Kunna íslenskir þingmenn og almenningur ekki að hlusta og hugsa gagnrýnið?

Það hefur verið afar áberandi á Alþingi Íslendinga upp á síðkastið að þjónar þjóðarinnar sem starfa þar við að setja saman lög fyrir þegna þessa lands, virða ekki grundvallaratriði gagnrýnnar hugsunar: að hlusta og vinna saman. Ástæðurnar fyrir því að ekki er hlustað eru sjálfsagt ólíkar fyrir hvern og einn þingmann, en grundvallarástæðan er sjálfsagt sú að á Íslandi hefur aldrei verið lögð áhersla á kennslu í gagnrýnni hugsun, annars staðar en á háskólastigi, og þá bregður jafnvel til beggja vona hvort kennslan hafi eitthvað með slíka hugsun að gera eða ekki. 

Ég upplifði gagnrýna hugsun í tímum hjá Páli Skúlasyni, Róberti Haraldssyni, Erlendi Jónssyni og Nirði P. Njarðvík. Flestir aðrir tímar voru hefðbundnir fyrirlestrar, þar sem maður safnar að sér efni og sérfræðingur ræðir um það og sem maður síðan hugsar um á eigin forsendum. Páll Skúlason velti fyrir sér mikilvægi gagnrýnnar hugsunar fyrir samfélagið og beitti henni á krefjandi hátt í samræðutímum, Róbert Haraldsson kafaði að kjarna gagnrýnnar hugsunar og krafði nemendur til að velta fyrir sér hvernig við getum lært að hugsa sem best, Erlendur hafði þann hæfileika að geta sýnt hvernig orðræða eins og hún birtist í fjölmiðlum skarast oft á við rökfræðina og Njörður P. Njarðvík kenndi mér þá list að gagnrýna það sem ég og aðrir hafa skrifað, og læra þá mikilvægu lexíu að sama hvað maður skrifar, þá er langur vegur á milli þess sem maður hugsar þegar maður skrifar og þess sem lesandi fær út úr þeim orðum.

Frekara nám í gagnrýnni hugsun beið mín í Bandaríkjunum, með snilldarkennurum eins og Dr. Matthew Lipman og Dr. Ann Margaret Sharp, sem leiddu okkur um heima barnaheimspekinnar - sem er í raun kennsla í gagnrýnni hugsun fyrir börn - og einnig stórfenglegum tímum sem fjölluðu beinlínis um beitingu gagnrýnnar hugsunar um allt skólakerfið og samfélagið hjá Dr. Mark Weinstein. Gagnrýnin hugsun á þessu stigi er nokkuð sem virðist því miður ekki vera virt á Íslandi.

Í dag starfa ég hjá norsku upplýsingatæknifyrirtæki sem gengur út á að gefa ráðgjöf í gagnrýnni hugsun til fyrirtækja og stofnana, með tækjum og tólum sem krefjast þess að allir hlusti hver á annan. Ég mun sjálfsagt nýta þá þekkingu sem ég afla hjá þessu fyrirtæki fyrir frekara framhaldsnám í gagnrýnni hugsun. Mig grunar að fæstir alþingismenn viti hvað það fyrirbæri er, þó að á meðal stjórnarmanna Samfylkingar séu nokkrir einstaklingar sem sátu með mér í tímum í HÍ sem fjölluðu beinlínis um mikilvægi gagnrýnnar hugsunar í lýðræðislegu samfélagi.

Ellert B. Schram skrifar ágæta grein um þær hörmungar sem þjóðin upplifir um samstöðuleysi á hinu íslenska Alþingi, þar sem stjórnin þvingar málum í gegn eins og gert var síðustu 18 árin og stjórnarandstaðan gagnrýndi þá af krafti, en fyrrverandi stjórnarandstaða beiti nákvæmlega sömu taktík í dag og núverandi stjórnarandstaða gagnrýnir það af krafti. Samt beitir hvorug hliðin gagnrýnni hugsun.

"En það er á einum vinnustað, á Alþingi sjálfu, sem þessi samstaða hefur brostið. Þar hefur hver höndin verið upp á móti annarri. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með þeirri umræðu allri. Það mætti halda að hópur þingmanna skilji ekki eða vilji ekki skilja að þessi barátta sem íslenska þjóðin heyr nú við hruninu snýst ekki um flokka og dilka. Hún snýst um þjóðarhag." Ellert B. Schram

Erfiðasta verkefnið sem nokkur manneskja getur fengið er að hlusta á aðra. Að hlusta er ekki kennt í skóla nema að takmörkuðu marki. Yfirleitt er ætlast til að hlustað sé á kennarann eða yfirvaldið, en ekki nauðsynlega á eigin pælingar eða jafningja í hópnum.

Það má gera greinarmun á því að hlusta á manneskju annars vegar og heyra hvað hún er að segja hins vegar, og þar að auki muninn á því að hugsa um hugsanir annarrar manneskju, meðtaka þær og reyna að skilja þær annars vegar og hlusta aðeins á það sem hentar eigin skoðunum.

Á Íslandi læra börn ekki í skóla að ræða saman af skynsemi, nema í undantekningartilfellum, þar sem börn eru það heppin að fá kennslu þar sem þau fá tækifæri til að ræða málin af dýpt.

Vandinn sem að steðjar er að þeir sem eru við stjórn halda að þeir viti hvað gagnrýnin hugsun er og telja að hún sé kennd í skólum með þeirri námsskrá sem er í gildi í dag, sem er að mörgu leyti ágætt en hefur þetta gat á ósonlaginu sem er skortur á gagnrýnni hugsun.

Þannig er námsskráin í dag:

  • Sjálfsstyrking og samskipti
  • Námstækni
  • Íslenska
  • Framsögn og ræðumennska
  • Enska
  • Stærðfræði
  • Tölvu- og upplýsingatækni

Af hverju gagnrýnin hugsun er ekki kennd í íslenskum skólum, og þá í formi barnaheimspekinnar og með rökfræði sem grundvöll, er ofar mínum skilningi. Eina ástæðan sem mér dettur í hug er mannekla og skilningsleysi - það kunna ekki nógu margir gagnrýna hugsun til að kenna hana vel, og þeir sem taka ákvarðanir um námsskrá telja sig vita en vita kannski ekki í raun hvað gagnrýnin hugsun er og hvers vegna hún er svona mikilvæg.

Það er hins vegar eitthvað sem hægt er að laga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gat ekki stillt mig um að skrifa til þín jólakveðju á Þorláksmessu gamli félagi. Gott hjá þér að skrifa um gagnrýna hugsun og pólitíkina og góð tilvitnun í Ellert. Ég myndi bæta við það sem Ellert segir -  því að vandinn er að enginn tekur forystu á þinginu um nýjan tón. Til þess þarf siðferðilega forystu þess sem hefur sig upp fyrir rifrildið, tekur stöku blammeringum án þess að þurfa að slá enn fastar til baka og tryggir sammæli um þjóðarhag með skýrri og greiðri upplýsingagjöf. Hver og einn gæti byrjað á sjálfum sér en í staðinn sekkur þetta dýpra og dýpra. Ég er ekki á þingi en þetta stendur upp úr öllum.  Það er dapurlegt að allir  í pólitíkinni virðast sammála um eitt og aðeins eitt - að þingið hafi aldrei verið eins uppleyst, orðljótt og æst.

Bestu jólakveðjur til þín og þinna

Kristrún.

Kristrún Heimisdóttir (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 10:18

2 identicon

Tek undir þetta. Held einmitt að nú sé lag til að gera róttækar breytingar á öllu heila klabbinu.

Við eigum að spyrja spurninga, og við eigum að kenna okkar börnum að spyrja spurninga. 

Jóhann (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 10:28

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæl Kristrún,

Virkilega gaman að heyra í þér. 

Þar sem þú ert varaþingmaður Samfylkingar og þar af leiðandi í forystuhlutverki, ef mér skjátlast ekki, og hefur starfsreynslu á Alþingi og í íslenskri stjórnsýslu, spyr ég hvort þú hafir tekið slíka siðferðilega forystu fyrir flokk þinn, enda með djúpa þekkingu á siðfræði, gagnrýnni hugsun, og lögum þar að auki. Ef ekki, hvaða hindranir eru í veginum að þínu mati og hvernig verður þeim rutt úr vegi?

Kærar jólakveðjur til þín og þinna sömuleiðis. 

Hrannar Baldursson, 23.12.2009 kl. 10:31

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Yrði þeim þingmanni vært í flokki sínum sem tæki upp á því að beita gagnrýninni hugsun?

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.12.2009 kl. 22:23

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég spyr eins og hann Sigurður Þór, svo óska ég þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.12.2009 kl. 02:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband