Hvað er þekkingarfræði?

Ég hef haldið áfram þróun á heimspekihandbók, þar sem upplýsingar um heimspeki eru að verða til, en ég held í þá veiku von að þetta framtak muni gagnast sérstaklega við fræðslu í gagnrýnni hugsun - nokkru sem virðist skorta sérstaklega meðal jámanna í stjórnmálaheiminum. Smám saman stækkar vefurinn og verður áhugafólki um heimspeki gagnlegt uppflettirit. 

Ég vil taka það sérstaklega fram hversu sorglegt mér þykir að heimspeki sé ekki kennslugrein í grunnskólum og framhaldsskólum landsins, en með ástundun heimspeki, sem er móðir allra vísinda og að sögn guðfræðinga þerna guðfræðinnar, hefur fólk tækifæri til að kynnast betur eigin hugmyndum og annarra, og hefur kost á því að sjá hversu margbrotnar skoðanir okkar eru, og hversu djúpstæður eða grunnur ágreiningur um mikilvæg málefni getur verið.

 

Þekkingarfræði

Þekkingarfræði (Enska: epistemology, Gríska: episteme = þekking, logos = fræði) spyr hvort að við getum þekkt heiminn og sjálf okkur, og ef að við getum það, hvernig förum við að því? Þarna skiptast heimspekingar oft í tvær fylkingar, í þá sem telja þekkingu sprottna úr reynslu mikilvægari en þá sem sprottin er úr lögmálum hugans, og hina sem telja þekkingu frekar spretta úr lögmálum hugans en reynslu. Dæmi um lögmál hugans er þekking um hinn fullkomna hring, að 2+2 séu alltaf 4, og að piparsveinar séu alltaf ógiftir, en þekking úr reynslu væri hins vegar yfirfærsla af áreiti sem skynfæri okkar taka við. Það er kannski erfitt að skipta þessu svona upp í tvær ólíkar fylkingar, en þegar við spyrjum hvað sönn þekking sé og hvernig við fáum hana, flækist málið, sérstaklega þegar farið er að spyrja um hvernig heimurinn raunverulega er, hvað gerist eftir að við deyjum, hvað sálir séu, og hvort eilífð sé möguleg. Mig grunar að heimspekingur verði að vera á tánum þegar hann hugsi um ólíka hluti, og að það fari eftir viðfangsefni hvað á best við, eða hvort að bæði sé rétt. Það er vissulega hægt að deila um þessi mál til eilífðarnóns, sérstaklega ef tveir einstaklingar eru á ólíkri skoðun, en það er einmitt eitt af því sem heillar við heimspekina - hún gefur okkur alltaf færi á að kafa dýpra án þess að festa okkur við eina hugmynd.

Rannsóknir þekkingarfræðinnar skiptast í þrjár greinar:

  1. Skilgreining þekkingar
  2. Öflun þekkingar
  3. Efasemdir um þekkingu (efahyggja)

 

Stöðluð skilgreining á þekkingu

Þekking er réttlætanleg og sönn trú.

Til að þekkja eitthvað verðum við að trúa því og það sem maður trúir verður að vera satt. Ástæður trúarinnar verða að vera réttlætanlegar út frá einhverjum stöðlum, þar sem að maður getur ekki ákveðið allt í einu að trúa einhverju að þar af leiðandi verði viðkomandi satt. Þannig að skilgreining þekkingarfræðinnar skiptist í þrjár megin rannsóknir, um:

  • Réttlæting
  • Sannleikur
  • Trú

 

Öflun þekkingar

Hefðbundnar rannsóknir á hvaðan þekking kemur skiptist í tvo ólíka skóla, en svo einkennilega vill til að þeir virðast ekki samræmanlegir, þar sem að annar þeirra telur þekkingu koma úr hugsun, en hinn úr reynslu.

  • Hughyggja (rationalist school) er sú trú að einstaklingur öðlist þekkingu fyrst og fremst með notkun rökhugsunar.
  • Raunhyggja (empirist school) er sú trú að einstaklingur öðlist þekkingu fyrst og fremst gegnum skynfæri sín.

Heilbrigðast er að sjá hughyggju og raunhyggju sem samvirkandi þætti í sama ferlinu. Ef þú hugsar um það hvernig hugmyndir verða til, geturðu séð í hendi þér að það skiptir í raun ekki máli hvar hugmyndin kviknar, hvort það er vegna einhvers sem þú hefur séð, dreymt eða hugsað. Hins vegar þegar ný hugmynd er komin upp, þá þarf fyrst að velta henni fyrir sér, og þá eru bestu tækin til þess gagnrýnin hugsun og stærðfræði, sem taka á mótun hugmyndarinnar, þannig að fyrst aðgreinum við hana frá öðrum hugmyndum, síðan reynum við að skilja hana, og þar á eftir tengja hana við aðrar hugmyndir. Tengingin við aðrar hugmyndir getur verið huglæg eða raunlæg, sem hefur þá áhrif á næstu skref hennar. Verði hugmyndin áfram huglæg er sjálfsagt hægt að greina hana betur, skilja betur forsendur hennar og samband við önnur hugtök; en verði hún raunlæg er hún komin út fyrir hið huglæga og hægt að rannsaka út af fyrir sig með skynfærum og tækjum sem bæta skynjun okkar, eins og smásjár, sjónaukar, og slíkt. En það allra besta fyrir hverja hugmynd er samþætting kenningar og veruleika - þannig að báðir þættir lifi áfram. Þannig verður til sífellt öflugri þekking.

Ætli það séu ekki fyrst og fremst mannlegar takmarkanir sem valda heiftarlegum aðgreiningi á hughyggju og raunhyggju, þar sem sumir sjá meira gildi í hugmyndum, en aðrir í nýtingu, á meðan hvort tveggja í samvinnu er orðið að öflugu tæki til hugmyndaþróunar og þekkingaröflunar.

 

Efahyggja

Efahyggja er ómissandi hluti þekkingarfræði. Þar sem efasemdir vakna um örugga þekkingu, þar þarf réttlætingin fyrir trúnni að vera því öflugri. Skorti efasemdir eða sé bannað að efast um viðkomandi trú, þá er ekki um þekkingu að ræða, heldur trúarbrögð.

Efinn er prófsteinn á þekkingu, spyr þráðbeint og kafar í hjarta hverrar trúar. Ekki má gleyma því að efahyggjan á fyrst og fremst við um mannlega þekkingu, og hefur ekkert umboð þegar kemur að trúarbrögðum, þar sem trúarbrögð fjalla ekki um þekkingu, heldur er um enn margbrotnara fyrirbæri að ræða sem tengist meira lífsspeki, gildum og trú sem krefst ekki formlegrar réttlætingar.

 

Athugið að eftirfarandi myndband er töluverð einföldun á þekkingarfræði, en samt skemmtilegur inngangspunktur í fræðin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Alltaf jafn góðar og fræðandi færslurnar þínar. Kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 5.2.2009 kl. 22:31

2 Smámynd: kiza

Takk fyrir góða og vandaða færslu.

Ég man hvað mér þótti alltaf gaman í heimspekitímunum í menntaskóla; maður kom oftast úr stærðfræði eða einhverju álíka þungu og leiðinlegu (að mínu mati), inn í tímann,  en þegar maður gekk út  var maður uppljómaður og æstur í frekari þekkingu og pælingar :)
Hefði verið best að byrja alla daga á heimspekinni, svona til að preppa hausinn.

-Jóna Svanlaug. 

kiza, 6.2.2009 kl. 12:18

3 Smámynd: Ómar Ingi

Góður

Ómar Ingi, 6.2.2009 kl. 15:05

4 identicon

Það eru ákveðin tækifæri í kreppu, hvar sem þær koma upp og hvenær sem það er. Þú ert kunnáttusamur hvað varðar vefútgáfu, það er leið til að afla gjaldeyris (og borga skatt til góðgerðarsamfélagsins svo lengi sem viðkomandi telur fram til skatts, annars er mjög auðvelt að komast fram hjá því (en þeir ættu ekki að búast við ellilífeyri frá ślandi þegar viðkomandi verða gamlir, ég persónulega ætla að telja fram til skatts uppá gott karma). Endilega gefðu öllum sem vilja læra vitneskju um hvernig sé hægt að gefa eigin verk út á veraldarvefnum og hafa af því tekjur og þá kannski flytja færri af landi og fleirri verða eftir til að tryggja velferðarkerfi t.d. fatlaðra og sérstaklega þroskaheftra.

P.s. Einstein var asni og skrásett dæmi til um hvernig hann ofsótti hvern þann sem gerði gagnrýnar fyrirspurnir um kenningar hans.

Tóti (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband