The Adventures of Tintin (2011) ****

80008_gal

"The Adventures of Tintin" er besta ævintýramynd úr smiðju Steven Spielberg síðan "Raiders of the Lost Ark". Mér finnst "Tintin" betri en hinar þrjár Indiana Jones myndirnar, "E.T.", "Jurassic Park" (báðar),  "Minority Report" og "War of the Worlds", þó að hún komist ekki í sama klassa og "Munich", "Color Purple" og "Schindler's List". Spielberg hefur verið frekar slappur síðasta áratuginn og kominn tími til að hann sýni aftur klærnar.

Flestir Íslendingar hafa kíkt í Tinnabækurnar. Þeir sem féllu fyrir þeim munu falla fyrir þessari mynd, enda nær hún persónunum einstaklega vel, sérstaklega Tinna, Kolbeini Kafteini og þeim Skafta og Skapta. 

Ef "Tintin" hefði ekki verið jafn tæknilega fullkomin og hún er, hefði hún samt verið stórskemmtileg kvimynd. Sagan er góð samansuða úr nokkrum Tinnabókum, og játa ég mig sigraðan að geta ekki nefnt vísanir úr öllum þeim bókum sem vísað var í með einum eða öðrum hætti. 

Persónurnar og umhverfið er í fullkomnu listrænu samræmi við Tinnabækurnar, bara aðeins fágaðra. Og þá er mikið sagt. Hergé hafði þróað persónuna og söguumhverfið með sífellt betri teikningum gegnum árin og einhvern veginn virkar þessi kvikmynd eins og rökrétt skref fram á við. 

Ég fór á "Tintin" með tveimur börnum mínum og konu. Konan mín sagði að andlit mitt ljómaði af gleði meðan myndin var í gangi. Þrjú okkar gáfu "Tintin" 10 í einkunn, en sonurinn gaf henni 9. Góð meðaleinkunn!

82065_gal

Þrívíddin er vel gerð. Gleraugun sem við fengum voru þægileg gúmmígleraugu og engar truflanir í þrívíddinni. Það var óvenju þægilegt að horfa á hana, og síðan var henni líka beitt skemmtilega til að leysa eina af ráðgátum sögunnar. 

Sagan fjallar um fyrstu kynni Tinna og Kolbeins, og þessi fyrstu kynni eru vafin í skemmtilega ráðgátu um skip sem fórst fyrir hundruðum ára og tengist gleymdri fjölskyldusögu Kolbeins kafteins. Tinni getur ekki annað en rannsakað ráðgátuna, látið rota sig, og sífellt hársbreidd frá byssukúlum harðsnúna þrjóta. Vinátta þeirra Kolbeins er vel útfærð, og ljóst að þeir þurfa hver á hinum að halda, Tinni vegna þess að annars væri líf hans frekar dauft og leiðinlegt, en Kolbeinn til að leysa öll þau vandamál sem hann þarf stöðugt að takast á við; en hann hefur átt í stríði við áfengisvanda, lent í slæmum félagsskap og tapað sjálfum sér algjörlega, áður en hann hittir þessa ungu hetju.

Þeir eiga eitt sérstaklega gott atriði saman þar sem Tinni aldrei þessu vant efast um eigið ágæti, og Kolbeinn flytur í því tilefni þrumuræðu sem hittir beint í mark.

Myndin er vel leikin, sérstaklega af Jamie Bell í hlutverki Tinna, Andy Serkis sem Kolbeinn, og af þeim öflugu grínfélögum Simon Pegg og Nick Frost sem tvíburalöggurnar seinheppnu. Ekki má gleyma Tobba, en hann á margar góðar senur.

82075_gal

Það er ekki hægt að segja annað en að "Tintin" sé unnin af sönnu draumaliði. Bara það að Edgar Wrigth kemur að handritsgerðinni er mikill gæðastimpill, en hann er aðal maðurinn á bakvið snilldarmyndirnar "Shawn of the Dead" og "Hot Fudge", og ekki má gleyma framleiðandanum, sjálfum leikstjóra "Lord of the Rings", Peter Jackson. Þetta er einvalalið. 

Þegar myndinni lauk þótti mér það frekar leitt, því mig langaði að fylgjast með fleiri ævintýrum Tinna. Það verður spennandi að bíða eftir næstu verkum Peter Jackson, því hann mun leikstýra næstu Tinnamynd, en í millitíðinni taka að sér leikstjórn einnar skemmtilegustu skáldsögu allra tíma: "The Hobbit". Það er til einhvers að hlakka í náinni kvikmyndaframtíð. 

82077_gal

 

Myndir: Rotten Tomatoes


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langar að sjá Tinna en ég þoli bara ekki þrívíddar myndir. Mér finnst ákaflega leiðinlegt að horfa á þær. Ég fór t.d. á Græna fólkið hans Cameron held ég, þótti gaman í byrjun myndar en mikið afskaplega varð þetta þreytandi þegar líða fór á myndina.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.10.2011 kl. 20:22

2 Smámynd: Ómar Ingi

Nú erum við SAMmála DON , Frábær skemmtun og HRIKALEGA vel gerð Kvikmynd.

Ómar Ingi, 31.10.2011 kl. 22:49

3 identicon

Tinni, must see mynd alveg; Eiga líka á blu-ray og alles :)

DoctorE (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband