Alhæfingar, hið eilífa og ein orsök fordóma


Allar alhæfingar eru ósannar, líka þessi. (Mark Twain) 

Þegar ég tala um að staðhæfing sé sönn, meina ég alltaf og við allar aðstæður. Alhæfingar eru staðhæfingar sem fullyrða að ákveðinn flokkur tilheyri eða tilheyri ekki stærri flokki. Þegar sönnum alhæfingum er snúið við verða þær ekki lengur sannar, nema um klifanir séu að ræða, en klifanir eru alhæfingar um samsemdir; eins og:

allt H2O er vatn

sem er satt, og ef maður snýr henni við kemur út setningin:

allt vatn er H2O,

sem er líka satt, af því að um klifun er að ræða.

Dæmi um alhæfingar (sumar þeirra eru ekki sannar):

  • allir menn eru dauðlegir
  • allar appelsínur eru ávextir
  • allir piparsveinar eru ókvæntir
  • allir hvalir eru spendýr
  • allir dagar eru mánudagar
  • allir fingur eru þumalputtar
  • öll ljón eru kameldýr
  • allt gott er gott
  • allar fegurðardrottningar eru fagrar
  • allir feministar eru öfgafullir 

Þegar þessum setningum er snúið við, hjálpar það manni að átta sig á hvað er satt og rétt. Munum að allar sannar setningar verða ósannar sé þeim snúið við, en ósannar setningar geta verið hvort sem er, sannar eða ósannar, eftir að þeim hefur verið snúið við:

  • allt sem er dauðlegt eru menn
  • allir ávextir eru appelsínur
  • allir sem eru ókvæntir eru piparsveinar
  • öll spendýr eru hvalir
  • allir mánudagar eru dagar
  • allir þumalputtar eru fingur
  • öll kameldýr eru ljón
  • allt gott er gott
  • allt sem er fagurt, eru fegurðardrottningar
  • allt sem er öfgafullt, eru feministar

Takið eftir að allar þessar setningar byrja á 'allir'. Segjum að við ætlum að alhæfa eitthvað um eina ákveðna manneskju, eða hlut, - þá gerist nokkuð skrýtið. Það er ekki hægt, vegna þess að hlutir eru breytilegir og geta jafnvel skipt um form.

Ekkert er hægt er að segja um ákveðna manneskju eða hlut sem verður alltaf og við allar aðstæður satt, dæmi:

  • Jói er alltaf og við allar aðstæður dauðlegur
  • Jói er alltaf og við allar aðstæður maður
  • Þessi appelsína er alltaf og við allar aðstæður ávöxtur 
  • Þetta spendýr er alltaf og við allar aðstæður hvalur
  • Jói er alltaf og við allar aðstæður ókvæntur

Af hverju skiptir þetta máli?

Jú, við höfum tilhneigingu til að dæma fólk eða hluti sem eitthvað ákveðið og hugsa okkur viðkomandi manneskju eða hlut sem hlutverk hennar, viðhengi eða eiginleika. Við getum einungis alhæft um hugtök eða orð, en ekki um einstaka hluti, skepnur eða manneskjur.

Þegar við hugsum um Davíð Oddsson, þennan einstaka mann, hvað kemur þá fyrst upp í hugann? Jú, seðlabankastjóri, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri, skemmtikraftur í Útvarpi Matthildi, Bubbi kóngur. Málið er að hann er ekkert af þessu alltaf og við allar aðstæður, þetta eru bara viðhengi við nafnið Davíð Oddsson, en persónan á bakvið nafnið er eitthvað allt annað og meira en þessi viðhengi. Svona viðhengi við nafn eru líka bara sönn um stund og við ákveðnar aðstæður; en ekki alltaf og við allar aðstæður. Í raun getum við ekkert alhæft um persónuna Davíð Oddsson sem mun alltaf og við allar aðstæður vera satt. Það sama getum við sagt um okkur sjálf. Frægðin er tímabundin. Við þráum að tengjast einhverju varanlegu, einhverju sem aldrei hættir að vera til. Slík tenging er ekki möguleg fyrir neinn einstakling.

Þegar við hugsum um  Esjuna, þetta fagra fjall sem alltaf hefur legið fyrir utan höfuðborgarsvæðið, en ekki alltaf þar sem það er; fólk hefur gengið upp á Esjuna og dáðst að henni í miðnætursól. Það hefur verið sungið um hana. Það er samt ekki hægt að alhæfa neitt um Esjuna sem mun alltaf og við allar aðstæður vera satt. Það er vegna þess að Esjan er einstakt fyrirbæri, en ekki flokkur hugtaka. Einhvern tíma var Esjan ekki til og einhvern tíma verður hún ekki til. Þó að hún sé til nákvæmlega núna, er ekkert hægt að fullyrða um hana sem verður ætíð satt.

Aftur á móti getum við alhæft um seðlabankastjóra, að allir seðlabankastjórar séu fyrrverandi stjórnmálamenn (veit ekki hvort satt sé eða ekki), eða um fjöll, sem Esjan er ákkúrat núna, að öll fjöll séu há.

Málið er að alhæfingar um einstaka hluti eða manneskju er undirrót fordóma, og fordómar er nokkuð sem við viljum ekki að festi rætur. Þegar ég hef kynnst einni manneskju og einni hlut, gæti ég haft tilhneigingu til að flokka hana með öðrum sambærilegum hlutum og leggja því dóm á alla hina hlutina sem fylgja flokknum; en það gengur bara ekki upp.

Þetta hef ég heyrt og þannig upplifði ég fordóm um Pólverja á Íslandi verða til:

Það voru Pólverjar sem brutust inn í sumarbústaðinn og stálu þar sjónvarpstæki og öllu léttu. Þeir náðust. Maður verður að passa sig á þessum Pólverjum.

Gallinn er að það má túlka setninguna á tvo ólíka vegu, önnur merkingin er:

... Maður verður að passa sig á nákvæmlega þessum Pólverjum sem brutust inn í sumarbústaðinn og stálu þar sjónvarpstæki og öllu léttu.

eða

Maður verður að passa sig á öllum Pólverjum.

Lesandi má dæma um hvor túlkunin sé viðeigandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég hef vissulega lesið eitthvað eftir Gunnar Dal, hann var jú íslenskukennarinn minn í FB, og kenndi þar ýmislegt sem nýtist á ritvellinum.

Hrannar Baldursson, 6.6.2007 kl. 21:25

2 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Ha, ég vissi ekki Gunnar hafi verið kennari í FB.  Ætli ég hafi ekki rétt misst af honum. 

Fordómar koma vissulega af alhæfingum.

En geta ósannar alhæfingar verið hjálplegar?  Ég hef mína skoðun á þessu.  Tel svo vera.  Ósannar alhæfingar geta verið hjálplegar og óhjálplegar.  Óhjálplegar t.d. þegar þær byrtast´i fordómum en hjálplegar þegar þær hjálpa okkur að skipuleggja heimin og gera hann einfaldari, sérstaklega þegar börn eru inn í dæminu.  Dæmi um slíkt væri "Bílar eru hættulegir" eða "Allir menn sem vilja fá börn upp í bílin sinn eru hættulegir"

Hvar liggja þá mörkin milli hjálplegar ósanna alhæfinga og óhjálplegra?

Hafrún Kristjánsdóttir, 6.6.2007 kl. 23:59

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hafrún, mjög áhugaverður vinkill á gagnsemi ósannra alhæfinga; og þá er hér komin réttlæting á hvítum lygum, ekki satt? Mig langar að melta þetta, og helst í góðri samræðu. Held reyndar tveggja vikna námskeið sem byrjar í næstu viku og á þá örugglega eftir að koma inn á þenna punkt.

Hvenær varst þú annars nemandi í FB, Hafrún? Ég hef verið bæði nemandi þar og kennari. Spurning hvort að þú hafir einhvern tíma setið í tímum hjá mér?

Hrannar Baldursson, 7.6.2007 kl. 00:39

4 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

jú sennilega.  Kemur sennilega líka inn á staðalmyndir sem er grunnur fordóma.

Ég var nemandi þar að mig minnir frá 97 - 99.  Held að ég hafi útskrifast vor 99.  Er fædd 1979... fór beint í versló eftir grunnskóla.  Mér fannst bókfærsla og hagfræði svo leiðinleg að ég skipti í FB eftir fyrsta árið.  Svo er bara að reikna.

Ég var á íþróttabraut, Torfi Magg var umsjónakennarinn minn.  Hvenær varst þú að kenna?

Hafrún Kristjánsdóttir, 7.6.2007 kl. 00:58

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég kenndi heimspeki í FB frá hausti 1994 til vors 1998.

Hrannar Baldursson, 7.6.2007 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband