1. Óskarsverðlaunin: Wings (1927) ****

WingsFyrir nokkrum vikum tók ég mig til og byrjaði að horfa á kvikmyndir sem höfðu unnið til Óskarsverðlauna sem besta kvikmynd viðkomandi árs. Mér hefur ekki tekist að finna þær allar, en þær sem ég hef haft upp á og náð að horfa á mun ég skrifa um hér á blogginu. Ég reyni að horfa á eina í hverri viku, innan um aðrar myndir og sjónvarpsþætti sem maður kíkir á. Ég stefni á að sunnudagskvöldin verði Óskarsverðlaunakvöld hjá mér.

Þó að besta myndin vinni ekki alltaf sem besta myndin á þessu stærsta uppgjöri kvikmyndaiðnaðarins á hverju ári, þá eru sigurvegararnir yfirleitt gott dæmi um tíðaranda og þróun kvikmyndatækninnar. Það væri gaman að komast yfir allar myndir sem hafa verið tilnefndar til Óskarsverðlauna frá upphafi, en slíkt verk getur tekið ansi mörg ár og einnig efast ég um að allar þessar myndir hafi verið varðveittar. En fyrsta skrefið er að kíkja á stóru sigurvegarana, sem er nú ærið verkefni, enda hafa 79 Óskarsverðlaunahátíðir verið haldnar þegar þetta er skrifað. 

Fyrsta kvikmyndin sem vann til Óskarsverðlauna var Wings, gerð árið 1927, stríðsmynd sem gerist í fyrri heimstyrjöldinni og er áhrifaríkari en flestar síðari tíma stríðsmyndir. Til að mynda fölnar Pearl Harbour (2001) í samanburði, en söguþráður beggja er keimlíkur. 

Wings er einfaldlega stórfengleg mynd. Fyrirfram hélt ég að mér myndi leiðast áhorfið, þar sem að hún er ekki bara í svart-hvítu, heldur hljóðlaus með öllu, fyrir utan stutt tónverk í kynningunni.

Það sem kom mér helst á óvart er vel skrifuð sagan, myndræn og framúrskarandi framsetning, frábær kvikmyndataka, óaðfinnanlegur leikur og hjartað á réttum stað.

Wings fjallar um tvo unga menn, þá Jack Powell (Charles 'Buddy' Rogers) og David Armstrong (Richard Arlen). David á auðuga foreldra, er rólegur og hugulsamur. En Jack aftur á móti vill lifa hratt, hann er ungur eldhugi sem áttar sig engan veginn á því sem hann hefur og sækist alltaf eftir einhverju sem er handan við hornið; og til að kóróna allt saman er hann ástfanginn af Mary Preston (Clara Bow) sem er ástfangin af David, og David elskar hana.

Wings02Jack og David sinna kallinu þegar heimstyrjöldin skellur á og fara báðir í flugherinn. Í búðunum hitta þeir meðal annars Cadet White (Gary Cooper) sem gefur þeim góð ráð og kemur þeim hæfilega á jörðina áður en bardagarnir hefjast. Þeir Jack og Davið þola illa hvorn annan til að byrja með en verða fljótt mestu mátar, og vinátta þeirra dýpkar með ævintýrunum sem þeir lenda í; þar til að samband þeirra leiðir af sér einn magnaðasta endi kvikmyndasögunnar.

Ég get ekki annað en mælt sterklega með Wings fyrir alla þá sem gaman hafa af góðum kvikmyndum, og þá er ég ekki bara að tala um kvikmyndaunnendur. Wings er fyrir alla þá sem nenna að horfa á hljóðlausa og svarthvíta kvikmynd, og eru tilbúnir að skemmta sér eftirminnilega. Þrátt fyrir hljóð- og litaleysi hefur hún staðist tímans tönn og er klassík eins og klassískar myndir gerast bestar, það er að segja: henni hefur tekist að viðhalda skemmtanagildi sínu í öll þessi ár.

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Þú átt mikið verk fyrir höndum kappi.

Kv. SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 4.3.2007 kl. 11:02

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jamm, en gaman verður það.

Hrannar Baldursson, 4.3.2007 kl. 11:18

3 Smámynd: Alvy Singer

Mjög sniðug hugmynd, kannski að maður taki þetta upp!

Alvy Singer, 4.3.2007 kl. 15:16

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Frábær hugmynd hjá þér! Góða skemmtun!

Guðríður Haraldsdóttir, 4.3.2007 kl. 18:38

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir það Alvy og Guðríður.

Hrannar Baldursson, 4.3.2007 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband