Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

10 málshættir með kjánalegum útúrsnúningum

Það er stutt í páska og þá blómstrar málsháttamenning Íslendinga. Hefurðu pælt í því þegar þú heyrir málshætti að þó þeir hafi kannski eitthvað viskubrot, þá ganga alhæfingar þeirra sjaldan upp. 

Hér eru nokkur dæmi:

1. Að hika er það sama og að tapa, nema þegar þú stendur í marki og kastar þér á boltann áður en honum er sparkað.

2. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, en trúirðu ekki á tilvist sálarinnar, hugsaðu um sjálfan þig, græddu eins mikið og mögulegt er og brostu þegar hagkerfið hrynur.

3. Af litlum neista verður oft mikið bál, nema þú sért að kveikja á eldspýtu í sturtu.

4. Af máli má manninn þekkja, en deila má um hvort það sé af ummáli, flatarmáli, kaffimáli eða frönskukunnáttu.

5. Aldrei er góðum liðsmanni ofaukið, nema liðið sé fullskipað.

6. Aldrei er góð vísa of oft kveðin, nema þegar þú setur hana inn í athugasemdakerfi allra blogga alla daga.

7. Auðkenndur er asninn á eyrunum, nema hann noti hjálm.

8. Allt tekur enda um síðir nema síður frakki sé.

9. Allt er vænt sem vel er grænt, nema það sé andlit í spegli á sunnudagsmorgni.

10. Allir hlutir eru svartir í myrkri, fyrir utan sálina, andardráttinn, sólina og óþolandi trommusláttinn í kjallaranum, vaxliti, sjálflýsandi leikföng og alls hins sem er ekki svart í myrkri.

 

Mynd: Softpedia


Watchmen (2009) ****

watchmen

Watchmen er afar vel heppnuð kvikmynd gerð úr margbrotinni og flókinni teiknimyndasögu eftir Alan Moore. Áður hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum Moore, hin ágæta From Hell (2001) með Johnny Depp í hlutverki uppdópaðs leynilögreglumanns í leit að Jack the Ripper í London. Hin er hin háværa og frekar misheppnaða The League of Extraordinary Gentlemen (2003), sem er þekktust fyrir að vera svanasöngur Sean Connery.

Watchmen gerist í mögulegum heimi þar sem ekki komst upp um Watergate málið og Nixon heldur völdum í Bandaríkjunum fram til ársins 1985 að hann er enn forseti landsins. Allir eru spilltir, hvort sem það eru stjórnmálamenn, auðmenn, almúgi eða ofurhetjur. Það hugsa allir fyrst og fremst um sjálfa sig, með tveimur undantekningum. Þessar tvær undantekningar er það sem gefur kvikmyndinni líf.

 

watchmen01

 

Önnur undantekningin er ofurmennið Dr. Manhattan (Billy Crudup), vísindamaður sem fékk ofurkrafta vegna slyss á tilraunastofu, sem gerir það að verkum að hann getur séð inn í fortíðina og framtíðina af jafn mikilli nákvæmni og hann sér nútíðina, en með þeim hliðarverkum að hann fer að sjá nútíðina með sömu fjarlægð og við sjáum fortíð okkar. Hann getur sent sjálfan sig og aðra eins og sjónvarpssendingar eitthvert annað í heiminum, og séð bæði með eigin huga myrkustu leyndarmál mannssálarinnar, og gefið öðrum vald til að skilja sjálf sig betur. Eini vandinn við Dr. Manhattan er að hann hefur einangrast mikið vegna þess að hann eldist ekki og er allt öðruvísi en annað fólk. Aftur á móti hefur hann yfir slíkum kröftum að ráða að hann getur leyst manneskjur upp í frumeindir sínar með því einu að lyfta fingri. Það er frekar hættulegt að styggja slíkan mann.

 

watchmen02

 

Hin undantekningin er Rorschach (Jackie Earle Haley), frekar þunglynd ofurhetja sem gengur um í síðum frakka með barðastóran hatt, og hvíta andlitsgrímu sem hylur allt andlit hans en með síbreytilegum svörtum flekkjum, sem hver og einn á að geta túlkað fyrir sjálfan sig. Hans ofurkraftar eru ekkert miðað við Dr. Manhattan, en hann er lipur, sterkur og snöggur. Hann er alltaf samkvæmur sjálfum sér og hatar alla spillingu af einlægni. Hann er eins og blanda af Batman, The Punisher og Dirty Harry - nokkuð sem glæpamenn vilja alls ekki fá gegn sér.

Aðrar persónur eru vel framsettar, en sérstaklega The Comedian (Jeffrey Dean Morgan), ofurhetja sem í flestum öðrum sögum væri flokkaður meðal illmenna, en svo skökk er hin siðspillta dómgreind í söguheimi Watchmen, að hann er talinn með hinum góðu, þrátt fyrir að hafa drepið af óþörfu saklaust fólk og reynt að nauðga annari ofurhetju.

 

watchmen03

 

Persónurnar eru margar og nokkuð miklum tíma varið í Nite Owl II (Patrick Wilson) og Silk Spectre II (Malin Akerman), en þau eru bæði ofurhetjur sem eru þreyttar á að fá ekki að vera í gervum sína vegna laga sem sett voru gegn slíku fólki. Þau verða ástfangin og ákveða að klæðast búningunum til að auka erótík í sambandi þeirra - og uppgötva að þeim finnst æsandi að stjórna atburðarrás sem fáir geta ráðið við - og fyrir vikið eykst hitinn í ástarsambandi þeirra.

Síðasta persónan sem vert er að minnast á er gáfaðasti maður í heimi, Ozymandias (Matthew Goode), en hann hefur þá ofurkrafta að vera sneggri og sterkari en flestar aðrar ofurhetjur, og margfalt gáfaðri. Reyndar minnist Dr. Manhattan á að gáfur Ozymandias væru fyrir honum ekkert merkilegri en gáfur gáfaðasta kakkalakka í heimi, sem segir meira um Dr. Manhattan en Ozymandias.

 

watchmen04

 

Það sem keyrir atburðarrásina í gang, í þessum spillta heimi þar sem áhrifa Nixon gætir í öllu - er að ein ofurhetjan sér að þessi heimur er óásættanlegur, og ákveður að gera sitt besta til að breyta honum til hins betra, sama hvað það kostar. Til þess að geta það, þarf hann að spinna blekkingarvef og plata alla í kringum sig, þar á meðal Dr. Manhattan, sem gegnir lykilhlutverki í áætlun hans. The Comedian kemst hins vegar að ráðagerðinni og er myrtur.

Rorschach rannsakar morðið og upplýsir hinar hetjurnar um grun sinn um að einhver sé að drepa ofurhetjur, eina af annarri, og varar þær við þessum grun sínum. Ég ætla ekki að segja hvernig sagan fer, en í enda kvikmyndarinnar situr eftir spurning sem erfitt er að svara: Eru hryðjuverk þar sem þúsundir saklausra einstaklinga eru drepnir, réttlætanleg, ef þau leiða til heimsfriðar? Spurningar tengdar 11. september vakna að sjálfsögðu þegar hryðjuverkaárás kvikmyndarinnar er gerð á New York borg, og maður hlýtur að spyrja sig hvort að þeir sem flétta samsæri, sem og hryðjuverkamenn, hugsi ekki á svipaðan hátt og þeir sem fremja voðaverkin í þessari kvikmynd, telja verk sitt göfugt, að þeir séu að sigrast á skrímsli - að þeir séu að ná fram heimsfriði, og að slíkur friður sé þess virði þó að fórna þurfi nokkrum milljónum ókunnugra einstaklinga.

 

watchmen05

 

Þetta þema tengist pælingu um þróun, hvort að eitthvað gott og fagurt geti sprottið úr einhverju illu og ljótu, eða hvort að æðri máttarvöld skapi hlutina í þeirri mynd sem þeir eiga að vera. Svarið sem myndin gefur er ekki afgerandi, heldur einhvers staðar á milli þessara tveggja. Það sem gefur einmitt myndinni mestan lit er hversu gjörólíkar grundvallarskoðanir hver persóna hefur og hvernig sannleikurinn, komi hann fram, getur ógnað heimi sem byggður er á lygum.

Það kemur mér á óvart hversu óvægin Watchmen er þegar kemur að jafn viðkvæmum málefnum.Ég mæli með Watchmen, en vara við að ofbeldið er mjög grafískt. Þetta er óvenjuleg ofurhetjumynd að því leyti að hún hefur kynlífssenur og eitthvað af nekt, sem þýðir einfaldlega að kvikmyndin er ætluð fullorðnum en ekki börnum. Allt öðruvísi kvikmynd og sú bragðmesta sem ég hef séð á árinu til þessa.


Eru Íslendingar að tapa stríðinu án þess að vita af eigin þátttöku í því?

 

2327294439_f8de3dcdb9_o

Samkvæmt báðum erlendum gestum Silfurs Egils Helgasonar í dag, þeim Michael Hudson og John Perkins (smelltu á nöfn þeirra til að sjá myndskeiðin), á íslenska þjóðin í stríði, en berst ekki á móti árásarhernum því að hún veit ekki að stríð sé í gangi, enda er erfitt að trúa því, enda varla vilji eða nægur skilningur fyrir hendi hjá Íslendingum til að trúa slíkum fullyrðingum. Árásarherinn er bankakerfið og þessi her vill ekki drepa fólk og hirða síðan eigur þeirra, heldur fá fólkið til að gefa eigur sínar af fúsum og frjálsum vilja; náttúruauðlindir Íslendinga og mannauð.

702838211_20dd233922_o

Samkvæmt þessu er illt keisaraveldi til staðar sem stjórnar framgangi mála í heiminum, og þetta skuggaveldi er æðra öllum ríkisstjórnum og samsett af harðsvíruðum stjórnendum örfárra fyrirtækja, en þessir einstaklingar hafa nægileg völd til að geta hagað eftir eigin höfði hverjir ná lýðræðis- eða einræðisvöldum í hverju landi.

Her keisaraveldisins eru alþjóðlega hagkerfið með gjaldeyrissjóðinn í broddi fylkingar og bankastarfsmenn eru hermenn sem er hulið þeirra eigið hlutverk í stóru keðjunni. Fólk um heim allan er háð bankakerfinu og án þess kemst það ekki af. Her keisaraveldisins er nákvæmlega sama um þetta fólk, þó að bankastarfsmönnum sé það ekki - en það er bara hluti af blekkingunni. Sé andlit bankans fátt annað en gæskan sjálf, getur varla leynst úlfur í þeirri gæru?Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn er samkvæmt þessum kenningum ekki björgunarbátur þjóðanna, heldur miðstjórn keisarahersins - þeir sem negla niður fána á herteknum svæðum og krefjast að fá auðlindirnar í eigin hendur með tíð og tíma.

Ef þetta er satt og rétt, þá eiga Íslendingar einungis einn valkost: að skera sig úr þessum vítahring strax með því að neita að borga skuldirnar. Ekki aðeins ríkið þarf að neita að borga sínar skuldir gagnvart öðrum þjóðum, heldur þurfa einstaklingar á landinu að neita að borga bönkunum eigin skuldir.

 

nova-home-loans-783025

 

Afleiðingin verður annað hvort sú að Ísland verður útilokað úr samskiptum við aðrar þjóðir eða þá að Íslendingum verður fyrirgefið vegna hrikalegra aðstæðna á fjármálamörkuðum heimsins. Hinn kosturinn er að samþykkja að borga þessi lán sem aldrei verður hægt að borga, og gjalda í stað penings með auðlindum þjóðarinnar. Það væru herfileg mistök sem myndu enda með því að allar eignir Íslendinga verða þjóðnýttar, og auðlindirnar enda í höndum keisaraveldisins.

Við erum á seinni leiðinni núna. Ef við stígum ekki á bremsuna og hættum að borga, segjum stopp, nóg komið - þá munum við smám saman glata öllu okkar. Ég held að okkur verði fyrirgefið að lokum ef við hættum að borga, en það gæti kostað reiði gagnvart okkur og gjaldþrot allra íslenskra fyrirtækja sem starfa á alþjóðavettvangi. Því væri kannski best að gefa alþjóðlegum íslenskum fyrirtækjum kost á að komast úr landi, og hætta síðan að borga.

Skuldarar eiga að hafna því algjörlega að taka á sig allan kostnað vegna lánanna. Kröfuhafar verða líka að taka á sig eitthvað af tapinu, í stað þess að skella skuldinni allri á skuldarana.

 

pyramid_eye


Þetta hljómar eins og samsæriskenning af verstu sort. Illt keisaraveldi ríkir yfir jörðinni og stýrir því hverjir halda völdum í hverju ríki fyrir sig, og takist þeim það ekki með góðu, gera þeir það með illu - með hjálp leigumorðingja og herja, en öll spor eru hulin með fjölmiðlum sem keisaraveldið sjálft stjórnar.

Það er allt í lagi að velta þessu fyrir sér, en hver er sannleikur málsins? Getum við komist að því hver sannleikurinn er, og ef við gerum það, getum við sannfært alla þjóðina um að Ísland eigi í stríði og hafi einfaldlega ekki búið sig til varnar þar sem að þjóðinni dettur ekki einu sinni í hug að verið sé að ráðast á hana?

Kannski við séum loks komin til ársins 1984 eins og George Orwell sá það fyrir sér? 

 

"Þrjú slagorð Flokksins:

STRÍÐ ER FRIÐUR

FRELSI ER ÞRÆLKUN

FÁFRÆÐI ER STYRKUR."

George Orwell, 1984

 

 

772986055_578295f036_o

 

 

"Við sættum okkur ekki við neikvæðna hlýðni, né við auðmjúkustu undirgefni. Þegar þú gefur þig loks okkur á vald, verður það að vera af þínum eigin frjálsa vilja. Við eyðileggjum ekki heiðingjann vegna þess að hann streitist gegn okkur; því svo framarlega sem að hann streitist gegn okkur munum við aldrei eyða honum. Við snúum honum, við tökum hans innri hug, við endurmótum hann. Við brennum alla illsku og tálsýn úr honum; við fáum okkar yfir í okkar lið, ekki að útlitinu til, heldur virkilega, hjarta og sál. Við gerum hann að einum okkar áður en við drepum hann. Það er ólíðandi að rangar hugsanir skuli vera til einhvers staðar í heiminum, hversu leyndar og máttlausar þær geta verið. Jafnvel á dauðastund megum við ekki leyfa neina villu . . . við fullkomnum heilann áður en við sprengjum hann."

George Orwell, 1984 

 

Myndir:

1984: Alternative Reel

Hermaður hins illa heimsveldis: Dark Roasted Blend

Hús í höndum bankamanns: Golden Lenders

Auga píramídans: The IP ADR Blog


Bestu kvikmyndir allra tíma

Þá er komið að því. Skorið úr því í eitt skipti fyrir öll hver besta kvikmyndin sem gerð hefur verið frá því að kvikmyndatakan var fundin upp. Whistling

Ég vil taka það fram að þríleikir eins og Indiana Jones, Star Wars og Godfather eru flokkaðir sem ein kvikmynd í mínum huga. Það þýðir að Raiders of the Lost Ark kemur ekki til greina vegna mynda númer tvö og fjögur í Indiana Jones bálkinum. Hvorki The Empire Strikes BackA New Hope koma til greina vegna Attack of the Clones, og Godfather 2 og 3 koma ekki til greina vegna Godfather 3.

Ég fann nokkra lista á netinu til að koma mér í gang.

Mr. Showbiz's CRITICS' Picks: The 100 Best Movies of All Time

  1. Casablanca (1942)
  2. The Godfather Part II (1974)
  3. North By Northwest (1959)
  4. Citizen Kane (1941)
  5. Lawrence of Arabia (1962)
Casablanca_original_film_poster

 

Mr. Showbiz's READERS' Picks: The 100 Best Movies of All Time

  1. Star Wars (1977)
  2. The Godfather (1972)
  3. Pulp Fiction (1994)
  4. Casablanca (1942)
  5. Gone With The Wind (1939)
StarWarsMoviePoster1977

 

IMDB: Best 250 Movies of All Time

  1. The Shawshank Redemption (1994)
  2. The Godfather (1972)
  3. The Godfather: Part II (1974)
  4. The Good, The Bad, and The Ugly (1966)
  5. Pulp Fiction (1994)

 

ShawshankRedemptionMoviePoster

 

THE BRUSSELS WORLD'S FAIR (1958)

  1. Battleship Potemkin (1925)
  2. The Gold Rush (1925)
  3. Bicycle Thieves (1948)
  4. The Passion of Joan of Arc (1928)
  5. Grand Illusion (1937) 

 

Vintage_Potemkin

 

 

Sight & Sound (2002)

  1. Citizen Kane (1941)
  2. Vertigo (1958)
  3. The Rules of the Game (1939)
  4. The Godfather (1972) and The Godfather Part II (1974)
  5. Tokyo Story (1953)

Citizenkane
 

 

Listi Don Hrannars

Allt eru þetta frábærar kvikmyndir sem listaðar eru hér fyrir ofan, en engin þeirra kemst með tærnar þar sem sú allra besta hefur hælana. Hérna er minn listi:

  1. The Lord of the Rings (2001-2003)
  2. Braveheart (1995)
  3. Pulp Fiction (1994)
  4. Gone With the Wind (1939)
  5. Lawrence of Arabia (1962)

 



Þorsteinn Einarsson spyr í athugasemdakerfinu hvernig ég skilgreini góða kvikmynd. Ég hef reyndar aldrei skrifað slíka skilgreiningu og prófa það því hérna:

Góð kvikmynd uppfyllir ekki aðeins tæknileg skilyrði á framúrskarandi hátt, heldur skapar persónur sem hjálpa þér að átta þig á djúpum mannlegum gildum, sem skína oft í gegnum skapgerðarbresti eða ófullkomleika mannsins. Góð kvikmynd  býr einnig til heim sem er samkvæmur sjálfum sér og hlítur sínum ákveðnu lögmálum, og hlutverk allra þeirra sem taka þátt í þessum heimi gegna ákveðnu hlutverki, til þess annað hvort að bæta hann eða brjóta. Þessi heimur og þessar persónur eru svo skýrar og raunverulegar að þær verða trúverðugar innan heims kvikmyndarinnar.

Ég er hrifinn af mannlegum gildum, og sérstaklega ef þau fá litríkan og skemmtilegan búning sem kemur ímyndunarafli mínu í gang.

Lord of the Rings fjallar um þrautseigju, og mikilvægi þess að gefast aldrei upp, sama hvernig líkurnar hlaðast upp gegn þér, dygð sem ég tel afar mikilvæga, sama hvað það er sem við tökum okkur fyrir hendur. Skýrasta augnablikið er þegar Frodo gefst upp, en Sam lyftir honum á herðar sér og ber síðasta spölinn um eldfjallið.

Braveheart fjallar um gildi hugsjónar sem fær ekki að þrífast vegna spillingar í samfélaginu, en William Wallace berst fyrir til hinsta andardráttar - þessi hugsjón er frelsi til að elska í friði. Hljómar kannski væmið en er gert afar góð skil í kvikmyndinni.

Pulp Fiction fjallar um hið óvænta í heimi sem er algjörlega snarruglaður, hvernig góðmennska getur brotist út úr mykjuhaug illsku og spillingar, þegar leigumorðinginn Jules ákveður að taka upp betri siði, þegar boxarinn Butch leggur líf sitt í sölurnar fyrir úr föður síns. Ég man ekki eftir að hafa séð kvikmynd sem hefur komið mér jafn oft á óvart á jafn stuttum tíma, skapað hjá mér væntingar og snúið út úr þeim þannig að ég hafði ekki hugmynd um hvað myndi gerast næst - og það sem gerist næst er fullkomlega ásættanlegt og passar við heim kvikmyndarinnar þannig að hún fær mig til að hugsa aðeins betur um ólíka möguleika. Ætli Pulp Fiction sé ekki ein frumspekilegasta mynd sem ég hef séð, þar sem möguleikarnir í henni virðast óendanlegir, en er samt meistaralega fléttað saman - eins og guðspjalli.

Gone With the Wind fjallar um menningarheim á þverhnípi eigin tortímingar og hvernig fólk sem tapar öllu getur náð sér aftur á strik, með því að þekkja sjálft sig og uppruna sinn. Þannig fer Scarlett O'Hara, þegar hún hefur tapað öllu, á landsvæði sitt Tara, þar sem hún ákveður að byggja upp á nýtt - tilbúin að takast á við nýja tíma og sætta sig við að þeir gömlu eru farnir. 

Lawrence of Arabia fjallar um mann sem reynir að átta sig á tveimur gjörólíkum menningarheimum, og áttar sig smám saman á því að það væri ekki sniðug hugmynd að blanda þeim í einn, heldur halda þeim aðskildum vegna svo gjörólíkra grundvallarviðhorfa til lífsins að þeir hljóti að enda í stríði. Kannski þurfum við að sætta okkur við að ekki er hægt að sætta menningarheima saman þegar meðlimir þeirra ríghalda í eigin menningu og trúarbrögð, og að eina vonin er gagnrýnin hugsun, - nokkuð sem D.H.Lawrence reyndi að beita ásamt ljóðrænu - en hann var bara einn á móti milljónum.

Ekki misskilja mig. Þetta eru þær myndir sem ég beinlínis elska í dag. Á morgun gæti ég kallað til einhverjar allt aðrar myndir ef ég er í þannig skapi. En svona er Don Hrannar í dag. Og því verður að kyngja.

Listinn er huglægur, og eru þetta þær kvikmyndir sem að mér finnst bestar á þessu augnabliki. Hafi ég gleymt einhverri stórgóðri mynd, er þér velkomið að hneykslast í athugasemdakerfinu.

Ég hlusta.


Sjálfstæðisyfirlýsing Íslands

 

skjaldarmerki

 

"Allir Íslendingar eru jafnir að lögum og réttindum, sama hvort þeir séu fæddir á Íslandi eða erlendis, hafi öðlast ríkisborgararétt eða fæðst með hann, tali íslenskt mál, ekkert mál eða erlent mál, óháð trúarbrögðum, kyni, kynhneigð, arfi, auði, stjórnmálaskoðunum eða kynþætti. Allir Íslendingar hafa skilyrðislausan rétt á góðri heilbrigðisþjónustu, góðri menntun, húsaskjóli, klæðum og fæði. Íslendingum ber einnig skylda til að hlúa að eigin menningu og þjóðarinnar allrar eftir bestu getu."

Þannig mætti hefja Sjálfstæðisyfirlýsingu Íslendinga.

Við eigum ekki slíka sjálfstæðisyfirlýsingu þar sem koma fram grundvallargildi okkar um hvernig við metum hvert annað, um hin raunverulegu íslensku gildi. Við þurfum að setja saman slíkt plagg sem algjör sátt ríkir um áður en farið er í stjórnarskrárbreytingar, því við þurfum að hafa til staðar einhvers konar leiðarvísi um réttlætið, gildi og þjóðarsál Íslendinga.

Án sjálfstæðisyfirlýsingar komumst við upp með að hafa heilbrigðiskerfi sem er ekkert sérstaklega gott, og menntakerfi sem er ekkert sérstaklega gott heldur, vegna þess að það er ekki kappkostað við að bæta fólkið sem vinnur í kerfinu og verkfærin sem það hefur í höndum, heldur fyrst og fremst aðstæðurnar - en aðstæður skipta minna máli í umhverfi þar sem þekking og umönnun eru aðalatriðið. Þegar málin snúast um kerfi frekar en fólk, fer fólk að telja sig óþarft til annars en að hlíta kerfinu - en slíkt er afar letjandi fyrir fólk sem gæti hugsanlega haft mikið til málanna að leggja - að minnsta kosti miklu meira en nokkurt kerfi gæti gert.

Velmegun gerir fólk að letingjum, þar sem að sá sem ræður yfir auðnum getur látið aðra sinna vinnunni, og venur sig á það, og spurning hvort að Íslendingar eftir velmegun í nokkur ár hafi skaðað dugnaðarímynd Íslendingsins og að þessi venjulegi Íslendingur sé í dag sáttur við að vera ekki framúrskarandi í því sem hann tekur sér fyrir hendur? Er leti kannski landlægur kvilli?

Mér finnst það sanngjörn krafa af hendi sjálfstæðismanna að biðja um frestun á atkvæðagreiðslu um stjórnskipunarlög á þeim forsendum að ekki hafi gefist nógu mikill tími til að vinna frumvarpið vel og í sátt. Ég skil ekki af hverju þessi ákvörðun má ekki bíða næstu stjórnar, nema þá að lýðræðinu eða Alþingi sé ekki lengur treystandi, og má vel vera að svo sé, enda hafa sjálfstæðismenn ekki verið beinlínis duglegir við að mynda traust milli þings og þjóðar, hvorki í minnihluta né meirihluta. 

Ég tel gagnrýni sjálfstæðismanna réttmæta að vissu leyti, og held að þetta frumvarp sé ekki tímabært, en tel líka mikilvægt að þjóðin fái tækifæri til að móta stjórnarskrána betur, enda er hún byggð á forsendum sem eiga ekki við um það sem við viljum að íslenska þjóðin standi vörð um. 

Við viljum að Ísland sé sjálfstæð þjóð. Það getum við öll verið sammála um. Við viljum líka tryggja sjálfstæði Íslands þó að þjóðin gangi í Evrópusambandið. Með inngöngu í Evrópusambandið tapast einfaldlega spillt stjórn á auðlindum landsins, þar sem að auðlindir mega ekki vera á fárra einstaklinga hendi. Auðveldið mun hrynja. Ég mun ekki syrgja það, en skil vel af hverju fulltrúar þess eru tilbúnir að verja það með kjafti og klóm.

Af hverju tökum við okkur ekki saman í andlitinu og semjum sjálfstæðisyfirlýsingu Íslendinga, skjal sem allir Íslendingar geta verið sammála um, sama úr hvaða flokki eða stétt þeir koma, og byggja nýja stjórnarskrá á slíkri yfirlýsingu?

Án sjálfstæðisyfirlýsingar verða Íslendingar aldrei sjálfstæð þjóð. Við þurfum að standa saman um ákveðin gildi. Sá texti sem ég skrifaði í upphafi greinarinnar er mitt uppkast. Með lagfæringum er hægt að bæta við og skera úr það sem þjóðin getur sætt sig við, en umfram allt er Íslendingum ekkert mikilvægara en að geta staðið saman, vitað fyrir hvað þeir standa og verið stoltir af því.


mbl.is Takast enn á um stjórnarskrárbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversdagshetjan Egill Helgason og hans kátu menn ofsóttir vegna baráttu gegn fjármálasvikum og spillingu?

 

egill_helgason_2sized

 

Egill Helgason hefur verið mest áberandi allra manna sem koma með áhugaverðar og gagnlegar hugmyndir fyrir þjóðina, sérstaklega í kjölfar Hrunsins. Það er óskipt honum að þakka að Eva Joly hefur tekið að sér ráðgjöf til íslensku þjóðarinnar til að fletta ofan af glæpamönnunum á bakvið mesta bankarán aldarinnar. Síðasta sunnudag fékk hann óþægilegan gest frá Bandaríkjunum sem sýndi fram á siðleysi í gjaldþrotaskiptum. Næsta sunnudag fær hann síðan Michael Hudson í heimsókn, hagfræðing sem er afar gagnrýninn á úrræðaleysi nútímahagfræði og bent hefur á að 4000 ára kenningar frá Babylon virki betur en það sem er uppi á tengingnum í dag.

Í þessari frétt frá því í gær er sagt frá kröfu Fjármálaeftirlitsins um að upplýsingar verði fjarlægðar af bloggi Egils, en Egill hefur verið duglegur að hvetja fólk til að leka upplýsingum sem geta komið rannsókn á spillingum og fjármálaglæpum að gagni.

 

zorro

 

Lesandi gæti spurt sig:

  1. Er Egill að hvetja lesendur sína til að fremja glæpi?
  2. Er Fjármálaeftirlitið að vernda spillingu með kjafti og klóm?
  3. Er Egill fórnarlamb FME?
  4. Er FME fórnarlamb Egils?
  5. Getur verið að skrif og þættir Egils Helgasonar séu farnir að valda mönnum töluverðum óþægindum?
  6. Er Egill Helgason sókratísk broddfluga?
  7. Hvað er hlutverk Fjármálaeftirlitsins?
  8. Af hverju er FME á eftir Agli Helgasyni og blaðamönnum á þessum tímapunkti?
  9. Getur verið að FME ráði einungis við smámál eins og leka vegna bankaleyndar, en ekki stórmál eins og fjármálasvik, þar sem þarf virkilega að eyða púðri í að vinda ofan af sannleikanum? 
  10. Hvaða áhrif mun þetta áreiti hafa á vinnuframlag Egils Helgasonar til framtíðar?

Og svo er það stóra spurningin:

Er það siðlegt en löglaust af Agli Helgasyni að birta upplýsingar sem eiga að vera huldar sjónum almennings vegna bankaleyndar?

 

flynn_robin_hood

 

Ef ég leita af fyrirmyndum sem endurspegla hegðun Egils, þá koma upp myndir af Hróa Hetti og Zorro, goðsagnakenndum hetjum á krísusvæðum sem tóku frá hinum ríku og gáfu þeim fátæku, og voru ofsóttir fyrir.

Kannski Egill ætti að fá sér húfu með fjöður og svarta grímu, svona í tilefni dagsins?

Reyndar væri ósanngjarnt af mér að minnast ekkert á það að Mogginn hefur verið að standa sig vel og blaðamenn hans orðið fyrir sams konar pílum Fjölmiðlaeftirlitsins.


Árni Johnsen orðinn heimsfrægur fyrir söng á Youtube

Þú getur spólað fram að söngnum, hann byrjar á 1:25.

Óborganleg skemmtun! Svona á hið virta Alþingi að vera. Ekki íþyngja fólki með samræðum um þjóðfélagsmál. Þau eru svo leiðinleg. Bara hafa þetta létt og skemmtilegt, og telja upp kvikmyndargerðarmenn af því að það er svo gaman. Grin 

 

 


Metaðsókn vegna aprílgabbs

Ekki átti ég von á því um fjögurleytið í gær að ein grein gæti svo gjörsamlega sprengt heimsóknarskalann. Ég lagði nákvæmlega enga vinnu í hana, en til samanburðar fara oft klukkutímar í hverja grein hjá mér, þar sem ég reyni stundum að vanda mig.

Ég er ekki einn af þessum bloggurum sem blogga til að vera ofarlega á blogglistum. Mér finnst einfaldlega gaman að skrifa og enn skemmtilegra þegar einhvern nennir að lesa það sem ég hef að segja. Því fleiri, því skemmtilegra reyndar. 

Í gær setti ég inn bloggfærslu sem var ekkert annað en létt grín og aprílgabb. Heimsóknir á síðuna frá kl. 16:07 til miðnættis voru samtals 2748 en til samanburðar höfðu flestar aðrar marsmánaðar verið vegna mun tímafrekari og alvarlegri greina:

17. mars 2009: Hvernig Samfylkingunni tókst að tapa mínu trausti
1129 heimsóknir

28. mars 2009: Ræða Davíðs Oddssonar á landsfundi 2009 og sú "stórfurðulega heimsmynd sem sá einkennilegi fýr hefur"
1053 heimsóknir

26. mars 2009: Gefið í skyn á mbl.is að Ögmundur sé göfugur, Geir Haarde sé ekki sannur Íslendingur og að 20% niðurfelling skulda heimila sé tóm steypa?
633 heimsóknir

Hvað læri ég á þessu?

Jú. Það kostar litla vinnu að ná vinsældum fyrir léttvæg mál, en mikla vinnu að fá lesendur þegar málefnin skipta meira máli.

Hvort hægt sé að fá góðan lestur á greinar sem skipta máli er kannski erfitt, en alvarleiki er hins vegar dæmdur til þess að ná ekki vinsældum, enda höfðar hann kannski ekki til fjöldans nema í sérstökum fréttaumbúðum - og fréttaumbúðirnar miða hugsanlega meira að því að öðlast áhrif (vinsældir) heldur en að tjá sannleikann allan, því fáir nenna að fara það djúpt.

Þar af leiðandi er afvegaleiðandi að leita eftir vinsældum því þá er erfitt að vera maður sjálfur, nema maður sé slík vera sem fleytir kerlingar eftir yfirborðum, en sekkur ekki í kaf áhugaverðra viðfangsefna.  En ég held að við séum öll djúp að einhverju leyti, bara á ólíkan hátt - og áhugasviðin það ólík að fréttir og frásagnir fyrirfram dæmdar til að dreifa fastri þekkingu á staðreyndum, eða fordómum sem ekki verður haggað við með þátttöku viðtakandans.

Fari maður of djúpt eru töluverðar líkur á misskilningi, rétt eins og þegar fjölmiðlar gripu á lofti þegar þeir héldu að John Lennon sagði Bítlana vera vinsælli en Jesús Krist. Í kjölfarið voru plötur þeirra brenndar á báli og hópurinn, og þá sérstaklega John Lennon ofsóttur. Málið er að vinsældir tengjast ofureinföldun á staðreyndum, en slíkar einfaldanir virðast nauðsynlegar til að setja saman fyrirsagnir sem æpa á lesendurnar: "Lestu mig!"

Hins vegar, án slíkra fyrirsagna fer fjölmiðillinn á hausinn.

 

John Lennon og Jesús  Kristur:

 

 


Besta aprílgabb dagsins

Ég er búinn að fylgjast vel með flestum fjölmiðlum í dag og safnað saman öllum bestu aprílgöbbunum.

Besta gabbið kemur án nokkurs vafa frá mbl.is. Eyjan setti fram nokkur lúmsk, en það allra besta kemur frá visir.is.

Skoðaðu göbbin með að smella á linkana.

Sért þú að lesa þetta hefur þú hlaupið apríl.

 

1. apríl!

 

Þessi grein er nefnilega aprílgabbið mitt í ár.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband