Spillir vald eða leitar spilling í völd?

Öruggasta leiðin til að spilla ungdómnum er að kenna honum að meta meira þá sem hugsa eins heldur en þá sem hugsa ólíkt. (Friedrich Nietzsche)

Borgarahreyfingin virðist komin í ákveðna klemmu. Ósætti í þinghóp og landsfundur virðist snúast um að koma taumum yfir þingmenn og málefni hreyfingarinnar. Þar sem að flokkurinn náði ákveðnum völdum í síðustu kosningum með því að fá fjóra einstaklinga kosna á þing, sem áttu fyrst og fremst að svara til eigin samvisku og örfárra stefnueininga flokksins, þá gerist það að fólk sem hefur meiri áhuga á völdum og áhrifum en hugsjónum og breytingum, ryðst til valda og vill koma sjálfu sér og sínu á framfæri.

Til samanburðar eru hinir stjórnmálaflokkarnir í svipaðri klemmu. Vörn stjórnmálamanna felst í að hefja blekkingarleiki til að friða eigin fylgi. Heiðarleiki virðist ekki eiga heima í stjórnmálum, sama hvert formið er. Alltaf virðist spillingu takast að skjóta rótum eins og illgresi, sem kæfir allar aðrar plöntur, sem við viljum frekar rækta. Takist ekki að uppræta spillinguna strax, nær hún traustum tökum á einstaklingum innan flokka, og fljótar en þig grunar er spillingin orðin að viðmiði frekar en andstæðingi, því að spilling getur hentað í leik þar sem markmiðið er að ná eigin málefnum í gegn, og halda vinsældum og völdum.

Sagt er að vald spilli, en sannleikurinn er sá að vald laðar að sér hina spilltu. Heilbrigðir einstaklingar laðast yfirleitt að öðrum hlutum en valdi. (David Brin)

Þessi spilling virðist stundum læðast aftan að fólki sé það ekki meðvitað um möguleikann um að það sjálft geti orðið spillingu að bráð, og henni getur tekist að snúa göfugustu málefnum í andstæðu sína og skapað þannig ósætti sem erfitt verður að komast í gegnum, ef ekki allir leika með. Á hinn bóginn getur vel verið að heilbrigt fólk forði sér einfaldlega úr hreyfingum þegar vald er orðið það eftirsóknarverða við hreyfinguna, en þetta vald aftur á móti getur þótt afar spennandi fyrir þá sem hafa að markmiði að fara með völd, og það eru þeir sem vilja völd umfram önnur gæði, og kappkosta miklu til að öðlast þau, sem hafa litlar áhyggjur af smámunum eins og spillingu. Sumir einstaklingar verða ekki spillingunni að bráð, en hrekjast hins vegar frá, enda vilja þeir ekki sverta samvisku sína. Aðrir meta samviskuna hins vegar ekki sem verðmætt og raunverulegt gildi sem skiptir máli í lífinu. Slíku fólki vorkenni ég.

Spilling er ekki fyrirbæri sem manneskjur gera viljandi. Spilling er ekki einu sinni glæpur. Hún þarf ekki að vera lögbrot. Megin einkenni spillingar er að hún leiðir að ákveðnum markmiðum, en með aðferðum sem almennt eru ekki álitnar ásættanlegar, til dæmis með lygum, blekkingum og rökvillum sem margt fólk virðist einfaldlega ekki kunna að greina frá sannleikanum. Slíkt fólk álítur þá sem leita sannleikans og góðra leiða vera einfaldan og barnalegan mann sem ekkert erindi eiga í pólitík. Hugsanlega er það rétt mat, í það minnsta miðað við öll þekkt stjórnmálakerfi í veröldinni.

Spilling og hræsni ættu ekki að vera óhjákvæmalegar afleiður lýðræðis, eins og staðreyndin er í dag, án nokkurs vafa. (Mahatma Gandhi)

Ég hef stundum orðið var við það að fólk úti í hinum stóra heimi lítur á mig sem einfaldan og barnalegan einstakling, einfaldlega vegna þess að ég vil vera heiðarlegur, segja satt og forðast það að framkvæma hluti sem ég myndi skammast mín fyrir. Sannleikurinn er sá að ég viðurkenni fyrir sjálfum mér að þessi heimur er margbrotinn og flókinn, að manneskjan er breysk vera sem gerir mistök, og að ég vil einfaldlega gera mitt besta til að vera góð manneskja. Það er ekki auðvelt.

Ég sé fram á að ef ég sjálfur næði völdum og vildi halda þeim, yrði ég sjálfsagt að breyta mínum eigin leikreglum og byrja að taka þátt í leik sem að spillir mér. Þess vegna hef ég ekki viljað taka þátt í stjórnmálum. Ég treysti minni eigin mannlegu náttúru ekkert frekar en hinum sem eru þegar við völd.

Kommúnismi hefur aldrei náð til valda í landi sem var ekki rofið vegna stríðs eða spillingar, eða beggja. (John F. Kennedy)

Fyrir fjölmörgum árum, þegar Davíð Oddsson var ennþá vinsæll og við völd, hitti ég Þorstein son hans á kjúklingastað þar sem við snæddum saman og ræddum um spillingu. Hann var í MR á þeim tíma. Þá ræddum við um þá spurningu hvort að spilling spillti, og hvort að algjör spilling spillti algjörlega. Ég spurði hvort að faðir hans myndi á endanum verða spillingu að bráð, þar sem að hann var án efa valdamesti maður landsins á þeim tíma. Hann gat ekki svarað þessari spurningu, og þessari spurningu verður sjálfsagt aldrei endanlega svarað.

Fjöldi fólks mun halda því fram að Davíð hafi verið gjörspilltur stjórnmálamaður, en aðrir að fall hans hafi falist í heiðarleika hans. Ég ætla ekki að fella slíkan dóm, né einu sinni leyfa mér að mynda skoðun um það, því aðeins einn einstaklingur getur fellt slíkan dóm, og það er manneskjan sjálf, sem annað hvort hefur fórnað grundvallargildum eða ekki. 

Viðskipti okrarans eru hötuð með góðum rökum: þeir græða á peningunum sjálfum, í stað þess að framleiða gróðann út frá ferlinu sem peningum var ætlað að þjóna. Sameiginleg einkenni þeirra er skítleg græðgi. (Aristóteles)

Það sem gerir spillingu sérstaklega erfiða viðfangs er að þó að hún sannist, þá er ekkert endilega hægt að uppræta hana, því að hinir spilltu geta einfaldlega yppt öxlum og haldið áfram á sinn eigin spillta hátt, en samfélagið hefur engin úrræði til að koma þeim frá, nema þeim verði á að brjóta lög, og þó þeir kunni að brjóta lög og verði dæmdir fyrir, þá geta spilltir félagar þeirra ávallt veitt þeim uppreist æru til að þeir haldi starfi sínu áfram, eins og einhvers konar krabbamein sem dreifist hægt um blóðrásina þar til það fer að snæða bein og mikilvæg líffæri.

 

Ágæt teiknimynd um valdagræðgi og hvernig hún getur gert fólk að skrímslum:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 13.9.2009 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband