Feminismi - hættuleg hugsjón eða ágætis hugmynd?

Hér á eftir koma pælingar sem sluppu milli fingra minna eftir að hafa lesið síðustu færslu bloggvinu minnar Hafrúnar, en þar spyr hún um markmið feminismans. Þá fór ég að velta fyrir mér hvað feminisminn væri, og áttaði mig á að ég hef yfirleitt skilið feminismann sem fína hugmynd; en sé síðan manneskjur nota feminismann sem hugsjón, og sé þá hættu á bakvið hugtakið. Þá fór ég að velta fyrir mér sambandinu á milli hugmynda og hugsjóna. 

Hugsjónir eru ekki ólíkar trúarbrögðum. Fólk lifir fyrir þær og deyr fyrir þær. Hugsjónir valda meira böli en hamingju. Hugmyhdir gefa fólki svigrúm til að anda að sér straumum og stefnum, og tíma til að íhuga málin. Hugsjónum er haldið á lofti í  vantrausti, en hugmyndum af trausti. Þú þarft að berjast fyrir hugsjón, en hugmyndir eru eða eru ekki til staðar í viðkomandi vitund.

Sumar hugsjónir eru fullar af lifandi gildum; en maður áttar sig á hverjar þessar hugsjónir eru þegar maður þarf að horfast í augu við hvað er verðmætast í lífinu. Oft eru fyllstu hugsjónirnar fjölskyldan og heimilið; eitthvað sem við getum höndlað og auðveldlega viðurkennt að við erum tilbúin að lifa og deyja fyrir - en það er nokkuð ljóst að þessi hugsjón hlýtur að vera göfug, nema þegar búið er að úrkynja fjölskylduhugtakið, eins og þegar um glæpafjölskyldur eða mafíur er að ræða. Aftur á móti er enginn tilbúinn til að deyja fyrir hugmyndina um fjölskyldu; enda eru hugmyndir til að auka skilning, og færa sjálfviljuga einstaklinga til verka, en ekki þræla sem fylgja hugsjónunum einum.

'Frelsið' getur verið hugsjón, en líka hugmynd. Sem hugsjón getur frelsishugtakið verið hættulegt, þar sem að það er notað til að koma hugmyndafræði eins hóps yfir á hugmyndafræði annars; þar sem að túlkun mín á frelsi getur verið gjörólík þinni túlkun. Einn túlkar frelsi sem tækifæri til athafna; en annar hugsar frelsi sem tækifæri til að takmarka athafnir annarra. Sé frelsishugtakið notað sem hugsjón er ljóst að árekstrar verða á hugmyndaheimum fólks og ein hugsjón frelsis nær yfirhöndinni yfir aðra hugsjón frelsis. Einn segir: ég vil að allir séu frjálsir til að kjósa. Annar segir: ég vil að allir séu frjálsir til að deyja fyrir Guð sinn. Enn annar segir: ég vil vera frjáls til að drepa alla sem eru mér ósammála. Hugmyndin um frelsi gerir þetta mál hins vegar bæði flókið og einfalt; hún segir okkur að við getum verið frjáls til að gera eitthvað eða frjáls frá einhverjum höftum. Það er aukaatriði hverjir þessir möguleikar og hindranir eru; aðalatriðið er að slíkt tengist öllu því sem skilgreint er sem frelsi.

'Réttlæti' getur líka snúist upp í sjúka hugsjón, en sem hugmynd er réttlæti mikilvægt. Að berjast fyrir réttlæti er ekki það sama og að ástunda réttlæti. Dæmi um réttlæti sem hugsjón er þegar fógeti hundeltir mann sem stelur sér brauði vegna hungurs, eða lögregluþjónar sem í leyni reyna að nappa ökkuþóra á götum borgarinnar, en ef viðkomandi hefðu hugmyndina um réttlæti að leiðarljósi gætu þeir auðveldlega gert sér grein fyrir að það er ranglátara að handsama mann fyrir að stela sér brauðbita heldur en fyrir manninn að stela brauðbitanum, og einnig er ranglátara fyrir lögregluna að setja gildrur fyrir fólk og liggja í leyni heldur en að gera sig eins sýnilega í umferðinni og mögulegt er.

Þannig að í raun ber að varast hugsjónir. Það er spurning hvort að hugsjónir séu í raun hugmyndir sem færðar hafa verið yfir í veruleikann, og við það verði þær sjálfkrafa skakkar og skældar; rétt eins og barn sem reynir að teikna fullkominn hring, eða maður sem reynir að sjá sitt eigið sjálf í spegli.

Hver er hugsjónin um feminisma? Er hann sá að konur fái að ráða öllu? Er hann sá að konur og karlar hafi jafnan rétt og jafna möguleika? Er hann sá að konur fái að kúga karla eins og karlar hafa kúgað konur? Getur verið að ef feminismahugsjónin (hver sem hún í raun og veru er) verði að veruleika, spretti fram gagnaflið karlismi, sem verður síðan beitt til að útrýma feministahugsjóninni og til að kúga konur á ný?

Hugmyndin um feminisma finnst mér góð, hugsjónin varasöm. Hugmyndin kallar á umhugsun og mat á aðstæðum, hún er ákall á samviskuna. Hugsjónin er krafa um að eitthvað sé gert, hvort sem að það er réttlátt eða ekki. Það þarf aðeins að vera réttlætanlegt í samræmi við hugsjónina. Það er ekki nóg.

Að lokum, nokkrar spurningar.

  1. Eru hugsjónir efni, en hugmyndir form?
  2. Eru allar hugsjónir afbökun af hugmyndum?
  3. Geta hugsjónir tekið á sig form? 
  4. Er til dæmi um hugsjón sem er göfug frá öllum hliðum?
  5. Er farsælt samspil hugsjóna og hugmynda mögulegt?
  6. Eru allar hugsjónir sem afneita öðrum hliðum málsins fordómar?
  7. Eru fordómar byggðir á hugsjónum?
  8. Hvernig tengjast hugsjónir þrjósku annars vegar og gagnrýnni hugsun hins vegar?
  9. Getur heilbrigð skynsemi verið hugsjón?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Humm skemmtilegar pælingar, þarf eiginlega aðeins lengri tíma til að melta þetta.   en svona smá hugmynd.   Kannski er þetta á ás.   Þar sem hugsunarleysi eða skeytingaleysi eru vinstra megin, hugmyndir einhverstaðar í miðjunni og svo hugsjónir hægra megin.  Sama fyrirbærið en styrkleikinn mis mikill

Hafrún Kristjánsdóttir, 24.5.2007 kl. 17:23

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæl Hafrún.  Gaman að þú skulir nenna að grafa dýpra. Erum við að velta fyrir okkur manngerðum eða athöfnum?

Sjálfsagt væri mikil einföldun að segja einhverja manngerð vera alltaf á einu af þessum þremur stigum. Það er samt hægt að sjá fyrir sér manneskju sem hefur engin mannleg gildi og veður áfram gegnum lífið af hugsunarleysi (vinstra megin á ásnum; aðra sem hugsanlega hikar meira (á miðjunni) en vandar ákvarðanir sínar, og síðan þá sem hefur ákveðið eitthvað og lætur ekkert stöðva sig frá því að gera viðkomandi hugsjón að veruleika. 

Sjálfsagt græðum við meira á því að hugsa um þetta sem athafnir, en einstaklingar geta stundum verið ósköp hugsunarlausir (t.d. drukknir eða í vímu), meðvitaðir (í daglegu lífi) og svo þrjóskir (þegar kemur að pólitík og trúarbrögðum).  

Takk fyrir hugmyndina.

Hrannar Baldursson, 24.5.2007 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband