Hvað gerist ef allir hæfir kennarar hætta kennslustörfum?

bekkjarkeppni%20%ED%20sk%E1k%20004

Áður en ég reyni að svara þeirri spurningu vil ég gera lista yfir nokkrar af þeim hæfniskröfum sem einkenna góða kennara:

Þetta er alls ekki tæmandi listi. En allt þetta er satt um grunnskólakennara. Kennarar þurfa að vera gífurlega hæfileikaríkir einstaklingar til að annast börn á áhrifaríkan og góðan hátt. Það er kraftaverki líkast að enn skuli vera til kennarastétt miðað við þá mótstöðu sem hún hefur fengið frá þjóðfélaginu sem hún vill ekkert annað en styrkja. 

Kennarar þurfa að geta...

  • ... hugsað vel um hlutina og rætt við nemendur út frá öðrum sjónarhornum en sínu eigin.
  • ... borið saman og greint á milli ólíkra kenninga í ólíkum faggreinum
  • ... rætt um þróun sem stöðugt á sér stað í ólíkum faggreinum
  • ... kynnt uppruna hugmynda og hugtaka
  • ... gefið tilvísanir fyrir frekari lestur og rannsóknir
  • ... kynnt staðreyndir og hugtök frá skyldum faggreinum
  • ... lagt áherslu á skilning hugtaka

Kennarar þurfa að vera skipulagðir, skýrir og... :

  • ... geta útskýrt þegar það á við
  • ... vera vel undirbúnir
  • ... halda fyrirlestra sem auðvelt er að skilja
  • ... þarf að svara spurningum af varkárni og nákvæmni
  • ... gera samantektir á meginhugmyndum
  • ... skilgreina markmið fyrir hverja kennslustund
  • ... tilgreina hvað hún eða hann telur mikilvægt

Kennarar þurfa að geta stjórnað hópum og...

  • ... hvatt til samræðu í hóp
  • ... boðið nemendum að deila þekkingu sinni og reynslu
  • ... skýrt hugsanir með því að tiltaka rök
  • ... boðið nemendum að gagnrýna hans eða hennar eigin hugmyndir
  • ... vitað hvenær hópurinn á erfitt með að skilja hann eða hana
  • ... hafa áhuga og umhyggju fyrir gæðum eigin kennslu
  • ... fá nemendur til að nota hugtök til að sýna skilning

Kennarar þurfa að geta einbeitt sér að einstaklingum og...

  • ... hafa einlægan áhuga á nemendum sínum
  • ... vera vingjarnlegir við nemendur sína 
  • ... ná sambandi við nemendur sem einstaklinga
  • ... þekkja og heilsa nemendum fyrir utan skólatíma
  • ... vera aðgengilegur nemendum fyrir utan skólatíma
  • ... vera góður ráðgjafi fyrir viðfangsefni óháð námsefni
  • ... virða nemendur sem manneskjur

Fjölbreytileiki/áhugi

  • Kennari þarf að vera fjölbreytileg og kraftmikil manneskja
  • Kennari þarf að geta kynnt viðfangsefni á áhugaverðan hátt
  • Kennari virðist njóta þess að kenna
  • Kennari er áhugasamur um viðfangsefnin
  • Kennari þarf að virðast hafa gott sjálfstraust (erfitt þegar lítil virðing er borin fyrir starfi hans)
  • Kennari þarf að geta beitt röddinni með ólíkum áherslum
  • Kennari þarf að hafa kímnigáfu


100%20daga%20h%E1t%ED%F0%20008

Ef hæfileikaríkir kennarar hætta allir störfum mun fjölbreytileiki í skólastarfi hrynja. Námsefnið verður aðalatriðið, og þá á ég ekki við djúpa þekkingu á viðfangsefninu sem slíku, heldur fyrst og fremst hæfni til að komast í gegnum skólabækurnar og ná árangri á prófi. Nemandinn verður aukaatriði. Ólíklegt er að börnin tækju þátt í sérstökum verkefnum eða fengju að kynnast námsefni sem er námsskrá og kennslubókum framandi. Að missa leiðtoga sem sífellt sýna frumkvæði, viljum við missa slíkt fólk úr skólastofunni með börnum okkar? Viljum við ekki hæfasta mögulega fólkið? Eða er okkur bara sama og gætum alveg eins hugsað okkur að skilja börnin okkar eftir fyrir framan sjónvarpstæki eða leikjatölvu allan daginn?

Mig grunar að þekking almennings á kennarastarfinu sé frekar grunn, og þætti gaman að heyra hvað kennarar og nemendur hafa að segja. Ég hef örugglega gleymt fullt af mikilvægum eiginleikum kennara. En þá er bara að nota athugasemdirnar óspart og bæta við.

Ég hef á tilfinningunni að ég þurfi miklu meiri tíma til að koma orðum að því sem ég er að hugsa, en ég læt þetta duga í bili.

Heimildir: Characteristics of Effective Teachers


mbl.is Heimili og skóli lýsa yfir áhyggjum af viðræðuslitum kennara og launanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

"Hæfniskröfur sem einkenna góða kennara" Hmmm ertu ekki að meina kröfur sem gerðar eru um hæfi kennara ? 

Þessi upptalning þín fékk mig til að velta því fyrir mér  hversu margir kennarar sem ég hef kynnst á ævinni bæði sem nemandi og sem foreldri hafi verið gæddir þessum eiginleikum. 

Í stuttu máli hefur  enginn kennari verið gæddur þeim öllum, aðeins 1 hefur komist ansi langt en restin hefði samkvæmt þessum lista aldrei verið ráðin.

Ég hef ekki einu sinni heyrt af svona fólki nema ef vera skyldi Herdísi Egilsdóttur en samkvæmt lýsingum var hún einmitt svona kennari.

Hafi þeir verið fleiri þá er ég hrædd um að þeir séu nú þegar hættir. Sumir kennarar sem ég hef kynnst hafa til viðbótar því að skorta þessa góðu eiginleka sem þú telur upp lagt suma nemendur sína í einelti og þegar kvartað var undan við skólastjóra þá var svarið : " Ekki taka það nærri þér þó hann láti svona það er ekkert persónulegt".

 Þú talar um að almenning skorti þekkingu á kennarastarfinu, mig grunar að slæm reynsla alltof margra af óhæfum kennurum sé að stórum hluta ástæðan fyrir þessu skilningsleysi á kröfum kennara.

Ég þyrfti líka miklu miklu meiri tíma fyrir hugsanir mínar og skoðanir á þessum málum því ég hef einmitt mikið velt þessum málum fyrir mér. 

Þóra Guðmundsdóttir, 28.2.2007 kl. 21:35

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir innleggið, en þetta eru ekki kröfur sem gerðar eru um hæfi kennara, heldur það sem einkennir góðan kennara. Leitt að þú skulir ekki hafa kynnst fleiri góðum kennurum, en vonandi geturðu tekið gleði þína á því að ég hef hitt þó nokkra íslenska kennara sem þessi lýsing passar við, en óttast að þeim muni fækka töluvert á næstunni. Ég er hræddur um að við munum ekki kunna að meta það góða sem íslenskir kennarar eru í dag fyrr en við höfum tapað því. Ég hef líka heyrt góðar sögur af Herdísi Egilsdóttur, en flestar voru þær frá nemendum hennar sem komnir voru á fullorðinsár. Fjöldinn allur af góðum kennurum verða aldrei frægir fyrir störf sín, og þannig er það bara. Ég man sjálfur eftir Herdísi í sjónvarpinu þegar ég var barn, ætli hún hafi ekki verið í Stundinni okkar? Það hefur örugglega haft góð áhrif á hennar orðspor, enda vissi fólk hver hún var. Fæstir kennarar í dag eru frægir, en þrátt fyrir það eru þeir flestir stétt sinni til fyrirmyndar.

Hrannar Baldursson, 28.2.2007 kl. 22:18

3 identicon

Hér er Hrannar kominn af stað með þarfa umræðu um þær kröfur sem skólastarf gerir til kennara.  Konan mín er grunnskólakennari og því hefur maður fengið nokkra innsýn inn í starf kennara, miklu meiri heldur en maður fær sem foreldri.  Ég held að þessi upptalning séu kostir sem ættu að einkenna góðan grunnskólakennara og betri kennarar í grunnskólum hafa þessa kosti meira eða minna til að bera.  Þarna er ekki verið að telja upp kosti einhverrar ofurmanneskju, heldur þá ýmsu fjölbreyttu þætti sem reynir á í kennarastarfinu.  Að sjálfsögðu er það í mismiklu mæli sem á þetta reynir, bekkir eru mismunandi samansettir, með missterka námsmenn, eða nemendur sem mismikið þarf að hafa fyrir.  En kennarar eru náttúrulega mishæfir, eins og gildir um allar stéttir.  Til þess að geta almennt gert kröfur sem eru í anda þess sem Hrannar telur upp og sannarlega eru æskilegar kröfur, þá þarf ýmislegt að breytast.  Laða þarf að stærri hóp hæfra kennara og það verður ekki gert nema með því að bæta kjör kennara verulega.  Vera má að leiðin til þess sé að færa kennaranámið á masters stig og nota tækifærið og hækka verulega laun þeirra sem náð hafa þeirri menntun, ásamt starfsreynslu.

Einhvern vegin þarf að brjóta þann múr sem virðist vera um kjör kennara.  Ekki virðist mega hækka laun þeirra án þess að blásið sé í herlúðra og gefið í skyn að óðaverðbólga muni fylgja beint í kjölfar þess að látið verði undan kröfum kennara.  Sveitafélög virðast mörg hver ekki vera í stakk búin til þess að reka grunnskóla með þeim kostnaði sem fylgir því ef við ætlum að fá góðan grunnskóla með hæfum kennurum.  Ríkisvaldið þarf að koma að málinu og veita sveitarfélögum tekjustofna til þess að standa undir þessu.  Þá þarf að verða þjóðarsátt um að bæti megi kjör kennara án þess að allir launþegahópar landsins gerir kröfu um sömu hækkanir.  Til þess að sú sátt geti orðið þarf að verða til þroskuð umræða um mikilvægi kennslu og skólastarfs.

Fréttir benda til þess að íslendingar séu að dragast aftur úr nágrannaþjóðum bæði hvað varðar menntunarstig og gæði menntunar.  Þetta er allt of mikilvægur málaflokkur til þess að við sem þjóð getum leyft okkar að láta þessa þróun halda áfram.  Við þurfum að auka umræðuna um þessi mál.  Því miður virðast kennarar ekki njóta mikillar samúðar meðal almennings með kröfur sínar.  Ég þekki það álag sem er á flestum kennurum og hve mikil hugsjón fylgir starfinu hjá mörgum kennurum.  Það er alls ekki nógu almenn þekking á því hve miklar kröfur eru gerðar til grunnskólakennara í dag.  Þessi umræða þarf að komast á flug.

Atli Þór Þorvaldsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 22:58

4 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Ég held að fólk kunni alveg að meta góða kennara og vilji alveg að þeim séu greidd góð laun en það er jafn óþolandi að við hlið þessara góðu séu þessir slöku sem fá sömu laun. Ég veit að það er erfitt að eiga við þetta en ég tel það samt alveg gerlegt ef fólk er tilbúið til að viðurkenna að í kennarastéttinni kenni margra grasa og þar þurfi að hreinsa til.

Annað er það líka sem fer í taugarnar á fólki það er tregða  (margra) kennara til breytinga. Í þeim skólum sem ég þekki til þar eru kennararnir til dæmis alveg ótrúlega lengi að tileinka sér tölvutækni. Þeim er í sjálfsvald sett hvort þeir nota Mentor  eða ekki og þeir eru alveg órtúlega margir sem telja það bara vera tímasóun.

Þóra Guðmundsdóttir, 28.2.2007 kl. 22:59

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir áhugaverð svör, Þóra og Atli. Sérstaklega áhugaverð finnst mér sú skoðun að það séu slæmu kennararnir sem eru að draga niður alla stéttina. Ef það er rétt, hvernig er hægt að greina hver er slæmur kennari og hver ekki, en við vitum að það er mjög viðkvæmt að mæla slíkt, þar sem að ekki alltaf er gerður skýr greinarmunur á vinsældum og gæðum, sem eru gjörólíkir hlutir þegar kemur að kennslu. Spurning hver áhrif stefna sveitarfélaganna hefur á skólastarfið - þeir kennarar sem eru að hætta - eru það þessir hæfu sem eru búnir að fá nóg og finna nóg af góðum tækifærum í atvinnulífinu, eða eru það þeir slöku sem eru ekki að vinna sína vinnu af elju? Ég veit um frábæra, og ég meina FRÁBÆRA kennara, sem eru að draga sig út úr þessu starfi sem þeir elska og hafa unnið við af hugsjón og krafti, sumir í marga áratugi - og aðra sem eru bara nýbyrjaðir. Það er einnig vandamál að námsefnið sem kennurum er skylt að fara eftir er að mörgu leyti úrelt - ekki vegna þess að það sé lélegt - heldur vegna þess að nýtt námsefni sem er tengdara nútímanum og hugmyndum sem hafa þróast með árunum þarf fyrir hverja kynslóð. Annað vandamál er uppeldi barna - sem foreldrar bera ábyrgð á - en sumir kennarar fá ekki frið í skólastofu vegna barna sem vilja ekki hlýða, og íslenskt skólakerfi hefur ekkert skilmerkilegt agakerfi til að taka á slíku, enda trúum við frekar á gildi uppeldis með alúð en ytri aga.

Hrannar Baldursson, 1.3.2007 kl. 08:35

6 Smámynd: Púkinn

Skoðun Púkans er að því miður séu allt, allt of margir kennarar sem eru langt frá þeirri lýsingu sem þú dregur upp.  Kennarar sem drepa niður áhuga nemenda og vita jafnvel minna um námsefnið en nemendurnir.

Púkinn hefur annars lýst sinni skoðun á þessu máli hér 

Púkinn, 1.3.2007 kl. 09:33

7 identicon

Sæll Hrannar.

Afar áhugaverðar pælingar hjá þér. Eins og þú veist hef ég einnig mikinn áhuga á menntamálum og hef gert tilraun til að tjá skoðun mína nokkuð oft á vefsíðu minni (sjá: http://www.skodun.is/archives/cat_menntamal.php).

 Upptalning þín á því hvað einkennir góðan kennara er góð. En hver er áherslan í kennaranáminu? Er mikið áhersla lögð á að þjálfa verðandi kennara í því að tjá sig við nemendur? Ég er ekki viss um það. Stundum finnst mér eins og ofuráhersla sé lögð á það að kennarar séu góðir í faginu (þ.e. góðir stærðfræðingar, sagnfræðingar o.s.frv.) en minni áhersla á að þjálfa þá til að verða góðir "fræðarar". Þetta er mín tilfinning. Hvað finnst þér?

 Kveðja,

Sigurður Hólm 

Sigurður Hólm Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 09:58

8 identicon

Skemmtileg umræða.  Ég held að við megum ekki gleyma þeim stóra hópi frábærra kennara sem eru löngu flúnir úr skólunum í betur launuð störf.  Þessir "slöku" kennarar sem Þóra minnist á myndu því tæpast halda starfi sínu ef hinir brottflúnu snúa aftur.  Það finnst mér vera markmið í sjálfu sér að þessir hæfu kennarar sem gáfust upp komi til baka og bæti þannig skólastarfið til muna.  Ég er kennari sjálfur og í mínum skóla ber lítið á þessum "slöku" kennurum.  Kennarar leggja mun meira á sig en þeir fá borgað fyrir og hver veit nema að bættar vinnuaðstæður, þ.m.t. minna álag, meiri tími til undirbúnings, minni námshópar og sterkara stoðkerfi fyrir nemendur með sérþarfir, myndu gera það að verkum að kennarar geti náð fullum afköstum.  Margir kennarar ná einfaldlega ekki að sinna vinnunni sinni með þeim hætti sem þeir helsta kjósa sökum tímaleysis og álags, sem hefur aukist til muna undanfarin ár (sbr. ýmsar rannsóknir).

Ég man eftir könnun sem Gallup gerði meðal foreldra fyrir nokkrum árum þar sem stór meirihluti var ánægður eða mjög ánægður með kennara sinna barna, en þegar spurt var um kennara almennt var svörunin mun neikvæðari.  Það er svolítið fyndið og bendir til þess að óáænægja með kennara gæti verið byggð á svolítið vafasömum forsendum.  Ég neita því hins vegar ekki að auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé, en "slöku" kennararnir eru í miklum minnihluta.

Örn Arnarson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 11:43

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

"Tveir kennarar geta haft sömu menntun, og sömu starfsreynslu, en annar getur kveikt áhuga hvers árgangsins eftir annan á viðfangsefninu, meðan hinum tekst að drepa niður allan námsáhuga nemendanna.  Samt myndu þessir tveir kennarar hafa sömu laun að öllu óbreyttu." Friðrik Skúlason.

Það er ekki ljóst í mínum huga hvaða aðferðum væri skynsamlegt að beita til að gera upp á milli kennara án þess að allt færi í háaloft. Eins og Friðrik stingur upp á síðar í sinni grein, þá væri besta leiðin kannski að stofna einkaskóla þar sem að gerðar eru meiri kröfur á kennara, þeim borguð hærri laun og því laun þeirra hærri í samræmi við það. Sjálfur hef ég starfað við einkaskóla í Mexíkó þar sem kröfur til kennara voru mjög miklar - til að mynda var ætlast til að við gerðum kennsluáætlun fyrir hverja einustu kennslustund fyrir allt árið - en því miður enduðu margir kennarar með alltof marga nemendur í hóp vegna krafna frá ebitu. Í stað þess að hafa tvo 18 manna hópa var frekar valið að hafna einum nemenda og hafa 35 í einum bekk (hámarkið) - þannig varð gróðinn meiri. En þannig þyrfti þetta ekki að vera hér. Ljóst er þó að þetta er vandamál, sem virðist há kennarastéttinni. Því þarf að grípa til ráða til að leysa það. 

Hrannar Baldursson, 1.3.2007 kl. 16:48

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

"Er mikið áhersla lögð á að þjálfa verðandi kennara í því að tjá sig við nemendur?" Sigurður Hólm

Takk fyrir athugasemdina Sigurður Hólm. Þarna verð ég að játa fávisku mína. Menntun mín til kennara fór fram að mestu í Bandaríkjunum (Meistaranám í menntunarfræðum - Master of Education) og Mexíkó (Nám til kennsluréttinda í grunnskólum og framhaldsskólum), en þar var lögð mikil áhersla á að við sem nemendur ræddum mikið saman og hlustuðum vel hvert á annað, að við bjuggum til æfingar sem við fengum hina í hópnum til að taka þátt í og þjálfuðum okkur þannig til að taka frumkvæði og stefna að frumleika í kennslustundum. Það var lítið um fyrirlestra þar, enda reiknað með að fólk væri búið að lesa fyrir tíma heima. Tímarnir fóru í að ræða hugtök, hugmyndir og þá þekkingu sem verið var að melta eftir allan lesturinn og skrifin, en það var mikið um ritgerðarsmíð og þurfti þá stundum að nota hluta úr eigin ritgerðum til að koma samræðum í gang. Það væri gaman að heyra frá kennurum hvernig þetta er gert hérna á klakanum.

Hrannar Baldursson, 1.3.2007 kl. 16:59

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Blessaður Örn og takk fyrir athugasemdina. Jú, vissulega er mikið af frábærum kennurum sem hafa flúið úr skólunum í betur launuð störf. Ekki veit ég hvort að ég sé frábær kennari, en ég er einn af þeim sem ákvað að skipta um umhverfi, stuttu eftir verkfallið 2004, nýkominn heim að utan og leist ekkert á blikuna í þessu annars stórskemmtilega og áhugaverða starfsumhverfi.

Hrannar Baldursson, 1.3.2007 kl. 17:11

12 identicon

Eins og þeir foreldrar sem enn er kennaraverkfallið 2004 í fersku minni þá óttast ég mjög að verkfall bresti á í haust. Nú bý ég í Kanada og þegar ég segi fólki frá sjö vikna verkfallinu þá rekur það í rogastans. Ég efast um að nokkur staðar geti annað eins átt sér stað og þetta lýsir vel viðhorfi til menntunar barna okkar á meðal ráðamanna- og kvenna, sem og almennings. 

Að sjálfsögðu er engin leið að breyta þessu viðhorfi á skömmum tíma en það þarf að grípa til langtímaaðgerða nú þegar. Það er ekki spurning um það í mínum huga að lengja þarf kennaramenntun í fimm ár. Þegar ég var sjálf búin með þriggja ára B.A. nám var ég ekki í stakk búin til að kenna æsku landsins. Ég átti eftir að tileinka mér agaðri og ekki síst sjálfstæðari vinnubrögð og öðlast meiri þroska og víðsýni. Tel ég að þetta megi yfirfæra á þorra kennaranema, þó að sjálfsögðu einhver hluti þeirra geti verið tilbúinn til að fara í kennslu að þriggja ára námi loknu. Þeir sem þekkja vel til þessara mála eru sammála um að sérgreinunum sé ekki nógu vel sinnt í K.H.Í. og fólk veltir fyrir sér hvort meiri áherslu eigi að leggja á tjáningu, samskipti, sálfræði og aðrar greinar. Með því að lengja námið um tvö ár væri hægt að sinna öllu vel.

Miðað við reynslu mína hér í Kanada þá tel ég einnig að efla þyrfti tengsl á milli foreldra og kennara, hvetja foreldra til að taka þátt í skólastarfi sem sjálfboðaliðar þannig að þeir fengju meiri tilfinningu fyrir því sem er að gerast í skólastarfinu. Starfsdögum kennara þyrfti að fjölga og efla gæslu tengda skólastarfi, boðið yrði upp á heilsdagsgæslu á starfsdögum þannig að foreldrar þyrftu ekki að upplifa þessa nauðsynlegu daga sem eitthvað neikvætt.

Þetta er aðeins brot af því sem ég hef til málanna að leggja. Allt kostar þetta peninga og þar stendur hnífurinn í kúnni. Það þarf að borga fyrir góða hluti og Íslendingar hafa efni á því en því miður virðist tilhneigingin vera sú að spara þegar málið snýst um að bæta samfélagið.

Við komumst aldrei út úr vítahringnum á meðan fólk heldur á lofti þeim skoðunum sínum að allt of mikið af lélegum kennurum sé í skólunum sem eiga ekki skilið að fá betri laun og þ.a.l. enginn kennari. Slíkar yfirlýsingar hvetja ekki hæfa kennara til að snúa sér (aftur) að kennslu. Því miður er almenningur opnari fyrir neikvæðum skoðunum en jákvæðum og er fljótur að grípa þessi rök á lofti til að halda því fram að "þessi kennarar fá nógu há laun og svo eru þeir eru alltaf í fríi". 

Íslendingar hafa öll tækifæri til að vera fremstir meðal þjóða í menntunarmálum barna sinna. Vonandi rennur upp sá dagur að almennur vilji verði fyrir því.

Jóhanna Guðjónsdóttir (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 18:30

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þessa fínu athugasemd Jóhanna. Ég get tekið undir allt það sem þú segir.

Hrannar Baldursson, 1.3.2007 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband