Færsluflokkur: Kvikmyndir

The Adventures of Tintin (2011) ****

80008_gal

"The Adventures of Tintin" er besta ævintýramynd úr smiðju Steven Spielberg síðan "Raiders of the Lost Ark". Mér finnst "Tintin" betri en hinar þrjár Indiana Jones myndirnar, "E.T.", "Jurassic Park" (báðar),  "Minority Report" og "War of the Worlds", þó að hún komist ekki í sama klassa og "Munich", "Color Purple" og "Schindler's List". Spielberg hefur verið frekar slappur síðasta áratuginn og kominn tími til að hann sýni aftur klærnar.

Flestir Íslendingar hafa kíkt í Tinnabækurnar. Þeir sem féllu fyrir þeim munu falla fyrir þessari mynd, enda nær hún persónunum einstaklega vel, sérstaklega Tinna, Kolbeini Kafteini og þeim Skafta og Skapta. 

Ef "Tintin" hefði ekki verið jafn tæknilega fullkomin og hún er, hefði hún samt verið stórskemmtileg kvimynd. Sagan er góð samansuða úr nokkrum Tinnabókum, og játa ég mig sigraðan að geta ekki nefnt vísanir úr öllum þeim bókum sem vísað var í með einum eða öðrum hætti. 

Persónurnar og umhverfið er í fullkomnu listrænu samræmi við Tinnabækurnar, bara aðeins fágaðra. Og þá er mikið sagt. Hergé hafði þróað persónuna og söguumhverfið með sífellt betri teikningum gegnum árin og einhvern veginn virkar þessi kvikmynd eins og rökrétt skref fram á við. 

Ég fór á "Tintin" með tveimur börnum mínum og konu. Konan mín sagði að andlit mitt ljómaði af gleði meðan myndin var í gangi. Þrjú okkar gáfu "Tintin" 10 í einkunn, en sonurinn gaf henni 9. Góð meðaleinkunn!

82065_gal

Þrívíddin er vel gerð. Gleraugun sem við fengum voru þægileg gúmmígleraugu og engar truflanir í þrívíddinni. Það var óvenju þægilegt að horfa á hana, og síðan var henni líka beitt skemmtilega til að leysa eina af ráðgátum sögunnar. 

Sagan fjallar um fyrstu kynni Tinna og Kolbeins, og þessi fyrstu kynni eru vafin í skemmtilega ráðgátu um skip sem fórst fyrir hundruðum ára og tengist gleymdri fjölskyldusögu Kolbeins kafteins. Tinni getur ekki annað en rannsakað ráðgátuna, látið rota sig, og sífellt hársbreidd frá byssukúlum harðsnúna þrjóta. Vinátta þeirra Kolbeins er vel útfærð, og ljóst að þeir þurfa hver á hinum að halda, Tinni vegna þess að annars væri líf hans frekar dauft og leiðinlegt, en Kolbeinn til að leysa öll þau vandamál sem hann þarf stöðugt að takast á við; en hann hefur átt í stríði við áfengisvanda, lent í slæmum félagsskap og tapað sjálfum sér algjörlega, áður en hann hittir þessa ungu hetju.

Þeir eiga eitt sérstaklega gott atriði saman þar sem Tinni aldrei þessu vant efast um eigið ágæti, og Kolbeinn flytur í því tilefni þrumuræðu sem hittir beint í mark.

Myndin er vel leikin, sérstaklega af Jamie Bell í hlutverki Tinna, Andy Serkis sem Kolbeinn, og af þeim öflugu grínfélögum Simon Pegg og Nick Frost sem tvíburalöggurnar seinheppnu. Ekki má gleyma Tobba, en hann á margar góðar senur.

82075_gal

Það er ekki hægt að segja annað en að "Tintin" sé unnin af sönnu draumaliði. Bara það að Edgar Wrigth kemur að handritsgerðinni er mikill gæðastimpill, en hann er aðal maðurinn á bakvið snilldarmyndirnar "Shawn of the Dead" og "Hot Fudge", og ekki má gleyma framleiðandanum, sjálfum leikstjóra "Lord of the Rings", Peter Jackson. Þetta er einvalalið. 

Þegar myndinni lauk þótti mér það frekar leitt, því mig langaði að fylgjast með fleiri ævintýrum Tinna. Það verður spennandi að bíða eftir næstu verkum Peter Jackson, því hann mun leikstýra næstu Tinnamynd, en í millitíðinni taka að sér leikstjórn einnar skemmtilegustu skáldsögu allra tíma: "The Hobbit". Það er til einhvers að hlakka í náinni kvikmyndaframtíð. 

82077_gal

 

Myndir: Rotten Tomatoes


Super 8 (2011) **

75208_gal

"Super 8" er samvinnuverkefni á milli Steven Spielberg og J.J. Abrams sem er frægastur fyrir að vera maðurinn á bakvið sjónvarpsþættina "Lost" og "Alias", sem og kvikmyndanna "M-III" og "Star Trek". Abrams notar óspart sviðsetningu úr ævintýramyndum Spielberg, svo mikið að undirritaður var alltof meðvitaður um Spielberg áhrifin úr myndum eins og "Close Encounters of the Third Kind," "E.T.", "Jaws", "Jurassic Park", og "Raiders of the Lost Ark". Þetta var of mikið af hinu góða.

Reyndar byrjar myndin vel og skemmtilegar persónur kynntar til sögunnar. Hetjurnar eru sex börn, en aðalhetjurnar eru löggusonurinn Joe Lamb (Joel Courtney) og Alice Dainard (Elle Fanning), en þau tvö eiga afar góða spretti saman. Einnig er löggan Jackson Lamb (Kyle Chandler) skemmtileg og hefði getað orðið flottur karakter hefði meiri tíma verið varið í gaurinn.

Fyrstu tíu mínúturnar eru mjög góðar, þar sem börnin safna saman í hóp til að gera zombie-kvikmynd. Við upptöku á lestarstöð keyrir bíll inn á teinana og klessir á lestina þannig að hún fer öll úr skorðum, og tætlur úr henni dreifast um allt svæðið án þess að skaða börnin. Úr lestinni sleppur geimskrímsli sem verður að sjálfsögðu þrándur í götu barnanna og tilefni fyrir herinn til að hertaka allan bæinn.

Restin er tóm klisja, fyrir utan furðulega tilraun til að vekja samúð með skrímsli sem snæðir manneskjur í morgunverð. Ég hafði gaman af myndum Spielberg í gamla daga og missti ekki af einni einustu þeirra þegar þær komu í bíó, og hafði jafn gaman af "The Goonies" og "Gremlins", en "Super 8" kemst ekki með tærnar þar sem hinar fyrrnefndu hafa hælana. Til þess vantar henni allan frumleika og kraft.

Ég get ekki mælt með "Super 8". Samt höfðu þeir fimm félagar sem sáu hana með mér öll gaman að henni og töldu sumir að hún yrði jafnvel költ klassísk. Því mati er ég ósammála. Hafirðu gaman af skrímsla-b-myndum, leigðu þér þá eitthvað eins og "Infestation" (2009). Hún er ódýrari í alla staði, en miklu skemmtilegri.


X-Men: First Class (2011) **1/2

74057_gal

"X-Men: First Class" er margfalt betri kvikmynd en hin hryllilega "Thor" sem kom út fyrr í sumar. Persónusköpunin er góð, og sagan er ágæt, en allra best er illmennið sem Kevin Bacon leikur með stæl.

Til að gera stutta sögu styttri, þá hefur nánast allt sem kemur fram í þessari mynd komið fram í hinum X-Men myndunum. Þetta er forsaga sem fjallar um hvernig Magneto (Michael Fassbender) og Prófessor X (James McAvoy) kynnast og verða næstum vinir þar til í ljós kemur að lífsskoðanir þeirra fara ekki saman og þeir eru ekki nógu þroskaðir til að gera út um málin á skákborðinu.

76415_gal

Ástæðuna virðist hægt að rekja til þess að Prófessor X fékk gott uppeldi, á meðan Magneto ólst upp í fangabúðum nasista undir harðri stjórn orkuboltans Sebastian Shaw (Kevin Bacon). Prófessor X er algóður, með skýrt siðferði og aga, leitar eftir þekkingu á stökkbreytingum og samskiptum við stökkbreytt fólk. Hann gengur til liðs við CIA þegar Shaw ógnar heimsfriðnum. Magneto á ýmislegt sökótt við Shaw og leitar hans í hefndarhug. 

Prófessor X og Magneto hittast og ákveða að vinna saman gegn þessum sameiginlega óvin, og á meðan safna þeir að sér hópi stöbbreyttra sem fylkja sér síðan í lið með öðrum þeirra frekar en hinum. Við getum sagt að X-Men hópurinn segi að meðalið helgi tilganginn, en Magneto liðið að tilgangurinn helgi meðalið, en á meðan gerir Shaw engan greinarmun á tilgangi eða meðali.

77133_gal

Þetta er svolítið skemmtileg saga, en því miður tekst leikstjóranum ekki að halda dampi út alla myndina. Hann hefði sjálfagt getað klippt hana niður töluvert og náð þannig betri takti, en sjálfsagt vegna reynsluleysis hefur hann ekki tímt að klippa burt óþarfa atriði. 

Ég sé ekki eftir að hafa séð "X-Men: First Class" í bíó, en játa að hún skilur heldur ekkert sérstaklega mikið eftir sig. Allra besta atriðið í myndinni er varla lengra en tíu sekúndur, en þar birtist gamalkunnur karakter úr myndaröðinni og fer með setningu ásamt svipbrigðum sem kitluðu hláturtaugarnar. 

Ekki alvond kvikmynd en ekki algóð heldur. Ívið betri en verri. Ef við berum "X-Men: First Class" saman við fyrri X-Men myndirnar, þá finnst mér hún ekki jafn góð og "X-Men" og "X2: X-Men United"; hins vegar mun betri en bæði "X-Men: Last Stand" og "X-Men Origins: Wolverine".


Fast Five (2011) ***1/2

fast-five-poster-600w

Framhaldsmynd númer fjögur hefur engan rétt til að vera betri en myndir 1-4. Ég man ekki til að slíkt hafi áður gerst í kvikmyndasögunni, en "Fast Five" tekst það sem engri kvikmynd hefur áður tekist; að rúlla upp fyrirmyndunum á stórskemmtilegan hátt.

Justin Lin er leikstjóri sem borgar sig að fylgjast með í framtíðinni. Honum tekst að byggja upp spennumynd um hraðskreiðan kappakstur þar sem bílarnir eru ekki í aðalhlutverki, heldur persónurnar. Reyndar eru þessar persónur líkari ofurhetjum en venjulegu fólki. Fyrir undirritaðan dregur það engan veginn úr gildi myndarinnar. 

"Fast Five" er spennumynd sem tekst að víkja sér undan öllum helstu klisjunum. Ég átti sífellt von á ákveðnum klisjum, en í stað þess að falla í gildrurnar, voru handritshöfundarnir klókir og notuðu þær til að byggja aukna spennu. 

fast_five_12

Það magnaða við "Fast Five" eru allar aukapersónurnar og hvernig tekst að gera þær eftirminnilegar. Aðalpersónurnar eru líka fínar. Þær eiga næstum allar skilið sína eigin kvikmynd, slíkur er sköpunarkrafturinn í þessari mynd.

Fyrir þá sem hafa fylgst með seríunni frá því "The Fast and The Furious" (2001) kom út með frekar slöku framhaldi "2 Fast 2 Furious" (2003) og frekar óvænt góðu framhaldi "The Fast and The Furious: Tokyo Drift", sem síðan hélt áfram með hinni arfaslöku "Fast and Furious" (2009), þá er "Fast Five" óvænt gleðigjöf, því hún er betri en allar fyrri myndirnar til samans.

Það er ekki nóg með að Dwayne Johnson blæs nýju lífi í söguna með hinni eitilhörðu sérsveitarlöggu Hobbs, heldur er sögusviðið líka óvænt og skemmtilegt, Rio de Janero í Brasilíu, og þar að auki er leikarahópurinn frá fjölmörgum þjóðum, og hver öðrum betri, sem gefur myndinni svolítið sérstakan blæ. Maður finnur fjölmenningakúltúr streyma út úr fingurgómum leikstjórans. Það er frekar sjaldgæft í hasarmyndum.

Það var lengi draumur manna að sjá Schwarzeneigger og Stallone kljást á hvíta tjaldinu. Þeir birtust loks saman í hinni hörmulegu "The Expendables" (2010) og gerðu lítið fyrir goðsöguna um þessa hasarjötna hvíta tjaldsins. Vin Diesel og Wayne Johnson hafa þessa efnablöndu sem gaman er að sjá í svona myndum. Það er gaman að sjá þá takast á og hvernig sögupersónur þeirra þróast. Þetta er sérstaklega skemmtilegt þar sem hvorki Vin Diesel né Wayne Johnson hafa verið að gera neitt sérstaklega góða hluti síðustu ár.

fast-five-wallpapers-1

En aðeins um söguþráðinn. 

Dominic Toretto "Vin Diesel" er á leið í fangelsi þegar honum er bjargað af félögum sínum, fyrrum FBI löggunni Brian O'Conner (Paul Walker) og systur hans Mia. Saman flýja þau frá Bandaríkjunum til Brasilíu, eða eins og klisjan segir, úr öskunni í eldinn. Þar lenda þau upp á kant við mafíuforingja borgarinnar sem hefur sér til aðstoðar nánast allt gjörspillta lögregluliðið, fyrir utan hina undurfögru löggu Gisele Harabo (Gal Gadot). Þegar fréttist af þeim félögum í Rio mætir sérsveitarlöggan Luke Hobbs (Dwayne Johnson) á svæðið með hörkulið, sem svífst einskis til að klófesta hina eftirsóttu.

Toretto ákveður að ræna mafíuforingjann, og fær til sín stóran hóp góðra vina sem leggur á ráðin með honum. Á sama tíma leitar mafían, löggan og sérsveitin að þessum ofurhetjum hraðskreiðra bíla. Sagan er vel sögð og vissulega til þess gerð að fá áhorfandann til að hlýja og halda sér fast í sætið, og það tekst ljómandi vel.

Það eina neikvæða við myndina er að það eru nokkur bílaáhættuatriði sem eru algjörlega ómöguleg, en samt skemmtilega útfærð. Þau draga úr trúverðugleika myndarinnar, þar til maður áttar sig á að þetta er ofurhetjumynd. Þá verður þetta bara gaman.

Fast-Five_01

Það er ljóst að framhald verður á þessum myndaflokki. Með þeirri persónusköpun sem birtist í þessari mynd nálgast hún það að skapa sinn eigin söguheim, svona eiginlega eins og "Star Trek" eða "Star Wars". 

Góð skemmtun í bíó!


Source Code (2011) ****

source-code-poster

Tímaflakkstryllirinn "Source Code" hefði getað heitið "Quantum Leap: The Movie" og sjálfsagt fengið betri aðsókn fyrir vikið. Hún er skemmtilegur og vel gerður samtíningur úr snilldar kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Það má segja að umgjörðin komi úr "Quantum Leap" (1989-1993) og "24" (2001-2010), en söguþráðurinn úr "Groundhog Day" (1993), "Avatar" (2009) og "Star Trek" (2009). Öll þessi blanda heppnast vel.

"Source Code" er önnur kvikmynd leikstjórans Duncan Jones í fullri lengd. Sú fyrri var "Moon" (2009) og báðar með eftirminnilegum söguþræði og persónum sem fá áhorfandann til að velta hlutunum fyrir sér. Það er eins og loks hafi stigið fram á sviðið leikstjóri sem getur gert fyrir kvikmyndir það sem Philip K. Dick (1928-1982) gerði fyrir smásögur.

Colter Stevens (Jake Gyllenhaal) vaknar í lest, í líkama annars manns og hefur átta mínútur þar til lestin springur í loft upp. Hann hefur verið sendur til að finna upplýsingar um þá hryðjuverkamenn sem stóðu fyrir sprengjunni. Hann þarf að upplifa þessar sömu átta mínútur óteljandi sinnum til að ná valdi á aðstæðum og kynnast fólkinu í lestinni, sérstaklega hinni aðlaðandi Christina Warren (Michelle Monaghan). Eftir því sem hann kynnist fólkinu betur, og sérstaklega dömunni, vaknar hjá honum áhugi á að bjarga öllum í lestinni, sem er náttúrulega ómögulegt verkefni (eða "Mission Impossible" (1996)), enda tilvistin í lestinni ekkert annað en minning.

source-code-movie-poster-2011-1020694538

En málið er ekki einfalt. Samkvæmt dr. Rutledge (Jeffrey Wright) er Colter aðeins að upplifa síðustu átta mínútur í lífi kennara sem staddur var í lestinni, og hann á engu að geta breytt, þar sem þetta er bara minning.

Þegar Colter skýst yfir í veruleikann í hvert skipti sem hann deyr á áttundu mínútu er hann lokaður inni í einhvers konar tanki, og hefur aðeins samskipti við tvær manneskjur, annars vegar Goodwin (Vera Farmiga) og hins vegar dr. Rutledge (Jeffrey Wright), en sá síðarnefndi er jafnframt hálfgerður Frankenstein, svo enn sé bætt við vísunum. 

Reyndar leikur Scott Bakula lítið hlutverk í myndinni, en Bakula lék að sjálfsögðu aðalhlutverkið í þáttunum "Quantum Leap". Hann talar meira að segja eins og dr. Sam Becket gerði í þeim þáttum, en honum var títt að segja "Oh boy!". 

Jake Gyllenhaal keyrir söguna áfram og er jafn góður í "Source Code" og hann var slakur í "Prince of Persia" (2010), og jafn góður og hann var í hinni afar góðu "Brothers" (2009) þar sem hann var í aðalhlutverki ásamt Natalie Portman og  Tobey Maguire.

Eins og títt er um góðar vísindaskáldsögur, þá spyr hún heimspekilegra spurninga sem virðast við fyrstu sýn frekar einfaldar, en þegar pælt er í þeim leynast hugmyndir sem hafa kannski ekki flotið upp á yfirborðið hjá okkur öllum. Stóra spurningin er hvað minningar séu, hvort að minning sé eitthvað meira og merkilegra en hugarburður? Skapa sameiginlegar minningar heim okkar eða er heimurinn bara efnislegt tóm? 

Það er alltof sjaldan sem maður sér svona góðan vísindatrylli í bíó.

Allgjör snilld!


Fyrsta sýnishornið úr Tinna í leikstjórn Steven Spielberg

adventure-of-tintin-poster_487x721

Tinni í leikstjórn Steven Spielberg með nýrri 3D tækni. Þetta verður áhugavert.


Stone Age. Ertu til í að gefa þessari stuttu teiknimynd einkunn?

Kunningi minn tók þátt í gerð þessarar teiknimyndar. Mér finnst hún frábær. Vildi bara deila henni með ykkur.

Skrifaðu endilega athugasemd og ég kem henni til höfunda.


Tron: Legacy (2010) ***

tron-legacy-pos353

Tron: Legacy hefur allt sem 11 ára drengur getur þráð: tölvuleiki, mótorhjól, leikföng, flugvélar, heilmyndir (holograms), bardagaatriði, klónað illmenni, hálfgerðan Obi-Wan, og ekki einn einasta koss.

Tron: Legacy er sjálfstætt framhald af Tron (1982) og eiga það sameiginlegt að Jeff Bridges leikur aðalhlutverkið í þeim báðum. Fyrri myndin er þekkt fyrir að vera fyrsta kvikmyndin til að nota tölvugerðar tæknibrellur, en sú síðari verður seint þekkt fyrir slíkan frumleika. Hins vegar er sú nýja mun meiri skemmtun og flæðir betur en sú fyrri. Tron er barn síns tíma, en Tron: Legacy er bara barn.

Sagan hefst á dularfullu hvarfi Kevin Flynn (Jeff Bridges) árið 1985. Hann skilur eftir sig soninn Sam (Garrett Hedlund) sem áður hafði misst móður sína, en hann er alinn upp af afa sínum og ömmu. Kevin Flynn hafði verið með nýjan tölvuleikjaheim í vinnslu, þar sem spilarar gætu bókstaflega farið inn í leikjaheiminn og spilað eins og þeir væru staddir í veruleikanum. Til að hanna heiminn fer Kevin Flynn inn í þennan blessaða tölvuheim og strandar þar þegar tvífari hans Clu (Jeff Bridges) gerir uppreisn og yfirbugar hann. Ástæða uppreisnar Clu er að saman ætluðu þeir að byggja fullkominn heim, en Kevin Flynn uppgötvar að hugmynd hans um fullkomleika gekk ekki upp þegar í ljós kom að ófullkomnar verur urðu til af sjálfu sér í þessum heimi. 

Clu var hannaður til að skapa fullkominn heim, og þess vegna verður hann að eyða öllu sem ekki passar inn í hann. Hann áttar sig ekki á að enginn heimur getur orðið fullkominn sem inniheldur skort á umburðarlyndi.

Einnig hafði Kevin Flynn búið til Tron (Bruce Boxleitner) sem hefur það verkefni að vernda notendur tölvuleiksins, en Clu hefur tekist að endurforrita Tron þannig að hann er ekkert annað en öflugt verkfæri í höndum hans.

Þetta er baksagan. Kevin Flynn hefur verið lokaður inni í þessum tölvuleikjaheimi í 25 ár þegar sonur hans slysast í heimsókn, og lendir í miklum hremmingum þar sem hann er strax sendur í bardaga upp á líf og dauða þar sem forrit kasta diskum hvert í annað og aka um á stafrænum ljóshjólum í afar flottu atriði. 

Hinir tveir heimar myndarinnar eru veruleikinn og tölvuleikjaheimurinn. Veruleikinn er í tvívídd, eins og venjuleg bíómynd, en tölvuleikjaheimurinn er í þrívídd. Því miður er þrívíddin ekki jafn mögnuð og hún hefði getað verið og jafnast engan veginn á við notkun tækninnar í Avatar. Þrívíddin virkar frekar flöt. 

Myndin er vel leikin, sérstaklega af Bridges, sem eftir 25 ár í tölvuleikjaheimi hefur öðlast slíka stóíska ró að hann jafnast á við Obi-Wan Kenobi úr Star Wars, auk þess að hann notar nokkurs konar Jedi hugarbrellur og getur haft áhrif á umhverfið með því einu að snerta það. Hann er líka flottur sem Clu, en hann hefur verið yngdur og tölvuteiknaður upp á nýtt og virkar þannig svolítið gervilegur, sem passar reyndar fullkomlega.

Garrett Hedlund er fínn í hlutverki Sam, þó að hann hafi engan veginn stjörnusjarma á við Bridges. Quorra (Olivia Wilde) er eini alvöru samherji Sam og Kevins í þessum tölvuleikjaheimi og markmið þeirra beggja verður að vernda hana fyrir fullkomnunaráráttu Clu, og finna leið út úr þessum lokaða heimi.

Þrátt fyrir skemmtilegar brellur og hressilega mynd er sagan frekar klisjukennd og hægt er að sjá endinn fyrir nánast frá upphafi, en það á bara við um gagnrýnendur og eldri áhorfendur. 

Tron: Legacy er hins vegar fullkomin fyrir 11 ára pjakka, enda hafa 11 ára pjakkar aðrar hugmyndir um fullkomleika en sjóaðir gagnrýnendur.


The Social Network (2010) 0: Hefurðu nokkurn tíma sofnað í bíó?

Í gærkvöldi fór ég á "The Social Network" og átti í vandræðum með að halda mér vakandi. Þar sem ég hef mikinn áhuga á kvikmyndum velti ég fyrir mér hvort að myndin hafi verið svona léleg eða ég svona syfjaður. 

Ég var nokkur ferskur þegar myndin byrjaði, en þá byrjaði það sem kalla má endalaust blaður þar sem hausar á kvikmyndatjaldinu kepptust um að segja eitthvað snjallt. Persónurnar í myndinni þótti mér svo óáhugaverðar að ég byrjaði að líta í kringum mig og velta fyrir mér hvort aðrar manneskjur í salnum væru ekki áhugaverðari. 

Ég reyndi þó.

En sofnaði. Svo vaknaði ég. Enn var sami tónninn á skjánum. Ég sofnaði aftur, og aftur.

Þessi upplifun var eins og leiðinlegur draumur. Flestir mínir eigin draumar eru skemmtilegri.

Sjálfsagt hefur verið einhver djúp pæling og hugmyndir á bakvið söguna, kvikmyndatökuna, handritið og leikinn, en mér tókst ekki að finna neitt af viti í þessu.

Reyndar má vel vera að ástæðan fyrir að mér fannst ekkert til þessarar myndar koma að ég þjáðist af ferðaþreytu og almennri syfju. Svo er sjálfsagt ekkert að marka þennan dóm því ég reikna með að hafa sofið um 70% af sýningartímanum.

Ég hef einu sinni áður sofnað í bíó. Það var þegar ég sá bíómynd um máv með tónlist eftir Neil Diamond, "Jonathan Livingstone Seagull". Þá mynd leigði ég mörgum árum síðar og reyndi að horfa á hana aftur, en réð ekki við mig og sofnaði aftur.

Ætli megi ekki segja að ég hafi upplifað "The Social Network" eins og mávagarg yfir fiskimiðum. 


Tengill á tilmæli Hagsmunasamtaka heimilanna til lántaka vegna dóma Hæstaréttar

Sé glæpurinn nógu stór mun enginn trúa að hann hafi verið framinn. 

Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Ríkisstjórn Íslands, stofnanir sem brugðust almenningi algjörlega fyrir efnahagshrunið, endurtaka leikinn og bregðast almenningi algjörlega aftur á sama hátt og áður. Það hefur verið skipt um andlit í brúnni, en afstaðan er óbreytt: einkarekin fjármálafyrirtæki ber að vernda umfram önnur fyrirtæki og heimili í landinu þó svo að þar hafi verið framin afbrot innandyra með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðina alla.

Ég sé til að mynda engan mun á afstöðu Vinstri grænna sem eru við völd í dag með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokks sem var við völd fyrir Hrun ásamt Samfylkingu. Eini munurinn virðist felast í einhverjum gæluverkefnum sem tengjast kynjafræðum og femínisma, nokkuð sem hefur lítið að gera við frumþarfir almennings, ef þú kíkir á færslu mína um þarfapíramída Maslows: Sveltur fólk á Íslandi í dag?

Ást og umhyggja eru mikilvægar þarfir en ætti ekki að forgangsraða á undan öryggi og frumþörfum.

Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Ríkisstjórn Íslands gáfu út leiðbeinandi tilmæli sem gefa lánafyrirtækjum leyfi (þó ólöglegt sé) til að setja vexti eftir eigin hentisemi á gengistryggð lán í stað gengistryggingar láns sem stökkbreyttist við gengisfall krónunnar. Þannig er verið að verðlauna og bjarga þeim sem brutu lögin, í stað þess að refsa þeim og bæta almenningi þann gífurlega skaða sem hann hefur orðið fyrir vegna þessara lögbrota.

Sumir tala um að ef eitthvað sé gert fyrir "skuldara" (lántakendur) sé verið að verðlauna áhættusækið fólk, jafnvel fjárhættuspilara. Það kann vel að vera í sumum tilfellum. En í fjölmörgum tilfellum er um að ræða fólk sem keypti sér bíl til þess eins að sinna nauðsynlegum ferðum, eins og að komast til og frá vinnu, kaupa í matinn, fara með börnin í skóla, - nokkuð sem því miður er afar erfitt að gera með almenningssamgöngum.

Þetta fólk tók lán til að fjármagna kaup á bílum, og margt þeirra keypti notaða bíla þannig að mánaðarleg greiðsla var viðráðanleg. Þegar sú greiðsla tvöfaldast hins vegar, var mikil hætta á að fólk færi á hausinn. Það gat þó fryst bílalán í takmarkaðan tíma, og tekið út séreignarsparnað til að halda sér á floti, en séreignarsparnaður er peningur sem fólk hafði áætlað að nota sem lífeyri. Nú þegar sá lífeyrir er búinn, hvað verður um eftirlaunaáætlanir þessa fólks?

Talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna hafa brugðist við tilmælum valdaklíku ríkisstjórnarinnar með eigin tilmælum sem eru meira í anda íslenskra laga og þeirra aðstæðna sem eru í gangi, og halda áfram að verja almenning gegn stöðugri ógn fjármálavaldsins sem virðist nota ríkisstofnanir sem strengjabrúður eftir geðþótta. Hvernig slík stjórn á stofnunum er möguleg má lesa um í Rannsóknarskýrslunni góðu.

Smelltu hér til að lesa tilmælin frá HH.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband