Um forsjárhyggju: Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

 

Vegurinn til heljar er lagður af góðri forsjá

Samuel Johnson, (1709-1784)

Forsjárhyggja er þegar valdhafi ákveður að setja reglur eða lög til að hafa vit fyrir fólki; og er hugtakið þá sérstaklega notað þegar gagnrýnendum þykir valdhafar vera að skipta sér af einhverju sem kemur þeim ekki við. Forsjárhyggja er eitt af tískuorðunum í dag. Þeir sem vilja setja öðrum reglur þykja vera forsjárhyggjufólk. 

Dæmi um forsjárhyggju: að skylda alla ökumenn til að vera í bílbeltum, annars gæti lögreglan sektað þá. Annað dæmi: að skylda alla eigendur veitingahúsa til að halda staðnum reyklausum, annars verði þeir sektaðir af lögreglu. Þarna er verið að hafa vit fyrir fólki. Er það rangt, svo framarlega sem að það stuðlar að góðri hegðun?

Þegar reglur eru settar um hvernig fólk skal hegða sér í daglegum samskiptum, vaknar spurning um hvort að verið sé að troða á persónufrelsi viðkomandi, eða verið að búa til betri heim. Býr maður til betri heim með því að troða hegðunarmynstri upp á annað fólk? Fólk lærir að fara eftir hegðuninni þegar það telur einhvern fylgjast með þeim, en þegar enginn fylgist með, getur verið að þörfin fyrir að breyta rétt hverfi?

Helsta hættan við að móta hegðun fólks utanfrá, en ekki með því að hvetja fólk til gagnrýnnar, yfirvegaðrar og vandaðrar hugsunar er einmitt þessi: fólk fer að treysta á yfirvaldið til að segja sér hvað það á að gera og hlýðir því hugsunarlaust nema þegar yfirvaldið er ekki lengur sjáanlegt.

Málið er að þegar okkur finnst hugmyndirnar um lög og reglur koma frá okkur sjálfum, og þegar okkur finnst þær sjálfsagður hlutur; þá förum við eftir þeim. Snilldin við reykingabannið og bílbeltin, er að það eru góð rök á bakvið hvort tveggja og þessi rök eru rædd og útskýrð af ráðamönnum. Þegar þannig er staðið að málum getur forsjárhyggja verið góð.

Ef aftur á móti yfirvaldið vill setja lög og reglur sem fólki finnst óeðlilegar, og málin hvorki rædd málefnalega né útskýrð, þá er hætta á því að lög, boð og reglur taki gildi í óþökk þjóðarinnar; og sama hversu góð fyrirætlunin er, ef ekki er hugsað opinberlega um lögin á gagnrýninn máta, þá verða þau í fyrsta lagi óvinsæl og í öðru lagi ólíklegt að fólk vilji fara eftir þeim.   

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. 

Segjum að íslenska ríkið gerði þessa setningu að lögum, útskýrði hana ekki og kæmi jafnvel í veg fyrir opinbera umræðu um hana, - þeir sem reyndu að mótmæla væri stungið í steininn eða jafnvel teknir af lífi. Slíkt væri forsjárhyggja.

Þegar þú færð ekki að segja þína skoðun opinberlega um mál sem þér þykir mikilvæg og ert hindraður frá því af yfirvöldum, þá er um forsjárhyggju af verstu gerð að ræða. Þegar yfirvaldið setur reglur án þess að hlusta á þegnana, þá er líka um forsjárhyggju af verstu gerð að ræða. Ritskoðun á fjölmiðlum, bókum, bíómyndum, bloggum, vefnum og öðru tjáðu máli er forsjárhyggja sem er í þversögn við sjálfa sig. Ástæðan er einföld: gefirðu rós án umhyggju er gjöfin ekki góð, sama hversu vel rósin getur ilmað.

Blind hlíðni er dæmi um þegar fólk trúir um of á góða forsjá yfirvalda. Nasistar trúðu á Hitler, víkingar trúðu á Óðinn, kristnir trúa sumir á kirkjuna eða Biblíuna sem leiðsögn að Guði og trú nútímamannsins virðist snúast um veraldleg gæði. 

Nokkrar spurningar:

Getur verið að trú í blindni sé ill í sjálfri sér?

Eru góðverk sprottin af forsjá, hegðun eða vilja?

Geta ætlun eða verk sem slík verið góð í sjálfum sér?

Er til dæmi um hegðun sem er alltaf góð, alls staðar?

Hvort er eðlilegra fyrir manneskju sem þekkir hið góða, að gera illverk eða góðverk?

Þeir sem vilja vel, og þekkja það góða, hafa þeir ekkert val?

Hvernig vitum við að þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur, hafi í raun og veru vit á því sem þeir þykjast vita?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Góð og áhugaverð grein

Kjartan

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.6.2007 kl. 05:12

2 Smámynd: Birna Dís

Ég tel að forræðishyggja er oft af hinu góða - en er algjörlega sammála því að það er skilyrt því að við lifum í samfélagi þar sem leyfð er umræða um hlutina. Þar sem ég held að það sé engum manni hollt að trúa í blindni.

Góð grein hjá þér,

með kveðju,
Birna Dís 

Birna Dís , 4.6.2007 kl. 11:53

3 Smámynd: Birna Dís

hmm.. það vistaðist greinilega ekki öll athugasemdin hjá mér. Tilraun 2

Ég tel að það séu okkar forréttindi í samfélagi sem þessu að geta rætt þau boð og bönn sem okkur eru sett og krefjast útskýringar á því hvers vegna þau eru sett - það á enginn að þurfa að taka lögum "afþví bara" Manneskjan er að mínu mati þannig gerð að við höfum þörf fyrir að vita hversvegna hlutirnir eru eins og þeir eru og hversvegna við eigum að gera hitt og þetta.

kv,

Birna Dís

Birna Dís , 4.6.2007 kl. 12:01

4 identicon

Frelsi er það dýrmætasta sem við höfum, tel eðlilegt að einstaklingurinn (og fyrirtæki) hafi algjört frelsi svo lengi sem það skerðir ekki frelsi annarra. Því er mjög skiljanlegt að morð, ofbeldi og þjófnaður séu ólögleg athæfi enda mjög augljósar frelsisskerðingar. En þegar það er skert frelsi okkar í nafni þess að hugsa fyrir okkur (forsjárhyggja) þá finnst mér það bara vera orðið ofbeldi framið af yfirvöldum. Að reykja á ákveðnum stað (þar sem eigendur leyfa reykingar) getur ekki talist sem frelsisskerðing gegn öðrum vegna þess að þeir sjálfir taka þá ákvörðun að það sé mikilvægara að vera á staðnum en það að hafa reyklaust umhverfi.

Geiri (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 17:37

5 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

hjartanlega sammála Geira.  Frelsi okkar til að velja það sem við teljum best fyrir okkur sjálf er það mikilvægasta sem við eigum.  Hins vegar er mjög mikilvægt að val okkar sé eins upplýst og kostur er, a.m.k. að við eigum val um að leita okkur upplýsinga.

Þú spyrð

Hvernig vitum við að þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur, hafi í raun og veru vit á því sem þeir þykjast vita?  Við eigum erfitt með að vita það og það væri nánast ómögulegt fyrir okkur að komast að því í öllum tilfellum.  Þeir sem vilja hvað oftast hafa vit fyrir okkur eru löggjafavaldið, þ.e. alþingismenn.  Ég er handviss um að þeir hafi minna vit á mörgum þeim hlutum sem þeir þykjast vita.  Þetta blasti við mér þegar ég sá umræðu á alþingi um geðheilbrigðismál.  Fjölmargir sem stigu í pontu höfðu ekkert vit á því sem þeir voru að segja, voru greinilega illa undirbúnir en enga að síður afskaplega kokhraustir.  Fyrir þá sem horfðu og höfðu ekki vit á geðheilbrigðismálum virkuð þingmennirnir sennilega hafa mikið vit á þessum málum.  Þeir slógu um sig með orðum eins og "listmeðferð", "aðferðafræði" og "rannsóknir"  Ef við hugsum þetta aðeins þá er þetta fullkomlega eðlilegt.  Þingmenn fjalla um ótrúlega mörg mál á einu þingi.  Aðeins brot af þeim er innan þeirra sérsviðs.  Þingmenn hafa þó skoðun á flestu, sumir a.m.k. þekkja ekki sín takmörk, stundum er bara betra að þegja.  Þegar ég fór að fylgjast með sá ég að þetta "blaður" þingmanna átti sérstaklega við um þingmenn minni flokka.  Eðlilega þeir geta ekki skipt málum eins mikið á milli sín og þeir sem hafa stærri þingflokk.

Ég vil breyta spurningunni aðeins.  Afhverju telja sumir (forsjárhyggjumenn) sig vera til þess fallna að hafa vit fyrir öðrum? Er það ekki afskaplega mikil hroki?

Annars frábær pistill

Hafrún Kristjánsdóttir, 5.6.2007 kl. 01:09

6 identicon

Góður pistill, don hrannar. Meira svona; ég kemst á hugarflug eftir góða lesningu

Kveðja,
hsh

hsh (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 15:54

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir stórskemmtilegar athugasemdir og hvatningu, Kjartan, Birna Dís, Geiri, Hafrún og HSH .

"Að reykja á ákveðnum stað (þar sem eigendur leyfa reykingar) getur ekki talist sem frelsisskerðing gegn öðrum vegna þess að þeir sjálfir taka þá ákvörðun að það sé mikilvægara að vera á staðnum en það að hafa reyklaust umhverfi." (Geiri)

Það fer eftir því hver og hvurslags viðkomandi staður er. Ef þetta er heimili þitt getur enginn sagt neitt, en ef þetta er staður þar sem starfsmenn vinna, verður að virða þá þekkingu sem við höfum um óbeinar reykingar að langvarandi viðvera í þeim er líkleg til að valda krabbameini. Þannig eru reykingar á vinnustöðum skaðlegar og því ber að skerða frelsi reykingamanna við slíkar aðstæður.  

Hafrún, ég er sammála þér að það getur verið undarlega erfitt að samþykkja einhverja í hóp fólks sem fær vald til að hafa vit fyrir manni sjálfum. Ef maður hefði vit til að velja rétt myndi maður velja fólk sem hefur engan áhuga á að hafa vit fyrir öðrum en sjálfum sér. - Held ég.

HSH, gaman að geta blásið aðeins undir vængina þína. Eftir á að hugsa, held ég að þessi grein eigi ágætlega við það starf sem þú ert í núna.

Hrannar Baldursson, 6.6.2007 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband