Hvað er gagnrýnin hugsun? (Með myndböndum)

 


 

Hugmyndinni um gagnrýna hugsun er ósjaldan varpað fram í umræðu heimspekinga, en hún er leit að kjarna hvers máls fyrir sig, að geta greint á milli vel og illra framsettra hugmynda og skilja hvers vegna, að finna hið sanna í hverju máli. Formleg gagnrýnin hugsun er heil fræðigrein út af fyrir sig, þar sem rýnt er í rökvillur, mælskulist, áreiðanleika heimilda, forsendur málsaðila, og margt fleira.

En stundum gleymist að gagnrýnin hugsun krefst meira en þess eins að kryfja mál á gagnrýninn hátt. Góð gagnrýnin hugsun þarf einnig á sköpunargáfu og frumleika að halda, sem og umhyggju fyrir viðfangsefninu og þeim sem að því koma.

Til dæmis, þegar verið er að rannsaka forsendur fóstureyðinga, þá er ekki nóg að deila um hvort að fóstureyðingar séu réttar eða rangar og rökstyðja með tilvísun í trúarbrögð, tilfinningar og læknavísindi, það þarf einnig að hlusta á rök fólksins sjálfs sem ákveður að framkvæma fóstureyðingar, og jafnvel þó að það telji það stýra gegn grundvallarskoðunum þeirra. Hvernig getur staðið á því að fólk sem trúir að fóstureyðingar séu í eðli sínu rangar, gangist undir þær?

Eina skýringin sem ég sé fyrir mér er að eitthvað annað siðferðilegt mál hljóti að vega þyngra í huga þessa fólks, sem tengist hugsanlega þeirri ábyrgð að framfleyta og koma barni til manns við þær forsendur sem viðkomandi upplifir.

Málið er að upplifun og reynsla fólks af lífinu er oft gjörólík hugmyndum heimspekinga, stjórnmálafræðinga og trúarbragðaleiðtoga um tilveruna - og að oft sé stórt bil á milli þess hvernig heimurinn er og hvernig hann ætti að vera, og jafnvel getur vel verið að heimurinn ætti alls ekki að vera eins og meirihlutinn hugsanlega telur að hann ætti að vera - hugsanlega gæti manneskjan sem hefur ábyrgðina haft eigin hugmyndir um hvernig heimurinn ætti að vera og því tekið ákvarðanir byggðar á þeim grunni.

Af þessum sökum er afar mikilvægt að umhyggja fyrir manneskjum við ólíkar aðstæður séu til staðar, í stað þess að gagnrýni falli í kerfi þar sem hlutleysi er krafist. Hver segir að gagnrýnin hugsun þurfi að vera hlutlaus? Af hverju má gagnrýnin hugsun ekki taka mið af aðstæðum, og þeir sem meta málin dæma samkvæmt bæði rökum og tilfinningum, enda um heilsteyptar manneskjur að ræða?

Gagnrýnin hugsun er oft svarið við spurningunni: "Hvað er heimspeki?" En kjarni gagnrýnnar hugsunar felst í því að hún kryfur sjálfa sig og er vel lýst með orðunum: "Hugsun um hugsun".

Staðlar fyrir gagnrýna hugsun samkvæmt Richard Paul:

  1. Skýr hugsun
  2. Nákvæmni
  3. Samræmi
  4. Mikilvægi
  5. Dýpt
  6. Víðsýni
  7. Rökrétt

Nákvæmni óskar til dæmis eftir tölulegum niðurstöðum. Ef einhver segir að það sé heitt, viljum við vita í samræmi við aðstæður hversu heitt er.

Nákvæmni er ekki það sama og samræmi, þar sem að nákvæmar upplýsingar um einstaka þætti gætu verið notaðar til að villa um og flækja málin, og þannig sýnt eitthvað annað en skýrt samræmi upplýsinganna við veruleikann.

Upplýsingar gætu verið nákvæmar og í samræmi við veruleikann, en ef þær upplýsingar sem eru gefnar upp eru ekki mikilvægar, þá fellur málið um sjálft sig.

Flóknar spurningar krefjast djúpra svara - sé svarið einfaldara en spurningin, þá er það einfaldlega rangt.

Hugsunin þarf ekki aðeins að kafa djúpt, heldur einnig vera víðsýn og forðast þannig að þrengja málefnið við eina hlið, heldur reyna að sjá minnst tvær hliðar hvers máls og helst þær allar.

Hver einasta mikilvæg hugsun og skoðun þarf einnig að fylgja lögmálum rökhugsunar, og halda þó að spurt sé vítt og djúpt út í forsendur svarsins.

Spurningar til að auka nákvæmni, sérstaklega áhrifaríkt þegar viðmælandi er óskýr og fer í hringi:

  • Gætirðu útskýrt betur?
  • Gætirðu lýst betur?
  • Gætirðu gefið dæmi?

Áhugavert efni: Staðlar gagnrýnnar hugsunar, 1. hluti með Richard Paul og 2. hluti

 

Staðlar Gagnrýnnar hugsunar, 1. hluti




Staðlar Gagnrýnnar hugsunar, 2. hluti


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mikið er viðfangsefnið heimspeki heillandi, en virðist um leið svo flókið. Það sem ég þekki ekki tel ég flóki, það sem ég "tel" mig þekkja tel á einfalt.

Hugtakið Gjaldþrot er af mörgum talið neikvætt, í mínum huga getur það verið beggja blands, því oft er verið að ljúka vonlausu erfiðu ferli og hreinsa til. Sumir líta á það sem ósigur og niðurlægingu, meðan aðrir sjá lausn og þáttaskil. Lífið er ekki einfalt..............

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.2.2009 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband