Lífsins jarðhræringar: í leit að visku og sjálfsstjórn

DALL·E 2023-12-13 10.26.06 - A realistic and cool image of a cowboy and a Viking standing on a cliff, gazing thoughtfully at a cosmic sky filled with stars, symbolizing the pursui

Ef við tökum stöðugt á fordómum okkar og hreinsum þá reglulega út úr huga okkar, þá erum við á góðri leið með að byggja upp visku og sjálfsstjórn hjá okkur sjálfum. Við þurfum að muna að við getum ekki hreinsað út fordóma hjá öðru fólki, gert aðrar manneskjur vitrar eða tryggt að aðrir séu með góða sjálfstjórn. Þetta getum við aðeins gert fyrir okkur sjálf. 

Við þurfum að hafa hæfni til að rannsaka okkar eigin þekkingu, gildi, hugarfar, tilfinningar, viðhorf og hegðun, og út frá slíkum stöðugum rannsóknum áttað okkur á hvar við erum sterk fyrir og hvar veik. Með þessum rannsóknum erum við í leiðinni að þjálfa vitsmuni okkar með virkum hætti.

Segjum að þú lendir í áfalli, til dæmis að bærinn þinn sé rýmdur sem þýðir að þú verður á svipstundu heimilislaus, sem þýðir að þú þarft að finna heimili handa þér og þínum á svipstundu. Hugsaðu þér 3800 manneskju sem fá þetta verkefni á sama augnabliki og þurfa að finna sér samastað. Í okkar samfélagi erum við svo heppin að samfélagið greip okkur í fyrsta fallinu, reisti neyðarstöðvar sem hægt var að leita til, og síðan voru fjölskyldur og vinur tilbúin að grípa okkur líka. Mér var meira að segja boðið húsnæði í Bandaríkjunum og Tyrklandi af góðum vinum.

Þetta eru miklar áskoranir, en það hvernig við bregðumst við þeim skiptir ennþá meira máli en hverjar áskoranirnar eru. Til dæmis hefur bæjarstjóri Grindavíkur, Fannar Jónasson, brugðist afar vel við, og leitt heilt bæjarfélag í skjól með dyggum stuðningi bæjarstjórnar og bæjarbúa. En verkefninu er ekki ennþá lokið. Mikill fjöldi Grindvíkinga er að flytja á milli íbúða núna rétt fyrir jól, þarf að finna leiðir til að greiða fyrir himinháa leigu, fara jafnvel afar langar leiðir í vinnu og skóla, og halda sönsum gegnum þetta allt saman, því atburðurinn er ennþá í gangi, og verður í okkar huga ekki lokið fyrr en allir hafa eignast heimili að nýju. Við Grindvíkingar þurfum að sýna mikið æðruleysi og yfirvegun í ástandi sem gæti ært óstöðugan, og við erum að halda haus. Þó eru áskoranirnar gríðarlega margar og nauðsynlegt að samfélagið vinni vel saman til að leysa úr þessari flóknu stöðu. Spurningin er hvort að samfélagið allt hafi þennan styrk, visku og sjálfstjórn sem þarf til að lenda málinu vel þegar að lendingu kemur?

Eitt sem ég hef tekið eftir undanfarið á fundum sem krefjast mikillar einbeitingar, er hvernig við getum stillt athygli okkar til að hlusta almennilega á þá sem eru að tala, og hvernig það getur verið krefjandi, sérstaklega þegar við höfum öfluga tölvu í höndum okkar, símann. Það krefst sjálfstjórnar, visku og aga að geta stungið símanum í vasann, jafnvel slökkt á honum, og beitt athyglinni að einni manneskju í einu, einni setningu í einu, einu orði í einu. 

Vitur manneskja þarf að átta sig á siðferðinu, sem sífellt er tvískipt á milli þess sem er skylda okkar og afleiðingum gjörða okkar. Við þurfum að átta okkur á hvernig þessar brautir falla saman í hegðun okkar og mynda þannig trausta leið inn í framtíðina.

Vitur manneskja þarf stöðugt að læra: byggja upp eigin þekkingu, skilning, færni og viðhorf. Vitra manneskjan sem sækir í að læra getur skráð sig í námskeið og veit að þó kennari veiti upplýsingar og aðstæður til náms, þá krefst námið sjálft gríðarlegrar vinnu og sjálfsstjórnar - því þegar við lærum er það algjörlega á okkar eigin ábyrgð. Gott er að hafa kennara sem leiðir okkur í rétta átt í námi frekar en trufla okkur frá markmiðum okkar, annars getur sjálfsnám verið ágætis leið fyrir mörg okkar. Í dag er svo auðvelt að nálgast upplýsingar á netinu, við þurfum aðeins að átta okkur á hvort þær séu áreiðanlegar og viðeigandi fyrir það sem við viljum læra, og síðan byggja upp þekkingu með því að lesa, hlusta og æfa okkur.

Vitur manneskja þarf að vera sjálfstæð. Hún gerir ekki það sem henni er sagt að gera án þess að spyrja sig hvort hún sé að gera eitthvað gott eða rétt með verkum sínum. Þegar okkur er skipað að gera eitthvað sem við finnum að er rangt, þá þurfum við að finna hugrekki til að gera það ekki, átta okkur á af hverju það er rangt, og síðan segja ‘NEI’ og finna betri leiðir. Það er enginn sem segir að það að vera vitur manneskja sé einfalt og sársaukalaust, heldur þvert á móti.

Gagnrýnin hugsun hjálpar okkur áleiðis, hjálpar okkur að greina og skilja áskoranir, greina og skilja okkur sjálf, greina og skilja hvernig hlutirnir virka. En samt er gagnrýnin hugsun miklu meira en bara að greina og skilja, í henni felst líka siðferðileg ábyrgð og sköpunarkraftur, því við þurfum að átta okkur á hvað er þess virði að skilja betur og greina, og við þurfum að hafa tilfinningu fyrir því sem er gott og rétt, til að forðast að gera hlutina verri, og þess í stað bæta heiminn, eða í það minnsta eina manneskju í þessum heimi, okkur sjálf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Mætti ekki líkja fólkinu í Gindavík sem að reisti húsin sín ofan á gömlum sprungum við manninnn sem að

"REISTI HÚSIÐ SIT Á SANDI?".

Dominus Sanctus., 13.12.2023 kl. 10:46

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það má alveg, en við núverandi aðstæður hljómar það eins og óþarfa grimmd. Hjálpar ekki mikið.

Hrannar Baldursson, 13.12.2023 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband