Tron: Legacy (2010) ***

tron-legacy-pos353

Tron: Legacy hefur allt sem 11 ára drengur getur þráð: tölvuleiki, mótorhjól, leikföng, flugvélar, heilmyndir (holograms), bardagaatriði, klónað illmenni, hálfgerðan Obi-Wan, og ekki einn einasta koss.

Tron: Legacy er sjálfstætt framhald af Tron (1982) og eiga það sameiginlegt að Jeff Bridges leikur aðalhlutverkið í þeim báðum. Fyrri myndin er þekkt fyrir að vera fyrsta kvikmyndin til að nota tölvugerðar tæknibrellur, en sú síðari verður seint þekkt fyrir slíkan frumleika. Hins vegar er sú nýja mun meiri skemmtun og flæðir betur en sú fyrri. Tron er barn síns tíma, en Tron: Legacy er bara barn.

Sagan hefst á dularfullu hvarfi Kevin Flynn (Jeff Bridges) árið 1985. Hann skilur eftir sig soninn Sam (Garrett Hedlund) sem áður hafði misst móður sína, en hann er alinn upp af afa sínum og ömmu. Kevin Flynn hafði verið með nýjan tölvuleikjaheim í vinnslu, þar sem spilarar gætu bókstaflega farið inn í leikjaheiminn og spilað eins og þeir væru staddir í veruleikanum. Til að hanna heiminn fer Kevin Flynn inn í þennan blessaða tölvuheim og strandar þar þegar tvífari hans Clu (Jeff Bridges) gerir uppreisn og yfirbugar hann. Ástæða uppreisnar Clu er að saman ætluðu þeir að byggja fullkominn heim, en Kevin Flynn uppgötvar að hugmynd hans um fullkomleika gekk ekki upp þegar í ljós kom að ófullkomnar verur urðu til af sjálfu sér í þessum heimi. 

Clu var hannaður til að skapa fullkominn heim, og þess vegna verður hann að eyða öllu sem ekki passar inn í hann. Hann áttar sig ekki á að enginn heimur getur orðið fullkominn sem inniheldur skort á umburðarlyndi.

Einnig hafði Kevin Flynn búið til Tron (Bruce Boxleitner) sem hefur það verkefni að vernda notendur tölvuleiksins, en Clu hefur tekist að endurforrita Tron þannig að hann er ekkert annað en öflugt verkfæri í höndum hans.

Þetta er baksagan. Kevin Flynn hefur verið lokaður inni í þessum tölvuleikjaheimi í 25 ár þegar sonur hans slysast í heimsókn, og lendir í miklum hremmingum þar sem hann er strax sendur í bardaga upp á líf og dauða þar sem forrit kasta diskum hvert í annað og aka um á stafrænum ljóshjólum í afar flottu atriði. 

Hinir tveir heimar myndarinnar eru veruleikinn og tölvuleikjaheimurinn. Veruleikinn er í tvívídd, eins og venjuleg bíómynd, en tölvuleikjaheimurinn er í þrívídd. Því miður er þrívíddin ekki jafn mögnuð og hún hefði getað verið og jafnast engan veginn á við notkun tækninnar í Avatar. Þrívíddin virkar frekar flöt. 

Myndin er vel leikin, sérstaklega af Bridges, sem eftir 25 ár í tölvuleikjaheimi hefur öðlast slíka stóíska ró að hann jafnast á við Obi-Wan Kenobi úr Star Wars, auk þess að hann notar nokkurs konar Jedi hugarbrellur og getur haft áhrif á umhverfið með því einu að snerta það. Hann er líka flottur sem Clu, en hann hefur verið yngdur og tölvuteiknaður upp á nýtt og virkar þannig svolítið gervilegur, sem passar reyndar fullkomlega.

Garrett Hedlund er fínn í hlutverki Sam, þó að hann hafi engan veginn stjörnusjarma á við Bridges. Quorra (Olivia Wilde) er eini alvöru samherji Sam og Kevins í þessum tölvuleikjaheimi og markmið þeirra beggja verður að vernda hana fyrir fullkomnunaráráttu Clu, og finna leið út úr þessum lokaða heimi.

Þrátt fyrir skemmtilegar brellur og hressilega mynd er sagan frekar klisjukennd og hægt er að sjá endinn fyrir nánast frá upphafi, en það á bara við um gagnrýnendur og eldri áhorfendur. 

Tron: Legacy er hins vegar fullkomin fyrir 11 ára pjakka, enda hafa 11 ára pjakkar aðrar hugmyndir um fullkomleika en sjóaðir gagnrýnendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Snilldarmynd til að sjá á IMAX approved tjaldi í 3D eins og i Egilshöll.

Ómar Ingi, 29.12.2010 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband