Kann ríkisstjórnin ekki að tefla pólitíska skák? (Um afleik nafna míns: Hrannars B.)

"Ég trúi ekki á sálfræði, ég trúi á góða leiki." (Robert James Fischer)

Margoft hefur okkur verið ruglað saman, mér og Hrannari B. Arnarsyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, enda erum við báðir skákmenn, svipaðir af styrkleika samkvæmt elóstigum, erum á svipuðum aldri, höfum líkar pólitískar skoðanir, erum bloggvinir á moggablogginu og Facebook vinir (á Andritinu), og höfum ansi lík nöfn.  Hann er virkur í stjórnmálum, ég er virkur bloggari.

Nafni lék illa af sér þegar hann skrifaði seint að kvöldi í upphafi Verslunarmannahelgarinnar, í kjölfar magnaðrar greinar eftir Evu Joly:

"Dettur Evu í hug að þessi grein auki traust á Íslandi erlendis ? Veit hún ekki að megnið af erlendu lánunum (eiginlega allt nema Icesave) er til að styrkja gjaldeyrisforðann og þar myndast eign á móti ? Held hún ætti að halda sig við ráðgjöf við sérstaka saksóknarann og láta aðra um efnahagsmálin."

Seinna sendi hann frá sér leiðréttingu:

Best að undirstrika það rækilega að athugasemdir mínar á fésbókinni eru að sjálfsögðu mínar persónulegu skoðanir - ekki annarra eins og sumir virðast leggja út af þeim. Það hef ég áður látið koma fram að gefnu tilefni. Ég hefði nú líklega átt að láta það koma betur fram að margt er ágætt í þessari grein Evu, ekki síst það sem hún segir um harðræðið sem Bretar hafa sýnt í öllu þessu máli og einnig það sem hún segir um sameiginlega ábyrgð alþjóðasamfélagsins á vandamálinu - ekki síst ESB og Breta og Hollendinga sérstaklega. Eins og athugasemdin ber síðan með sér, hef ég mikla trú á henni sem ráðgjafa varðandi skuggahliðar fjármálahrunsins og er ekki í nokkrum vafa um að þar hefur hún lagt þungt lóð á vogarskálar réttlætis á Íslandi.

Það sem ég gagnrýni hinsvegar og athugsemdin lítur að eru fullyrðingar hennar um að Ísland geti ekki staðið undir þessum skuldbindingum. Eva segir: "Þess ber að gæta að Ísland, sem hefur einungis tekjur af útflutningi, kemur ekki til með að geta staðið undir þessum ábyrgðum." og síðar "Þegar til kastanna kemur verður hvorki hægt að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bretlandi né Hollandi." Þessar fullyrðingar Evu eru í algerri andstöðu við allt það sem íslensk stjórnvöld hafa verið að halda fram um þessar skuldbindingar, studd AGS, Seðlabanka og fleiri aðilum og vega í raun að grundvelli þeirrar efnahagsáætlunar sem nú er unnið eftir. Slíkar fullyrðingar eru ekki líklegar til að auka traust á Íslandi - um það hljótum við að vera sammála.

Vandinn við þessa leiðréttingu er að gagnrýnin er ekki góð. Hvort sem að við getum greitt ICESAVE eða ekki, þá er mikill vafi á að réttlætanlegt sé að Íslendingar standi í skilum fyrir þá glæpastarfsemi sem virðist hafa verið í gangi, og leggi þannig blessun sína á svik og pretti í fjármálaheiminum, sem mætti þess vegna endurtaka til eilífðar. Kjarni málsins er að Eva Joly vill að við teflum gegn þjóð sem hefur lengi dreymt um að vera sterkasta þjóð í heimi, og á sama tíma við aðrar þjóðir. Við erum kannski í fjöltefli, ein á móti mörgum, en verðum í stað þess að gefast fyrirfram upp, einfaldlega læra fljótt að tefla vel þó að það sé gegn mörgum í einu.

Það er ekki aðalatriðið hvort að Íslandingar geti borgað, heldur hvort þeir eigi að borga. 

Ljóst er að eina leiðin til að Ísland geti borgað er með því að taka gífurlega hátt lán - sem er reyndar sönnun á því í sjálfu sér að Ísland getur ekki borgað. Þú býðst ekki til að borga pizzu og biður svo vin þinn um að lána þér þar til seinna, því að í augnablikinu sértu blankur.

Þó að athugasemd Hrannars hafi kannski verið skrifað í hugsunarleysi og þó að þetta séu hans persónulegu skoðanir um málefni sem varða alla þjóðina, enda er hann í stöðu aðstoðarmanns sjálfs forsætisráðherra, þá er það kannski fyrst og fremst þetta hugsunarleysi, og þessi afstaða að persónulegar skoðanir hans skipti ekki máli, sem veldur mér áhyggjum. 

Stórmeistari sest við hlið þér og bíðst til að kenna þér að tefla. Skákin er farin í gang og andstæðingurinn búinn að leika fyrsta leiknum. Ísland er að falla á tíma. Loks svarar Ísland með góðum leik, en það er ekki Íslendingur sem leikur honum, heldur Eva Joly og sýnir að hún hefur áhuga á að berjast með kjafti og klóm fyrir réttlætinu, enda sér hún Íslendinga sem fórnarlamb risavaxinnar svikamyllu. 

Í stað þess að þakka fyrir aðstoðina frá Joly og haft samband við hana og hún beðin að tefla áfram með okkur, er kvartað yfir frekjunni í henni að leika leiknum áður en Ísland fellur á tíma, og horft á andstæðinginn með lotningu: skákin gefin án þess að hún sé tefld. 

Þetta minnir mig á þegar ég einu sinni settist við skákborð í móti, og á móti mér sat sex ára gamall strákur. Það fyrsta sem hann sagði, eftir að hafa rekið upp stór augu, var: "Ég verð fljótur að tapa þessari skák."

"Af hverju heldurðu það?" spurði ég.

"Af því að þú ert svo stór."

Drengurinn var greinilega skelfingu lostinn og tefldi líka þannig. Hann var því miður sannspár, en hugsanlega meira vegna eigin vantrúar á eigin getu, heldur en vegna eigin getu. Hann stóð sig nefnilega ágætlega gegn smávaxnari, en samt ágætum skákmönnum.

Þetta er sú tilfinning sem ég fæ eftir að Eva Joly byrjaði skákina með nýjung í fyrsta leik. Við höfum svart. Ráðamenn virðast skelkaðir yfir að það þurfi yfir höfuð að tefla þessa skák og átta sig kannski ekki á að tíminn sé farinn að ganga á þá. Jafnvel áður en andstæðingnum hefur tekist að svara, hefur Hrannar B. leikið afleik, að gagnrýna okkar fyrsta leik í stað þess að huga að framhaldinu, því að vonandi er löng og ströng skák framundan frekar en fyrirfram uppgjöf.

Vonandi hefur ríkisstjórnin ekki gefist upp fyrirfram, því þá erum við í margfalt verri málum en mig hefur áður grunað, og mig grunar að málin séu töluvert slæm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Góður pistill. Það er þó bót í þessu slæma máli að Eva Joly sér betur hvað við er að etja hér á landi: stjórnvöld sem eru skilningssljó á vandamál almennings, ríkisstjórn sem sér ekki heildarmynd vandans og algjörlega vanhæft kerfi til að taka á málum.

Margrét Sigurðardóttir, 4.8.2009 kl. 10:17

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Góð færsla og fín samlíking. Það er einmitt pólitískt kjarkleysi sem er okkur fjötur um fót í þessu fjöltefli.

Haraldur Hansson, 4.8.2009 kl. 10:55

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Flott færsla hjá þér.

Við erum með slaka og máttvana kaffihúsaskákmenn í stjórnarráðinu. 

Sigurður Þórðarson, 4.8.2009 kl. 11:28

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Skák og mát hjá pistlahöfundi.  Flottur pistill.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 4.8.2009 kl. 14:32

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Góður pistill.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 4.8.2009 kl. 14:37

6 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Vel ,,tefldur" pistill hjá þér. Ég líkti þessu við að þetta væri eins og að gefa skákina áður en sest er að tafli, alla vega í huganum.

Jón Baldur Lorange, 4.8.2009 kl. 15:04

7 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Mér sýnist að þessi skák hafi verið tefld að mestu nú þegar.  Eins of þetta blasir við mér, séð utanfrá, þá sýnist mér að svartur eigi kóng á móti öllum mönnum hvíts og að hvítur eigi leik!  Kannski á svartur einhver peð upp í borði hvíts sem gagnast til áframhaldandi taflmennsku, en staðan er afskaplega þröng.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 4.8.2009 kl. 16:57

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Arnór: staðan sem þú lýsir er koltöpuð á svartan. Það er heldur mikill uppgjafartónn. Við megum ekki gefast upp fyrirfram.

Takk öll fyrir athugasemdirnar.

Hrannar Baldursson, 4.8.2009 kl. 17:00

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Flottur pistill

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2009 kl. 01:24

10 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Flottur þessi pistill/en ekki i fysrsta skiptið sem Hrannar þessi leikur af Sér/Kveðja >Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 5.8.2009 kl. 08:50

11 identicon

Sæll Hrannar,

Viltu senda mér póst, nú ætlar SP-hópurinn að taka upp þráðinn aftur í september...

Kær kveðja,

Helgi Þór

Helgi Þór (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband