Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

6. Óskarsverðlaunin: Cavalcade (1933) ***

Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. Cavalcade frá 1933 er sú sjötta í röðinni.

Cavalcade hefur hjartað á réttum stað og skil ég vel af hverju hún þótti frábær árið 1933. Hún er epísk í þeim skilningin að hún spannar rúm þrjátíu ár í lífi einstaklinga sem vert er að fylgjast með; og áhugaverð því að hún virðist taka þverskurð á raunverulegu lífi fólks og vandamálum á þessum árum.

Kostir Cavalcade eru fleiri en gallarnir. Samt er frásögnin oft heldur stíf og leikur sumra leikara stundum stirður, en sagan hangir saman á sterku sambandi aðalpersónanna tveggja.

Jane (Diana Wynyard) og Robert Marryot (Clive Brook) eru auðugt hástéttarfólk í London. Þau eiga tvo unga syni, en Robert er kvaddur til herþjónustu í Búrastríðinu þar sem vígvöllurinn er Afríka.

Robert fer ásamt þjóni heimilisins, Alfred Bridges (Herbert Mundin), sem segir aðspurður að stríð séu til þess að sanna hver er þjóða sterkust, eða "To show who's the Top Dog". Hann er giftur Ellen (Una O'Connor) og eiga þau saman nýfædda dóttur. Þegar Alfred kemur heim úr stríðinu opnar hann eigin krá og fer að fá sér oftar neðan í því en gott þykir.

Diana Wynyard sýnir stórgóðan leik sem Jane Marryot, en hún er þungamiðja sögunnar. Á meðan stríðin geysa situr hún heima og bíður. Fyrst eftir eiginmanni sínum í Búrastríðinu, og síðan eftir eiginmanni og syni í Fyrri Heimstyrjöldinni. Við fylgjumst meira með henni og þeirri kvöl sem biðin getur verið, og þeirri sturlun þegar biðin tekur loks enda.

Á meðan eiginkonan lifir í stöðugum ótta við að sjá ástvini sína aldrei aftur er eiginmaður hennar raunsær þegar hann rifjar upp hverju hann hefur verið að berjast fyrir öll þessi ár: mannvirðingu, mikilfengleika og friði. Það getur verið erfitt fyrir hana að sjá hvernig þetta þrennt fer saman sérstaklega þegar heitasta ósk hennar er sú að vilja halda fjölskyldunni lifandi, heilbrigðri og hamingjusamri saman.

Frank Lawton sýnir sérstaklega skemmtilegan leik sem sonur þeirra hjóna, Joe Marryot. Hann verður ástfanginn af Fanny Bridges, dóttur Alfred og Ellen, en hún er orðin frægur skemmtikraftur í borginni. Þau eiga sérstaka stund saman þar sem þau standa uppi á þaki byggingar á meðan yfir þeim sveima þýskir Zeppelin loftbelgir sem láta sprengjur falla á London.

Cavalcade varpar ljósi á vitfirringu og tilgangsleysi styrjalda, og hvernig þegnar ríkis sem byggir á stríðsrekstri þurfa stöðugt að lifa við óttann um að sjá ástvini sína aldrei aftur. Hún sýnir hvað góð fjölskylda getur þurft að þjást, þrátt fyrir að hún hafi í raun allt sem þarf til velferðar.

Einnig er áhugavert að fylgjast með muninum á fjölskyldunum tveimur, Bridges og Marryot. Robert Marryot hefur verið tignaður sem riddari og því þurfa þau hjónin að huga að orðspori fjölskyldunnar. Öllum þeirra athöfnum er stjórnað af dyggð og tign.

Alfred Bridges og fjölskylda hans er hins vegar almúgafólk, verr menntað og er nokk sama um heiður og tign. Þeirra markmið í lífinu eru allt önnur. Þau eru að berjast fyrir eigin sjálfstæði, og eru ekki orðin jafn fáguð og þau vilja vera.

Til að mynda hneykslast Ellen Bridges (Una O'Connor), á ástarsambandi dóttur hennar við Joe, þar sem að það er ekki opinbert. Hún heimsækir Jane til að að ræða við hana um þetta vandamál, sem Jane sér alls ekki sem vandamál, en hún hefur meiri áhyggjur á að sjá son sinn aftur á lífi heldur en skipta sér af ástarmálum hans - og hún áttar sig á að haf og heimur er milli þeirra menningarlega séð, og rekur hana af heimili sínu.

Jane fyrirlítur fordóma byggða á yfirborðskenndu þvaðri og hefur þann eiginleika að geta séð dýptina og það sem máli skiptir í mannlegu lífi.

Stéttarskiptingin verður þannig greinileg, ekki útfrá tækifærum einstaklinganna, heldur vegna stefnu þeirra í lífinu, dýpt og heiðurs.

Einnig er mjög gaman að fylgjast með persónunum eldast, en ég man ekki til þess að hafa séð persónur eldast jafn sannfærandi og þær gera í þessari mynd.  

Cavalcade er ágæt kvikmynd sem hefur staðist tímans tönn. Ég mæli með henni.

 

 

 

 

Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:

Wings (1928) **** 

The Broadway Melody (1929) *1/2

All Quiet on the Western Front (1930) ****

Cimarron (1931) ***1/2

Grand Hotel (1932) ***

 

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

Skylduáhorf fyrir kjósendur: Jon Stewart á Crossfire (2004)

Þetta myndband fyrir neðan er frá árinu 2004, á meðan kosningabarátta milli þeirra Bush og Kerrey stóð yfir. Háðsnillingnum Jon Stewart var boðið í þáttinn Crossfire, en sá þáttur snýst um að rifist sé um alla mögulega hluti, annars vegar út frá sjónarhorni repúblikana, og hins vegar út frá sjónarhorni demókrata. Í þessum þætti tekst Jon Stewart að sýna fram á þannig að ekki verður um villst hversu heimskulegar og hættulegar svona þrætur geta reynst; með það góðum árangri að sýningar á þessum þætti var hætt tveimur vikum eftir innkomu hans. 

Jon Stewart er alls ekki hættur. Í hverri viku finnur hann áhugaverða hluti úr bandarískum stjórnmálum, snýr spurningum upp í heilbrigða skynsemi og með smá háði tekst honum að afhjúpa blekkingarnar.

Til að fylgjast með nýjasta efninu frá honum er hægt að smella hér og kíkja á brot úr Comedy Central þáttunum hans.


Stórmyndir: The Host (Gwoemul) (2006) ****

TheHost07

The Host eða Gwoemul er skrýmslamynd frá Suður Kóreu sem kemur mjög skemmtilega á óvart. Ramminn utan um tilurð óvættarins gæti verið úr hvaða skrýmslamynd sem er. Gömlu formaldehýð er helt út í Hanfljót við Seoulborg af bandarískum hermönnum sem gefa skít í umhverfismál, á þeirri forsendu að Hanfljótið sé svo stórt að þessi smámengun muni engin sjáanleg áhrif hafa þegar á heildina er litið. Pöddur og önnur dýr í fljótinu byrja að stökkbreytast. Tíminn líður.

Reyndar ef kafað er aðeins dýpra, þá er sagan byggð á sannsögulegum atburðum, að minnsta kosti samkvæmt Wikipedia, en þar segir frá atburði sem átti sér stað í Suður Kóreu þegar starfsmaður Bandaríkjahers helti einmitt miklu magni af formelahýð í vask, sem var orsökin að mikilli umhverfismengun. 

TheHost27

Þrátt fyrir að myndinni sé ekki beinlínis beint gegn Bandaríkjamönnum og stefnu þeirra í Suður Kóreu, þá eru þeir töluvert gagnrýndir, og einnig yfirvöld Suður Kóreu sem er líst sem klaufalegum blýjantsnögurum, kerfisköllum og undirlægjum Bandaríkjamanna sem ekkert vita eða geta. Fyrir vikið hafa yfirvöld Norður Kóreu tekið þessari kvikmynd fagnandi. 

TheHost04

Við kynnumst svolítið öðruvísi fjölskyldu. Æðsta markmið Park Gang-Du (Kang-ho Song) þegar við fyrst kynnumst honum er að safna nógu miklu klinki til að geta gefið 13 ára dóttur sinni, Park Hyun-seo (Ah-sung Ko), nýjan farsíma. Lengra nær ekki hans heimur. Hann er í upphafi myndar það sem við myndum í daglegu tali kalla heimskingja. Hann á það til að dotta þegar minnst varir vegna vannæringar í æsku. Átökin við drekann er þroskasaga Park Gang-Du. 

TheHost05

Afinn, Park Hie-bong (Hie-bong Byeon), rekur verslun við bakka Hanfljóts, en fjölskyldan lifir við töluverða fátækt. Hvorki amman né mamman hafa sést í mörg ár. Þegar skrýmsli stekkur á land úr Hanfljótinu, veður það um svæðið, drepur mann og annan; og áður en það hverfur aftur í gruggugt vatnið nælir það í dótturina Hyun-seo. Þó að Gang-Du stígi ekki í vitið, þá veit hann hvað máli skiptir í lífinu og er tilbúinn að leggja sig allan fram til að bjarga dóttur sinni.

TheHost17

Systkini föðursins bætast í hópinn. Bróðir hans, Nam-il (Hae-il Park) er vel menntaður og gáfaður, en hefur einfaldlega ekki fengið nein tækifæri eftir að hann lauk háskólanámi. Hann er staðalmynd háskólanemans sem mótmælir og berst gegn skrýmslinu með eldsprengjum og öllum tiltækum ráðum.

TheHost28

Systirin, Nam-Joo (Du-na Bae) er keppniskona í bogfimi, er gífurlega nákvæm en hægfara. Yfirleitt er hún alltof sein, sama hvað það er. Hún er nýbúin að vinna bronsverðlaun á landskeppni í bogfimi. Hún missti af fyrsta sætinu af því að hún hikaði á úrslitastundu.

TheHost29

Yfirvöld handsama alla fjölskylduna til rannsóknar þar sem að Gang-Du hafði fengið blóðslettu af drekanum á andlit sitt, en bandarískur hermaður hafði fengið dularfull útbrot og látist eftir að hafa barist við hlið Gang-Du gegn óvættinum. Stjórnvöld telja að drekinn hýsi banvænan vírus. Yfirvöldin sýna hversu mikil skrýmsli þau eru með því að bora eftir vírusnum í heila Gang-Du.

TheHost21

Full af harmi syrgir fjölskyldan þar til Gang-Du fær símtal um miðja nótt frá dóttur sinni. Hún reynist enn vera á lífi, en er lokuð inni í holræsi við Hanfljót. Gang-Du reynir að segja lögreglunni frá símtalinu og að nauðsynlegt sé að bjarga dóttur hans sem allra fyrst. Löggan og læknar álíta hann geggjaðan, þannig að hann leggur á flótta undan ríkisstarfsmönnum ásamt fjölskyldu sinni.

TheHost16

Þó að tæknibrellurnar fyrir skrýmslið séu ekkert sérlega trúverðugar, er dramað og sagan af fjölskyldunni sem berst gegn mótlæti af völdum samfélags og náttúru virkilega góð. Einnig er gaman að sjá fjölskylduna takast á við skrýmslin tvö, ríkið sem hlustar ekki og skemmir fyrir af eintómri heimsku; og hins vegar þegar þau berjast við viðundrið, hvert með sínu lagi. Vandamálin virðast óyfirstíganleg fyrir þessa ólánsömu fjölskyldu.

TheHost15

Þegar kafað er undir yfirborð myndarinnar, er ljóst að sagan fjallar um skrýmsli og að skrýmsli myndarinnar er aðeins myndhverfing fyrir stóru kerfin: borgina, hagkerfið, ríkið, glóbalisma og fleira. Eina leiðin til að sigrast á þessu kerfi er einmitt með samstöðu.

TheHost13

Lokabardaginn við skrýmslið er spennandi og vel útfærður. Annars vegar eru háskólanemar í mótmælagöngu gegn framkvæmdum yfirvalda og hins vegar fjölskyldan að berjast við skrýmslið; sem virðist ekkert vera ósigrandi í samanburði við yfirvöldin. Endirinn minnir helst á gamlar riddarasögur, þegar hetjurnar börðust við eldspúandi dreka til að bjarga prinsessu með sverðinu einu saman; eða umferðarskilti sem segir STOP.

TheHost18

Leikararnir standa sig allir mjög vel, en sérstaklega þó Kang-ho Song í hlutverki föðursins vonlausa, og Ah-sung Ko sem er einfaldlega frábær í hlutverki dótturinnar. Hvorugt þeirra slær feilnótu. Ekki allir fjölskyldumeðlimir lifa ævintýrið af og er endirinn í anda alls þess sem á undan hefur gengið.

TheHost22

Ég mæli sterklega með Gwoemul, en ekki fyrir hvern sem er. Ég horfði á hana með kóreskri hljóðrás og enskum texta, enda þoli ég illa döbbaðar myndir. Þrátt fyrir góðan húmor og gagnrýnið hugarfar eru óhugnanleg atriði í myndinni sem ekki eru við hæfi barna eða viðkvæmra. Ég gæti reyndar ímyndað mér að ef Terry Gilliam leikstýrði skrýmslamynd yrði hún í svipuðum tón, en samt ekki, því að leikstjórinn Joon-ho Bong hefur greinilega þróað sinn eigin, persónulega stíl, og ljóst að spennandi verður að fylgjast með honum í framtíðinni. 

TheHost30

 

Að lokum: sýnishorn úr myndinni af YouTube sem er mun betra en bandaríska sýnishornið, sem lætur myndina líta út fyrir að vera bara enn ein ógeðslega hrollvekjan, sem hún er náttúrulega alls ekki.


Sancho bloggar: Escape to Victory (1981)

Árið 1942 spiluðu leikmenn Dinamo Kiev við lið Nazista undir ekki svo ólíkum kringumstæðum. Kiev menn unnu en var því miður slátrað í kjölfarið.

 

Hver er Sancho?

Segja má að Sancho sé útibússtjóri frá Don.Blog, sérhæfður rýnir kvikmynda þar sem íþróttir hverskonar spila lykilrullu. Sancho er einföld sál, undirlægja að mörgu leyti en hefur gert sér grein fyrir takmörkunum sínum og lætur drauma um heildaryfirsýn sigla lönd og leið. Góðar stundir og kýld vömb eru ær og kýr þessa einfalda samfélags- og kvikmyndarýnis, þess vegna verður birtingarform álitsgjafar á skala 0 – 10 tacos.

MYND I

ESCAPE TO VICTORY

1981

 

Leikstjóri:

John Huston

Helstu leikarar:

Michael Caine

Sylvester Stallone

Max von Sydow

Pelé

Ossie Ardiles

Bobby Moore

Óborganleg tímaskekkja = 6 tacos.

205

Söguþráður

Í grunninn er söguþráður myndarinnar ekkert annað en Flóttinn Mikli (e. The Great Escape) en í stað jarðgangna sem leiða til frelsis er fótboltavöllur þéttskipaður ofurmennum 3ja ríkisins. Stríðsfangar bandamanna fá tækifæri til að leika gegn þjóðverjum í París og vinnist sigur fá þeir frelsi að launum. Ekki dýpsta mynni kvikmyndasögunnar en hefur staðist tímans tönn hingað til og mun gera það áfram.

Uppáhalds atriði Sancho

Myndin hefur að geyma ansi mörg skemmtileg ef ekki óborganleg atriði ef vel er að gáð. Sérstaklega er gaman af fótboltaatriðum myndarinnar sem eru vægast sagt í ökkla eða eyra, pínleg á köflum sér í lagi þegar tilburðir Stallone sem markvörður stríðsfanga eru skoðaðir en mjög glæsileg þegar Pelé og sér í lagi Ardiles eiga í hlut. Umdeild vítaspyrna og pínulítið of æstur Stallone með boltan lengst inní markinu eftir allt havaríið, óborganlegt. Atriði þegar Pelé útskýrir taktík fyrir meðspilurum sínum á krítartöflu, algjörlega óborganlegt. Óánægðir áhorfendur undir lok leiks, nokkrar fremstu hræðurnar með franskar alpahúfur, restin í útvíðum gallabuxum og Rolling Stones bolum, óborganlegast.

VictoryBigPic

Besta atriði myndarinnar

Stallone “Please sir can I have my ball back”

Aukaleikari heldur bolta á lofti fyrir Sydow og smellir honum yfir til Michael Caine, Stallone heldur sína leið en Canie röltir yfir til Sydow. Sydow “You must be the sports fuhrer”, heil auka taco fyrir snilldar spaghetti vísun.

Sérkenni myndarinnar

Þegar betur er að gáð er ekki einungis um ofnotað mynni Davíðs og Golíats að ræða. Einvalalið leikara kemur við sögu og myndin er ágætlega leikin af þeim atvinnumönnum. Leikur atvinnumanna í knattleikni er aftur á móti svo hræðilegur að “alvöru” leikarar myndarinnar gjalda fyrir. Aðkoma Bobby Moore, Osvaldo Ardiles og síðast en ekki síst Pelé var tilraun til markaðsvæðingar NASL (National American Soccer League) í upphafi 9. áratugar síðustu aldar, tilraun sem heppnaðist ekki vel hvað atvinnumannadeildina varðar en heiðarleg engu að síður.

Sancho 


Don og Sancho um þekkingu

Don og Sancho sitja við sama borð og ræða saman. Þeir hafa engan áhuga á kosningum um álver í Hafnarfirði, korteri í kosningar eða róttækan feminisma. Þeir ræða saman yfir svínasnitsel og bjór. Við skulum grípa inn í samtalið og hlera það sem þeir hafa að segja:

Sancho: “Hvað hefurðu verið að gera í dag, Don?”

Don: “Ég er að átta mig á heiminum, hversu stór eða lítill hann er og hvernig manneskjur, dýr, plöntur, hlutir og hugsanlega aðrar verur passa inn í hann; og síðan hvernig við hugsum um verðmæti og gildi; hvort sem um siðferðileg, fagurfræðileg, rökfræðileg, verufræðileg, hlutlæg eða huglæg gildi er að ræða. Og þetta er alls ekki tæmandi.

Sancho: “Geturðu sagt mér hver munurinn er á þekkingu og upplýsingum?”

Don: “Sjálfsagt get ég giskað á það, en svona yfir hádegismatnum get ég nú varla svarað því fyrir fullt og allt.”

Sancho: “Þú getur reynt.”

Don: “Upplýsingar eru sjálfsagt hagnýtur þáttur þekkingar; upplýsingar er þekking sem komin er á ákveðið form og hægt er að miðla. Upplýsingar eru stöðugar og óbreytanlegar, á meðan þekking er óstöðug og tekur sífellt breytingum.”

Sancho: “Hvað er þá þekking?”

Don: “Ætli þekking sé eitthvað sem við gerum og eitthvað sem við höfum.”

Sancho: “Það er líklega eitthvað til í þessu hjá þér. En ég er ekki að sjá þetta fyrir mér. Eru upplýsingar þá þekking sem við höfum eða gerum?”

Don: “Bæði og. Við störfum í samræmi við þá þekkingu sem við höfum, og þekkingu öðlumst við eftir því hvernig og við hvað starfað er.”

Sancho: “Þetta sýnir mér að skilgreining þín áðan var ekki nógu góð. Mér finnst hún ekki ná alveg utan um þetta.”

Don: “Það er sennilega rétt hjá þér. Við megum ekki vanmeta þekkinguna. Hún er hugtak sem hefur runnið gegnum hugarsigti heimspekinga í árþúsundir. Það er erfitt að átta sig á hvaðan hún kemur og hvað hún er.”

Sancho: “Hvaðan hún kemur? Lærum við ekki? Safnast lærdómurinn ekki saman og verður að þekkingu?”

Don: “Svona eins og pollur myndast á gólfinu þegar þakið lekur?”

Sancho: “Já. En samt meira eins og skráð orð sem verða að blaðsíðum og blaðsíður sem verða að bókum sem síðan fylla bókasöfn, sem fer síðan út á netið og tekur til við að flæða á miklu öflugri hátt en við höfum áður þekkt.”

Don: “Bókvitið verður ekki í askana látið nema hægt verði að drekka úr þeim síðar og jafnvel blanda betri mjöð.”

Sancho: “Ég hef tekið eftir að því að eftir því sem að maður veit meira og meira um eitthvað ákveðið, verður þekkingarsviðið sífellt smærra og smærra.”

Don: “Ég upplifi þetta öfugt.”

Sancho: “Nú?”

Don: “Eftir því sem að þekkingarsvið mitt verður sífellt stærra og stærra, geri ég mér betur grein fyrir að ég veit stöðugt minna og minna.”

Sancho: “Ætli þetta eigi við um heiminn allan? Ef við lokum okkur inni í herbergi og kynnumst því vel gætum við orðið gífurlega öflugir sérfræðingar um þetta herbergi, án þess að vita nokkuð um heiminn.”

Don: “Já, hugsanlega. Og svo er hægt að fara í hinar öfgarnar, að vita sífellt meira um umfang heimsins og uppgötva hvernig hann stækkar með hverri uppgötvun, en sökkva sér aldrei nógu djúpt í eitt viðfangsefni til að skilja eðli þess af fullkomnun.”

Sancho: “Þannig að sumir eru dæmdir til að kynnast aðeins smávegis af heiminum mjög vel, en aðrir kynnast öllum heiminum, en þá frekar illa?”

Don: “Ég gæti trúað því. Við mannverurnar erum því miður ekki það fullkomnar að ráða við þetta allt í einu. Ég vildi óska að ég þekkti eðli hvers einasta fyrirbæris í heiminum og áttaði mig líka á hvernig öll þessi fyrirbæri tengjast öllu öðru í heiminum; en svo átta ég mig á því að þetta er alltof mikið verk fyrir einn mann, og jafnvel hóp manna. Samt vil ég ekki gefast upp.”

Sancho: “Ég skil þig. Þessi heimur er alltof stór fyrir fiskiflugur eins og okkur til að átta okkur á honum öllum. Ætli við séum ekki öll sveimandi í völundarhúsi þekkingarinnar, og þegar við loks finnum útganginn, þá getum við loks ákveðið hvort við stöldrum við og kynnumst völundarhúsinu betur, eða förum út.”

Don: “En þegar út er komið áttum við okkur á því að völundarhúsið er kannski margfalt stærra en við gerðum okkur upphaflega grein fyrir, og byrjum því aftur á byrjunarreit.”

Sancho: “Ekki kannski alveg á byrjunarreit. Þegar við finnum loks útgönguleiðina...”

Don: “...sjáum við að þetta var bara lítið herbergi, hús eða garður í enn stærra völundarhúsi.”

Sancho: “Og svo er til fólk sem ráfar um völundarhúsin án nokkurrar stefnu. Þetta fólk er kallað risaeðlur í þekkingarheiminum. Það bætir aldrei við sig nýrri þekkingu og reynir að halda heiminum í sama horfinu, bara vegna þess að þeim er sjálfum ómögulegt að breytast í síbreytilegum heimi.”

Don: “Einnig er til fólk sem byggir sér fílabeinsturna til að ná yfirsýn yfir völundarhúsið. Hugsanlega tekst þeim að byggja þessa turna og flytja inn í þá, en ná því miður ekki að koma uppgötvunum sínum til skila fyrir þá sem enn ráfa um völundarhúsin.”

Sancho: “Já, og svo eru til risaeðlur sem búa í fílabeinsturnum.”

Maturinn er búinn af diskunum. Don og Sancho stíga brosandi upp frá borðinu og takast í hendur. Þeir fara síðan hvor í sína áttina, Don upp í fílabeinsturn en Sancho niður í völundarhús.


Loksins virkar þrívídd í bíó: Meet the Robinsons (2007) ***1/2

Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar til að koma kvikmyndum í þrívídd. Hugmyndin er einföld. Í stað þess að vera meðvitaður um að maður sé að horfa á flatan skjá, er tilfinning um raunverulega fjarlægð endursköpuð; þannig að áhorfandi hafi á tilfinningu að sumir hlutir séu í seilingarfjarlægð en aðrir mjög langt í burtu. Þessi tækni hefur verið þróuð frá því um 1920, en gengið illa að vinna henni brautargengi.

Ég minnist þess þegar ég sá Jaws 3D í Laugarásbíó fyrir allmörgum árum. Þá fékk ég gleraugu úr pappa, annað augað var hulið með rauðum plastfilter, en hitt með bláum. Þetta gekk engan veginn upp. Gleraugun runnu til og ég man eftir að hafa bæði fengið hausverk af þessu og sá fátt merkilegt í þrívíddinni. Samt var ljóst að þessi tækni gæti gengið upp. Við vorum einfaldlega ekki komin nógu langt.

Teiknimyndaveri Disney hefur loks tekist það sem reynt hefur verið að gera frá 1922. Framleidd hefur verið teiknimynd, sérstaklega hugsuð frá upphafi til enda fyrir raunverulega þrívídd. Tæknin styður söguna, og öfugt. Og það sem meira er: þrívíddartæknin er að virka! 

Við fengum Disney 3D gleraugu þegar við keyptum miðana. Þau líta út eins og dökk sólgleraugu, þannig að maður skammast sín ekkert fyrir að hafa þau á nefinu. Þau sitja þægilega, og það sem meira er - þau virka! Ég á ennþá bágt með að trúa því. Ég sá heila kvikmynd í bíó, í þrívídd! Hún var alltaf flott. Ég fékk ekki hausverk. Og ég hef upplifað bíó sem virkar betur en nokkuð sem ég hef áður þorað að vonast eftir. Trúðu mér.

Samt er tæknin ennþá í þróun. Ég var ekki sannfærður þegar hlutir áttu að skjótast hratt í átt að áhorfendum. Aftur á móti var gífurlega gaman að sjá hægfara hreyfingar í þrívídd sem léku sér að augnsviðinu öllu.  Mér fannst sérstaklega vel heppnað hvernig tæknin var notuð til að skapa andrúmsloft. Til að mynd rigndi í nokkrum atriðum. Mér fannst ég vera staddur í rigningunni. Þegar bæði hljóð og mynd sannfæra mann um að maður sé umkringdur regni, er ekki hægt annað en að trúa því. Ég bíð spenntur eftir næsta skrefi með þessari tækni; þá er ég ekki að tala um úðakerfi.

Athugið að hægt er að sjá Meet the Robinsons í tvívídd, en hún er einungis sýnd með þessari nýju tækni í Kringlubíói. 


Meet the Robinsons fjallar um Lewis, dreng sem skilinn er eftir af móður sinni á munaðarleysingjahæli. Hann er gríðarlega greindur og getur fundið upp tæki til að leysa nánast hvaða vandamál sem er. Eitt þeirra er vél sem getur flakkað með minningar einstaklinga um tíma og sýnt á skjá hvað gerðist á ákveðnum tímapunkti einhvern tíma í fortíðinni. Vandamálið sem hann vill leysa með þessu tæki er að hann langar til að rifja upp andlit móður sinnar sem hann sá aðeins þegar hann var ungabarn. Skemmdarvargur með kúluhatt, Michael Yagoobian, kemur úr framtíðinni með tímavél og ætlar sér að eyðileggja framtíðina með því að stela þessari vél.

Það er mikið af eftirminnilegum persónum í Meet the Robinsons, sem flestar leika stutt hlutverk. Íþróttaþjálfari sem tekur eftir öllu, pizzasendill sem minnir á ofurhetju, risaeðla með minnimáttarkennd og sjálft illmennið hann Michael, sem er greinileg eftirmynd Robbie Rotten úr Latabæ.
 

Strákur úr framtíðinni, Wilbur, eltir kallinn með kúluhattinn til nútíðarinnar og varar Lewis við. Lewis trúir honum að sjálfsögðu ekki fyrr en hann hefur fengið sönnun um að tímaflakk sé til, en þegar hann hefur fengið sönnunina er hann strandglópur í framtíðinni með ónýta tímavél. Þannig að nú þurfa þeir félagar að laga tímavélina og koma í veg fyrir að kallinn með kúluhattinn eyðileggi framtíðina.


Á leiðinni hittir Lewis Robinson fjölskylduna, sem er uppbyggð af stórfurðulegum einstaklingum, en öll hafa þau það viðhorf og sannfæringu að mistök séu af hinu góða vegna þess að hægt er að læra af þeim. Góður árangur í fyrstu tilraun er ekki jafn spennandi því að þá er málið bara dautt.

Megin ástæðan til að fara á þessa mynd, og þá í Kringlubíói, er þrívíddin. Sagan og teiknimyndin sem slík eru yfir meðallagi, en eru þó engin snilld. Tæknin er aftur á móti það sem selur Meet the Robinsons Ég er viss um að börn muni dýrka þessa tæknilegu byltingu, og flestir fullorðnir verði svo yfirhrifnir að þeir finni barnið í sjálfum sér, að minnsta kosti stundarkorn.

Myndin er þó nógu góð til að fólk geti haft gaman af henni, hvort sem er í þrívídd eða ekki. 

E.S.  Það eru syngjandi froskar í þessari mynd. Hér er myndband frá YouTube sem sýnir fram á gagnsemi syngjandi froska: 


5. Óskarsverðlaunin: Grand Hotel (1932) ***

Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. Grand Hotel frá 1932 er sú fimmta í röðinni. 

Grand Hotel er drama um líf og örlög fimm manneskja sem fléttast saman þegar þau dvelja á glæsihóteli í einn sólarhring. Líf þeirra allra mun gjörbreytast eftir þennan stutta tíma, vegna þess hver þau eru, hvað þau vilja og hvað þau gera.

Barón Felix von Geigern (John Barrymore) er svikahrappur og þjófur með rómantískt hjarta. Þegar hann laumast inn á hótelherbergi listakonunnar heimsfrægu Grusinskaya (Greta Garbo) til að stela dýrmætri hálsfesti, verður hann þess í stað ástfanginn af þessari fögru en óhamingjusömu konu. Baróninn átti stefnumót, sem hann svíkur, við Flaemmchen (Joan Crawford), fagra stúlku sem starfar sem einkaritari fyrir framkvæmdamanninn moldríka Preysing (Wallace Beery) sem þráir ekkert heitar en að fá einkaritarann í bólið með sér. Inn í söguna fléttast líf hins ólánsama Otto Kringelein (Lionel Barrymore) sem er einn af starfsmönnum Preysing en hefur nýlega fengið að vita að hann sé með krabbamein og eigi stutt eftir ólifað.

Þó að sagan sé áhugaverð á pappírnum nær myndin ekki að koma henni nógu skemmtilega til skila. Greta Garbo og John Barrymore eru skráð sem aðalleikarar, en ofleika bæði.  Joan Crawford, Wallace Berry og þá sérstaklega Lionel Barrymore standa sig vel í sínum hlutverkum.

Grand Hotel fjallar fyrst og fremst um áhrif peninga á líf fólks, hvernig þeir ráða úrslitum í örlögum þess, sama hverjir mannkostir þess eru. Grusinskaya á alltof mikið af peningum og er sama um þá. Preysing er forríkur en vill vera ennþá ríkari. Kringelein hefur safnað alla ævi en vill losna við peninginn áður en hann deyr. Flaemmchen er tilbúin í að selja líkama sinn fyrir peninga. Geigern gerir allt sem hann getur; svíkur, lýgur og prettar, til að fá pening. Og aðeins gestir með peninga geta gist á Grand Hotel.

Allar eru persónurnar að leita eftir breytingu í lífinu, og halda að þær geti náð þessari breytingu fram á einu kvöldi. Grusinskaya er leið á lífinu, en telur sig finna mögulega fyllingu þegar hún verður ástfangin af Geigern baróni. Geigern barón heldur að hann geti leyst öll sín vandamál með því að stela verðmætum, sem hann ætlar síðan að nota til að borga fjárhættuskuldir; en handrukkarar eru á hælum hans sem hóta lífi hans og limum borgi hann ekki fljótlega. Meðal þeirra sem gætu útvegað Geiger baróni pening er Otto Kringelein, sem er nákvæmlega sama um peninga, en vill bara skemmta sér almennilega áður en hann hrekkur upp af. 

Flaemmchen er að leita eftir betri stöðu í lífinu og vonast til að geta bætt erfiða stöðu sína með því að sofa hjá yfirmanni sínum, en Preysing er þreyttur á eigin reglubundna líferni og vill lofta aðeins út með því að sofa hjá Flaemmchen. 

Þessi leit að skyndilausnum endar að sjálfsögðu með ósköpum, og liggur einn hótelgestanna í valnum við sögulok.

Ég mæli með þessari mynd vegna handritsins, sem er vel skrifað; en finnst að það mætti svosem endurgera hana með leikurum eins og Jack Nickolson, Johnny Depp, Robin Williams, Nicole Kidman og kannski Scarlet Johansson.

 

Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:

Wings (1928) **** 

The Broadway Melody (1929) *1/2

All Quiet on the Western Front (1930) ****

Cimarron (1931) ***1/2

 

 

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband