Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Minnst 26220 manns vilja leiðréttingu á lánum heimila og afnám verðtryggingar

Þetta er fjöldi undirskrifta hjá Hagsmunasamtaka Heimilanna.

Þetta eru undirskriftir gegn ranglæti.

Það er ranglátt að sparnaður þeirra sem fjárfestu í heimilum og tóku húsnæðislán hafi breyst í óviðráðanlegar skuldir.

Það er ranglátt að lán margfaldist þrátt fyrir stöðugar afborganir. 

Góður vinur minn sem missti húseign sína þurfti að leigja íbúð. Þannig að hann, ásamt konu og börnum fluttu í minna húsnæði. Fyrir viku kemur í ljós að eigandi íbúðarinnar stendur í skilnaði. Þar af leiðandi ætlar hann ekki að leigja íbúðina lengur. Vinur minn hefur þrjá mánuði til að koma sér út. Börnin enn í skóla og erfitt að finna leigu á sama svæði.

Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug að betra sé að koma á leigukerfi heldur en að fólk geti eignast eigið húsnæði? Jú. Það er gamall draumur hins gamla kommúnistadraugs. Það óhugnanlega er hversu auðvelt virðist að sannfæra Íslendinginn um að jöfnuður öreiganna sé einhver jöfnuður yfirhöfuð.

Mig grunar að þeir sem skrá sig ekki á þennan undirskriftalista misskilji ástandið, haldi að þeir sem vilja leiðréttingu vilji taka frá hinum sem hafa varið sínu fé skynsamlega. Það er ekki raunin. Það hefur lengi þótt skynsamleg ráðstöfun með fé að kaupa sér húseign. Hins vegar bjuggust lánþegar ekki við hruni og að verðbólgan yrði ýfð upp innanfrá, til að fámennar hendur gætu ryksugað upp allar eigur lánþegar, annars gert þá gjaldþrota.

Fólkið inni á Alþingi virðiðst því miður ekki skilja þessi mál. Hugsanlega vegna þess að flest eru þau í hópi fólks sem þurfti ekki að taka þessi lán til að eignast eigið húsnæði.

Reyndar væri áhugavert að kanna hversu margir af þeim á þingi sem tala gegn "eignastefnu" á heimilum, eiga sitt eigið heimili. Það kæmi mér á óvart að ein einasta af þeim manneskjum sem þar sitja séu með heimili sitt á leigu. 

Það væri óskandi að ráðamenn víkkuðu aðeins sjóndeildarhringinn, og hættu að æsa sig um málin í innantómum frösum, og færu að gera eitthvað af viti. En af biturri reynslu veit ég að þetta er óskhyggja ein, veit að fyrir fyrirhuguð mótmæli 1. október mun ríkisstjórnin kasta einhverju beini til fjöldans til að róa hópinn, og takast það, enda margir snjallir spunameistarar þar um borð sem telja sig vita að múgurinn er fífl.


Minningarorð um Eyjuna

Þegar Eyjan kom fyrst fram á sjónarsviðið sem nýr vettvangur fyrir bloggara, var vefkerfið nánast fullkomið. Það hvatti til umræðu og mikill fjöldi fólks tók þátt. Ég efast um að "byltingin" hefði tekist án þeirra skoðanaskiptana sem fram fóru á Eyjunni.

Eitt af því besta við kerfið er að lesendur gátu gefið athugasemdum einkunn, hvort þeim líkaði athugasemdin eða ekki. Þannig fóru vinsælar athugasemdir efst í athugasemdakerfið. Þetta virkaði ljómandi vel frá mínum bæjardyrum séð, sem lesandi og notandi miðilsins. Ekki nóg með það, hægt var að sjá hversu margar athugasemdir höfðu birst við hverja frétt, og oftast voru athugasemdirnar með dýpra innsæi um stöðu mála en fréttin sjálf.

Eignarhaldsfélag Björns Inga Hrafnssonar keypti Eyjuna fyrir síðustu Icesavekosningar og tók athugasemdakerfið úr sambandi í nokkra daga þannig að umræðuvettvangur almennings var takmarkaður að einhverju leyti. 

Umræðuvettvangur á Íslandi er nefnilega mjög viðkvæmt fyrirbæri og auðvelt að skemma fyrir, sérstaklega ef hægt er að eignast besta umræðusvæðið og leggja það síðan niður í áföngum. Eyjan var slíkur vettvangur og hefur verið eyðilögð innanfrá. Svona rétt eins og fjármálakerfið.

Fyrir fáeinum dögum var athugasemdakerfið tekið úr sambandi, og annað lélegra tekið upp í staðinn, beintenging við Facebook. Sjálfur nota ég Facebook takmarkað, aðallega til að halda samskiptum við vini og kunningja víða um heim, en ekki til að leggja inn athugasemdir við ólík mál. Þar að auki er Facebook alræmt fyrir að virða ekki lög og reglur um persónuvernd.

Fyrir mitt leyti, þá kveð ég Eyjuna og vona að blog.is lifni aftur við eða þá að skynsamt fólk með góðar hugmyndir opni álíka síðu og Eyjan var þegar hún fyrst sló í gegn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband