Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

20 heilræði fyrir bloggara í léttum dúr

 

 

 

Spurning hvort að betra væri að kalla þetta heilræði eða hálfræði?

 

1. Allar setningar eiga að geta staðið á eigin fótum. Eins og þessi.

2. Ýkjur eru dauði.

3. HÞHSS: Hættu þessum helv skammstöfunum.

4. Endaðu hverja málsgrein á einhverju jákvæðu. Nema núna.

5. Ekki þykjast vera gáfaðri en lesandinn hvort sem að þú ert það eða ekki.

6. Veldu orð þín með gát.

7. Forðastu óþarfa dæmi. Til dæmis eins og þetta.

8. Ekki nota kommur, til að, skilja sundur, texta.

9. Líkingar eru jafn gagnlegar og brotin vatnsglös.

10. Einhver sagði einhvern tímann að tilvitnanir ættu að vera nákvæmar.

11. Slangur sökkar.

12. EKKI SKRIFA Í HÁSTÖFUM NEMA ÞÚ VILJIR ÆRA EINHVERN Í REIÐIÖSKRI.

13. Aldrei nota undirstrikanir.

14. Blandaðar myndhverfingar geta flengt óbarinn biskup.

15. Aldrei gefa upp heimildarmenn nema þú sért tilbúin(n) til að láta heimildarmenn þína gefa þig upp á bátinn.

16. Vandaðu málfarið obboðslega.

17. Greinileg merki um leti eru að klára ekki setningar, lista, og svo framvegis.

18. Lítið er meira. Þessi listi ætti því eiginlega bara að vera upp í eitt.

19. Margir riðövundar sðtafþetja viðlauþt.

20. Polli páfagaukur sagði: "Ekki koma fram við lesendur þína eins og þau séu börn."

 

Innblástur kemur úr greininni How to Write for the Web af howtowritefortheweb.blogspot.com, sem inniheldur 100 heilræði um hvernig skrifa skal fyrir vefinn.

 

Mynd: Texas Startup Blog


Er handboltalandsliðið að meika það á Ólympíuleikunum?

 


 

 

Íslendingar hafa aldrei byrjað betur á stórmóti í handknattleik. Fyrst leggja þeir Rússa og svo Þjóðverja, en hvorugt liðið hafði nokkurt svar við öflugri íslenskri vörn.

En það var ekki bara vörnin sem var að virka. Liðið var óvenju samstillt og agað í leik sínum. Eftir leikinn gegn Þjóðverjum gaf Ólafur Stefánsson okkur sýn inn í hugarfar liðsins, það þeir léku hvern leik eins og hann væri undirbúningur fyrir þann næsta.

Þetta er hrein snilld!

Hugarfarið er númer eitt, tvö og þrjú til að ná góðum árangri, bæði í íþróttum og öðru. Það er hins vegar erfitt að festa fingur á hvað þetta hugarfar er. Ég held að það sé nákvæmlega svona hugarfar sem skilar árangri, sem felst í því að njóta leiksins og spila í núinu frekar en að velta sér stanslaust upp úr mögulegum úrslitum.

Sá sem hugsar of mikið um úrslitin stressast upp og er líklegur til að missa einbeitinguna og gera mistök á mikilvægu augnabliki.

Þetta er nákvæmlega sú hugsun sem ég lagði upp með þegar Salaskóli varð heimsmeistari í grunnskólaskák, ég lagði enga áherslu á að þau þyrftu að vinna sínar skákir - heldur hafa fyrst og fremst gaman af að vera þau sjálf og tefla eins og þau langar til á heimsmeistaramóti. Þetta þýddi að í fyrri hluta mótsins hugsuðu þau ekkert um vinninga og höluðu þeim inn, en þegar þau sáu að þau gátu hugsanlega orðið heimsmeistarar heltist stressið yfir þau og mistökum fór að fjölga. Þeim tókst þó að sigra á endasprettinum.

Ef íslenska landsliðinu tekst að halda í þetta góða hugarfar og taka þannig hvern leik fyrir sig eins og um æfingaleik sé að ræða, og ef þeir geta sigrast á þeirri freistingu að gera alltof miklar væntingar til sjálfs sín og finna til ímyndaðrar pressu frá þjóðinni, þá geta þeir unnið þetta mót.

Mín fjölskylda fylgist alltaf spennt með íslenska landsliðinu í handbolta, og nú fylgjumst við með enn spenntari en áður, en ég vona samt að þessi spenna nái ekki í herbúðir okkar. Svona spenna er lúxus sem aðeins áhorfendur mega leyfa sér.

Íslenska landsliðið í handbolta hefur fundið hugarfar sem fleytir þeim áfram og vonandi yfir allar þær öldur samkeppninnar sem þeirra bíður.

Áfram Ísland!

 

 

Mynd: sport.is


Hefur þig dreymt einhverja skemmtilega drauma?

 


 

Draumar geta verið ansi skemmtileg fyrirbæri, hvað svo sem þeir eru og þýða, og hvort sem þeir þýða eitthvað eða ekki. Þegar ég var unglingur dreymdi mig einu sinni sem oftar draum sem sat fastur eftir í minninu.

Ég var á hlaupum undan einhverju gífurlega stóru ferlíki og heyrði dynja mikið og jörðina hrista þegar það nálgaðist mig. Þegar ég leit um öxl sá ég íbúðarblokk stökkvandi á eftir mér, sem útskýrði lætin. Ég var búinn að hlaupa nokkuð lengi og heyra þónokkur hopp þegar ég tók eftir að í belti mínu hékk sverð.

Ég ákvað að gera eitthvað í málunum, og þegar ég heyrði næsta DÚNK, dró ég upp sverðið og stökk inn um aðaldyr byggingarinnar, og beint inn í lyftu þar sem ég hjó á stjórnstöðina. Lyftan þaut upp og í gegnum þakið á byggingunni. Byggingin skjögraði og féll svo á hliðina, steindauð.

Þetta var áður en ég kynntist heimspeki og hafði lesið stórmerkilegar kenningar um að hægt væri að stjórna sjálfum sér í draumum, ef maður bara æfði sig í að vera meðvitaður. 

  • Hefur þig einhvern tíma dreymt svona skemmtilega drauma?
  • Getur þú líka stjórnað þér í þínum draumum?


Mynd: Urban Adventurer

Leikari úr 40 Year Old Virgin handtekinn fyrir grun um morðtilraun á fyrrum kærustu sinni

 

Shelley Malil í 40 Year Old Virgin

 

Hinn 43 ára gamli Shelley Malil var handtekinn á lestarstöð í San Diego, grunaður um að hafa stungið fyrrverandi kærustu sína rúmlega 20 sinnum í andlitið með eggvopni. Hann var á leið til lögfræðings síns þegar hann var handtekinn af lögreglu.

Nágrannar heyrðu konuna öskra, glas brotna, og lögreglumennirnir sem komu á staðinn fundu hana með djúpa skurði á andlitinu, og fluttu hana á gjörgæslu, þar sem hún liggur enn.

Ekki er vitað hvers vegna Malil er grunaður um ódæðið, en hann er fæddur og uppalinn á Indlandi. Hann hefur verið farsæll aukaleikari í frægum sjónvarpsþáttum eins og The West Wing og Scrubs, en er frægastur fyrir að leika gamla sorakjaftinn Haziz í 40 Year Old Virgin.

 

Shelley Malil
 
 

 

Ekki veit ég um sekt hans eða sakleysi, en þegar ég heyri svona fréttir furða ég mig á hversu grimmar manneskjur geta verið. Mér finnst nógu óskiljanlegt að vilja taka líf annarrar manneskju, en að stinga viðkomandi oftar en 20 sinnum í andlitið... Hvað getur valdið þessu?

Það fyrsta sem manni dettur í hug er að árásarmaðurinn hljóti að hafa verið geðveikur eða uppdópaður, og þá rifjast upp mál eins og þegar Roman Polanski var á sínum tíma grunaður um að hafa myrt konu sína og ófætt barn, en síðar kom í ljós að fjöldamorðinginn Charles Manson hafði verið að verki, og með það í huga hlýtur maður að spyrja hvort að grunurinn sé rökstuddur.

 

Myndir: 
 

Úr The 40 Year Old Virgin: Indophile.net

Shelley Malil: Collin Theatre Center

 


Ætlar RÚV að endursýna sigur Íslands gegn heimsmeisturum Þjóðverja á boðlegum tíma?

Það er ekki á hverjum degi sem að Ísland tekur heimsmeistara í karphúsið.Ég lít á það sem beinlínis skyldu RÚV að hliðra öðrum dagskrárliðum fyrir svona viðburði.

Ég, eins og líklega flestir Íslendingar er við vinnu og gat því ekki fylgst með leiknum þrátt fyrir brennandi áhuga, en svo er endursýning skipulögð kl. 0:30 þegar venjulegt fólk er farið að blunda. Má biðja um endursýningu hjá RÚV einhvern tíma milli 17:00 og 23:00 í kvöld?

Loksins hefur maður tilefni til að kveikja á imbakassanum. Ég kveikti á honum á meðan leikurinn við Rússa var í gangi og langar virkilega að sjá þennan leik.


mbl.is Ísland fór hamförum gegn Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarfríið búið og liðin er bloggtíð með blóm í haga

 

 

 

Ég hafði 10 daga í sumarfríinu til að gera nákvæmlega það sem mig langaði að gera, svona eins og: ef þú hefðir engum skyldum að gegna í 10 daga, hvað myndir þú gera við tímann? Eitt af því sem ég valdi mér var að einbeita mér að bloggi. Það er mjög spennandi að gefa sér til tíma til að setja sig inn í umræðuna um það sem er efst á baugi og taka virkan þátt.

En þar sem ég er virkur fjölskyldumaður í fullri vinnu, kalla aðrir hlutir en bloggið á fasta athygli mína. Það var gaman að vera með af fullum krafti í þetta korter og þakka ég kærlega fyrir góð viðbrögð.

Ég ákvað að skrifa aðeins greinar um mál þar sem mér fannst eitthvað vanta í umræðuna, ákvað að vanda greinarnar, og blogga sem sjaldnast út frá fréttum. Þetta skilaði mér í 3. sætið á vinsældarlista bloggsins. 

Mig langar að þakka fyrir hvatningu og hrós, og sífellt jákvæða strauma frá bloggsamfélaginu og öðrum þeim sem skrifuðu athugasemdir. 

Í framtíðinni mun ég skrifa færri og styttri greinar á bloggið, og ekki svara öllum athugasemdum. Til þess hef ég einfaldlega ekki tíma.

Á ritvellinum, sem orðinn er mitt áhugamál númer eitt, og hefur tekið við af skákinni sem slíkt, verða í forgangi greinar fyrir ritstjóra tímarits sem sýndi skrifum mínum áhuga, og fær viðkomandi í staðinn vel unnar greinar. Einnig mun ég gefa skáldsögu sem ég er að skrifa meiri tíma og athygli.

Hvað fékk ég út úr þessum 10 dögum á blogginu? Í fyrsta lagi náði ég að kynnast bloggvinum mínum aðeins betur, trú mín á sjálfum mér sem rithöfundi hefur stækkað, mér hefur gefist tími til að kynnast eigin rödd betur. Þessir síðustu 10 dagar voru mér góður leiðarvísir inn í framtíðina.

 

Takk fyrir mig.


Nokkrar útlitsbreytingar á Batman frá því að hann birtist í fyrsta sinn árið 1939 í Detective Comics # 27

Þetta er löngu áður en hann var kallaður The Dark Knight, eða skuggalegi riddarinn. Fyrst var hann kallaður The Bat-Man. Í dag er hann stundum kallaður The Batman og oftast The Dark Knight.

Batman hefur lent í ýmsu um ævina, hann var meðal annars hryggbrotinn af vöðvatröllinu Bane og þurfti að húka í hjólastól í marga mánuði. Hann náði sér þó á endanum.

Bane-breaks-Batman-497pg21

Batman eins og hann birtist í Detective Comics í dag, árið 2008. Eins og sjá má er hann að brjótast út úr myndasögunum og inn í aðra miðla með góðum árangri.

9927_400x600

Áður en Batman varð skuggalegur riddari lék Adam West hann í sjónvarpsþáttum og skammaðist sín ekkert fyrir að vanta vöðva og vera með smá bumbu.

Nú þykir Batman vera frekar svalur gaur, og listamenn farnir að gera töff myndir af honum. Ég er ekki frá því að hann líkist vampíru á þessari mynd.

Og svona lítur hann út í bíó árið 2008. Hann tekur sig ágætlega út miðað við 69 ára gamlan kall. 

 

Detective Comics fást hjá DC Comics


10 vinsælustu kvikmyndum á leigunum 10. ágúst 2008 gefin einkunn

Gæði kvikmynda og vinsældir fara ekkert endilega saman. Þess vegna hef ég tekið saman lista um 10 vinsælustu myndir á leigunum í síðustu viku og læt þig vita hvort eitthvað sé varið í þær. Þú smellir svo á fyrirsögnina til að lesa ástæðurnar, að mínu mati. Sumar þeirra greina eru á ensku, aðrar á íslensku.

Af 10 vinsælustu myndum síðustu viku get ég aðeins mælt með 3 myndum sem flestir ættu að hafa gaman af (þær sem fá 7-10 í einkunn), mæli varlega með þeim sem fá 5-6 í einkunn og mæli með að sleppa þeim sem fá frá 0-4.

Vinsælustu bíómyndirnar síðustu viku á vídeóleigum landsins eru ekkert endilega frábærar kvikmyndir. Hverri mynd fylgir örstutt umsögn um söguþráðinn og sú einkunn sem ég hef gefið viðkomandi kvikmynd. Viljirðu lesa það sem ég hef skrifað um viðkomandi kvikmynd, smellirðu einfaldlega á fyrirsögnina.

 

1.     Fool's Gold

Í stuttu máli: Nýskilið par leitar að gömlu spænskum fjársjóði með aðstoð milljarðamærings og í kapphlaupi við miskunnarlausa glæpamenn. 

Einkunn: 5 af 10

 

2.     10.000 BC

10.000 BC

Í stuttu máli: Þrælasalar drepa fólk í þorpi fyrir 10.000 árum, og meðal annarra kærustu hetjunnar sem eltir þrælasalanna til pýramída í byggingu. Mammútar, sverðtígur og fornir strútar blandast inn í söguna á frekar tilgangslausan hátt. Myndin hefði alveg eins getað gerst í Kópavogi nútímans.

Einkunn: 3 af 10

 

3.     The Bucket List

Í stuttu máli: Milljarðamæringur sem á engan að og bifvélavirki sem lifir góðu fjölskyldulífi eiga báðir 6-12 mánaða ólifaða, og ákveða að gera saman allt það sem þá hafði alltaf langað að gera en aldrei gert.

Einkunn: 7 af 10

 

4.     Untraceable

Untraceable

Í stuttu máli: FBI netlögga tekst á við fjöldamorðingja sem notar Netið og netverja sem þátttakendur í morðum sínum.

Einkunn: 4 af 10

 

5.     Step Up 2: The Streets

Step Up 2: The Streets

Í stuttu máli: Götudansari fer í dansskóla og fyrir vikið er hún rekin úr dansklíkunni á götunni, en hún safnar saman liði í skólanum til að taka götudansarana á teppið. Flott dansatriði, lítið varið í annað.

Einkunn: 4 af 10

 

6.     No Country For Old Men

Í stuttu máli: Hinn fullkomni leigumorðingi hefur þá sérkennilegu áráttu að vilja vera ósýnilegur og skilur því eftir sig blóðuga slóð í eltingarleik við kúreka sem reynir að hafa af honum háa fjárhæð.

Einkunn: 9 af 10

 

7.     Semi-Pro

Í stuttu máli: Sjálfselskur eigandi körfuboltaliðs reynir að koma ömurlegu liði sínu í NBA með því að skipta á þvottavél og gömlum atvinnumanni úr NBA.

Einkunn: 6 af 10

 

8.     Jumper

Í stuttu máli: Ungur bankaræningi getur stokkið yfir tíma og rúm með hugaraflinu einu saman en margra alda gömul lögreglusveit er á eftir honum.

Einkunn: 6 af 10

 

 

9.     Be Kind Rewind

Í stuttu máli: Tveir félagar ákveða að endurskapa helstu kvikmyndaperlur sögunnar eftir að allt efni þurrkast út af myndbandsspólunum sem þeir leigja út. 

Einkunn: 6 af 10

 

10.     Death at a Funeral

Death at a Funeral

Í stuttu máli: Ósköp venjuleg jarðarför hástéttarmanns snýst upp í vandræðagang þegar virðulegur lögfræðingur fær sýrudóp í staðinn fyrir valíum, með afar fyndnum afleiðingum. Ein af þeim sem kemur skemmtilega á óvart.

Einkunn: 7 af 10

 

Ég notast við vinsældalistann af Myndir Mánaðarins.  


Hetjudáð í háloftunum: flugstjóri Iceland Express nauðlenti til að bjarga mannslífi

 


 

Því miður eru fréttir líklegri til að benda á hið neikvæða en hið jákvæða. Hugsanlega vegna þess að hið neikvæða vekur meiri athygli og er auðveldar í sölu. Einnig getur verið að fólk finni sig ekki knúið til að láta fjölmiðla vita af jákvæðri frétt. Ég hef lesið alltof mikið af neikvæðum fréttum af töfum Iceland Express vélar á Kastrup, en ekkert um þá jákvæðu frétt sem fylgir hetjudáð flugstjóra í ferðinni frá Barcelona. 

Manneskja fékk hjartaáfall um borð í vél Iceland Express á leiðinni frá Barcelona til Íslands í gær. Flugstjórinn mat ástandið það alvarlegt að hann ákvað að lenda vélinni í Basil í Sviss, til að manneskjan kæmist sem allra fyrst undir læknishendur, sem er hárrétt ákvörðun því að hver mínúta er dýrmæt þegar um hjartaáfall er að ræða. Þetta þýddi að vélinni þurfti að leggja yfir nótt, vegna þess að starfsmenn vélarinnar voru sprungnir á leyfilegum flugtíma yfir sólarhringinn.

 

 


 

Einhverjir farþegar mótmæltu og voru ósáttir við að flugvélinni væri lent, en aðrir farþegar sýndu meiri skilning. Um kvöldið fengu farþegar góðan kvöldverð í boði Iceland Express, fengu gistingu á lúxushóteli og síðan morgunverðarbuffát um morguninn. 

Ég hef kíkt eftir fréttum um þetta en engar séð, aðeins fréttir af fólkinu sem var í öngum sínum á Kastrup, og mér finnst rétt að benda á það að Iceland Express er að gera góða hluti. 

Eina vandamálið snýst kannski að upplýsingaöflun, en upplýsingar um komutíma og hvernig aðstandendur gætu náð sambandi við farþega var erfitt að finna. 

Þessi flugstjóri tók góða ákvörðun sem hann þarf að réttlæta, en ég vil bæta um betur og leyfa mér að hrósa honum fyrir snarræðið. Það þarf stundum hugrekki til að taka rétta ákvörðun, sérstaklega ef einhverjir snúast gegn henni. Ef einhver mér nástaddur fengi hjartaáfall í flugvél myndi ég vilja hafa svona flugstjóra við stýrið.

 

Myndir:

Hjartaáfall: Advanced Safety Training Services

Iceland Express vél: flickr


mbl.is Fjöldi farþega Iceland Express bíður í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um undirstöður hamingjunnar: Sköpun, þjónusta og þekking

 


 

 

Svanur Gísli Þorkelsson skrifaði flottan pistil í gær: Það sem ég held um hamingjuna; heimatilbúin heimspeki.

Ég reyndi að byggja aðeins á honum og tengja hugmyndir hans hugmyndum Matthew Lipman um barnaheimspeki og hverju hún skilar manneskjum út í lífið, en Lipman heldur því fram að heimspekileg ástundun barna hjálpi þeim að móta gagnrýna og skapandi hugsun, sem þyrfti að vera stutt af umhyggju til að vera einhvers virði í veruleikanum, (og leiða þar af leiðandi til raunverulegrar lífshamingju, en ekki hamingju úr stöðlum og plasti).

Ég setti saman þennan stutta lista og teiknaði mynd til að sýna samsvörun milli þess sem Svanur var að velta fyrir sér og þessara kenninga. Mér finnst hugtakanotkun hans afar góð, og enn betri en mínar eigin þýðingar á þessum hugtökum.

 

 

  • Sköpun = Skapandi hugsun = Creative Thinking
  • Þjónusta = Umhyggja = Caring Thinking
  • Þekking = Gagnrýnin hugsun = Critical Thinking

Svanur hugsar með sér að sköpun, þjónusta (ást) og þekking séu undirstöður hamingjunnar.

Jón Steinar Ragnarsson svarar með þeirri kenningu að best sé að lifa í núinu (sem er reyndar liðið þegar þú lest þetta - hvað tekur þá við, annað nú? Felir núið í sér fortíð og framtíð á einhvern hátt?)

Óskar Arnórsson bendir á þá fegurð sem felst í því að gefa sér tíma til að velta svona löguðu fyrir sér. Er lykillinn að betri heimi kannski einfaldlega sá að fólk þarf að vilja betri heim og nenna að velta honum fyrir sér?

 

Hvað segir þú?

 

 

Mynd af brosum: The Doc Whisperer


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband