Stórmyndir: The Host (Gwoemul) (2006) ****

TheHost07

The Host eða Gwoemul er skrýmslamynd frá Suður Kóreu sem kemur mjög skemmtilega á óvart. Ramminn utan um tilurð óvættarins gæti verið úr hvaða skrýmslamynd sem er. Gömlu formaldehýð er helt út í Hanfljót við Seoulborg af bandarískum hermönnum sem gefa skít í umhverfismál, á þeirri forsendu að Hanfljótið sé svo stórt að þessi smámengun muni engin sjáanleg áhrif hafa þegar á heildina er litið. Pöddur og önnur dýr í fljótinu byrja að stökkbreytast. Tíminn líður.

Reyndar ef kafað er aðeins dýpra, þá er sagan byggð á sannsögulegum atburðum, að minnsta kosti samkvæmt Wikipedia, en þar segir frá atburði sem átti sér stað í Suður Kóreu þegar starfsmaður Bandaríkjahers helti einmitt miklu magni af formelahýð í vask, sem var orsökin að mikilli umhverfismengun. 

TheHost27

Þrátt fyrir að myndinni sé ekki beinlínis beint gegn Bandaríkjamönnum og stefnu þeirra í Suður Kóreu, þá eru þeir töluvert gagnrýndir, og einnig yfirvöld Suður Kóreu sem er líst sem klaufalegum blýjantsnögurum, kerfisköllum og undirlægjum Bandaríkjamanna sem ekkert vita eða geta. Fyrir vikið hafa yfirvöld Norður Kóreu tekið þessari kvikmynd fagnandi. 

TheHost04

Við kynnumst svolítið öðruvísi fjölskyldu. Æðsta markmið Park Gang-Du (Kang-ho Song) þegar við fyrst kynnumst honum er að safna nógu miklu klinki til að geta gefið 13 ára dóttur sinni, Park Hyun-seo (Ah-sung Ko), nýjan farsíma. Lengra nær ekki hans heimur. Hann er í upphafi myndar það sem við myndum í daglegu tali kalla heimskingja. Hann á það til að dotta þegar minnst varir vegna vannæringar í æsku. Átökin við drekann er þroskasaga Park Gang-Du. 

TheHost05

Afinn, Park Hie-bong (Hie-bong Byeon), rekur verslun við bakka Hanfljóts, en fjölskyldan lifir við töluverða fátækt. Hvorki amman né mamman hafa sést í mörg ár. Þegar skrýmsli stekkur á land úr Hanfljótinu, veður það um svæðið, drepur mann og annan; og áður en það hverfur aftur í gruggugt vatnið nælir það í dótturina Hyun-seo. Þó að Gang-Du stígi ekki í vitið, þá veit hann hvað máli skiptir í lífinu og er tilbúinn að leggja sig allan fram til að bjarga dóttur sinni.

TheHost17

Systkini föðursins bætast í hópinn. Bróðir hans, Nam-il (Hae-il Park) er vel menntaður og gáfaður, en hefur einfaldlega ekki fengið nein tækifæri eftir að hann lauk háskólanámi. Hann er staðalmynd háskólanemans sem mótmælir og berst gegn skrýmslinu með eldsprengjum og öllum tiltækum ráðum.

TheHost28

Systirin, Nam-Joo (Du-na Bae) er keppniskona í bogfimi, er gífurlega nákvæm en hægfara. Yfirleitt er hún alltof sein, sama hvað það er. Hún er nýbúin að vinna bronsverðlaun á landskeppni í bogfimi. Hún missti af fyrsta sætinu af því að hún hikaði á úrslitastundu.

TheHost29

Yfirvöld handsama alla fjölskylduna til rannsóknar þar sem að Gang-Du hafði fengið blóðslettu af drekanum á andlit sitt, en bandarískur hermaður hafði fengið dularfull útbrot og látist eftir að hafa barist við hlið Gang-Du gegn óvættinum. Stjórnvöld telja að drekinn hýsi banvænan vírus. Yfirvöldin sýna hversu mikil skrýmsli þau eru með því að bora eftir vírusnum í heila Gang-Du.

TheHost21

Full af harmi syrgir fjölskyldan þar til Gang-Du fær símtal um miðja nótt frá dóttur sinni. Hún reynist enn vera á lífi, en er lokuð inni í holræsi við Hanfljót. Gang-Du reynir að segja lögreglunni frá símtalinu og að nauðsynlegt sé að bjarga dóttur hans sem allra fyrst. Löggan og læknar álíta hann geggjaðan, þannig að hann leggur á flótta undan ríkisstarfsmönnum ásamt fjölskyldu sinni.

TheHost16

Þó að tæknibrellurnar fyrir skrýmslið séu ekkert sérlega trúverðugar, er dramað og sagan af fjölskyldunni sem berst gegn mótlæti af völdum samfélags og náttúru virkilega góð. Einnig er gaman að sjá fjölskylduna takast á við skrýmslin tvö, ríkið sem hlustar ekki og skemmir fyrir af eintómri heimsku; og hins vegar þegar þau berjast við viðundrið, hvert með sínu lagi. Vandamálin virðast óyfirstíganleg fyrir þessa ólánsömu fjölskyldu.

TheHost15

Þegar kafað er undir yfirborð myndarinnar, er ljóst að sagan fjallar um skrýmsli og að skrýmsli myndarinnar er aðeins myndhverfing fyrir stóru kerfin: borgina, hagkerfið, ríkið, glóbalisma og fleira. Eina leiðin til að sigrast á þessu kerfi er einmitt með samstöðu.

TheHost13

Lokabardaginn við skrýmslið er spennandi og vel útfærður. Annars vegar eru háskólanemar í mótmælagöngu gegn framkvæmdum yfirvalda og hins vegar fjölskyldan að berjast við skrýmslið; sem virðist ekkert vera ósigrandi í samanburði við yfirvöldin. Endirinn minnir helst á gamlar riddarasögur, þegar hetjurnar börðust við eldspúandi dreka til að bjarga prinsessu með sverðinu einu saman; eða umferðarskilti sem segir STOP.

TheHost18

Leikararnir standa sig allir mjög vel, en sérstaklega þó Kang-ho Song í hlutverki föðursins vonlausa, og Ah-sung Ko sem er einfaldlega frábær í hlutverki dótturinnar. Hvorugt þeirra slær feilnótu. Ekki allir fjölskyldumeðlimir lifa ævintýrið af og er endirinn í anda alls þess sem á undan hefur gengið.

TheHost22

Ég mæli sterklega með Gwoemul, en ekki fyrir hvern sem er. Ég horfði á hana með kóreskri hljóðrás og enskum texta, enda þoli ég illa döbbaðar myndir. Þrátt fyrir góðan húmor og gagnrýnið hugarfar eru óhugnanleg atriði í myndinni sem ekki eru við hæfi barna eða viðkvæmra. Ég gæti reyndar ímyndað mér að ef Terry Gilliam leikstýrði skrýmslamynd yrði hún í svipuðum tón, en samt ekki, því að leikstjórinn Joon-ho Bong hefur greinilega þróað sinn eigin, persónulega stíl, og ljóst að spennandi verður að fylgjast með honum í framtíðinni. 

TheHost30

 

Að lokum: sýnishorn úr myndinni af YouTube sem er mun betra en bandaríska sýnishornið, sem lætur myndina líta út fyrir að vera bara enn ein ógeðslega hrollvekjan, sem hún er náttúrulega alls ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gwoemul var frumsýnd í Bandaríkjunum fyrir um viku síðan. Ég sé á gagnrýnissíðu RottenTomatoes.com að margir gagnrýnendur eru sammála mér um hversu sérstök hún er. Ég gerði mér reyndar far um að panta hana á DVD frá Suður Kóreu eftir að ég las að hún sló öll aðsóknarmet þar. Hægt er að skoða gagnrýnisíðuna á RT með því að smella á The Host.

Hrannar Baldursson, 6.4.2007 kl. 10:45

2 identicon

Við horfðum á hana í gærkvöldi og vorum mjög hrifin! Hún hefur einhvern veginn allt til að taka áhorfandann með sér eins og spennu, húmor og svo er hún einstaklega mannleg. Ef maður lætur tæknibrellurnar ekki bögga sig þá er hún fantafín!

Anna Brynja (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband