Abre los Ojos (1997) ****

420px-Abre_los_ojos_movie

César (Educardo Noriega), sjálfselskur og ríkur glaumgosi, heldur afmælisveislu heima hjá sér og bíður meðal öðrum sínum besta vini, Pelayo (Fele Martinéz)  í veisluna. Pelayo gerir þau mistök að taka kærustuna sína, Soffíu (Penélope Cruz) með, en César verður strax hrifinn af henni og grípur tækifærið þegar vinur hans hefur drukkið of mikið, og fylgir stúlkunni heim. Eftir nóttina, þegar César heldur heim á leið, keyrir Nuria (Najwa Nimmi) upp að honum og býður honum far. Hann sest upp í hjá henni. Hún keyrir bílnum vísvitandi útaf veginum á ofsahraða, drepur sjálfa sig en César lifir af, með ónýtt andlit. 

AbreLosOjos02

Þar sem að César metur ytri fegurð en telur allt tal um innri fegurð tóma vitleysu hrynur líf hans. Hann trúir ekki að nokkrum geti líkað við hann með þetta afmyndaða andlit. Hann trúir ekki að Soffía geti elskað hann og efast um vináttu Pelayo. César leitar ráða hjá bestu lýtalæknum í heimi, en enginn getur lagað andlit hans. Síðasta úrræðið er að láta frysta sig og lifa í draumaheimi í stað veruleikans.  

Eftir kaldrifjað morð situr César í fangaklefa og er í stöðugum viðtölum með sálfræðingi, sem reynir að grafast fyrir um hvers vegna César myrti manneskju og leitar leiða til að finna honum hugarró. César felur andlit sitt með grímu, enda trúir hann að andlit sitt sé afmyndað undir henni. Eftir dáleiðslutíma hjá sálfræðingnum fer César að gruna veruleikann vera annan en það sem hann upplifir. Hann fer að gruna að hann sé hvorki staddur í veruleikanum né draumi; heldur martröð og sjálfskaparvíti sem hann verður að sleppa úr. 

AbreLosOjos01

Abre los Ojos er spænsk mynd, leikstýrð af Alejandro Amenábar, sem meðal annars hefur einnig gert hinar stórgóðu The Sea Inside og The OthersAbre los Ojos var endurgerð af leikstjóranum Cameron Crowe undir nafninu Vanilla Sky.  Endurgerðin er ekki jafngóð frumgerðinni, þar sem að leikur Eduardo Noriega er óviðjafnanlegur og Tom Cruise kemst ekki með tærnar þar sem Noriega hefur hælana.

Abre los Ojos fjallar um hugtök og spurningar sem hverjum og einum er mikilvægt að skilja og velta fyrir sér.

  • Veltur hamingjan á fegurð og ríkidæmi, eða trú manns á eigin ágæti; eða sannleikanum sjálfum?
  • Getur nokkur einstaklingur þekkt sjálfan sig og verið sáttur við það sem hann finnur; og ekki bara sáttur, heldur hamingjusamur?
  • Hefur það illa sem við framkvæmum áhrif á eigin hamingju, eða skiptir það engu máli þegar á heildina er litið?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

náði aldrei að sjá þessa en sá vanilla sky. veit ekki alveg hvað mér fannst um hana en efast ekki um að þessi er betri.

the others var nú aldeilis frábær.

sá planet terror í kvöld. fannst hún stórskemmtileg. kann ekki að analysera hana en mér var skemmt. mikið blóð og fallegar téllingar...

arnar valgeirsson, 7.8.2007 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband