Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum, 15. sæti: Serenity

Nú er komið að myndum sem ná fulli húsi hjá mér, en þær hafa allar þrennt sameiginlegt: þær komu mér á óvart, mér fannst þær skemmtilegar og ég nenni að horfa á þær aftur og aftur. Nú er komið að Serenity, kvikmynd sem byggð var á sjónvarpsþáttunum Firefly sem FOX sjónvarpsstöðin var fljót að taka af dagskrá. Það var alls ekki gæðanna vegna, enda sjaldséð jafn vandað efni. Aftur á móti eru til samsæriskenningar um að persónurnar í þáttunum hafi farið ansi frjálslega með hugmyndir sínar um frelsi, og hefði í raun verið hægt að skilgreina sem hryðjuverkamenn, enda sumar aðalhetjanna með heldur vafasama og pólitísk ranga siðferðiskennd. Ég mæli ekki aðeins með Serenity, heldur einnig með sjónvarpsþáttunum sem hægt er að eignast á DVD.

Þess má geta að Firefly á gífurlega traustan aðdáendahóp sem má fræðast lítillega um á myndbandinu hér fyrir neðan, og eru þessir aðdáendur kalliðir "Browncoats" eða brúnfrakkar, en það eru fyrrverandi uppreisnarmenn gegn illa heimsveldinu í heimi Serenity kallaðir.  

 

Serenity (2005) ****

Mel (Nathan Fillion) er skipstjórinn á Serenity. Það er þrennt sem hann metur mest í lífinu, geimskipið Serenity, áhöfnina og eigið líf. Hann hefur siðferðilega fótfestu á við jó-jó, þykist vera algjörlega siðlaus, uppreisnarmaður sem skýtur fyrst, bankaræningi, málaliði og smyglari. Samt má hann ekkert aumt sjá.

Áhöfn hans er full af eftirminnilegum persónum. Þar fer fremstur stýrimaðurinn Wash (Alan Tudyk) sem flýgur Serenity eins og laufi í vindi. Zoe (Gina Torres) er harðsnúin fyrrverandi uppreisnarmaður og eiginkona Wash. Kaylee (Jewel State) er vélstjórinn sem verður ástfangin af dularfulla lækninum Simon (Sean Maher), en hann hugsar um ekkert annað en að vernda River (Summer Glau) systur sína sem hefur verið notuð sem tilraunadýr hjá ríkisstjórninni, en hún getur meðal annars lesið hugsanir og barist eins og brúðurin í Kill Bill. Vændiskonan Inara (Morena Baccarin) er konan sem Mal þráir. Skrautlegastur allra er þó Jayne (Adam Baldwin), málaliði sem hefur aðeins einn forgang, peninga fyrir sjálfan sig.

Ríkisstjórnin hefur sent stóískan mannaveiðara (Chiwetel Ejiofor) til að hafa hendur í hári River, en hún hefur verið í nálægð helstu ráðamanna. Þar sem hún getur lesið hugsanir er aldrei að vita hvað hún veit. Til að halda þessu leyndarmáli leyndu vill ríkisstjórnin allt gera til að koma River fyrir kattarnef.

Þegar ríkið hefur lagt gildru fyrir Mal til að ná River og drepa alla þá sem vitað er til að gætu hjálpað áhöfninni á Serenity, grípur Mal örþrifaráða. Eina leiðin út úr þessari hnappheldu er að hjálpa River. Geimkúrekarnir á Serinity þurfa einnig að berjast við illar geimverur sem kallaðar eru Rifarar, en þær rífa lifandi fólk í sig. River veit af hverju.

Serenity er óbein gagnrýni á notkun geðlyfja til að halda óvenju órólegu fólki rólegu, rétt eins og þeir sem dæla rítalín í börnin sín. Ríkið ákveður að gefa öllum íbúum plánetu nokkurrar lyf, sem á að róa það niður, og gerir það að mestu. Uppreisnarmaðurinn Mal sér strax illskuna sem felst í að stjórna hegðun fólks á þennan hátt og segir:

"I aim to misbehave".

Serenity er fyrsta kvikmyndin sem Joss Whedon leikstýrir í fullri lengd, en hann skrifar einnig handritið. Þar fer magnaður listamaður.  Hann skapaði áður vampírubanann Buffy og þá frábæru sjónvarpsþætti sem fjölluðu um hana og hennar félaga, en betur skrifað sjónvarpsefni hef ég ekki séð. Einnig sá hann að hluta um Angel, þætti sem fylgdu einni af persónunum úr Buffy inn í aðra borg. Þar á eftir gerði hann þættina Firefly, sem fjalla um áhöfn Serenity, rétt eins og myndin, með sömu leikurum. En af einhverjum ástæðum var taumunum kippt úr höndum hans og hætt var við þættina á miðju fyrsta tímabili, sem var bæði mikið áfall fyrir hann og leikarana, enda með hreint frábæran efnivið í höndunum. Framleiðendur virðast bara ekki skilja þann fjársjóð sem Joss Whedon og sköpunargáfa hans er. Hann er kannski óþægilegur gaur með sérþarfir, en þannig eru snillingar, óferjandi og óalanda, en óborganlegir.

Serenity er klassísk vísindaskáldsaga sem á vonandi eftir að vinna sér traustan sess sem ein af þeim bestu, enda einstaklega spennandi, fyndin, vel gerð og skemmtileg í alla staði.

 

Myndband um bakgrunn Serenity:
 



Sýnishorn úr Serenity:




Bestu vísindaskáldsögurnar í kvikmyndum:

 
15. sæti: Serenity

16. sæti: Predator

17. sæti: Terminator 2: Judment Day

18. sæti: Blade Runner

19. sæti: Total Recall

20. sæti: Pitch Black



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Polly, gaman að það séu fleiri sem kunna vel að meta Firefly og Serenity. Ég sé að myndböndin virka ekki á blog.is síðunni þannig að ég bendi líka á gagnrýnina á minni eigin vefsíðu: Serenity (Rólegheit agalausra geimkúreka) þar sem myndböndin virka.

Hrannar Baldursson, 30.11.2007 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband