Er Geir Haarde að dissa bloggara?

 

Það sem mér finnst merkilegast við þessa tilvísun er hvernig Geir H. Haarde jafnar bloggsamfélaginu við stjórnarandstöðuna. Mætti ekki telja slíkt mat á valdi bloggara af jafn merkum manni til stórtíðinda? Veltum þessu aðeins fyrir okkur:

 

„Þetta svokallaða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan og hinir og þessir á blogginu tala um er nú meðal annars að bera þann ávöxt að vöruskiptajöfnuðurinn í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum mjög fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna.“ (Geir H. Haarde)


Hvert er hlutverk stjórnarandstöðunnar?  

Stjórnarandstaðan eru allir þeir þingmenn sem náðu inn á þing eftir kosningar og eru ekki í meirihluta. Þeir hafa rétt til að láta í sér heyra og gagnrýna á virkan hátt það sem þeim finnst illa gert af stjórninni. Því miður fer það orð af stjórnarandstöðunni að þeir mótmæla öllu bara til að mótmæla og sóa þannig tíma þingsins í vitleysu. Þeirra hlutverk er að veita ríkisstjórninni aðhald, en það er nokkuð ljóst að stjórnin hlustar lítið á stjórnarandstæðuna og öfugt. Ákvarðanir eru teknar á bakvið tjöldin og atkvæði hafa fallið löngu áður en þau eiga sér stað formlega, sama hver hefur hvað að segja og hver er með eitthvað múður. Ég trúi að það viðhorf sé ríkjandi á Alþingi að ekki skuli hlusta á andstæðinginn af það mikilli alvöru að hann geti haft áhrif á gang mála.

 

 

Þar sem að stjórnarandstaðan er ekki að virka, er að brjótast út úr skelinni nýtt og merkilegt afl, sem enginn getur látið fram hjá sér fara vilji þeir vera með í umræðunni, og það er gagnrýniafl bloggsamfélagsins. Megin kostir bloggara umfram formlega stjórnarandstöðu er að þeir eru af öllum stéttum samfélagsins og eru ekkert endilega í andstöðu við stjórnina þó að þeir séu gagnrýnir á mál hennar, þeir geta reyndar líka verið í andstöðu og haft góða hluti að segja. Bloggarar eins og ég er fólk sem skrifar aðeins í frítíma sínum. Yfirleitt skrifa ég eina grein á kvöldin og les hana síðan yfir næsta morgun áður en ég fer í vinnu. Í vinnunni hef ég lítinn tíma til að fylgjast með blogginu, enda hef ég þar öðrum hnöppum að hneppa.

En bloggarar ólíkt stjórnarandstöðuþingmönnum fá ekki greitt fyrir að tjá sínar skoðanir, við gerum þetta til að fylla í einhverja eyðu sem hefur myndast í samfélaginu. Loks getur almenningur tjáð sig af fúsum og frjálsum vilja þannig að allir hafa aðgang að þeirra skoðunum, nánast samtímis, á meðan fólk þurfti á síðustu öld að senda greinar í blöð, sem síðan voru birtar eftir samþykki ritstjóra og birtust jafnvel seint, og þá breyttar frá upprunalegri mynd vegna plássleysis. Þessi vandamál eru ekki lengur til staðar.

Bloggari getur sent frá sér grein strax og hún hefur verið rituð, og þarf ekki aðra gagnrýni en þá sem að lesendur vilja skilja eftir í athugasemdardálkum.

Það eru breyttir tímar.

 

 

Eru bloggarar léttvæg rödd hins fljótfærna almúga sem stjórnast af múgsefjun og tilfinningaofsa; og er upptekinn við að blogga um kisuna sína og eigin vandamál?

Málið er að engir tveir bloggarar eru eins. Við erum jafn ólík og einstaklingarnir eru margir. Sum blogg eru grunn og önnur djúp, sum blogg skemmtileg og önnur leiðinleg, sum blogg eru jafnvel fróðleg á meðan önnur þykja heimskuleg, og sum vel skrifuð en önnur það illa rituð að erfitt getur verið að lesa textann. En öll þessi blogg eiga það sameiginlegt að sá sem bloggar breytist, viðkomandi lærir hratt af eigin mistökum ef áhugi er fyrir hendi og viðkomandi hefur athugasemdarkerfið sitt opið.

Málið er að þeir sem loka athugasemdakerfinu eða gefa sér tíma til að hafna eða samþykkja athugasemdir eru ekki raunverulegir bloggarar. Þeir halda það bara. Þeir eru að halda í hugarfari tengdu Vef 1.0, úreltri hugsun þar sem upplýsingar voru festar á netinu og nánast jafn fastar og útgefnar bækur. Vefur 2.0 hins vegar krefst dínamískrar hugsunar og gefur ölum tækifæri til virkrar þátttöku.

 

Bloggið er sjálfsagt lýðræðislegasta leið sem komið hefur fram til að gefa fólki tækifæri á að tjá sínar skoðanir og hugmyndir um samfélagið. Við þurfum ekki lengur að vera flokksbundin til að það sé hlustað á okkur, við þurfum ekki annað en að hugsa skynsamlega og hafa eitthvað mikilvægt til málanna að leggja til að valdhafar og fólkið í landinu leggi við hlustir. Hvað getur verið slæmt við það?
 
Bloggið er að breyta íslensku samfélagi, af því að í fyrsta sinn er hlustað á venjulega einstaklinga sem hafa engra pólitískra hagsmuna að gæta, það er farið að hlusta á einstaklinga sem eru ekki fréttnæmir á neinn annan hátt.

Stóra spurningin hlýtur að vera: hvort gera bloggarar ríkinu gagn eða ógagn?

Ég tel þá bloggara sem gagnrýna af hreinskilni og heiðarleika vera að taka þátt í lýðræðislegri samræði. Dæmin hafa sýnt að fólk hlustar á þá sem skrifa af einlægni og hreinskilni, og síar út þau blogg sem hafa raunverulegt gildi.

Á heildina litið held ég að þjóðarsálin birtist í blogginu.

Það sem þjóðin er að hugsa, og viðbrögð hennar við ranghugmyndum eða góðum hugmyndum, við öfgum og óréttlæti, mannúðarverkum og skynsemi. Einhvern veginn verður skynsemin ofan á eftir að fjöldinn hefur rætt saman á skipulegum grundvelli og ekki látið tilfinningar hlaupa með sig í gönur. Og við erum að læra á þennan miðil og við erum að læra hratt.

Þeim sem hafa eitthvað að fela eða eru óöruggir með sjálfa sig, gæti þótt steðja ógn af blogginu. Málið er að þessir einstaklingar mættu frekar taka þátt í bloggsamræðum og láta eigin skoðanir í ljós, jafnvel undir dulnefni, bara svo þeir finni meiri tengingu við fólkið í landinu. Í fyrstu fannst mér flott hjá ráðherranum Birni Bjarnasyni að blogga, og hélt að hann væri í takt við tímann. Síðan skoðaði ég færslur hjá honum og ætlaði að gera athugasemd en gat það ekki því hann hafði lokað fyrir athugasemdirnar. Ég hef ekki lesið hann síðan, því ef hann er ekki tilbúinn að hlusta á mig, af hverju ætti ég að vera tilbúinn til að hlusta á hann?

Bloggið er hluti af nýju samskiptaferli. Sjónvarpið og útvarpið eru liðin tíð, því sjónarhorn þeirra eru of takmörkuð. Í stað þess að fá eitt formlegt sjónarhorn matað ofan í þig, þarftu að pæla í hlutunum, átta þig á hvað er rétt og hvað rangt, og kafa virkilega djúpt ofan í hlutina til að móta eigin skoðanir. Youtube og DVD hefur tekið við af sjónvarpinu, Facebook af símaskránni og bloggið af dagblöðunum. Þetta er einfaldlega næsta skref í þróuninni. Sjálfsagt kemur næsta skref aftan að okkur rétt eins og Vefurinn 2.0 er að koma aftan að þeim sem hugsa bara eigin hugsanir, en ekki með öðrum. Ég hef sett mér að vera viðbúinn slíkum breytingum og gæta mín á að festast ekki í sama farinu, halda huganum opnum og vera sveigjanlegur.


Tímar Vefsins 2.0 og virðing fyrir skoðunum samborgara hafa rutt sér leið inn í íslenskt samfélag. Svo er textinn og bókstafurinn allt í einu orðinn að lifandi máli aftur. Íslenskan hefur fundið sér öfluga fótfestu þar sem að tungumálið virðist sameina okkur sem aldrei fyrr.
 
Hvað getur verið slæmt við það?

 

 

Myndir:

Geir Haarde (Silfur Egils)
Alþingi (Ögmundur.is)
Hönd á skjá (Info4Security)
Púlsinn tekinn með lyklaborði (Highlight HEALTH 2.0)
Þjóðarsálin (mi2g)
Veraldarsamfélagið (The Fetzer Institute)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Er bloggsamfélagið hin nýja stjórnarandstaða hehe

Ómar Ingi, 6.8.2008 kl. 10:04

2 Smámynd: Birna Guðmundsdóttir

Kannski kemur upp á yfirborðið "Bloggflokkurinn" fyrir næstu kosningar- kannski ekki svo galin hugmynd

Birna Guðmundsdóttir, 6.8.2008 kl. 10:39

3 identicon

Ég held að þú misskiljir, ég held að Geir hafi verið að skjóta á stjórnarandstöðuna með því að líkja henni við bloggara.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 11:04

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mjög fín grein hjá þér.  Og ég er viss um að þú snertir þarna sannleikann beint í æð.  Líka sammála þér með þá sem hafa lokað fyrir athugasemdakerfið, ég les ekki slíka einstaklinga.  Fólk sem ekki getur tekist á við gagnrýni annara á skrif sín er í raun og veru á eintali, og vill ekki skýringar eða önnur svör, en þau sem þeim eru þóknanleg.  Þetta gæti flokkast undir ósjálfstæði eða minnimáttarkennd.  Að þora ekki að fá á sig óþægilega gagnrýni.  Takk fyrir þetta frábæra innlegg í umræðuna um bloggið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.8.2008 kl. 11:18

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Það gæti bara vel verið. Spurning hvort við ættum ekki að senda Ríkinu reikning fyrir þjónustuna?

Birna: Mér datt nákvæmlega það sama í hug og var að velta fyrir mér hvort nafnið væri betra: Blogglistinn eða Bloggflokkurinn.

Óli: En með því er hann óvart að skjóta á bloggara með því að líkja okkur á dissandi hátt við stjórnarandstöðuna. Bloggarar eru miklu kröftugra fyrirbæri en stjórnarandstaðan.

Ásthildur: Kærar þakkir.Þetta er spurning um að vera í takt við tímann.

Hrannar Baldursson, 6.8.2008 kl. 11:34

6 Smámynd: Anna Þóra Jónsdóttir

Góð grein ...og vel rituð.

Það hefur aldrei verið eins "auðvelt" fyrir stjórnmálamenn að taka púlsinn á umræðunni og nú. Bloggið gerir það að verkum að skoðanir fólks eru mun sýnilegri en áður og fólk hefur líka möguleika á að rökræða sín á milli um margvísleg mál....og læra að virða skoðanir annara jafnvel þó ólíkar séu þeirra eigin. Bloggið hefur að sönnu lítið framkvæmdavald en það hefur mikið "mótunarvald" og stendur ekki einhversstaðar ,,Orð eru til alls fyrst". Það er betra að ræða málin og hafa ekki  endilega alltaf rétt fyrir sér en að ræða aldrei neitt og hafa alltaf rétt fyrir sér í eigin huga...og taka enga ábyrgð eða afstöðu. 

Þú gætir látið flokkinn líka heita Bloggaraflokkinn (kannski of líkt Borgaraflokknum)

Anna Þóra Jónsdóttir, 6.8.2008 kl. 12:01

7 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Flott skrif hjá þér.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 6.8.2008 kl. 12:06

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Anna Þóra: þakka þér. Ég reyni að gera betur en mitt besta. Líst vel á Bloggaraflokkinn.

Kjartan: takk

Hrannar Baldursson, 6.8.2008 kl. 12:27

9 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Góð grein og ég skildi Geir á sama hátt og þú og var ekki hrifinn.

Ég tel einmitt að stjórnmálamenn ættu að fylgjast vel með blogginu, því það gæti reynst stjórnmálamönnum mikilvægt hjálpartæki. Í því birtist - allavega að einhverju leyti - þjóðarsálin margumtalaða.

Ég hef leyft mér að gagnrýna aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og bann við ESB umræðu innan Sjálfstæðisflokksins og ég veit að flokksmenn mínir fylgjast með skrifum mínum. Ég hef meira að segja fengið símtöl og verið stoppaður úti á götu af samflokksmönnum til að þakka mér fyrir skrifin. Það eru fleiri sammála mér innan Sjálfstæðisflokksins, en þessir háu herra halda og kannski er það einmitt það, sem þeir eru hræddir við. Sama fólk og segist vera mér sammála, segist ekki vilja skrifa athugasemdir af ótta við að verða sett út í horn.

Sama er mér ef ég verð settur út í horn eða "dissaður" af flokksforystunni. Ég hef staðið á bak við formenn flokksins, hvort sem það var Davíð Oddsson eða Geir Hilmar Haarde og Sjálfstæðisflokkinn til þessa, en áskil mér einnig rétt til að gagnrýna það, sem að mínu mati mætti betur fara.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.8.2008 kl. 12:29

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Virkilega góð skrif hjá þér Hrannar. Ég er svo sammála þér og mér finnst einmitt að ég verði opnari fyrir svo mörgu sem er að gerast í þjóðfélagin, ég er með góðan hóp sem ég les daglega og fræðist helling.  Ég held ég verði að spyrja Geir næst þegar ég hitti hann hvort hann hafi verið að dissa okkur.  Kveðja inn í góðan dag.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.8.2008 kl. 12:29

11 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Góð grein og skemmtilegar vangaveltur...og ég vildi að ég væri eins vandvirkur með textann og stafsetningu og þú ert, vantar töluvert upp á það og er alltaf að flýta mér fullmikið

Mér er eins farið, boggarar sem hleypa bara jákommentum að eða jafnvel engum eins og BB finnst mér óáhugaverð og forðast þau. Ef að viðkomandi leyfir ekki athugasemdir sleppi ég því meira að segja að skoða það þó fyrirsögnin sé afar grípandi, leiðist einræður og jákórar.

Georg P Sveinbjörnsson, 6.8.2008 kl. 12:32

12 identicon

Ég gef mér tíma til að samþykkja og hafna athugasemdum.  Það er nu reyndar bara af því að ég fá svo mikið af spami.  Samþykki allt sem er ekki spam.

Hafrún (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 13:21

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Guðbjörn: Að sjálfsögðu er ekkert skaðlegra í lýðræðislegri umræðu en jákórar. Ekkert okkar er fullkomið og hefur alltaf 100% rétt fyrir sér, þó að við gætum haldið það í einhverju oflætiskasti.

Ásdís: Kærar þakkir. Spurðu Geir endilega.

Georg: Blessaður Georg, textinn hlýtur að skána eitthvað í meðförum eftir margra ára skrif og pælingar í stílfræði. Ég mæli með "Elements of Style" eftir Strunk, White og Kalman, til að hrista aðeins upp í stílnum. Mjög holl lesning.

Hafrún: Það þarf sjálfsagt að setja upp spamfiltera á þínu bloggi. Moggabloggið virðist vera með afar góða filtera á spamið, enda hef ég ekki þurft að hafa áhyggjur af vélrænu spami hérna. Hins vegar þurfti ég að setja upp kerfi á mínum eigin bloggsíðum til að stoppa róbótaspam, en þessar græjur duga ekki 100%. Tæknimenn Moggabloggsins eru að gera hlutina vel.

Hrannar Baldursson, 6.8.2008 kl. 13:29

14 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mjög góð grein hjá þér. Mér líst ágætlega á þetta með bloggaraflokkinn en held samt að bloggarar rekist ekki vel í flokki.

Ég er oft að reyna að fílósófera um blogg en kemst ekki eins langt í því og þú. Bloggið sem slíkt og áhrif þess á allt og alla er eitt af mínum helstu áhugamálum. Og svo náttúrlega skákin. Það er fátt sem tekur henni fram.

Sæmundur Bjarnason, 6.8.2008 kl. 13:57

15 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þakka þér fyrir þessa frábæru grein.  Þó bloggaratíð mín sé ekki löng og bloggið í sjálfu sér ungt, má greinilega sjá marga bloggara þroskast skemmtilega í samstillingu hugsunar og ritunar. Ég bind vonir við að sá hópur bloggara sem tjáir sig af rökfestu og kurteisi nái með sinni eðlislægu kurteisi að skapa blogginu sterkari stöðu sem marktæks þjóðarpúls.

Eitt af því skemmtilega við bloggið, er að geta á skömmum tíma fengið fjöldamörg sjónarhorn á eitthvað málefni sem til umræðu er. Og eftir lesturinn verið kominn með alveg nýjan flöt á máli sem maður hafði kannski lítið velt fyrir sér áður. Á þann hátt getur bloggið orðið til þess að þroska mann sem manneskju.

Af því tilefni vil ég sérstaklega þakka þér margar góðar greinar, sem ég hef lesið af athygli, bæði til fróðleiks og skemmtunar. 

Guðbjörn Jónsson, 6.8.2008 kl. 15:20

16 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þetta Sæmundur. Við bara styðjumst að við að átta okkur á heiminum kringum bloggið. Höfum við einhvern tíma tekið bröndótta saman?

Guðbjörn: Þakka þér kærlega fyrir hrósið. Ég er 100% sammála þér um hvernig bloggið getur hjálpað okkur að þroskast sem manneskjur.

Hrannar Baldursson, 6.8.2008 kl. 16:37

17 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Stjórnarandstaða er eins og menn sem fara á klóið en pissa útfyrir.

Sigurður Sigurðsson, 6.8.2008 kl. 16:45

18 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Góð grein að vanda. Er sjálfur að prófa þetta blogg og þreifa mig áfram. Enda annað hvort með því að hætta, eða skrifa kvöldgreinar eins og þú. Eflaust ekki jafn merkilegar. Mér finnst þetta form hins vegar vera gott til þess að auka lýðræði. Er kominn á þá skoðun að allir verði að skrifa undir nafni. Aftur grein eins og skrifað úr mínu hjarta.

Sigurður Þorsteinsson, 6.8.2008 kl. 19:14

19 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurður Sigurðsson: aftur en að auki smá

Sigurður Þorsteinsson: Kærar þakkir. Ég held að engin grein sé í sjálfu sér merkilegri en önnur, svo framarlega sem að maður skrifar jafnt frá hjarta sem heila.

Hrannar Baldursson, 6.8.2008 kl. 19:18

20 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hrannar ég hugsa að við höfum aldrei teflt. Það eru margir áratugir síðan ég hef teflt af alvöru. Léttar skákir á Netinu eru samt mjög skemmtilegar. Fyrir einu eða tveimur árum lét ég samt plata mig til að tefla í deildakeppninni.

Sæmundur Bjarnason, 6.8.2008 kl. 20:34

21 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæmundur, þú veist væntanlega af vel mönnuðum æfingum í KR heimilinu kl. 19:30 á mánudagskvöldum. Það er skemmtilegur hópur. Þú ættir að prófa að kíkja inn, hafirðu ekki gert það þegar. Sjálfur er ég ekki nógu duglegur að tefla þessa dagana, bloggið alltof skemmtilegt sko.

Hrannar Baldursson, 6.8.2008 kl. 20:44

22 identicon

Sæll Hrannar. Vona að þetta komment mitt verði ekki sama langlokan og síðast enda finnst mér samlokur yfirleitt betri Þessi athugasemd forsætisráðherra er nokkuð merkileg. Ástæðan er sú að ég held að þarna sé forsætisráðherra að staðfesta tilvist bloggsins sem viðurkenndan vettvang fyrir stjórnmálalega umræðu. Hann er alls ekki að gera lítið úr bloggheiminum því eins og þú réttilega bentir á þá eru bloggarar eins ólíkir og þeir eru margir. Geir er hins vegar að taka mark á því sem fram fer í bloggheiminum með því að vísa til þess að þar hafi komið fram gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi í efnahagsmálum en stjórnin kveðið hana í kútinn í bili. Orð Geirs eru alls ekki röng og auðvelt að sanna að hann hafi rétt fyrir sér en réttast væri að hrósa honum fyrir að vera búinn að kynna sér það sem fram fer á netinu. Hann er að víkka umræðuna og kynda undir eflingu þessa nýja vettvangs umræðunnar. Nú vil ég samt taka fram að ég er enginn sérstakur stuðningsmaður forsætisráðherra, heldur eingöngu að túlka þau orð sem hér eru höfð eftir honum. Að líkja netheimum við stjórnarandstöðuna mætti líka túlka sem svo að stjórnarandstaðan njóti þess að hafa hljómsterka rödd á netsíðum sem erfitt er að þagga niður. Það að ríkisstjórnin skuli fylgjast með umræðunni sem fram fer á netinu er jákvæð þróun sem á eflaust eftir að styrkja lýðræðislega umfjöllun enn frekar. Til samanburðar má fylgjast með fréttum frá Kína þar sem fréttamenn koma reglulega með fréttir af netbanni sem þar ríkir...

En svo er það hins vegar spurningin hvaða braut netið á eftir að leiða okkur inná þegar kemur að stjórnmálum. Fram til þessa hefur sjónvarpið verið langsterkasti miðillinn þegar kemur að kosningum. Sjónvarpið hefur haft þann kost, sérstaklega í svona litlu samfélagi eins og Íslandi, að þar sameinast fjöldinn. Sjónvarpið nær til allra. Hérlendis er auðvelt að ímynda sér hve auðvelt er fyrir stjórnmálamann eða flokk að ná til fjöldans þegar sjónvarpsstöðvarnar eru svona fáar. Örfáir útsendingartímar og atkvæðin eru tryggð. Skemmtilegt dæmi er þegar Kristján Eldjárn var kosinn forseti, þá var sjónvarpið tiltölulega nýtt fyrirbæri hér á landi og Kristján verið á skjánum í rúmt ár fyrir kosningar. Það vissu því allir hver hann var þegar að kosningunum kom, landsfrægur maðurinn... En stjórnmálaflokkarnir tryggðu líka stöðu sína fyrir áhrifamætti sjónvarpsins þegar þeir létu setja í lög að allir flokkar fengju jafn mikinn tíma í sjónvarpinu fyrir kosningar! Það virðist því kannski ekki alltaf skipta máli hvað þú segir heldur frekar hversu þekktur þú sért! Kosningar snúast ekki lengur um 12 tíma kosningafundi fyrir kosningar eins og áður fyrr heldur að koma sem best fyrir og ná að láta sem flesta líta þig augum. Það skiptir heldur ekki máli hvað þú segir heldur hvernig þú segir það! Litir á jakkafötunum skipta máli, brosið skiptir máli, að ná til undirmeðvitundarinnar skiptir máli! Hversu oft heyrðum við ekki Össur Skarphéðinsson segja "Við í Samfylkingunni..." eða Árna Matt segja "Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á..." eða Steingrím J segja "Við í Vinstri grænum viljum (ekki)..."? Þetta er það eina sem stendur uppúr þegar talað er við stjórnmálamenn í dag. Markaðsfræðingarnir vita að því oftar sem þú heyrir orðin því líklegri ertu til að merkja við það í kjörklefanum! Auðvelt atkvæði fyrir ekki svo mikla vinnu...

Hvort netið leiði okkur á nýjar brautir þegar kemur að kosningum skal ósagt látið. Vissulega er umræðan oft mjög djúp og skynsöm en hún er einnig dómhörð og tilfinningasöm. Og hún fer um víðan völl, þ.e. erfitt að stjórna henni og hún á það til að fara á aðrar brautir áður en niðurstaða eða vísir af niðurstöðu fæst. Hún á það til að geta orðið ómarkviss. Aftur á móti tryggir bloggið okkur eina sterkustu stoð lýðræðisins og það er að rödd allra getur heyrst. Nú getur svo til hver og einn kosningabær Íslendingur látið skoðun sína í ljós í nafni lýðræðisins. Þetta atriði er sennilega það mikilvægasta þegar kemur að netinu og á vonandi eftir að þróa lýðræðið þannig að það endurspegli raunverulega rödd fólksins.

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 6.8.2008 kl. 23:31

23 identicon

Athyglisverður pistill hjá þér (eins og reyndar margir aðrir). Ég hnaut aðeins um þetta komment hans Geirs um stjórnarandstöðuna og bloggara. Mér fannst það samt segja í leiðinni að bloggarar eru greinilega orðnir rödd sem stjórnmálamenn heyra í það minnsta í hvort sem þeir hlusta á innihaldið eða ekki. Og ég er viss um að stjórnmálamenn eiga eftir að nota þennan miðil grimmt fyrir næstu kosningar til að reyna að heilla okkur "atkvæðin" á blogginu.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem tengist vefnum og möguleikum hans. Mér finnst bloggið með því áhugaverðara sem þar hefur komið fram í langan tíma. Ég verð vör við fordóma í garð bloggara og þeir eru nokkrir í mínu starfsumhverfi sem tala niður til bloggara og segjast fá kjánahroll þegar þeir hugsa um þennan bloggheim. Þeir virðast fyrst og fremst líta á þetta sem athyglissýki og sjálfhverfu. Fyrir mig hefur bloggið aftur á móti reynst ein fljótvirkasta og besta aðferðin til að víkka sjóndeildarhringinn og fræðast. Og það getur líka verið hin besta afþreying og skemmtun. Það fer eftir því hvernig ég er innstillt þegar ég opna bloggið hvort ég leita í fræðsluna, rökræðuna eða skemmtunina. Stundum tek ég jafnvel allan pakkann í einum rúnti.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 01:18

24 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kristbjörn: hárrétt hjá þér að hægt sé að túlka þetta sem viðurkenningu frekar en diss, það fer eiginlega bara eftir því hver er að túlka.

Þú átt annars bíómiða hjá mér. Hafðu samband.

Anna:  Frábærlega orðað hjá þér. Ég hef upplifað svipaðar skoðanir í nánasta umhverfi, en hef á tilfinningunni að þær muni snúast upp í skilning, og vissulega gaman að geta nálgast þá flóru sem maður sækist eftir sjálfur.

Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 08:33

25 identicon

Sæll Hrannar. Kærar þakkir fyrir það, það er virkilega óvænt og ánægjuegt Var reyndar einmitt í morgun að spá að fara í bíó hehe. Hvernig get ég haft samband við þig?

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 11:33

26 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kristbjörn: Sendur mér tölvupóst á HBaldursson @ gmail.com

Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 11:46

27 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Maður les bloggið þitt með athygli og þarna er svo margt sem maður aðhyllist að það hálfa væri nóg/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 7.8.2008 kl. 13:14

28 identicon

Þetta er góð grein og margt af því sem þú skrifar, hef ég líka velt fyrir mér.

En er í þeirri aðstöðu að ég kaus annan stjórnarflokinn. en er alls ekki að fatta(fyrirgefðu slæma ísl.) hvað þeir eru að fara í allflestum málum. alls ekki því sem lofað var og alls ekki neitt skiljanlegt sem þeir gera. það ætti í fyrsta lagi að setja ferðabann á þá. þeir voru kosnir á þing, en ekki einhverjir sendierindrekar Íslands.

Þarna fór ég svolítið framúr mér.

Stjórnarandstaðan er heltekin af orðinu ANDSTAÐA. Ekki meira um það.

Úti í sveitarfélögunum varð það vinnuregla, eftir að íbúar máttu fara að sitja fundi, ef þeir þegðu, að sveitarstjórnir héldu undirbúningsfund degi áður og afgreiddu öll mál þar svo bara átti eftir að sýna leikþáttinn opinberlega kvöldið eftir.

Kannski hafa stjórnmálaflokkarnir lært af fyrrverandi minni sveitarstjórn.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 23:24

29 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Stórfínn pistill og skemmtilegar umræður sem ég tek heilshugar undir.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.8.2008 kl. 10:35

30 Smámynd: Hrannar Baldursson

Haraldur: Það er ekkert annað. Takk fyrir það.

Sigrún Jóna: Eins og talað úr mínu hjarta. Ég skrifaði meira að segja greinar fyrir síðustu kosningar um stefnur flokkana, og hélt að best væri að kjósa eftir því, en ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þann flokk sem ég kaus og komst til valda, og er ljóst að þeir fá ekki atkvæði mitt aftur fyrir einmitt að senda fólk út í buskann og gera alltof lítið af viti hérna heima af því sem þeir höfðu lofað, og á allt öðrum forsendum en fyrir kosningar. Mér finnst að fólk ætti að fá leyfi til að kjósa hvort það samþykki stjórnarsáttmála sem gerðir eru, því að ég sé fátt af því sem ég vonaði að þessi stjórn myndi skila af sér ná í gegn. Af hverju ekki er búið að fella niður uppgreiðslugjald í bönkum, og verðtryggingu eins og stefnt var að, að væri höfuðmál, fyrir kosningar, er ofar mínum skilningi. Ég hef því miður misst trú á stjórnmálamönnum og er farinn að sjá marga þeirra sem maðka í mysu, því miður, þar sem ég reyni stöðugt að finna jákvæðu fletina - en þeim hefur bara fækkað hratt á þessu sviði.

Lára Hanna: takk.

Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband