The Dark Knight (2008) ***1/2

DarkKnightPoster

The Dark Knight er vel gerð ofurhetjumynd, með flóknu samspili ólíkra persóna, afar góðri frammistöðu nokkurra leikara, með sögu í anda teiknimyndasagnanna og vel leikstýrð. Hún er hins vegar ekki besta kvikmynd sem gerð hefur verið, né get ég fullyrt að hún sé besta ofurhetjumyndin. Hún er bara öðruvísi en allar aðrar ofurhetjumyndir að því leyti að veruleiki hennar passar við okkar veruleika.

The Dark Knight er heldur köld kvikmynd fyrir minn smekk. Hún er svona hálfpartinn Blade Runner (1982) og hálfpartinn Heat (1995), Það hefur bæði kosti og galla. Það eru það margar persónur drepnar að þegar loksins ein af aðalpersónunum fellur í valinn, þá hefur maður upplifað svo mikið ofbeldi og svo margar aukapersónur verið drepnar að mér fannst persónulegt drama frekar lítilvægt þegar þar var komið sögu. 

Heath Ledger hefur verið mikið rómaður fyrir leik sinn sem The Joker. Hann á þetta lof að mestu skilið, leikur hans ógleymanlegur og honum tekst að færa persónu dýpt sem virðist ekki eiga sér neina forsögu. Hann er lunkinn við að koma hetjunum í mikil vandræði og dáist að Batman eins og fanatískur aðdáandi og þráir ekkert meira en að Batman drepi hann, sem stríðir reyndar gegn siðareglum Batman, og það sem gerir þetta að svona spennandi leik fyrir The Joker.

Tvær fylkingar takast á í The Dark Knight: annars er það mafían eins og hún leggur sig og lögreglan og saksóknarar gegn henni. Einhvers staðar á milli þessara tveggja fylkinga eru svo hetjurnar Batman, Jim Gordon og Harvey Dent, en hinu megin við línuna eru svo illmennin The Joker og Two Face.

Munurinn á Batman og The Joker er áhugaverður, en Batman trúir því að hann sé að verja saklaust fólk gegn illmennum. The Joker aftur á móti trúir því að enginn sé saklaus, að allir séu illir, og hann hefur djúpa þrá fyrir að sanna þessa kenningu sína með því að spilla öllu því sem gott er.

Á Heath Ledger skilinn Óskar fyrir túlkun sína sem The Joker? Miðað við Óskarinn síðustu ár þá held ég að það sé nokkuð gefið að hann verði tilnefndur, hann er það sannfærandi í sínu hlutverki, en Aaron Eckhart þótti mér hins vegar enn betri sem Harvey Dent, þó að ég ætti erfitt með að trúa á dramatískan viðsnúning hans.

Christian Bale fannst mér hins vegar slakur í titilhlutverkinu. Sem Bruce Wayne sýndi hann litla mannúð, og sem Batman var hann með rödd sem var alltof rám og alvarleg miðað við aðstæður, sérstaklega þegar hann var að ræða við vini sína. Michael Caine er afbragð sem þjónninn Alfred, og Morgan Freeman er bara Morgan Freeman í hlutverki Lucius Fox, og Maggie Gyllenhaal er framför frá Katie Holmes sem saksóknarinn og æskuvinur Bruce Wayen og auk þess forsenda ástarþríhyrnings: Rachel Dawes. Gary Oldman er mjög góður sem þungamiðja réttlætisins, Jim Gordon.

Öll bardagaatriði og kappakstur eru hreint afbragð, og finnst mér einfaldlega súrt að ekki skuli vera til IMAX bíó á Íslandi þar sem mikill hluti myndarinnar var hannaður fyrir þá tækni. Sjálfsagt er það hluti af ástæðu þess að hún er að fá svona magnaða dóma í Bandaríkjunum.

Reyndar hafði ég á tilfinningunni í upphafi sýningarinnar að upplausnin á myndinni væri vitlaust stillt í Kringlubíói. Það er samt erfitt fyrir mig að meta það, þar sem ég hef ekki séð myndina við bestu mögulegu aðstæður. 

The Dark Knight er tveir og hálfur tími að lengd, en sá tími er fljótur að líða því maður er alltaf spenntur eftir því sem gerist næst, og reyndar þegar myndinni lauk langaði mig enn til að sjá meira.

Ég get ekki gefið The Dark Knight fulla einkunn þar sem að mér þótti persónurnar of fjarlægar, og held að þær hefðu getað verið enn betur mótaðar. Það getur reyndar verið að einhverjar mikilvægar senur hafi verið klipptar úr myndinni af framleiðendum vegna lengdar og að endanlega útgáfa leikstjóra muni einhvern tíma koma út með þessum atriðum sem mér fannst vanta.

Ég get mælt með The Dark Knight en með þeim fyrirvara að þú skalt ekki búast við alltof miklu. Hún er engan veginn besta mynd allra tíma eins og hægt er að sjá á IMDB þessa dagana, en ætti hugsanlega skilið að vera á topp 20-50 yfir bestu Hollywoodkvikmyndir sem gerðar hafa verið.

Ef þig langar til að sjá The Dark Knight bara til að sjá frammistöðu Heath Ledger, þá verðurðu ekki fyrir vonbrigðum, því að hann er óþekkjanlegur, djúpur og snarklikkaður í sínu hlutverki - það bilaður að maður veltir fyrir sér hvort að hlutverki hafi tekið það á, að það hafi átt einhvern þátt í dauða hans.

Þó að þetta sé töluvert löng gagnrýni, þá er ég búin að taka The Dark Knight fyrir af meiri dýpt á seenthismovie.com.
 


Leikstjóri: Christopher Nolan

Einkunn: 8

 

 

Myndir: Rottentomatoes.com

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hm veit ekki hvort mig langar á þessa mynd. Er einmitt að reyna að gera það upp við mig hvort ég ætti að fara. Ég held að ég sé með ehv fordóma gagnvart henni... Kannski ég ætti þá bara að fara og fyrst ég býst ekki við neinu að þá verði ég voðalega ánægð?

Gerða (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 20:16

2 Smámynd: Ómar Ingi

Fyndið að þú skulir endilega minnast á Blade Runner og HEAT

Tvær af mínum uppáhalds

sástu dóminn hjá Trausta í 24 stundum í dag lestu hann

Lestu dómin hans Ropers

Þeir eru allir jafn misjafnir en bara misjafnlega að MISSA sig yfir þessu meistarastykki.

Þegar öllu er á botnin hvolft kemur mér þinn dómur mér ekki á óvart væntanlega ég í huga þér allan tíman þegar þú skrifaðir þennan dóm.

En þetta er þín skoðun og ég virði hana , hinir verða að gera upp huga sinn meðan ég og svona 64% þeirra sem séð hafa munu fara aftur og aftur osfv

Ljúfar

Ómar Ingi, 23.7.2008 kl. 20:27

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gerða: myndin er vel þess virði að sjá í bíó frekar en á DVD.

Ómar: Heat finnst mér reyndar frábær mynd, og Blade Runner er á topp 20 Sci-fi hjá mér, þannig að ég er ekki að líkja The Dark Knight við neitt drasl. Svo er ég bara þannig að ég hrífst ekkert auðveldlega með í múgsefjun, þó að slík tilfinning geti vissulega verið skemmtileg. 

Þú varst ekki alltaf í huga mér Ómar á meðan ég skrifaði þessa grein, en vissulega hugsaði ég til þín þar sem þú ert einn af mínum tryggustu lesendum. En þeim sem finnst Blade Runner frábær á eftir að finnast The Dark Knight æðisleg. Smekkur fólks er bara misjafn.

Og til að taka það fram: þó að mér finnst The Dark Knigh ekki æðisleg, finnst mér hún mjög góð.

Hrannar Baldursson, 23.7.2008 kl. 20:47

4 identicon

Ég er í Orlando Flórída núna ásamt 3 öðrum vinum mínum. Og við fórum á The Dark Knight í IMAX bíói hérna.

Verð að segja að það er algör upplifun að fara í svoleiðis bíó. Því tjaldið er risa RISA stórt.

Hörður Sveinsson (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 20:59

5 Smámynd: Pétur Fannberg Víglundsson

Er einmitt líka í Orlando Flórída og fór í IMAX í gærkvöldi. Ég hugsa að það bæti við þessari hálfu stjörnu sem vantar upp á hjá þér í mína einkunnagjöf. Annars er þetta mynd sem þarf að sjá oftar en einu sinni til að geta lagt fullkomið mat á.

Pétur Fannberg Víglundsson, 24.7.2008 kl. 00:05

6 Smámynd: Ómar Ingi

Ertu þá að segja að flestir ef ekki nær allir séu bara í Múgsefjun og látist sem myndin sé geðveik, en þú tekur ekki þátt í múgsefjun og dæmir þá myndina öðruvísi, góða en ekki Geðveika ?.

Eða kannski ertu bara einn af þeim sem alltaf villt vera öðruvísi ?

Man alltaf hvað ég var persónulega sár úti Sigmund Erni fyrir að taka það fram að hann væri eini Kvikmyndakrítík í heiminum sem fannst Rain Man ömurleg kvikmynd

Las það svo síðar þegar hann gaf út bókina sína um dóttur sína og hennar veikindi að ég skildi hann enda kom hann ínná það mál í bókinni ef ég man rétt eftir.

En allvega

Við verðum að vera sammála í þetta skiptið um að vera aðeins ósammála.

 

PS: Pétur ÖFUND  IMAX Shiiiiii ég ÖFUNDA þig big time

PS: Hrannar sá Mummy 3 í dag og hún er sú versta af þeim og það by far

Slappt casting á Mario Bello og drenginn sem er sonur þeirra er grátlegt og handritið er slappt og enda soldið í enskins manns landi , hvorki fyrir fullorðna né börn , meira svona fyrir 12 ára til 16 ára

Sorglegt dæmi

Kenni Rob Cohen leiksjóra um

Ómar Ingi, 24.7.2008 kl. 20:09

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Þetta er einfaldlega mín skoðun, sem ég kem heiðarlega frá mér, enda hef ég engra hagsmuna að gæta. Línurnar eiga eftir að skýrast þegar mestu lætin eru liðin hjá. Maður fer ekki að skrifa gegn eigin sannfæringu heldur.

Mummy 3 lélegri en Mummy Returns, og það með Rob Cohen sem leikstjóra? Þetta þarf ég að sjá!

Hrannar Baldursson, 24.7.2008 kl. 20:25

8 identicon

Ég tók eftir að þú sást myndina í Kringlubíói.  Ég sá hana líka þar og varð fyrir miklum vonbrigðum með sýninguna sjálfa.  Hljóðið datt út í hálfa sekúndu hér og þar í myndinni en það versta við sýninguna var varpinn sem notaður er fyrir textann.  Þetta gerir það að verkum að hluti myndarinnar (í 4:3 hlutföllum) er oflýstur af því að varpinn þekur miklu stærri hluta myndarinnar en er notaður fyrir textann sjálfan.  Mér finnst ekki réttlætanlegt að bjóða fólki upp á þetta, hvað þá að rukka mann meira fyrir að sjá myndir í "Digital" með þessum ömurlegu aukaverkunum.  Þetta verður mjög áberandi í myndum sem eru dimmar.  Ég tók einnig eftir þessu þegar ég sá "There will be blood" í Álfabakka.  Þetta bætist við langan lista yfir ástæður þess að ég fer sjaldnar í bíó en áður.

Hafa fleiri tekið eftir þessu?

Róbert Arnar Úlfarsson (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 16:00

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Róbert, þetta er rétt hjá þér. Hlutföllin voru ekki alveg rétt og þar að auki var eitthvað að hljóðinu. Kannski Sambíóin séu að spara?

Hrannar Baldursson, 25.7.2008 kl. 20:02

10 identicon

Tja, hlutföllin á myndinni sjálfri voru svo sem rétt en textavarpinn er ekki í sömu hlutföllum sem gerir það að verkum að hluti myndarinnar er oflýstur sem gerir þetta alveg einstaklega áberandi.  Maður myndi kannski taka minna eftir þessu ef textavarpinn varpaði yfir alla myndina en það væri samt ekki ásættanlegt því þá væri öll myndin oflýst.

Gæðaeftirlitið er lítið sem ekkert og það er ekki hægt að sjá að þeir sem reki kvikmyndahúsin hafi nokkurn áhuga á kvikmyndum.  Í dag er ekkert sem heitir sýningarstjóri, enginn sem fylgist með hvort sýningarnar séu í lagi.  Myndin er bara sett af stað, látin rúlla og ef eitthvað er að þá verða sýningargestirnir að gjöra svo vel að hlaupa út úr salnum til að láta 16 ára afgreiðslufólk vita. 
Nýlega fór ég á Indiana Jones myndina í lúxussal Smárabíós og eftir hálftíma varð myndin bleik!! en hljóðið hélt áfram að rúlla.  Auðvitað stóð enginn upp strax því allir vonuðust auðvitað til að þetta myndi lagast von bráðar enda hljóti starfsmenn Smárabíós að taka eftir þessu.  Að lokum hljóp einhver fram og eftir langa mæðu var slökkt á græjunum.  Síðan beið allur salurinn í hálftíma eftir að myndin færi aftur í gang og fékk af og til þær fréttir að það væri verið að vinna í þessu.  Það kom þó aldrei neinn frá Smárabíó inn í salinn til að tilkynna fólki þetta eða bjóða hressingar í sárabætur fyrir biðina, þetta fréttist bara í gegnum þá fáu sem voru að hlaupa fram til að forvitnast.  Að lokum fór myndin af stað en þó vantaði greinilega þær mínútur sem hljóðið hafði rúllað án myndar.  Ég ákvað því að fara og sjá myndina í heild sinni seinna.  Ég fékk annan miða í lúxussalinn (eftir að hafa verið boðið miða í venjulega sal) og frétti að enginn hefði sýningarstjórinn verið.  Ekki nóg með það heldur var enginn í húsinu sem gat kíkt á þetta, það þurfti að kalla manninn út.

Það er orðið þannig að kvikmyndahúsin eru ekki staðir fyrir kvikmyndaunnendur.  Þeir verða að koma sér upp almennilegu heimabíói til að geta notið myndarinnar.  Það verður þó seint hægt að búa til sömu upplifun heima og bíóin geta boðið upp á en gallarnir við bíóferðirnar eru farnir að vera ansi margir og stórir.

Jæja, nöldri lokið.   Í bili  ;)

Róbert Arnar Úlfarsson (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 00:54

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég tek þessu alls ekki sem nöldri. Þetta útskýrir ýmislegt. Takk fyrir að deila þessu.

Hrannar Baldursson, 26.7.2008 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband