Sama hvaðan gott kemur?

-T.S. Eliot 

"Stærstu svikin felast í að breyta rétt á röngum forsendum."

Síðan hvenær skiptir það einungis máli að varan hefur verið keypt og kaupmaðurinn fengið peninginn í vasann, en ekki það að neytandinn situr uppi með gallaða vöru sem hann fær ekki skilað þegar í ljós kemur að varan sem hann keypti er gagnslaust drasl? Kannski það sé einhver hefð fyrir því að þeir sem eiga annað hvort pening eða atkvæði, geti farið með það eins og þeim sýnist, að völdin og kaupmátturinn sé allt sem skiptir máli, en ekki hvaðan gott kemur. Það sé því réttlætanlegt að ræna banka, verslanir, söfn og fá vilja sínum framfylgt þó það kosti að limlesta einhvern eða að drepa, því að komist maður upp með það og græði á verknaðinum, sama hver hann er, er sama hvaðan gott kemur. Í það minnsta heyrir maður þau skilaboð frá forsprökkum Samfylkingarinnar, sem með þessum hugsunarhætti og orðum viðurkenna að spilling sé sjálfsagður hlutur í heimi stjórnmála, stjórnsýslu og mikilvægra viðskipta.

Ég vil síður taka dæmi úr búðum nasista og fasista, en öll þeirra heimspeki gengur út á þetta: "Sama hvaðan gott kemur." Gyðingar og útlendingar voru sendir í þrælkunarbúðir og þeir gagnslausu einfaldlega drepnir. Svo framarlega sem kerfið virkar, skiptir nákvæmlega engu máli hvaða áhrif það hefur á fólk, aðeins svo framarlega sem að kerfið virkar afar vel, fyrir útvaldan hóp sem er skilgreindur sem þjóðin. Þjóðin er nefnilega ekki allir þegnarnir, heldur aðeins þeir sem eru af ákveðnum kynþætti og hafa ákveðnar skoðanir. Allt sem er öðruvísi er af hinu illa og allt sem er svipað er af hinu góða. 

Ég er farinn að trúa því að Íslendingar hafi kosið yfir sig nasisma, fasisma og kommúnisma, sem hefur þá stefnu að jafna landið við jörðu svo að eftir verði aðeins rústir, og kalla það jafnaðarhyggju. Frelsi einstaklings er litið hornauga í slíku samfélagi, og siðferði og skoðanir hverrar manneskju verður að henta stjórnvöldum, sama hvað það kostar. Og allir sem mótmæla ekki taka óvirkan þátt í þessum skrípaleik.

Stjórnmálamenn eiga ekki að vera við völd þegar neyðarástand ríkir, því þeim er ómögulegt að sjá út fyrir pólitískar skoðanir sínar og horfa á raunveruleikann eins og hann er, án þess að sía úr honum einungis það sem hentar. Munum að ríkisstjórn Íslands komst til valda eftir að aðferðum svika, pretta, lyga og aðgerðarleysis hafði verið mótmælt af fullum krafti með pottum og pönnum. Það sem fólk fær í staðinn, er nákvæmlega sama varan, það hefur bara verið skipt um límmiða.

Ég er sannfærðari nú en nokkurn tíma áður, að Íslendingar þurfa að velja sér neyðarstjórn, með einstaklingum sem hægt er að treysta, og sýni þeir merki um svik eða lygar, skal það réttlæta að skipta viðkomandi út fyrir heiðarlegri manneskju.

Það er nefnilega þannig að svik og lygar, þó þær kunni kannski að teljast gæðastimpill á pólitík þegar vel gengur, réttlætanlegar og öllum sama, eyðileggur slíkt aðeins fyrir þegar þjóðin er í neyð. Þjóðin er í neyð, efast nokkur um það lengur?

Segjum að ég panti bókina "Veröld Soffíu" á netverslun Bókasafns Stúdenta. Ef þeir senda mér þess í stað bókina "Veröld sem var" af því að þeir eiga svo mörg eintök, þá hef ég rétt til að skipta um vöru. Ef þessi kaup hefðu verið alþingiskosningar, þá þyrfti ég að sitja uppi með "Veröld sem var" og gæti ekki keypt "Veröld Soffíu" fyrr en eftir fjögur ár. Mér finnst það ekki beinlínis sanngjarnt. En þér?

Ef ég skrepp í raftækjaverslun og kaupi mér flatskjá, og í ljós kemur að hann virkar ekki, þá get ég skilað honum og annað hvort fengið endurgreitt eða nýjan skjá. Eftir að hafa greitt með atkvæði mínu í alþingiskosningum gefst ekkert tækifæri til að skipta um skoðun ef í ljós kemur að varan sem ég borgaði fyrir er gölluð.

Stjórnmálamenn virðist vera sú stétt sem hefur þau forréttindi að geta svikið og prettað, og komist upp með það. Gefur fögur fyrirheit og loforð fyrir kosningar, en þegar í valdastólinn er komið, þá er eins og nýr leikur taki við með nýjum leikreglum, að algjör aðskilnaður verði á milli þeirra loforða sem gefin voru og því sem þarf að standa við.

Við vitum að eitt atkvæði er dýrmætt. Hvað ætli eitt atkvæði kosti?

Tiger Woods sveik loforð sitt um að heiðra samband sitt við eiginkonu sína með því að sænga hjá nokkrum hjákonum. Hefði hann verið múslimi og tekið þessar konur sem eiginkonur, og fyrsta konan hans samþykkt það, hefði þetta varla verið svik eða mikið mál, en þarna kom í ljós að maðurinn stóð ekki við gefin loforð. Það er merki um að viðkomandi sé ekki treystandi. Nú hafa fyrirtæki keppst við að fjarlægja Tiger Woods auglýsingar af markaði, því enginn vill kenna sig við svikna vöru. Íslendingum væri þó sjálfsagt sama, því við erum svo uppfull af öfgafullu frjálslyndi þegar kemur að siðferði og umurðarlyndisfasisma að það er ekki lengur fyndið.

Hvernig er það? Er ekkert opinbert eftirlit með kosningaloforðum og síðan ef þau eru svikin, svona rétt eins konar neytendaþjónusta fyrir kjósendur? 

Ljóst er að hefði ég kosið VG eða Samfylkingu, sem ég gerði reyndar ekki, þá væri ég ekki sáttur. Samfylkingin lofaði skjaldborg yfir heimili, og ekkert vottar fyrir henni. VG ætlaði alls ekki í aðildarviðræður um ESB, sem formaður fullyrti meira að segja kvöldinu fyrir kosningar, en hefur síðan samþykkt það eftir kosningar, eins og það sé eitthvað geðþóttamál.

Báðir flokkarnir hafa árum saman þóst vera að berjast gegn verðtryggingunni alræmdu, og krafist þess að hún verði lög niður, en loks þegar þeir komast til valda, þá er þagað um verðtrygginguna og látið eins og hún sé heilög vera sem stigið hefur ofan af himnum til að blessa alla sem á henni geta grætt. Þá er náttúrulega í góðu lagi að gleyma þeim sem raunverulega þjást vegna hennar.

Reyndar hef ég velt fyrir mér eðli kosningasvika, og finnst þau í sjálfu sér stigsmuni alvarlegri en svik í samskiptum einstaklinga eða í viðskiptum. Ég leyfi mér að fullyrða að kosningasvik séu landráð.

Manneskju sem treyst er fyrir einhverjum gildum og reynist síðan ekki traustsins verð, slíkri manneskju er varla treystandi fyrir að vera treyst fyrir sambærilegum gildum og hún sveikst um áður. Einungis fólk sem er umvafið og samdauna spillingu og telur svik og landráð vera sjálfsagðan hlut, geta varið slíkt traust.

 

-Arthur Miller

"Svik er eini sannleikurinn sem aldrei gleymist."

 

-Cicero

"Enginn vitur maður hefur nokkurn tíma talið að landráðsmanni sé treystandi." 

 

-Wendell Philips

"Ritið á gröf mína: 'Heiðingi, Svikari.' --heiðingi gagnvart öllum kirkjum sem sætta sig við ranglæti; svikari gagnvart öllum ríkisstjórnum sem kúga þegnana."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Ertu búinn að senda fyrirspurn á neytendasamtökin?

En þetta er alveg hárrétt pæling, og ástæðan fyrir því að í alvöru lýðræðisríkjum eru kjörnir fulltrúar þjónar þjóðarinnar, og segja því af sér ef minnsti grunur um spillingu kemur upp.

Hér eru kjörnir fulltrúar yfirmenn þjóðarinnar, og þurfa því ekki að svara fyrir gjörðir sínar (nema kannski á 4 ára fresti). Þingsætið er eign, og eignarrétturinn er heilagur.

Einar Jón, 20.12.2009 kl. 11:35

2 identicon

Það er hrein unun að lesa bloggin frá þér Hrannar sem og Halldóri Jóns!!

Svona hugsandi menn vil ég fá á þing!

Egill Þór Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 20.12.2009 kl. 15:50

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Svakalega er þetta flottur pistill Hrannar!! Ég segi bara eins og Egill Þór hér að ofan, að það er virkilega synd að menn eins og þú er ekki á þingi.

Virkilega sorglegt fyrir þessa þjóð að hafa fólk sem kann ekki samvinnu við sína eigin þegna sem mestu valdhafa landsins.

Líka eins og Einar Jón segir að þingmenn á Islandi eru allt öðruvísi enn hjá flestum  valdhöfum erlendis nema þá í mjög vanþróuðum ríkjum.

Ætli það þurfi ekki borgarastyrjöld í Reykjavík til að breyta þessu. Annars lítur allt út fyrir að menn þurfi bara að sætta sig við ruglið á Ríkisstjórninni...

Óskar Arnórsson, 20.12.2009 kl. 17:03

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir góðar athugasemdir.

Ég hefði sjálfsagt lítið að gera á Alþingi eins og staðan er í dag. Það má tala við mig þegar fólk er tilbúið að hlusta hvert á annað í stað þess að keppast um að halda flottustu ræðuna.

Hrannar Baldursson, 20.12.2009 kl. 21:27

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég hef nú verið að kíkja á Alþingissjónvarpið af og til. Nú eru bara ein og ein ræða á stangli sem eitthvað er varið í. Og þá er viðkomandi næstum búaður niður...

Svo á að troða einhverjum Ríkisleyndarmálastimpli á afbrot, mútur og hverjir hjálpuðu hverjum í bankaráni aldarinnar. 80 ár. Þetta vonandi lekur út, svo það hætti að vera leyndarmál...

Óskar Arnórsson, 20.12.2009 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband