munum við skapa nýjan Guð, sem er kannski ennþá víðsýnni en þeir sem hafa verið skapaðir eða uppgötvaðir áður, eða kannski þröngsýnni og þrjóskaðri? Eða áttum við okkur á að Guð er ekkert endilega viðeigandi fyrirbæri lengur, þar sem við vitum sífellt meira um hversu lítið við vitum um heiminn, sjálf okkur og mannlegt siðferði?


Hvaða máli skiptir siðferðið?

“Hið siðferðilega sem slíkt er algjört, og sem hið algjöra á það við um alla, sem þýðir frá öðru sjónarhorni að það á alltaf við. Það hvílir algjörlega á sjálfu sér, hefur ekkert fyrir utan sig sem er tilgangur þess, en er sjálft tilgangur fyrir allt utan þess sjálfs, og þegar hið siðferðilega hefur drukkið þetta allt í sig, fer það ekki lengra.” - Sören Kierkegaard

 

Þannig byrjar Kierkegaard pælinguna sem hann kallar “Problema I” í bókinni “Ótta og skjálfta”, en þar skoðar hann eðli þess atburðar í Biblíunni þegar Abraham var skipað af Guði að fórna syni sínum, til að sanna ást sína á Guði, sem býr til ákveðna þversögn, þar sem Guð á að standa fyrir allt hið góða í heiminum, en verkið sem Abraham átti að gera var í sjálfu sér illt.

 

Hvernig er hægt að framkvæma eitthvað illt en samt halda áfram að vera þátttakandi í hinu góða? Er það mögulegt?

 

Kierkegaard bendir á að þó hið siðferðilega sé algilt fyrirbæri, þá hefur það ekkert gildi nema farið sé eftir því, og þannig er það manneskjan sem er undanfari siðferðisins, en ekki öfugt. Mig grunar að Sören hafi rétt fyrir sér hérna, og í stað þess að fylgja eftir hans pælingum, langar mig að skoða þetta út frá eigin sjónarhorni, í dag. 

 

 

Manneskjan lifir í takmarkaðan tíma, en siðferðið jafn lengi og mannkynið. Svo framarlega sem það eru tvær manneskjur til staðar í heiminum, þurfa þær að lifa eftir ákveðnum reglum, og munu hafa siðferðisvitund til að byggja þessar reglur.

 

Það er ekkert mál fyrir okkur að byggja skýjaborgir siðferðilegra viðmiða, en þegar ekki er farið eftir þeim, þá breytist siðferðið í eitthvað fjarstæðukennt, sérstaklega fyrir þá sem fara ekki eftir því, en fyrir hina sem fylgja því eftir í lífi og verki, er enginn sannleikur mikilvægari. Slíkar manneskjur, sem framkvæma í anda siðferðis, hneykslast auðveldlega þegar aðrar manneskjur brjóta í bága við það, og hafa sterka tilfinningu um að slíkar framkvæmdir séu rangar, óháð því hvort þær fylgi lögum eða ekki.

 

Sú manneskja sem hagar sér í samræmi við siðferðið, er sú sem hefur velt fyrir sér hvað siðferði er, komist að ákveðnum niðurstöðum, er tilbúin að velta þeim frekar fyrir sér og jafnvel skipta um skoðun sé það skynsamlegt, og framkvæmir í samræmi við þessar niðurstöður.

 

Hinar manneskjurnar sem haga sér ekki í samræmi við siðferðið, hafa hugsanlega aldrei velt fyrir sér hvað það er og þess í stað viðtekið kreddur umhugsunarlaust, hafa ákveðið að skipta aldrei um skoðun, þrjóskast við til eilífðarnóns sama hvað hver tautar, og framkvæma í samræmi við eigin skoðun, hvort sem það er byggt á trú, lagabókstafi eða einhverju öðru, sem ekki er siðferðið sjálft.

 

Vandinn er að siðferðið sem slíkt, þó að það sé algjört og algilt, getur verið ósýnilegt þeim sem láta sér það ekki varða. Og sama hvað reynt er að sannfæra viðkomandi, þá skiptir það viðkomandi engu máli. Sjálfsagt er þetta ein af þeim fjölmörgu ástæðum sem valda tilvist trúarbragða og betrunarstofnanna. Við höfum sterka þörf til að samfélagið fylgi siðferðinu, og einhver verður að verja það.

 

En það er sama þó að siðferði í einu ríki hrynji, að við völdum taki fólk sem hefur mest áhuga á eigin hag eða annarlegum hugmyndum um heimsyfirráð eða annað, þá stendur slíkt alltaf yfir í takmarkaðan tíma, og þegar þeim tíma er lokið, byrjar samfélagið aftur að byggja sig upp, og sífellt er siðferðið til staðar, eitthvað sem virðist innbyggt í okkur öll sem heild, sem leiðir okkur til að byggja betra samfélag úr rústunum.

 

Við getum gagnrýnt ráðamenn fyrir að taka ákvarðanir sem eru siðferðilega vafasamar, en samt eru það ákvarðanir sem þeir mega taka, og þessar ákvarðanir móta samfélagið um stund, til að fylgja viðmiðum sem hafa lítið með siðferði að gera. Við getum fyllst miklum viðbjóði þegar við sjáum einhvern taka rangar ákvarðanir til þess eins að hagnast á þeim sjálfur, en jafnframt fyllst aðdáunar þegar einhver tekur ákvörðun sem er siðferðileg og hagnast viðkomandi ekki neitt, eins og þegar Guðni forseti ákvað að gefa launahækkun sína til góðgerðamála.

 

Ef við veltum aðeins fyrir okkur þeim Abraham og Ísak, manninum sem var ætlað að fórna syni sínum til að fylgja vilja Guðs, sjáum við skýrt að ef hann hefði framkvæmt þetta verk, hefði Abraham verið skilgreindur í nútímaskilningi sem róttækur bókstafstrúarmaður, jafnvel hryðjuverkamaður. En hefði hann ekki framkvæmt þetta voðaverk, hefði hann ekki farið að vilja Guðs, sem skilgreiningu samkvæmt myndi aldrei vilja að faðir dræpi son sinn, og væri sjálfsagt hægt að dæma sem skynsama manneskju þess í stað. 

 

Eina rétta ákvörðunin fyrir Abraham var að hunsa hið ímyndaða yfirvald sem ætlaðist til að hann þóknaðist því, en virða siðferðið sem kemur í veg fyrir að við framkvæmum sjálf slík voðaverk.


Hverju eigum við að trúa og ekki trúa?

“Við getum verið blekkt með því að trúa hinu ósanna, en við getum vissulega einnig verið blekkt með því að trúa ekki hinu sanna.” - Sören Kierkegaard

26169915_10156112026171410_3023285109237187675_n 

Þegar lygarar geta sannfært okkur um að ábyrgur fréttaflutningur séu lygar einar, eingöngu vegna þess að þeim falla fréttirnar ekki að skapi, og komast upp með það, kviknar sá möguleiki að hinar myrku miðaldir geti endurtekið sig. 

Það var afsakanlegt á tímum þegar samskiptatæknin var takmörkuð, og trú á skilyrðislausan sannleika frá æðri máttaröflum eða valdhafa þótti eðlilegur hlutur, en í dag, þegar Internetið hefur tekið sér stöðu sem mannsandinn sjálfur, þar sem við getum fundið upplýsingar um hvað sem er með því einu að gúggla, og komist í samband við nánast hvern sem er, þá sjáum við skýrt og greinilega ennþá meiri þörf en nokkurn tíma áður fyrir skýrri og gagnrýnni hugsun, sem hjálpar okkur að átta okkur á hverju við eigum að trúa, hverju við eigum ekki trúa, og frestun á ákvörðun þegar við höfum ekki nóg rök eða forsendur til að trúa eða ekki trúa. 

Ég vil gefa mér að við ættum helst aðeins að trúa því sem er satt og rétt, sannleikanum. Og þá geri ég ráð fyrir að sannleikurinn sé eitthvað sem er alltaf samkvæmt sjálfu sér og í samræmi við upplifun okkar á veruleikanum.

Þetta vekur upp ákveðnar spurningar.

Er sannleikurinn eitthvað algjörlega háð hverjum einasta mannshug? Höndlum við öll sannleikann á okkar eigin hátt, er hann ólíkur fyrir okkur öll, eða er hann eitthvað ennþá stærra? Er sannleikurinn öll þau þekking sem mannsandinn hefur aflað frá örófi alda, til dagsins í dag? Og ef svo er, munu breytingar morgundagsins hafa áhrif á hver sannleikurinn verður þá? Er það sem við vitum ekki um framtíðina hluti af sannleikanum í dag?

Við höfum heyrt að sannleikurinn sé afstæður, og við höfum líka heyrt að sannleikurinn sé algjör. Hvort ætli sé málið? 

Ef sannleikurinn er afstæður, þýðir það að þessar síbreytilegur verur sem við erum, sem lifum í þessu síbreytilega lífi, fáum varla höndlað hann, heldur rétt trúað hinu og þessu, og vonandi því sem er rétt, og vonandi ekki trúað því sem er rangt. Og upplýsingarnar og upplifunin breytist dag frá degi, ár frá ári, öld frá öld. 

Hins vegar ef sannleikurinn er algjör, þá er hann óbreytanlegur. Af einhverjum völdum höfum við tilhneigingu til að vera svolítið trúgjörn á slíkt fyrirbæri. Þegar við trúum á algjöran sannleik, þá þurfum við fólk sem túlkar hann fyrir okkur, matreiðir okkur útgáfu sem okkur finnst passa, og skapar okkur heim þar sem allt er í röð og reglu.

Sannleikurinn er sjálfsagt einhvers staðar þarna á milli, algjörs skipulags og síbreytilegs kaós, og umfang hans meira en það sem við þekkjum í dag, hann er líka það sem við þekkjum ekki, og það gerir höndlun hans svolítið krefjandi, sérstaklega þegar svo fáar manneskjur virðast hafa raunverulegan áhuga, og tilbúnar að velta honum fyrir sér af dýpt. 

En þá kemur þörf fyrir traust, fólk getur ekki endalaust verið að pæla í hlutunum, einhverjum þarf að treysta, og með tíma verður þetta traust að trú, og síðan að trúarbrögðum. Það virðist hluti af okkur að treysta aðeins fáum til að leiða hjörðina, sama þó að þessir fáu hafi ekkert endilega réttu svörin, né réttu spurningarnar, þeir sem þykjast vita betur. Þeim virðist oftast takast að sannfæra hjörðina og öðlast fádæma vinsældir, ná kjöri, að minnsta kosti þar til að í ljós kemur að þeir hafa bara verið að blekkja, jafnvel blekkt sjálfa sig, og þá er það orðið of seint.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband