Vínsmökkunarmyndin: Sideways (2004) ***1/2

Sideway02

Sideways fjallar um tvo vini sem ferðast um vínekrur Kaliforníu til þess að smakka rauðvín, spila golf og hitta konur. Til að vera nákvæmari: Miles (Paul Giamatti) vill spila golf og smakka vín, en Jack (Thomas Haden Church) vill hitta konur og helst sofa hjá þeim öllum.

Vandamálið er að Jack, sem er fyrrverandi sjónvarpsstjarna, ætlar að kvænast næsta laugardag en hittir konu; og þau eru ekkert að tvínóna við hlutina. 

Sideway03

Miles er hins vegar þunglyndur rithöfundur og enskukennari sem aldrei hefur fengið neitt birt eftir sig. Hann er fráskilinn og finnst hann ekki eiga nógu mikið inni til að segja vini sínum til syndanna. Samt finnst honum Jack stíga yfir línuna þegar hann heldur framhjá sinni tilvonandi, ekki bara einu sinni, heldur hvað eftir annað.

Sideways er fyrst og fremst lýsing á persónum. Sögufléttan er algjört aukaatriði. Allar aðalpersónurnar eru eftirminnilegar, þá sérstaklega Jack, nautnaseggurinn með gullhjartað. Þrátt fyrir að haga sér eins og svín, er ekki annað hægt en að hafa ákveðna samúð með honum; þar sem að hann þarf heldur betur að horfast í augu við gerðir sínar og flýja afleiðingar þeirra.

Sideway04

Sideways fjallar um mikilvægi þess að virða og njóta þess sem lífið og náttúran hefur upp á að bjóða, án þess að traðka á öðrum manneskjum í leiðinni. Vínsmökkun og golf er leiðin sem Miles hefur valið, en hann reynir stöðugt að kynna Jack fyrir leyndardómum rauðvíns - en talar fyrir daufum eyrum. Það er ekki fyrr en hann hittir Maya (Virginia Madsen) sem hefur álíka djúpa ánægju af vínsmökkun að hann finnur manneskju sem hann trúir að sé sálufélagi hans. Þau geta rætt saman um dásemdir vínsins og með samtölum sínum afhjúpað af alúð eigin dýpt og persónuleika.

Sideways001Stóra vandamálið er það að Jack er farinn að sofa hjá bestu Stephanie (Sanda Oh), en hann fer að efast um eigin tilfinningar um tilvonandi brúðkop. Ennþá stærra vandamál er að Stephanie er besta vinkona Maya, sem er að móta djúpt samband með Miles. Miles veit sannleikann um Jack, og verður að gera upp við sig hvort hann muni láta Maya og Stephanie vita hann; því hann gerir sér fulla grein fyrir að ef hann leynir sannleikanum um slíkt mál, þá muni hann aldrei eiga von í raunverulegt samband með Maya.  

Alexander Payne leikstýrir þessari mynd skemmtilega og er greinilega leikstjóri fyrir leikara fyrst og fremst; því þeir fá svo sannarlega að njóta sín. Einnig skýtur hann inn skondnu nektaratriði sem minnir á hina óhugnanlegu stund sem Jack Nickolson upplifði í heitum potti með Kathy Bates í About Schmidt, sem Payne leikstýrði líka.

Fín skemmtun með áhugaverðum leikhóp. Ég mæli með henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

Sælir. Margir voru til að kommenta á að þú ættir sæta systur. ég geri það bara líka.

Hrannar. Þú átt sæta systur.... Annars finnst mér þú spar á stjörnur fyrir sideways, þrjár og hálf er reyndar fínt sem slíkt en miðað við fimm þá er mitt álit amk fjórar.  Satt er það að myndin fjallar jú um persónur og samtöl, aðallega milli þeirra tveggja dúdda, en sögufléttan er sosum ekkert aukaatriði. Myndin er svona flott vegna þess hve vel hún er skrifuð, sagan er sniðug, frábær samtöl, vel leikstýrt og jú, auðvitað, vel leikin. Hinsvegar þurfa ekkert allir að vera sammála mér en þú ert aldeilis duglegur að skrifa og skemmtileg bíóþemu hjá þér. Gleðilega páskarest.

arnar valgeirsson, 9.4.2007 kl. 13:35

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk kærlega fyrir Arnar. Reyndar er Sideways að fá þrjár og hálfa stjörnu af fjórum mögulegum hjá mér.

Hrannar Baldursson, 9.4.2007 kl. 14:13

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Arnar, þetta er rétt hjá þér með sögufléttuna. Ég átta mig á því þegar þú minnist á það. Ég kem með þessa fullyrðingu í gagnrýninni og dásama svo sögufléttuna með umfjöllun mína um hana. Mín mistök. En takk fyrir að benda mér á þetta!

Hrannar Baldursson, 9.4.2007 kl. 14:28

4 identicon

Sælinú,

Eins og þú veist hef ég mikið dálæti á Sideways.

Innihaldið myndarinnar er hrein heimspeki, eins og þú sjálfur veist.

Þetta er allt saman spurning um ferðina, ekki hvert hún leiðir. Njóta augnabliksins sbr. að drekka eðalvínið með McDonalds ef þannig er á manni gállinn.

Bestu kveðjur, og gleiðilega páska sömuleiðis kallinn minn.

Sancho.

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 15:03

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég var að horfa á Sideways í þriðja sinn og verð bara ánægðari.

Ásdís Sigurðardóttir, 10.4.2007 kl. 23:09

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég trúi þér Ásdís, og held að ég eigi sjálfur eftir að gefa Sideways annan séns. Aldrei að vita nema henni takist að ná fjórum stjörnum næst þegar ég sé hana.

Hrannar Baldursson, 10.4.2007 kl. 23:28

7 identicon

Hef horft margoft á Sideways og er sammála því að hún er afbragð.

Hér er fín umfjöllun um Sideways þar sem m.a. kemur fram að Miles sé alki, hef spáð mikið í hvort sú sé raunin án þess að komast að afgerandi niðurstöðu.

http://rogerebert.suntimes.com/apps/pbcs.dll/article?AID=/20041028/REVIEWS/40922017/1023

Kv. Hlynur Leifs.

Hlynur Leifs (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband