Er bloggið bylting?

 


 

Ég hef margoft heyrt talað um 'bloggara' með vandlætingartón, eins og þar fari stétt stórfurðulegs fólks sem skrifar hvern einasta dag tómt kjaftæði, og að maður eigi ekki að taka mark á slíku fólki, því þeir sem fá ekki borgað fyrir að skrifa geti ekki verið að skrifa eitthvað merkilegt.

Þetta er tónninn. Hann er rangur. Jafn rangur og þegar ríkjandi stéttir hafa reynt að kæfa vísindalegar uppfinningar og uppgötvanir í fæðingu, vegna þess að þær passa ekki inn í ríkjandi heimsmynd, og skilja ekki að ríkjandi heimsmynd er aðeins frosin mynd í huga fólks, en að veruleikinn rúllar áfram sama þó að breyskir menn reyni að stoppa hann. Veruleikinn er nefnilega aldrei það sem við höldum að hann sé, því þegar við höfum gert okkur skýra mynd af honum, er hann þegar orðinn allt annar einmitt vegna þess að mynd okkar er loks skýr, en þessi skýrleiki verður einfaldlega til þess að forsendur hafa breyst. Við getum kannski líkt skýrri heimsmynd við að vera með ís í brauðformi í 20 stiga hita við Reykjavíkurborg, og reyna með hugarorkunni einni að koma í veg fyrir að ísinn bráðni og leki niður fingurnar. Maður verður að borða ísinn áður en hann bráðnar.

 

 

Málið er að blogg er frekar nýtt fyrirbæri. Rétt eins og Wikipedia. Enn heyrast raddir fræðimanna og kennara um hversu óáreiðanleg Wikipedia er fyrir upplýsingaöflun. Sem er satt. Wikipedia er ekki 100% áreiðanleg. Hún er samt að minnsta kosti 99% áreiðanleg, og hugsanlega 99.9% áreiðanleg, sem er mun hærri tala en nokkur önnur alfræðibók getur státað af. 

Málið er að Wikipedia uppfærist á hverri mínútu. Þegar nýjar upplýsingar koma fram er þeim dælt inn á vefinn. Þetta virkar best þegar margir hafa áhuga á sama málefni, en þá eru greinar leiðréttar þar til þær nálgast fullkomnun. Þannig er hægt að nálgast gífurlegar nákvæmar upplýsingar um nánast alla sjónvarpsþætti sem hafa verið framleiddir fyrir bandarískt sjónvarp - upplýsingar um kvikmyndir sem þú finnur hvergi annars staðar en með alvarlegu grúski, finnur þú á Wikipedia. Útskýringar á heimspekilegum hugtökum, upplýsingar um strauma og stefnur í bókmennum og vísindum, upplýsingar um þekktar persónur. Þú finnur þetta allt á Wikipedia. 

Stundum er reynt að falsa upplýsingar, en það tekst ekki nema viðkomandi gefi upp rangar heimildir eða þá að málið skiptir nánast engu máli fyrir þekkingaröflun yfir höfuð.

 

 

Fyrir fimm árum hefðu fáir trúað því að Wikipedia, vefur þar sem allir geta deilt upplýsingum, yrði að áreiðanlegri alfræðiorðabók en sjálf Britannica, sem skrifuð er af sérfræðingum. Fyrir fimm árum hefði enginn trúað því heldur að bloggarar gætu hugsanlega rétt rannsóknarblaðamönnum úr vegi, og gert það vel, en það hefur reynst mögulegt því að bloggarar eru óháður miðill, á meðan rannsóknarblaðamenn þurfa að óttast um störf sín og framtíð. Maður getur aldrei treyst upplýsingum 100%, hvorki frá Britannica né Wikipedia, einfaldlega vegna þess að mannshugurinn er brigðull, og bestu sérfræðingar geta haft rangt fyrir sér í þeim málum sem þeir hafa rannsakað alla sína ævi. Það merkilega er að óþjálfaður lýðurinn skilar inn jafn trúverðugum upplýsingum, en er margfalt fljótari að koma þeim á framfæri. Það sem tekur sérfræðing vikur, mánuði eða ár að koma á framfæri, tekur Wikipediunotanda sekúndur, mínútur eða klukkustundir.

Fyrir fimmtíu árum hefði engan grunað að hver sem er gæti miðlað fjölmiðlunarefni á virkan hátt, að allir sem ættu tæki eins og tölvu gætu orðið að eigin sjónvarpsstöð eða dagblaði, en sú er raunin. Við erum á tímamótum þar sem gagnrýnisraddir eru farnar að efast um að blogg geti verið gott. Írönsk stjórnvöld hafa lokað á bloggið þar sem lýðræðisleg umræða er ekki gagnleg. Ritskoðun verður stunduð með einum eða öðrum hætti svo framarlega sem bloggið er óþægilegt. En bloggið er hins vegar komið til að vera, rétt eins og Wikipedia, rétt eins og MSN spjall, rétt eins og IP símar sem þú getur notað til að hringja ókeypis út um alla veröld, og það verður barist gegn þessum tækninýjungum, þar til þær teljast sjálfsagður hlutur, þjóðfélög hafa sætt sig við þau sem eðlilega hluti og aðrar nýjungar koma fram til að ógna ríkjandi stöðu.

 

 

Fyrir mig hefur Internetið sem slíkt verið mikil gjöf. Ég hef óbrennandi áhuga á að læra, afla mér þekkingar, bæta mig sem manneskju - og hef uppgötvað að einföld Google-leit getur gefið mér meira en klukkustundir á bókasafni - þó að ekki megi vanmeta skemmtanagildi þess að grúska í bókum, en maður fær upplýsingar á silfurfati með því að smella á einn músarhnapp og aðgang að þúsundum klassískra bókmenntaverka sem maður getur prentað út heima hjá sér og lesið í ró og næði. Meðal slíkra bókmennta eru frægustu verk bókmenntasögunnar á fjölmörgum tungumálum, sem og klassískar íslenskar bókmenntir eins og Íslendingasögurnar, þjóðsögur Jóns Árnasonar og Biblían.

Sú tíð er liðin þegar maður fór í bókabúð að leita sér bókar um ákveðið málefni. Nú skellur maður sér bara á netið og finnur annað hvort bókina í heild sinni þar eða getur pantað hana af netbókaverslun. Maður fær meiri tíma til að læra.

 

 

Blogg hefur bylt íslenskri þjóðfélagsumræðu, breytt ríkjandi gildum, tekið stjórn á umræðunni sem áður voru á fárra manna höndum (og er það enn að vissu marki) og fært í hendur allra þeirra sem vilja taka þátt. Hinir sem ekki vilja taka þátt eru skildir eftir í ryki þess óvirka sem skilur ekki að þekking verður ekki til án þess að maður geri eitthvað til að afla sér hennar. Það felst meira í þekkingaröflun heldur en að kveikja á sjónvarpstæki og fletta með fjarstýringu. Það þarf að taka virkan þátt. Við þurfum að átta okkur á að við höfum áhrif, en verðum ekki bara fyrir áhrifum, og að þegar við vöndum okkur getum við bætt ekki aðeins þjóðfélagið, heldur einnig umheim okkar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær hugleiðing.  Ég hef eins og þú, tilfinningu fyrir því að bloggið sé meira og merkilegra en margir halda.  Það er upphafið af einhverri risabreytingu á samfélögum heimsins.  Meiri upplýsingar, minni spilling.

 Þegar stjórnmálamenn, eða umdeildir viðskiptajöfrar, kvarta yfir blogginu er það ávísun á að eitthvað gott sé í farvatninu.

Enn og aftur takk. :)

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 06:56

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sammála, bylting sem verður af umgangast með varúð og virðingu, og kvartanir stjórnmálamanna og fjárglæframanna, er ávísun á "netelda" sem erfitt er að slökkva.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 3.9.2009 kl. 07:09

3 Smámynd: Hörður Halldórsson

Bloggarar eru stundum dæmdi sem hálfbilað fólk,eða heimskt.Málið er að það koma gífurlega miklar upplýsingar í gegnum bloggin.Auðvitað er bloggið misjafnt að gæðum.

Hörður Halldórsson, 3.9.2009 kl. 07:38

4 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Ég er svo sammála þér. Ég var spurð að því um daginn, hverjum ég myndi veita fálkaorðu ef ég mætti veita eina slíka. Svarið kom strax: Lára Hanna fengi mína Fálkaorðu.

Aðalheiður Ámundadóttir, 3.9.2009 kl. 11:37

5 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Frábær hugleiðing Hrannar! Og eins og endranær er ég sammála þessum pælingum. Blogg hefur sennilega fengið á sig neikvætt hugtak vegna þess að menn nýta sér það til þess að röfla, og til þess eins einmitt að röfla.

Hins vegar eru menn eins og þú, sem hafa þann dug og metnað að skrifa vandaðar greinar sem afsanna þessa leiðinda "röfls" kenningu. Þess vegna les ég alltaf bloggið þitt og sleppi þeim með röflinu. 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 3.9.2009 kl. 12:43

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góður eins og alltaf. Mér líkar þessi vettvangur til að koma skoðunum mínum á framfæri og skiptast á skoðunum við aðra.

Ásdís Sigurðardóttir, 3.9.2009 kl. 16:27

7 identicon

Takk fyrir góða og áhugaverða umfjöllun.  Ég hef oft hugsað hvað hefði gerst ef hrunið hefði orðið fyrir daga netsins?  Held að valdamenn í þjóðfélaginu hefðu svo sannarlega kosið það!

Tek líka undir með Láru Hönnu og Fálkaorðuna, hún hefur unnið ómetanlegt starf fyrir þjóðina á síðustu mánuðum. 

ASE (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 16:27

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk kærlega fyrir hlý orð.

Hrannar Baldursson, 3.9.2009 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband