Að slíta hlekki fordóma með gagnrýnni hugsun

DALL·E 2023-12-12 20.20.19 - A realistic and cool image of a cowboy looking at the stars, symbolizing deep reflection and the journey to overcome prejudices. The cowboy, dressed i

Ef það er eitthvað eitt sem mér líkar virkilega illa, þá eru það fordómar. Ekki bara fordómar annarra, heldur einnig mínir eigin. Oft velti ég fyrir mér hvaðan þessir fordóma koma, því þeir læðast stundum inn í hug manns og koma aftan að manni, eins og spegilmynd sem eltir mann eins og skuggi. Það er afar erfitt að ná tökum á hverjum einasta dómi sem maður hefur fellt, enda eru fordómar þess eðlis að vera teknir án þess að næg þekking sé til staðar, og yfirleitt vantar eitthvað upp á trausta þekkingu til að mynda sér góðar skoðanir eða festa trú. Oft fellum við líka dóma án þess að átta okkur á því.

Eftir því sem ég læri meira um ákveðna hluti, átta ég mig sífellt betur á hvort að ég sjálfur hafi fellt ranga dóma, og þegar ég átta mig á slíkum ákvörðunum, þá hef ég tök til að leiðrétta þá og byggja traustari þekkingu. Mér þætti eðlilegt að allir gerðu þetta, en veit að enginn getur vitað allt um allt, og því verðum við að sætta okkur við að þekking vex hægt og fordómar fjarlægast seint, hvort sem það er úr manni sjálfum eða öðrum.

Síðasti fordómur sem ég sjálfur komst yfir var þegar ég lagðist í að skoða skýrslurnar úr síðustu PISA könnun, en þá hélt ég í fyrstu, eins og flestir gera sjálfsagt sem aðeins hlusta á fréttir og samfélagsmiðla, að Íslendingar hafi komið afar illa út úr þessari könnun sem var tekin árið 2022, en eftir að hafa rannsakað skýrslurnar áttaði ég á mig að slíkur samanburður er ekki sanngjarn með neinum hætti, og að þegar við metum menntakerfi okkar getum við ekki aðeins haldið okkur í PISA kerfið.

Mér dettur í hug að hugsanlega væri sniðugt að nýta þau mælitæki sem búin hafa verið til við hönnun síðustu PISA könnunar, til að sníða og hanna ný verkefni sem hægt væri að nota með nemendum næstu árin, eða þar til næsta mælitæki hefur verið hannað, svo framarlega sem hæfniviðmið þess eiga við um íslenskar aðstæður, eða stefnir að þeim árangri sem við viljum sjá með nemendum okkar.

Það er sumt sem þarf að gera til að sigrast á eigin fordómum. 

  1. Við þurfum að vilja leita visku og þekkingar. 
  2. Við þurfum að átta okkur á því að allir hafa einhverja fordóma, þeir eru innbyggðir í okkur og óhjákvæmilegir.
  3. Við þurfum að vera meðvituð um eigin viðhorf og fordóma.
  4. Við þurfum að vera tilbúin að rannsaka eigin viðhorf og fordóma, og átta okkur á því að uppgötvanir okkar geti verið óþægilegar og vera tilbúin að sætta okkur við að við vissum ekki betur.
  5. Við þurfum að afla okkur verkfæra fyrir þessa vinnu, en öflugasta verkfærið er góð tök á rökfræði og gagnrýnni hugsun.
  6. Við þurfum að byggja okkar eigin þekkingu með því að afla okkur upplýsinga og átta okkur á þeim í stóra samhenginu.
  7. Við þurfum að átta okkur á hvers konar upplýsingar hjálpa okkur best.
  8. Við þurfum að finna gott fólk til að ræða við, fólk sem við getum treyst, vini og kunningja til dæmis.
  9. Við þurfum að vera tilbúin að ræða okkar viðhorf og skoðanir, jafnvel þó að fordómar geti falist á meðal þeirra. 
  10. Þegar við finnum fordóma í sjálfum okkur, þurfum við að vera tilbúin til að taka á þeim frekar en hunsa þá.
  11.  Við þurfum að hafa nógu mikla auðmýkt til að viðurkenna eigin mistök og ófullkomleika.
  12. Við þurfum að geta sett okkur í spor annarra til að skilja hvernig viðhorf og fordómar geta líka orðið til hjá öðru fólki. 
  13. Við þurfum að átta okkur á þetta er langtímaverkefni sem líkur aldrei svo lengi sem við viljum lifa lífinu og læra.

Þannig sé ég þetta fyrir mér í fljótu bragði, og þetta er það sem ég reyni að gera þegar ég átta mig á að ég hef rangt fyrir mér í mikilvægum málefnum, til dæmis um hvernig við ættum að haga okkur og hverju við ættum að trúa, því það eru nauðsynlegar forsendur fyrir því að við þróum okkur áleiðis sem samfélag og festumst ekki í fjötrum fortíðarinnar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Ef að ég er andvígur samkynhneigðum sjónarmiðum; 

er ég þá með fordóma

eða VIL ÉG BARA FARA EFTIR BOÐORÐI GUÐS

 sem að kveður á um að samkynhneigð sé synd?

Dominus Sanctus., 13.12.2023 kl. 08:48

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Já, sjálfsagt.

Hrannar Baldursson, 13.12.2023 kl. 08:50

3 Smámynd: Dominus Sanctus.

Ég vil vera HVÍTU-MEGIN á skáborði raunveruleikans 

þ.e. GUÐS-MEGIN í lífinu,

og vil meina að samkynhneigða fólkið sé á rangri leið

af því að "GUÐ" eyddi Sódómu.

Dominus Sanctus., 13.12.2023 kl. 09:18

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hver og einn hlýtur að gera upp við sig hvað er gott og hvað illt, og haga sér svo í samræmi við það. En að ætlast til að aðrir fari eftir manns eigin gildum tel ég ýta undir fordóma. Að sjálfsögðu eigum við að fylgja okkar eigin gildum sjálf. 

Þannig eins og þú heldur að sumir séu á rangri leið, halda aðrir að þú sért á rangri leið. En þín rétta leið hlýtur að vera ákvörðuð af sjálfum þér, en þá þarftu að gæta þess að velja leiðina vel.

Hrannar Baldursson, 13.12.2023 kl. 09:22

5 Smámynd: Dominus Sanctus.

Ég vil meina að hér sé leiðin komin til "GUÐS": 

Hér er um að ræða VEGVÍSI en ekki fordóma: 

https://contact.blog.is/blog/vonin/entry/2296863/

Dominus Sanctus., 13.12.2023 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband