3. Don Hrannar skrifar frá Noregi: Draumur eða veruleiki?

 


 

Í nótt dreymdi mig að mér hefði tekist að svindla mér inn á milli alþingismanna og ná mér í autt sæti á Alþingi Íslendinga. Enginn tók eftir því að ég átti ekki að vera þarna, þrátt fyrir að ég eigi nokkra kunningja sem sitja á þingi. Mér fannst þetta áhugaverðara sjónarhorn en frá myndavél eða úr stúku. Þarna gat ég fylgst með svipbrigðum alþingismanna og hegðun af fyrstu hendi.

Í þessum draumi sá ég þingsalinn sem stóra kennslustofu þar sem kennaranum tekst ekki að halda uppi neinum aga, nema kannski að forminu til, og í þessum kennslusal voru einstaklingar sem ég kannaðist við að voru vinsælir fyrir flest annað en greind og umhyggju fyrir samfélaginu. Þarna var nokkuð stór hópur af íþróttamönnum sem hver og einn hallaði sér digurbarkalega aftur í sætinu og tyggðu tyggjó til að ganga í augun á prinsessunum sem höfðu aðeins það eina markmið að vera vinsælar vinsældanna vegna.

Ekkert af því gáfulega fólki sem birtist í viðtölum á sjónvarpsskjánum var í salnum, enda voru þau upptekin einhvers staðar úti í þjóðfélagi að útskýra fyrir þjóðinni af hverju ekkert væri að ganga upp á þingi.

Þá stóð þingmaður upp á ræðupall og hélt ræðu um eitthvað sem ég gat ekki skilið. Held að hann hafi verið að tala afturábak. Í salnum rúllaði fólk augunum fram og til baka. Einhverjir voru að leika sér með blýanta, sumir voru að kasta skutlum, einn var að skjóta pappírskúlum með röri að ræðumanninum, og þar fram eftir götunum. Sérstaka athygli vakti þó einn þingmaðurinn sem fór að tromma á pott og pönnu með stórum míkrófóni og inn á milli hrópaði hann "Niður með spillinguna" eins og eftir settu ferli, settist svo niður með gífurlegt háð eða montbros á andlitinu, stakk höndum í vasa og hallaði stólnum eins langt aftur og hann gat. Þetta voru bara einfaldir tréstólar.

Mig langaði til að segja eitthvað um hvað þetta væri allt absúrd, en áttaði mig þá á því að sama hvað ég myndi segja, þá yrði hvort eð er ekkert á mig hlustað. Fólkið í salnum bar enga virðingu fyrir þinginu sjálfu né þeim ræðum sem voru fluttar. Ræðumenn reyndu ekki einu sinni að koma neinu af viti út úr sér.

Það var hringt út í frímínútur og ég ákvað að nota tækifærið og koma mér í burtu. Þetta væri staður þar sem ég gerði ekkert gagn. Einn kunningi minn á þingi kom upp að mér og spurði mig hvað ég væri að gera, hann vissi ekki að ég hefði verið kosinn á þing. Ég sagði honum að svo hefði ekki verið, að ég hefði bara svindlað mér inn. Hann klappaði þá hlæjandi á öxl mér og sagði kátur: "Hver okkar hefur ekki svindlað sér inn? Bara að það væri jafn auðvelt að svindla sér út."

Á leiðinni út af Alþingi hljóp framhjá mér dvergvaxinn maður, dökkur á hörund, og á eftir honum tveir lögregluþjónar.  Ég spurði einn viðstaddan hvað væri á seyði. Hann svaraði að óvart hefði eitthvað mannréttindafrík komist inn í þingsal og ætti að koma honum úr landi og til síns heima sem allra fyrst, sama hvaðan hann hafði komið.

Þegar ég vaknaði fór ég að velta fyrir mér þessum draumi, og það sem kom mér á óvart er að mér fannst þess virði að leggja hann á minnið og skrifa um hann, því að mér fannst hann endurspegla veruleikann ágætlega.

Svona gerist þegar maður horfir á David Lynch, einn af mínum eftirlætis leikstjórum, og Njörð P. Njarðvík, einn af mínum eftirlætis kennurum, birtast í Silfri Egils hver á eftir hinum, þar sem sá fyrrnefndi ræðir um innhverfa íhugun (ég túlka það sem huXun um drauma), dverga og afturábak tal, en sá síðarnefndi um hversu absúrd það er að láta Jóhönnu og Steingrím stjórna landinu eins og tvíhöfða þurs (hann notaði reyndar ekki þessi orð, en fyrirgefur mér örugglega skáldleyfið).

Ég vildi einfaldlega deila þessum draumi.

Seg þú mér: draumur eða veruleiki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

20 Nkr. fyrir 1l. mjólk?  DÝRT!

Jón (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 07:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gaman að heyra frá þér Hrannar. Haltu endilega áfram að skrifa. Keypti mér í gær pulsu (ekki á tilboði) á 260 krónur íslenskar.

Sæmundur Bjarnason, 6.5.2009 kl. 09:31

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir það

Ásdís Sigurðardóttir, 6.5.2009 kl. 11:56

4 identicon

a

a (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 15:06

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón: Rétt

Sæmundur: Nú langar mig í eina með öllu. Fékk annars snilldar heimagert Mole Poblano sem slær jafnvel íslenskum pulsum við. Það er hægt að smakka þetta á Mexíkóska veitingastaðnum á Laugavegi 22. Hrykalega gott.

Ásdís: sömuleiðis.

a: a!

Hrannar Baldursson, 6.5.2009 kl. 15:45

6 Smámynd: Ómar Ingi

Har de godt Don

Ómar Ingi, 6.5.2009 kl. 15:54

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk skal du ha Ómar

Hrannar Baldursson, 6.5.2009 kl. 15:57

8 identicon

Takk fyrir þetta! Meira af draumum: Á dögunum dreymdi mig að risastórt skip var fyrir framan mig. Það var upp á landi en samt ferðbúið. Ég sá aðeins framan á stefni þess sem var margir metrar á hæð og breidd. Það var úr fallegum harðviði, glærlakkað. Það skrýtna var að bróður minn dreymdi líka risaskip inni á landi sem keyrði áfram á fullu vélarafli. - Einhver draumaráðningamaður/kona?

Kolla (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 21:15

9 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Draumur eða veruleiki Hrannar. Stundum er stutt þarna á milli. Ég vill ekki segja meira en 3 stafa orð = Árni Johnsen.

Meira af draumum!

Guðmundur St Ragnarsson, 6.5.2009 kl. 21:25

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kolla: fyrir draumaráðningar mæli ég með draumur.is, enda eðalfólk á bakvið þann vef.

Hrannar Baldursson, 6.5.2009 kl. 21:25

11 identicon

Flottur vefur draumur.is Búin að líta á þetta en þarf meiri pælingu í það.

Kolla (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband