Hertóku Auðlendingar Ísland?

Um daginn fór ég út í banka. Ég ætlaði að fara í Glitni en Glitnir var horfinn. Í hans stað var Íslandsbanki. Ég leit fyrst á klukkuna og sá að hún var tvö. Svo kíkti ég á dagsetninguna í farsímanum og sá að árið var 2009. Ég hefði svarið að mér fannst árið 2005 rétt runnið upp, og mér varð hugsað til þess hvað ég myndi gera vitandi það sem ég veit í dag. Jú, ég myndi selja íbúðina og bílinn og flytja úr landi.

Inni í bankanum var löng röð. Ég tók mér númerið 143 en verið var að afgreiða 82. Þar sem það var troðið út úr dyrum ákvað ég að fara í gönguferð kringum húsið. En ég komst ekki langt. Fyrir utan bankann stóð gamli landafræðikennarinn minn, Skúli Ingibergs, og var að kveikja sér í rettu. Ég lét sem ég sæi hann ekki, en það var of seint. Augu okkar höfðu mæst. 

"Blessaður Þorfinnur," sagði hann. "Manstu eftir mér?"

"Gunnar heiti ég," laug ég upp í opið geðið á honum. Hann hafði ekki verið í neinu uppáhaldi hjá mér þó að hann hafi sagt svolítið skemmtilega frá hugmyndum sínum um heiminn. Málið er að í huga hans eru allir Asíubúar gulir, allir Ameríkanar rauðir, allir Afríkubúir svartir, allir Evrópupúar hvítir og restin brún. Ég veit ekki af hverju ég stoppaði þarna hjá honum, kannski af einhverri falskri kurteisi, kannski vegna þess að ég nennti ekki að ganga í kringum húsið og kannski bara af gamalli hlýðni, en hann hafði ansi oft tekið mig upp að töflu fyrir framan bekkinn og yfirheyrt mig. Ég hafði reynt að komast undan þessu nokkrum sinnum, en einhvern veginn tókst honum að fá mig til að hlýða sér.

"Veistu hvað," sagði Skúli og lagði hönd á öxl mína. Það var svolítið sérkennilegur glampi í augum hans, bakvið móðu á þykkum gleraugum, sem sagði að ég yrði að hlusta á hann. "Það búa ekki bara Íslendingar á Íslandi."

Ég kinkaði kolli. Auðvitað vissi ég af miklum innflutningi vinnuafls síðustu árin.

"Ég er ekki að tala um innflytjendur frá öðrum löndum, ég er að tala um þá sem eiga Ísland, Auðlendinga."

"Nú?" spurði ég. "Hvað eru þeir á litinn?"

Hann hunsaði þessa snjöllu spurningu. "Fyrir rúmum 65 árum losnuðu Íslendingar undan höftum og einoki Danaveldis. Þeir töldu sig hafa öðlast sjálfstæði, en gerðu sér ekki grein fyrir því að sjálfstæðið var ekki í höndum allra Íslendinga, heldur aðeins þeirra sem gátu tekið við af einokunarvél Dana, keyrt hana áfram á sama hátt og kallað hana sjálfstætt þjóðfélag."

Ég kíkti inn í banka, verið var að afgreiða 87. Hann hélt áfram. Ég hafði aldrei heyrt hann tala í þessum tón. Það var eins og smitandi áhugi hans á málefninu hefði dýpkað rödd hans og yngt hann um einhver ár. Af gömlum vana lét ég eins og ég væri ekki að hlusta, en innst inni fannst mér þetta svolítið áhugavert.

"Fáir virðast hafa gert sér grein fyrir því að það var ekki íslenska þjóðin sem hafði öðlast sjálfstæði, heldur aðeins þeir sem áttu atvinnutæki og auð. Til að viðhalda blekkingunni hefur fáeinum óbreyttum borgurum verið hleypt inn í hópinn, svona rétt til að viðhalda stofninum."

"Kynbætur?" spurði ég. Hann lét mig ekki trufla sig og hélt óhikað áfram.

"Þeir fáu sem trúðu að þetta ástand væri óréttlátt var ekki einu sinni úthrópað eða fangelsað á Íslandi eins og í Bandaríkjunum, heldur yppti 'venjulega' fólkið bara öxlum og hugsaði með sér: "Kommúnisti" - eins og það útskýrði allar þær skoðanir sem stóðu gegn straumnum."

"Kommúnismi er náttúrulega af hinu illa," sagði ég, en mig minnti að Skúli hafi einhvern tíma sagt þetta í tíma."

"Af hinu illa, rétt eins og heimska, bara verri - því kommúnisminn er stýrð heimska, svona rétt eins og frjálshyggja er stýrð tómhyggja án gagnrýnnar hugsunar."

Þarna var ég farinn að ranghvolfa augunum held ég, því hann greip fastar í öxlina á mér, sogaði að sér djúpum smók, blés framan í mig lungnakrabba og hélt áfram.

"Nú er komið í ljós að á Íslandi býr ekki ein þjóð, heldur tvær. Önnur þeirra er Ísland, þessi sem viðheldur menningu og tungumáli, menntun og andans gæðum, en hin er Auðland - sem er samansett af Auðlendingum, en þeim þykir fínt að nota Íslendinga til vinnu. Auðlendingar kalla sig Íslendinga, tala sama mál, birtast í sömu sjónvarpstækjum og um þá leikur guðlegur ljómi sem segir: 'Þú getur aldrei snert mig'."

Akkúrat. Og ég heiti Mikki mús.

"Auðlendingar eru þeir sem tóku við danska kerfinu og hafa spólað yfir Íslendinga viðstöðulaust í 65 ár, en það var ekki fyrr en 6. október 2008 að blekkingavefurinn fraus og hefur frá þeim degi smám saman verið að bresta."

"Þú ert að tala um hrunið? Daginn sem bankarnir hrundu, er það ekki?"

Skúli kinkaði kolli óþolinmóður, eins og allir ættu að vera með þessa dagsetningu á hreinu - það er ekki eins og þetta hafi verið 11. september.

"Það hefur komið í ljós að Auðlendingar eiga ekki bara bankana, heldur þurfa þeir ekki að bera ábyrgð á þeim því að Íslendingar gera það, einnig kemur í ljós að Auðlendingar eiga fjölmörg fyrirtæki, samt ekki öll og sum þeirra eru ekkert annað en upphæðir og kennitölur á pappír á eyðieyjum með stöku pálmatré, og í ljós kemur að Auðlendingar hafa blandað sér í hóp íslenskra stjórnmálamanna og villt á sér heimildir - þóst vera Íslendingar að verja þjóð sína, en eru í raun Auðlendingar, en gæti ekki verið meira sama um þá íslensku - svo framarlega sem hún heldur áfram að dæla blóðpeningum í kerfið."

"Skil ég þig rétt," sagði ég. "Ertu að segja að til séu tvær þjóðir á Íslandi, ekki tvær stéttir?"

"Hver er munurinn á þjóð og stétt? Þetta eru ólíkir hópar sem hafa að markmiði að traðka á öðrum hópum hafi þeir vald til þess. Rétt eins og þegar einstaklingur nær yfirburðum yfir öðrum einstaklingi, þá er tilhneigingin einmitt að gorta yfir óförum hins og hreykja sér sem hæst af eigin snilli."

Ég leit inn í bankann. 103 stóð á skiltinu. 

"Heyrðu, Skúli, það er komið að mér."

"Ég heiti ekki Skúli," sagði hann og starði á mig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

hihihi...frábær færsla!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 8.3.2009 kl. 19:28

2 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Sammála Önnu og takk fyrir bloggvináttuna Hrannar minn!

Í hinu Nýja Íslandi mun fólk njóta jafnréttis og enginn verður réttari öðrum. Þar mun sanngirni ríkja.

Hilmar Gunnlaugsson, 8.3.2009 kl. 19:45

3 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 8.3.2009 kl. 20:34

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Snilld! Auðlendingar! Ætla að leggja þetta orð á minnið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 21:24

5 identicon

Frábær saga. Já, hvað hefði fólk gert 2005 ef það hefði vitað hvað gerðist 6. okt. 2008?

Soffía (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 22:16

6 identicon

Góð saga.

EE elle (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 23:32

7 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

:)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 9.3.2009 kl. 06:09

8 Smámynd: Kári Harðarson

Takk takk !

Þetta var flott færsla !

Kári Harðarson, 9.3.2009 kl. 09:44

9 identicon

Ég er búinn að skoða síðustu færslur þínar Hrannar og ég verð hreinlega að skora á þig að bjóða þig fram til þings. Við þurfum nauðsynlega á fólki eins og þér að halda þessa stundina til að endurstilla kerfið. Nú verðum við að fá 63 einstaklinga sem hafa jafn agaða og gagnrýna hugsun og þú til að sitja eitt kjörtímabil og laga hlutina! Börnin hafa fengið að leika sér þar of lengi...

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 11:58

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir góðar kveðjur,

Kristbjörn: Ég á lítið erindi á þing, enda tilheyri ég hópi fólks sem hefur raunverulegan áhuga á að hlusta alvarlega á það sem aðrir hafa um ólík mál að segja og myndi ekki taka ákvarðanir vegna flokksbindinga eða af eigingirni - slíkt er ekki líklegt til vinsælda í núverandi skipulagi, og í núverandi skipulagi virðast hlutirnir snúast að mestu um vinsældir, - ég er hræddur um að tími slíks fólks sé ekki enn kominn á Íslandi í dag, enda er óbreyttu og biluðu kerfi viðhaldið, í stað þess að byrja á nýjum grunni.

Hrannar Baldursson, 9.3.2009 kl. 12:34

11 identicon

Við getum ekki beðið eftir rétta tímanum en við getum beðið rétt fólk að gera rétta hluti. Biluðu kerfi er einmitt haldið við vegna þess að það er ekki rétt fólk sem er á þingi!

"enda tilheyri ég hópi fólks sem hefur raunverulegan áhuga á að hlusta alvarlega á það sem aðrir hafa um ólík mál að segja og myndi ekki taka ákvarðanir vegna flokksbindinga eða af eigingirni" - er þetta ekki einmitt viðhorfið sem við þurfum núna? Man að gamall kennari sagði einu sinni við mig að lýðræði fælist í að leyfa rödd minnihlutans að heyrast. Og ég á enn eftir að heyra betri útskýringar á lýðræðinu

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband